Gordon Brown er ómerkilegur lýðskrumari sem trampar á Íslendingum

Forsætisráðherra Bretlands hefur sýnt í dag að hann svífst einskis til að auka vinsældir sínar heima fyrir. Hann þarf kannski af því að halda, hann er afar óvinsæll. En hann hefur snúið ranghverfunni að Íslendingum  í dag og hikar ekkert við að lítilsvirða og móðga íslensku ríkisstjórnina og þar með alla íslensku þjóðina. Það er sjálfsagt að útkjá mál eins og þetta með netbankareiknina í gegnum málaferli, það er reyndar afar mikilvægt að fá út úr því skorið hver er lagaleg staða einhverra bankareikninga sem eru til í einskismannslandi Internetsins en hafa uppruna á einum stað (Íslandi) og höfða til viðskiptavina í öðru landi (Bretlandi).

Það virðist ljóst hver ábyrgð Íslendinga er, hún er sú sem felst í þessum kröfum á íslenska tryggingarsjóðinn. Þó hann sé tómur þá mun íslenska ríkið væntanlega styrkja hann þannig að hann standi undir lögbundnum skuldbindingum sínum. 

Reyndu bara að lögsækja okkur Gordon Brown!
Just sue us Gordon Brown! 

Íslenska ríkið er ekki skuldbundið til að vernda innistæður í bönkum nema að ákveðnum hluta, það er tryggt með lögum bæði íslenskum lögum og lögum sem við undirgöngumst vegna evrópska efnahagssvæðisins. Íslendingar hafa hvorki bolmagn né vilja til að borga allt sem íslenskir bankar skulda hvar sem er í heiminum. Forsætisráðherra Bretlands notar hins vegar tækifærið til að sparka í fjölmiðlum í þjóð sem hefur þegar fengið gífurlegt bylmingshögg og liggur vel við höggi.

 Geir Haarde svaraði ruddaskap breska forsætisráðherrans  með mikilli kurteisi, sjá þetta viðtal við Geir á BBC:

Iceland's PM on Icesave accounts

Það  er frábært á þessum vondu tímum að forsætisráðherra er hagfræðimenntaður. Það voru góðar útskýringar á málum hjá bæði viðskiptaráðherra og forsætisráðherra á blaðamannafundinum í dag. Þeir útskýrðu vel þetta Icesave mál og þetta er algjörlega í samræmi við þá stefnu sem Íslendingar tóku í þrengingum dagsins og sú stefna sem var tekin er sú áhættuminnsta og sú eina mögulega leið sem Íslendingar gátu farið. 

Meira um málið

 Icesave savers warned on accounts


mbl.is Eignir standi undir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Calvín

Sammála.

Calvín, 8.10.2008 kl. 20:33

2 identicon

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, lýsti því yfir í morgun að íslensk stjórnvöld hefðu sagt sér í gærkvöldu að þau myndu ekki standa við skuldbindingar um að tryggja hluta innlána á Icesave reikningum. Þá sagði Gordon Brown, forsætisráðherra, að höfðað yrði mál gegn Íslandi til að innheimta  féð ef  með þyrfti.

Spurning um að lesa áður en maður byrjar að garga.  Getur þú bent mér á hvar Gordon (sem vissulega er fífl) heimtaði að Íslendingar borguðu allar innistæður í topp?

Þú hlýtur að hafa tengil á það, nógu hátt hefur þú?

Annars er maður farinn að sætta sig við það sem breskur skattgreiðandi að þurfa borga fyrir heimska, bláeyga Íslendinga sem sungu saman í frjálshyggjupartíinu en geta nú ekki borgað reikninginn.

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 20:42

3 Smámynd: Þórbergur Torfason

Salvör, að komu skilaboð frá yfirráðherranum í Seðlabankanum að ekki yrði gengið í ábyrgð fyrir þessum innlánum.

Ég man vel þegar Guðni Ágústsson lýsti þessum manni sem einhverjum skeleggasta framsóknarmanni sem á jörðinni gengi.

Þórbergur Torfason, 8.10.2008 kl. 22:10

4 Smámynd: Vilberg Helgason

Er Brown litli eitthvað minni karl í UK en Geir á Íslandi.

Bróðir minn sem er í námi þarna úti lýsir ástandinu þannig að því miður taki breskur almenningur/stjórnvöld því þannig að titlar eins og Seðlabankastjóri og Forsetisráðherra séu titlar og því sé tekið mark á því að það verði bara greitt 15% af skuldum og þannig virki það í svona kreppu. Ég ætla að prófa að hringja í KB á morgun og athuga hvernig þeir taka í það.

Vilberg Helgason, 8.10.2008 kl. 22:42

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er því miður bara það sem Davíð  Oddsson sagði í Kastljósi í gærkvöldi í líklega skelfingasta viðtali sem sýnt hefur verið í íslensku sjónvarpi með dýrustu orðum sem mælt hafa verið á íslenska tungu fyrr eða síðar. - Mesta skömmin er þó að stór hluti Íslendinga skuli vart halda vatni af hrifningu yfir þessum skammarlegustu orðum sem nokkur seðlabankastjóri hefur mælt.

Helgi Jóhann Hauksson, 8.10.2008 kl. 23:35

6 identicon

En vandinn er sá að einn af seðlabankastjórum okkar sagði að við myndum ekki heiðra erlendar skuldir okkar. Þar sem hann undanskildi ekki bankainnistæður þá þvingaði hann hendi bresku ríkisstjórnarinnar. Ef ég hefði verið í stöðu Gordon Brown, ég hefði hótað svipuðu. Þannig að ég myndi ekki tala um ruddaskap bresku stjórnarinnar því við byrjuðum með alvarlegar hótanir.

Ég er náttúrulega ekki einn með þessa skoðun, hérna er stutt komment frá Guðmundi Ólafssyni.

Erlendur Jónsson (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 00:46

7 identicon

Sæl Salvör

Fyrst langar mig að segja að hef oft rekist á bloggið þitt, og finnst þú hafa oft hafa komið með margt áhugavert inn í umræðuna, ekki síst á þessum síðustu og verstu tímum.

En á þessum erfiðu tímum ætti maður sennilega að segja minna, hlusta meira og spyrja að leikslokum.  EN stundum getur maður ekki þagað ;-)   Ég hef unnið og búið í Bretlandi síðustu 13 ár og hef í allann dag fylgst náið með umræðunni um Ísland í fjölmiðlum hér.  Ég á marga góða vini og kunningja hér í Bretlandi en mín reynsla hefur kennt mér að treysta bretum ekki blint í viðskiptum.  Ég hef því grun um að ekki öll kurl séu komin til grafar í þessu máli og hefur sá grunur minn styrkst eftir því sem liðið hefur á daginn.

Breskir fjölmiðlar hafa þegar imprað á ýmsum erfiðum spurningum, s.s. um eftirlitsskyldu breska fjármálaeftirlitisins, ítrekaðar viðvaranir hér úti um stöðu íslensku bankana, o.s.frv.  Og núna undir kvöld kemur FT með grein sem held að eigi eftir að vekja athygli hér, en þar kemur fram að bresk yfirvöld beittu hinum mjög svo umdeildu “anti-terrorism power” til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi.  Nú má margt segja um Íslenska “útrásarvíkinga” og jafnvel kalla þá “efnahagslega hryðjuverkamenn” en að þeir falli undir þessi umdeildu lög hlýtur að vekja ýmsar spurningar.   Get ekki ímyndað mér annað en þetta eigi eftir að vekja einhverjar spurningar – m.a. um örvæntingu breskra stjórnvalda í þeirra efnahagsvanda, leit að auðveldum atkvæðum, manndóm þjóðar sem lítur á sig sem stórveldi og sparkar síðan í liggjandi vinaþjóð, etc.

Eignir Landsbankans í Bretlandi eru skv. FT metnar á 7 milljarða punda en ábyrgð íslenskra stjórnvalda gæti aldrei farið yfir 4.5 milljarða, en það m.v. að allir 300.000 sparifjáreigendurnir ættu hámarks innistæðuna sem íslensk stjórnvöld tryggja, sem er um 15.000 pund (fer aðeins eftir gengi þ.s. sama upphæð og tryggð á Íslandi, þ.e. 20.000 evrur).   Nokkuð ljóst að ekki allir með hámarksupphæð og meta bresk yfirvöld ábyrgð íslenska ríkisins nær 2.2 milljörðum punda.  Og breska ríkið frystir eignir vinaþjóðar sem í MJÖG ALVARLEGUM fjárhagsvandræðum uppá 7 milljarða punda og það með lögum sem ná yfir hryðjuverkastarfsemi????  Margir í Bretlandi höfðu á sínum tíma miklar áhyggjur af þessum lagabálk, og að hann gæti verið misnýttur.  Er þetta kannski dæmi sem sannar það?  Ég held a.m.k. að mörg erlend fyrirtæki í Bretlandi gætu, og jafnvel ættu, að hafa áhyggjur af þessari þróun.

Getur þetta m.a. skýrt af hverju forsætisráðherra vor virtist ekki hafa of miklar áhyggjur af dómstólaleiðinni sem Bretar hótuðu?  Ég a.m.k. tek hatt minn ofan fyrir honum að hafa haldið ró sinni og komið mjög málefnalega fyrir og minnt Bretana á að við erum vinaþjóðir - þótt þeir hafi kannski ekki sýnt okkur mikinn stuðning í okkar “hamförum” því það er eina orðið sem kemur í hugann um það ástand sem núna ríkir á Íslandi.  Því held nokkuð ljóst á því sem EKKI verið sagt að íslensk stjórnvöld hafa leitað til Bretlands með ósk um aðstoð og verið vísað á bug.  Það eitt og sér er mjög áhugavert!

Svo í þessum málum, sem og flestum öðrum þessa dagana - við almenningur verðum sennilega að bíða, hlusta, og spyrja að leikslokum.  Það er án efa ýmislegt sem á eftir að koma okkur á óvart þegar upp er staðið, atburðarrásin er of hröð þessa dagana og tilfinningar of “hráar” til að við getum metið stöðuna af neinu viti.  En sá dagur mun koma.

Baráttukveðjur til allra Íslendinga á þessum erfiðu tímum, sýnum og sönnum hverjir eru hinir sönnu víkingar (þessir útrásarvíkingar voru aldrei sannir!) og stöndum saman í gegnum storminn.  Svo getum við “vegið mann og annann”. 

Megi allir góðir vættir vaka yfir Íslandi og Íslendingum á þessum erfiðu tímum í sögu þjóðarinnar.

ASE (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 01:48

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Baldur: Allt sem ég hef lesið á enskum vefjum um hvernig breska ríkisstjórnin brást við gagnvart Íslandi er mjög ósamboðið Bretlandi. Það er lýðskrum eitt til að fá almenning til að  trúa "við erum að vinna fyrir þig og pössum vel upp á að  Bretar lendi ekki í ruslarapakki ".  Það hefur hvergi komið fram hjá íslenskum stjórnvöldum að þau samþykki ekki að styðja þennan tryggingasjóð þannig að lágmarkstryggingar komi til.  Ef þetta er einhver misskilningur sem kemur úr símtali milli ráðherra þá var það fáránlegt. Stjórnsýsla hefur aldrei sönnun í símtölum. Stjórnsýsla er skrifleg og formleg. Ef það hefur komið formleg neitun íslensku ríkisstjórnarinnar að standa við lögbundar skyldur sínar þá hefði svona ummæli verið skiljanlegri.

Sumir hafa sett þetta eitthvað í samband við kastljósviðtal Davíðs. Það er fáránlegt. Davíð sagði bara kristalskýrt það sem forsætisráðherra var líka að segja: Að bankarnir færu í þrot en þrotabúið yrði yfirtekið með sérstökum neyðarlögum til að vernda íslenska hluta bankanna svo allt fari ekki í kaldakol hérna. Það er ekki ríkisábyrgð á skuldum bankanna. Það er munur á íslenska ríkinu og íslenskum bönkum. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 03:02

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ase: þetta er upplýsandi um aðstæður í Bretlandi. Þetta er verulegt áhyggjuefni ef ríkisstjórn notar hryðjuverkalög til að tryggja fjárhagsleg verðmæti. Ég er mjög undrandi yfir að það virðist ekki vera nein umræða um þetta á financial times. Mér finnst þetta reginhneyksli og sýna í hvaða átt ríkisstjórnin breska stefnir. Það líður sennilega ekki langur tími þangað til hryðjuverkalögin verða notuð gagnvart fátækum íbúum í Bretlandi sjálfu ef það fólk getur ekki greitt skuldir sínar.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 03:06

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er mjög áhugavert hve mismunandi Svíar og Bretar brugðust við. Breskir ráðherrar sparka í Íslendinga og kyrrsetja eignir með því að nota hryðjuverkalög. Svíar lána íslenskum bönkum (væntanlega gegn mjög tryggum veðum) og lánið er til að tryggja innistæður Svía í íslenskum banka. Svíar hafa auðvitað séð hvert stefndi en þetta er leið sem vinaþjóð okkar fer í þessum þrengingum Íslendinga. Tryggir sparifjáreigendur í Svíþjóð en vegur ekki að æru Íslendinga.  Það er erfitt að vera vanskilamaður eða vanskilaþjóð á erlendri grund en það er bara þannig að sú afar eðlilega ákvörðun var tekin hér á íslandi að það væri Íslandi ofviða að bjarga bönkunum. Það kann vel að vera að grunur hafi verið í Bretlandi um eitthvers konar undanskot eigna, þannig hegða menn sér í fjárhagsþrengingum og sennilega bankar líka en er ástandið virkilega svo slæmt í Bretlandi að það þurfi að beita hryðjuverkalögum á okkur íslendinga?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 03:17

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Baldur: Þú biður mig að benda á heimildir. Hér kemur fram á hverju bresk stjórnvöld byggðu yfirlýsingar sínar og notuðu hryðjuverkalög 

http://www.visir.is/article/20081009/FRETTIR01/118445614 

Gærdagurinn hófst á yfirlýsingum breskra ráðamanna. Alistair Darling, fjármálaráðherra, sagði að ríkisstjórn Íslands hefði sagt sér „í gær að þau ætluðu ekki að standa við skuldbindingar sínar hér."
Darling og Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, ræddu saman í síma í fyrradag. Samtalið var rannsakað og telja menn að Darling hefði ekki getað dregið slíkar ályktanir af því.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í Kastljósþætti, að erlendir kröfuhafar fengju ekki nema „þetta fimm, tíu, fimmtán prósent upp í sínar kröfur." Heimildir innan stjórnvalda herma að ummæli Davíðs hafi valdið titringi hjá Bretum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 08:40

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sá sem kom þessari ókyrrð af stað hjá Bretum hefur valdið íslenska þjóðarbúinu hundruð milljarða tjóni.

Sigurður Þórðarson, 9.10.2008 kl. 09:30

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Auðvitað þarf að finna út hvort það var dýralæknir eða seðlabankastjóri sem vann þetta óþurftarverk.

Sigurður Þórðarson, 9.10.2008 kl. 09:32

14 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sigurður: Forsætisráðherra  og fjármálaráðherra í vinveittu nágrannaríki trampa ekki á nágranna sínum á stund neyðarinnar til að kaupa sér vinsældir í fjölmiðlum. Stjórnsýsla er formleg og skrifleg og íslensku bankarnir störfuðu  skv. lögum efnahagssvæðisins og það var ákveðið og tiltekið hver ábyrgð íslenskra stjórnvalda væri. Það er tryggingasjóður en hann er tómur en mér vitanlega hefur ekki komið annað fram en að Íslendingar ætli að standa við sínar skuldbindingar þar.

En að breski forsætisráðherrann beiti terroristalögum á Íslendinga og valti yfir okkur með stóryrðum yfirlýsingum er ótrúleg svívirða.

Davíð Oddsson sagði ekkert annað en það sem alltaf lá fyrir. Hann sagði það bara skýrt svo það var auðvelt að skilja hvað hann sagði. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 09:47

15 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég er alveg sammála Salvör. Staðan er sú að enginn veit ennþá hve mikið þarf að ábyrgast og ekki einusinni hvort það muni yfirhöfuð þurfa að gangast í ábyrgð fyrir svo mikið sem einni krónu. Þetta veit Gordon Brown manna best því hann er hagfræðingur að mennt. En samt velur Gordon Brown hér vísvitandi að senda öllum heiminum þessi skilaboð í gegnum fjölmiðla. Þetta er ekkert minna en vísvitandi og yfirlögð árás á lýðveldið Ísland og alla þegna þess. Þetta er því einmitt lýðskrum af allra versta og lélegasta samnefnara fyrir allt sem lélegt er. Hann veit að Ísland getur ekki svarað fyrir sig í núverandi aðstæðum. Þessvegna gerir hann þetta. Þetta er lúsablési af verstu tegund sem er hér að fiska eftir atkvæðum því herra Gordon Brown er einmitt í miðju kafi við að þjóðnýta breska bankageirann. Hann þarf því að nota hvert tækifæri sem gefst til að breiða yfir sína eigin vangetu. Bresk fyrirtæki flýja öskrandi breska hagkerfið því að er að breytast í forarpytt undir stjórn hans og fyrrverandi Blakvængs.

Í augum breskra stjórnvalda hefur Ísland aldrei verið annað en apabúr og aulabárðar. Það vill svo heppilega til að núna er Ísland nógu gott til að hægt sé an nota það sem dyramöttu fyrir stærsta tannlausa FYRRVERANDI ALLT í heimi.

Gunnar Rögnvaldsson, 9.10.2008 kl. 10:38

16 identicon

Ég fæ ekki betur séð að Bretar séu valdir að eigin ókyrrð. Að kenna Davíð Oddsyni um illvilja Gordons og Alastairs ber vitni um óþjóðhollustu og óhóflega aðdáun á útlendingum.

Nú þurfa Íslendingar að standa saman og launa Bretum lambið gráa.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 10:46

17 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er því miður svo að með þessum aðgerðum og lýðskrumi Gordons Brown þá erum við að finna hvernig er að vera fátækur og valdalaus í þessum heimi. En þetta er stórhættuleg þróun í Bretlandi og okkur ber skylda að vara breskan almenning og bresk fyrirtæki við þessu. Endilega lesið þessi lög sem Gordon Brown notaði til að frysta eigur fyrirtækis í kröggum:

http://www.homeoffice.gov.uk/security/terrorism-and-the-law/anti-terrorism-crime-security-ac/

Þetta eru lög sem eiga að gera eftirfarandi:

  • ut off terrorist funding
  • ensure that government departments and agencies can collect and share information required for countering the terrorist threat
  • streamline relevant immigration procedures
  • ensure the security of the nuclear and aviation industries
  • improve security of dangerous substances that may be targeted/used by terrorists
  • extend police powers available to relevant forces
  • ensure that we can meet our European obligations in the area of police and judicial co-operation and our international obligations to counter bribery and corruption
Hvenær verður þessum lögum beitt gegn breskum fyrirtækjum og breskum almenningi sem ekki geta staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar vegna heimskreppunnar?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 11:48

18 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ætli það hafi verið það fyrst "cut of terrorist funding" sem varð mótívið til þess að Gordon Brown setti terroristavaktina í gang?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 11:49

19 identicon

Sæl Salvör.

Ég benti einmitt á þetta í pistli hjá mér í gær eða fyrradag., Hann er bara að beina sínum óförum heima við yfir á okkur.

Góð grein. Takk fyrir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband