Netbanki í lausu lofti

Ísland heldur áfram að vera í sviðsljósi heimsbyggðarinnar amk í Bretlandi. Nú er spurningin hvernig fer með innistæður í netbankanum Icesave. Breska ríkisstjórnin hefur fullvissað Breta um að innistæður þeirra þar verði tryggðar, sjá þessa frétt:  Extra help for Icesave customers

Það stefnir í að þetta verði alvarlegt milliríkjamál. En þetta er líka afar áhugavert frá sjónarhóli hins nýja hagkerfis sýndarheima, hins landamæralausa flæðis peninga sem eiga sér enga heimahöfn nema að nafninu til og til að uppfylla lagaskilyrði. 

Sennilega verður þetta alveg eins og örlög Íslands núna skólabókadæmi um hvað er að gerast, hvernig sviptingar í efnahagskerfum ráða örögum þjóða og reyndar hvernig þjóðríkin með veraldlegum landamærum og stjórnsýslueiningum eru að molna upp.  Núna skellur heimskreppan yfir Evrópu og þar eru sérstakar aðstæður. Evrópa og evrópsk stjórnkerfi eru ekki ein samstillt heild heldur margar ólíkar þjóðir með ólíkt uppbyggðar ríkisstjórnir og boðleiðirnar sem upplýsingarnar og ákvarðanirnar flæða eru miklu meira misvísandi og vanþróaðar heldur en boðleiðir og upplýsingaflæði fjármálamarkaðarins sem var og er samverkandi yfir mörg þjóðlönd. Flæðið á fjármálamörkuðum er mjög þróað, það er skilvirkasta leiðin sem heimurinn hefur í dag til að breyta upplýsingum í peninga og peningum í verkfæri sem flæða þangað þar sem mest arðsemi er. Núna er þetta kerfi fjármálamarkaðarins þannig að það er frosið í pípunum og flæðið er alveg að stoppa.  Það getur verið að það sé hægt að koma flæðinu á stað aftur og það trúa menn ennþá á. En það getur líka verið að  lagnakerfi heimsins í fjármálum sé ónýtt, það verði að skipta um allar lagnir.

Það er frosið í pípunum á fjármálamörkuðum og ríkisstjórnir allra Evrópuríkja reyna nú að laga málið.  En ríkisstjórnir hafa ekki mikla reynslu til að þíða svona frost. Sérstaklega hafa þær ekki mikla reynslu af því að vinna saman og á samstilltan hátt að því. Sumt af því sem ríkisstjórnir gera núna er að búa til risastóra klakahrauka í sínum löndum, hrauka sem eru ekki að tryggja neitt flæði heldur þvert á móti að auka frostið í pípunum.

Menning mannkynsins á uppruna sinn  í því hvernig tókst að búa til áveitukerfi fyrir vatn, hvernig tókst að beina vatninu í ákveðna farvegi og stilla rennsli þess og veita því á akra fyrir uppskeruna. Úr þessu spratt arðurinn sem byggði upp heimsmenningu. 

Núna er tími stafrænna upplýsingasamfélaga. Það er líka þörf á veitukerfi inn í slíkum rýmum, þörf á kerfum þar sem upplýsingar flæða eftir og þörf á kerfum þar sem upplýsingar breytast í verðmæti, eru eins og vatnið sem flæðir yfir akra í áveitukerfi í landbúnaðarsamfélagi. 


mbl.is Geir tjáir sig ekki um ummælin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband