29.11.2006 | 11:20
Hannibal hleraður
Það er minna en tveir áratugir síðan síðustu sveitasímarnir voru lagðir niður í sumum sveitum á Íslandi. Það vissu allir að öll sveitin lá á línunni ef hringt var í einhvern þó enginn viðurkenndi að hlusta. Fólkið sem bjó í sveitinni vildi ekki að ættingjarnir á mölinni ræddu um viðkvæm persónuleg mál í símann. Þessi sveitahlerun hafði nú vissan sjarma, kona sem ég þekki sagði mér frá því að hún hefði verið að ræða í síma við tengdamóður sína sem bjó í sveitinni, þær voru báðar ákafir garðyrkjumenn og hún hafði ætlað að útvega tengdamóður sinni fræ af sumarblómum en ekki tekist það og gamla konan var leið yfir að geta ekki byrjað að sá fræum og fagna sumrinu og gróandanum. Svo lauk símtalinu og stuttu seinna kom kona í sveitinni til tengdamóðurinnar og gaf henni sumarblómafræ.
Það er hins vegar dáldið mikill munur á þeirri fréttamiðlun sem sveitasímarnir voru og þeim símhlerunum sem stjórnvöld virðast hafa stundað á dögum Kalda stríðsins. Í fyrsta lagi þá voru það bara stjórnvöld sem gátu stundað þessar hleranir og þannig fylgst með þegnunum. Í öðru lagi þá vissu þegnarnir ekki að fylgst væri með þeim. Í þriðja lagi þá var annarlegur tilgangur með þessum hlerunum. Í orði kveðnu var tilgangurinn að gæta öryggis ríkisins og hugsanlega hafa þáverandi stjórnvöld trúað því sjálf, fólk hefur ótrúlega mikið og frjótt ímyndunarafl þegar kemur að því að spinna upp sögur og búa til veruleika sem réttlætir gjörðir þess. En þegar sviðið er skoðað mörgum áratugum seinna þá sést að tilgangur hlerana er sá sami og er megintilgangur allra stjórnhafa fyrr og síðar í sögunni og það er að halda völdunum og bæla sem mest niður allt sem getur orðið til þess að völd þeirra minnki.
Það að síminn hjá Hannibal Valdimarssyni forseta Alþýðusambands Íslands hafi verið hleraður sýnir hvernig staðan var á tímum Kalda stríðsins. Ég vona að það verði sem mest umræða um þessi hlerunarmál, ekki af því það breyti einhverju um fortíðina heldur fyrst og fremst vegna þess að við erum í nútíma þar sem hleranir eru miklu, miklu auðveldari og stjórnvöld sem vakta þegna sína til að safna upplýsingum með leynd eru miklu skæðari ógn en var í Kalda stríðinu. Það er ekkert hættulegra en stjórnvöld sem fara að líta á þegnana í eigin ríki sem helstu óvini sína.
Halldór Baldursson gerir bráðskemmtilega mynd af ástandinu.
Heimild veitt til að hlera síma Hannibals Valdimarssonar árið 1961 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.