Sjóræningjaþjóðin

Sagan um Ísland og ævintýrið um hvað gerðist á Íslandi er vinsælt umfjöllunarefni í heimspressunni þessa daganna.  Greinin Iceland meltdown í Sunday Times er afar vel skrifuð en hún er mikil einföldun á sögunni um hvað gerðist. Greinin er skrifuð eins og víkingasaga, væringjasaga af Íslendingnum Thor sem byrjaði víkingaáhlaup sín í Pétursborg og bruggaði þar mjöð. Síðan setti hann upp bækistöðvar á Íslandi til að vera í skjóli krónunnar og hóf strandhögg við Bretland.  Hann og svipaðir aðilar sem óðu í lánsfjármagni fóru á "acquisition spree" þar sem skuldsett yfirtaka en ekki sverð og spjót er víkingavopn 21. aldar.  Greinin er líka um víkingahöfðingjann Davíð sem yrkir ljóð og lofar Auden og vill búa til land sem skáldin dásama en ræður einn öllu og stjórnar með ofríki.

Það er vissulega illa komið fyrir Íslandi og það er að hluta til komið vegna rangra ákvarðana stjórnvalda og seðlabanka og vegna þess að útrásarvíkingar sem áttu banka eða ítök í bönkum sem lánuðu þeim peninga komust upp með að stunda einhvers konar fjárhættuspil og matador með stórar verslunarkeðjur í Bretlandi. 

Ég hugsa hins vegar að þegar rykið sest þá muni sagan af því sem gerðist á Íslandi vera meira sett í samband við það sem gerðist í heiminum. Það er nefnilega ekki víst að ástandið sé neitt miklu betra annars staðar og  núna í dag 12. október eru voldugust þjóðir heims á fundi í París að taka örlagaríkar ákvarðanir. Hugsanlega ákvarðanir um að helstu verðbréfamarkaðir heimsins verði lokaðir um sinn.

En ástæðan fyrir því að sagan af Íslandi er sögð núna er vegna þess að þar féllu bankarnir. Íslenskir bankar stóðu vissulega á brauðfótum en það gera líka bankar um allan heim. Það var hins vegar íslensku þjóðinni algjörlega ofviða að bjarga bönkunum og það kemur reyndar mér og sennilega öllum Íslendingum núna á óvart að við séum sem þjóð ábyrg fyrir einhverjum hluta af innlánum á netbankareikninga í Bretlandi og Hollandi. Það er ansi mikill skellur fyrir íslensku þjóðina að þurfa að taka á sig slíkar skuldbindingar. Við verðum bara að bíða og sjá hvað kemur út úr þessum samningum til að sjá hve miklar skuldir Íslendingar þurfa að taka á sig. Geir segir að ríkissjóður okkar sé núna nánast skuldlaus. Það getur að þrátt fyrir að þessar ábyrgðir ríkissjóðs falli á okkur þá verðum við ekki skuldugri en þjóð heldur en t.d. Bretar og Bandaríkjamenn.  


mbl.is Ísland enn í kastljósinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Talandi um skuldsettar þjóðir - á meðan að þjóðin eyðir ekki í óþarfa eins og her og styrjaldarátök, verða heldur ekki til stjarnfræðilegar skuldir. Af hverju er það annars að í hvert sinn sem USA býr við frið, er $ tiltölulega sterkur? Auðvitað einföldun ...

Annars er það tiltrúin á þjóð og getu hennar til að endurgreiða skuldir sem ræður því hvort hún fái lán og fyrirgreiðslu (ef hún er þá ekki hernaðarlega eða pólítískt mikilvæg, eins og fréttir af Rússaláni sýna og sanna). Það eru bara stórveldi sem komast upp með að prenta fleiri peningaseðla og sækja sér með því móti ódýr lán (sbr. téð USA).

En jú, Salvör, rykið þarf að fá að setjast áður en við sjáum til sólar.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 13:34

2 Smámynd: halkatla

Það sem er að gerast virkar afskaplega miðaldakennt og sjóræningjalegt - þannig er heimurinn árið 2008

halkatla, 12.10.2008 kl. 16:24

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Já Carlos, það er í stríði sem ofsaverðbólgan verður vegna peningaprentunar, líka þegar t.d. þjóðverjar þurftu að borga risastríðsskaðabætur. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.10.2008 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband