5.10.2008 | 10:03
Bankastjórinn sem sagði Íslendingum að rækta korn
Við treystum lítið á bankastjóra og bankastjórnir íslensku bankanna þessa daganna. Enda höfum við ærna ástæðu til að tortryggja þá, ærna ástæðu til að halda að þeir séu að blöffa til að skapa sér örlítið lengri gálgafrest. það kann samt að vera skynsamlegt fyrir okkar að hlusta á þá því jafnvel þó bankamenn hafi ekki fremur en aðrir séð fyrir hvernig heimskreppan 2008 hófst þá eru þeir sem vinna í fjármálageiranum mun meiri sérfræðingar í peningamálum en við almenningur og geta sennilega metið ástandið betur og spáð betur til hvað gerist til langs tíma. Það þarf bara að greina spádóma þeirra með hliðsjón af því hvaða hagsmuni þeir hafa af því að blöffa.
Þær upplýsingar að eignir bankanna séu traustar og að útlán séu með traustum veðum eru örugglega réttar miðað við einhverja ársreikninga, örugglega jafnréttar og þegar forsætisráðherra vor Geir Haarde segir að hér sé engin kreppa samkvæmt skilgreiningu, hér sé bara mótvindur. Ef allt væri í lagi og bankar hafi eingöngu lánað í arðsöm viðskipti og á fínum veðréttum í áþreifanlegum eignum og að öllu leyti hegðað sér eins og fjármálafyrirtæki í samkeppnisrekstri þá væri allt í stakasta lagi, fínt bara fyrir ríkið að kaupa og yfirtaka banka í einhverri lausafjárkreppu og svo bara draga sig út úr rekstrinum með hagnaði þegar eðlilegt ástand væri komið á. En þannig held ég ekki að öll lán íslenskra banka hafi verið.
Ég held að sumir íslensku bankanna hafi verið nánast spilafé stórra aðila úr eigendahópi þeirra, sjóður þar sem þeir tóku út fé til að spila með, fé til að kaupa upp stórar erlendar verslunarkeðjur og stór erlend fyrirtæki m.a. í Bretlandi og Danmörku. Ég held að vegna þess hve mikinn hluta þessir aðilar áttu í bönkunum þá hafi þeir getað fengið þar lánafyrirgreiðslu sem líklega er ekki eðlileg og ekki í samræmi við þau arðsemis- og áhættusjónarmið sem bankar starfa eftir.
Það hefur komið í ljós varðandi Glitni að einn stór lántaki bankans Stoðir (Fl group, Eimskipafélagið) riðar nú til falls. Við eigum eftir að sjá hvort við getum treyst bankastjórum sem segja núna að eignir séu á bak við útlán bankana. Til lengri tíma litið þá geta þessar eignir gufað upp, ef fyrirtæki sem bankar lána fara á hausinn þá væntanlega leysir bankinn til sín veðin. En hvers virði eru þessi veð? Kannski eru þau veð í hlutabréfum í félögum sem eiga hlutabréf í félögum.... í einhverri keðju sem bara var búin til til að skaffa peninga úr bönkum sem voru í eigu ákveðinna einstaklinga. Og jafnvel þó að sumar fjárfestingar hafi verið skynsamlegar á sinni tíð þá getur sá umsnúningur sem verður núna með þeirri heimskreppu sem núna er að skella yfir orðið til þess að verðmæti margra hlutabréfa hríðfellur.
En það var einn bankastjóri á Íslandi fyrir margt löngu sem byrjaði að prédika skrýtna hluti. Hann sagði Íslendingum að fara að rækta korn. Það þarf ekki að taka fram að hann var strax settur af og talinn veill á geði og þótti það mikil harmsaga að svona gáfaður maður hefði klikkast.
Það er ekki margt sem gleður núna þegar heimskreppan skellur á með fullum þunga en mér finnst samt svolítið fyndið að þó að bankastjórinn í Framkvæmdabankanum í gamla daga hafi kannski ekki verið að segja hluti þá sem þóttu skynsamlegir í stormi sinna tíða eru efnahagsráðleggingar hans meira viðeigandi í dag.
Ég var nefnilega að fara yfir þá sem ég þekki og reyna að finna einhvern sem ég þekki sem ekki tapar stórfé og eignum á kreppunni og væri verr stæður en áður. Eina fólkið sem ég þekki sem hugsanlega er betur sett en áður eru þau Þorkell og Linda á Víðivöllum í Skagafirði.
Á sléttum Skagafjarðar sem og annars staðar á Íslandi hefur undanfarin ár vaxið upp mikil kornrækt. Bæði hafa komið til betri kvæmi sem þola norðlægari slóðir, betri vélvæðing og svo hjálpar nú til að loftslagið er að hlýna. Núna eftir síðasta skell íslenska þjóðarbúsins þá blasir við að kornræktin er orðin miklu mikilvægari og arðsamari fyrir þjóðfélagið áður, hún er innlend ræktun sem sparar verulega innfluttan fóðurbætir sem yrði náttúrulega ekki keyptur öðruvísi en fyrir dýrmætan gjaldeyri.
Síðustu hremmingar hafa að sumu leyti breytt aðstöðu í íslenskum landbúnaði. Landbúnaður sem skapar mikil verðmæti án þess að til komi mikil aðföng sem koma erlendis frá er arðsamari en áður. Þessa daganna ættum við að þakka fyrir að framleiða okkar mjólk á Íslandi á íslenskum búum þar sem sums staðar stór hluti af fóðurbæti mjólkurkúa er ræktaður á Íslandi. Við ættum að þakka fyrir það bæði út af því að mjólk sem væri flutt hingað frá Evrópu væri núna helmingi dýrari út af gengismálum og líka út af því að núna skekja heimsbyggðina fréttir af miklu mjólkurhneyksli í Kína þar sem ungbörn deyja úr mengaðri mjólk þar sem melanin var blandað í mjólkina.
Það var kannski ekki svo vitlaust hjá bankastjóranum að segja Íslendingum að rækta korn.
Margir bændur á barmi gjaldþrots | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill, eins og svo oft áður.
Þurrmjólk er ekki búin til úr íslenskri mjólk, þannig að pelabörn eru ekki að njóta íslensku mjólkurinnar. Ætli það sé ekki dönsk mjólk eða evrópsk að öðru leiti, annars veit maður svo sem aldrei.
Sonja (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.