12.6.2008 | 20:34
Illkynja mein hjá RÚV - fjölmiðill breytist í fámiðill
Það er ævintýralega illa staðið að sjónvarpsrekstri RÚV þessa daganna. Tryggustu og bestu áhorfendur RÚV eru eldra fólk. Eldra fólk vill hafa allt í föstum skorðum og ekki neinar miklar breytingar.
Ég hef hingað til talið að það sé út af virðingu við aldraða áhorfendur að RÚV heldur ennþá í forneskjulegt fyrirkomulag varðandi þulur og finnst réttlætanlegt að spreða peningum skattgreiðenda í þulur sem virðast vera fyrst og fremst puntaðar fríðar stúlkur sem ætlað er að brosa framan í áhorfendur og lesa upp dagskrána.
En það er svo sannarlega EKKI af virðingu við áhorfendur að RÚV sjónvarpið breytist í fótboltarás núna í júní og lætur eins og ekkert sé til nema fólk sem hefur áhuga á fótbolta. Mín vegna má vera til fólk sem hefur áhuga á fótbolta og mín vegna má fólk sem hefur áhuga á fótbolta horfa á leiki í sjónvarpinu, horfa á einhverja kalla útskýra og spjalla um leiki. Ég bara hristi hausinn yfir því og hugsa að það sé fínt að ekki séu allir eins og fjölbreytileiki sé af hinu góða.
Ég hins vegar hef ekki áhuga á að horfa á fótboltaleiki. Rúv þarf svo sem ekkert að taka tillit til mín og ég geri ekki kröfu á að ríkissjónvarpið íslenska sé sett upp að mínum smekk sei,sei nei. En ég er ekki ein í hópnum sem gremst sjónvarpsefnið í ríkissjónvarpinu þessa dagana. Ég held að við séum mikill meirihluti mögulegra áhorfenda. RÚV er að senda stórt fokkmerki framan í alla þá sem eru tryggir hlustendur og nota RÚV sem sína helstu lind að upplýsingum um fréttir, menningu og þjóðlíf. Það er nú mest eldra fólk og þó einhver örlítill hluti eldra fólks hafi gaman af þessu fótboltatuði lon og don þá er óþarfi að pína alla á kostnað skattborgara.
RÚV er illkynja sjónvarpsstöð.
Með illkynja á ég við að það er kerfisbundið gert lítið úr og reynt að trampa á einu kyni þ.e. konum. Efnið sem okkur er boðið upp á þar núna er drasl, drasl sem á mjög berlegan hátt viðheldur og hamrar á stöðluðum kynjaímyndum. Smekkleysið og virðingarleysið fyrir konum er taumlaust, þegar ekki er verið að sýna strákana í boltanum og þætti með köllum sem eru að tala um strákana í boltanum þá er birtur hver ruslþátturinn á fætur öðrum þar sem bara nafnið segir allt sem segja þarf um áherslurnar og lífsýnina s.s. "Desperate housewives", "Ugly Betty" og "Herstöðvalíf" (þáttur um eiginkonur hermanna í herstöð).
Rúv vefurinn hefur nýlega verið settur í yfirhalningu. Nýja útlitið er fremur ófrumlegt og steinrunnið og lítur út eins og vefur hjá einhverjum djammklúbbi stráka í framhaldsskóla. Útlitið á ruv.is í dag er í svipuðum stíl og útlitið á pose.is og miðlar sömu lífssýn. Eina sem vantar er að það eru sem betur fer ekki ennþá áfengisauglýsingar á RÚV vefnum.
Þetta með frumleikaleysið á RÚV vefnum er nú bara aukaatriði en útlitið á vefnum og hvað þar er sett í forsæti bæði vef og í dagskrá er að miðla til mín þeim upplýsingum að forustumenn hjá RÚV telji sig ekki þjóna fólksins, telji ekki að þeir eigi að búa til dagskrá sem er mannbætandi, menningarleg og fræðandi og telji sig ekki þurfa að búa til dagskrá sem höfði til þess áhorfendahóps sem vitað er að ennþá reiðir sig á RÚV sem sína helstu fréttauppsprettu. Dagskrá sem tekur mið af því að á Íslandi búa ungir og aldnir, karlar og konur, fólk af erlendum uppruna, fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðis og fólk sem á ekki heimangengt og fólk sem ekki getur nýtt sér erlendar fréttaveitur til að tengja framhjá RÚV.
Þessi pirringur minn út í sjónvarpsdagskrána á nú ekki við um útvarpsrásirnar tvær. Ég hlusta nú aðallega á Rás 1 á vefnum, þar eru margir úrvalsþættir. Það er hægt að fara beint inn á það á http://dagskra.ruv.is/ras1 En sjónvarpsútsendingar þessa daganna á RÚV sýna að þetta er ekki fjölmiðill, þetta er útsendingarapparat sem hefur einsett sér að þjóna bara hagmunum og áhuga fárra, vera eins konar fámiðill.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:33 | Facebook
Athugasemdir
Þú segir að Ríkissjónvarpið eigi að vera sjónvarp allra landsmanna. Nú er það svo að ég og í raun flestir vina minna höfum áhuga á fótbolta. Ef við undanteljum örfáa landsleiki Íslands, þá sýnir RÚV engan fótbolta utan stórmótanna, sem standa í tæplega einn mánuð og eru á tveggja ára fresti. Þetta er nú ekki mikill fótbolti. Þar sem RÚV sýnir svona lítinn fótbolta, en mun meira af alls konar sápuóperum og kvikmyndum, er RÚV þá nokkuð að taka tillit til okkar fótboltaáhugamanna? Ætti RÚV ekki bara að sýna meira? Mér er fyrirmunað að skilja hvernig þér getur fundist þetta of mikið.
Svo er það lélegt af þér að tala niður til leiksins eins og þú gerir í grein þinni. Það skemmtilega við fótboltann er að þrátt fyrir hversu einfaldur leikurinn er, þá spilast hann samt á svo flókin og margbreytilegan hátt, líkt og lífið sjálft. Albert Camus sagði að háleitustu stundir mannanna væru á fótboltavellinum, það væri þá sem allt annað gleymdist og víma íþróttaandans helltist yfir. Fótbolti er líka íþrótt sem hver sem er getur haft gaman að, hvort sem hann er hæstaréttardómari eða bifvélavirki.
Mig langar líka að benda þér á það að í síðasta heimsmeistaramóti í fótbolta var sett áhorfendamet þegar u.þ.b. 2 milljarðar manna horfðu á úrslitaleikinn. Þetta er langmesta áhorf sem heimsviðburður hefur fengið. Meirihluti Íslendinga horfði einnig á téðan úrslitaleik; það eru því lygar af þér að segja að fótboltagláp sé áhugamál fámenns hóps.
Reynir (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 21:29
Í einn mánuð á tveggja ára fresti er annaðhvort Evrópumeistaramót eða Heimsmeistaramót í knattspyrnu. Þess á milli eru einstaka landsleikir sýndir með nokkura mánaða millibili. Þetta finnst mér nú ekki merki um mikinn fótboltabulluhátt hjá RÚV.
Svo las ég það einhverntímann að um 70-75% landsmanna horfi á annaðhvort Evrópu- eða Heimsmeistaramótin þannig að þú tilheyrir minnihluta væna mín. Þið gamalmennin verða bara að þola þetta.
Svo verður gaman að heyra í þér hljóðið þegar Ólympíuleikarnir hefjast. Mun RÚV þá breytast í hóp- og frjálsíþróttanasista?
Egill Harðar (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 21:58
Ég tek undir það Árni, þetta er gráupplagt fyrir einkamarkaðinn að sýna þetta fótboltadæmi. Ég skil ekki hvers vegna ríkisfjölmiðill á að kollvarpa allri sinni dagskrá fyrir þetta, sami ríkisfjölmiðill sem er svo íhaldsamur þegar kemur að þessu löngu úrelta fyrirbæri að hafa þulur til að lesa upp dagskrána, þá má svo sannarlega ekki kollvarpa neinu.
Ég er ekki viss um að Páll Magnússon skilji og skynji hvert hlutverk forustumanns í ríkisfjölmiðli er. Ef eitthvað er óeðlileg samkeppni þá er það að breyta ríkisfjölmiðli í eitthvað apparat sem sýnir vinsælt afþreyingarefni sem hefur ekkert með Ísland að gera.
Ég vildi óska þess að RÚV tæki BBC að einhverju leyti sér til fyrirmyndar.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.6.2008 kl. 22:41
Reynir: Ég vil nú ekki gera lítið úr þeirri tómstundaiðju að hafa gaman af því að horfa á íþróttaleiki í sjónvarpi þó auðvitað segi það eitthvað um áhuga minn á því að ég slekk á sjónvarpinu bara vegna þess að það er leiðinlegt að hlusta á einhvern æsa sig og lýsa af innlifun einhverju sem ég sé ekkert annað út úr en hvað það sé furðulegt að fullorðnir menn skuli verja svona miklum tíma í að kasta á milli sín loftfylltri leðurtuðru.
Ég vil svo sannarlega að fólk geti horft á þetta sem hefur áhuga á en þetta þarf ekki að setja sjónvarpið á hvolf. Ég vil fréttir alltaf á sama tíma nema það séu náttúruhamfarir eða forsetinn að tala eða bein útsending frá alþingi út af einhverju merkilegu. Ríkisfjölmiðill snýst um það sem sameinar okkur, ekki um einhverja afþreyingu sem við getum keypt okkur sjálf.
Mér fannst allt í lagi þetta húllumhæ út af evróvision vegna þess að þetta var eitthvað sem tengist evrópuvitund og vitund um ríki í Evrópu og menningarframlagi þeirra og getur elft samkennd og skilning meðal evrópubúa.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.6.2008 kl. 22:48
Ég sá af athugasemdum að það var særandi að nota orðið "fótboltabullurás" og breytti því í "fótboltarás" til að sýna að ég vil ekki tala lítilvirðandi um þá sem hafa önnur áhugamál og ég (þó mér finnist það skrýtin áhugamál)
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.6.2008 kl. 22:59
Upplagt væri að nota rás 99 fyrir boltann í júní og sleppa endursýningum þar en það er ekki pólitískt verjandi gagnvart hinum ráðandi flokki.
Heidi Strand, 12.6.2008 kl. 23:13
Þetta þykja mér arfaslök rök. Bara þannig að það sé á hreinu þá þurfa nánast allir að borga þessi bölvuðu afnotagjöld ekki bara aldraðir. Ofan á það þá veit ég ekki betur en að ellilífeyrisþegar fái afslátt af afnotagjöldunum.
"Mér fannst allt í lagi þetta húllumhæ út af evróvision vegna þess að þetta var eitthvað sem tengist evrópuvitund og vitund um ríki í Evrópu og menningarframlagi þeirra og getur elft samkennd og skilning meðal evrópubúa"
Ef við tökum út "menningarframlagið" gætið þetta þá ekki bara átt ágætlega við um Evrópumótið?
P.s. áhorfendur á þætti eins og Aðþrengdar eiginkonur eru c.a. 70-80% kvenfólk. Er ekkert furðulegt að troða því upp á karlmennina að þessir þættir séu að hamra á stöðluðum kynjaímyndum? Ef kvenfólkið hefði ekki áhuga á að horfa á þetta væri þetta ekki sýnt því þá myndi enginn horfa.
Andri Valur (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 23:16
Andri Valur: Það er margt sýnt sem fólk hefur ekki áhuga á. Það sem er mikilvægt að hafa í huga er að sýningar á RÚV búa til smekk fólks.
því miður hefur fólk gaman af ruslþáttum, gaman af ofbeldisþáttum, gaman af því að sjá fólk kvalið og pyntað og lína nútimans er að það eru konur sem eru pyntaðar. það er skemmtiefni td. í mörgum sakamálaþáttum.
Ríkisfjölmiðill ætti bara að hafa háleitara markmið er höfða til þess sem er vinsælt afþreyingarefni sem hefur ekkert með þjóðríkið og landsvæðið Ísland að gera.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.6.2008 kl. 23:26
það má alveg líkja saman eurovision og þessum fótboltaleikjum. Ég hefði verið verulega pirruð ef allt hefði farið á hvolf út af eurovision og fréttirnar ekki á réttum tíma. Mig minnir að það hafi bara verið í úrslitakeppninni og undanúrslitum.
úrslitin eru stór samnorræn hátíð sem Íslendingar taka þátt í.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.6.2008 kl. 23:30
Ég held að hlutverk brauða og leika Rómverja hafi ekki verið fyrst og fremst skemmtun til að halda lýðnum ánægðum heldur miklu frekar að gera hann samdauna ofbeldis- og stríðs- og ránamóralnum sem kerfið byggðist á. Og ég held að við sjáum í rauninni svipaða innrætingu og heilaþvott og veruleikahönnun enn í dag. Þetta byggist allt saman á mannlegu eðli og hvernig hægt er að spila með það og eðli mannskepnunnar hefur jú ekki breyst hið minnsta í þúsundir ára.
Framboð ruslveitna byggist nokkurn veginn á því sama og framboð á öðru rusli; það er "supply side" það er framboðið verður til á undan eftirspurninni, rófan dillar hundinum ef svo má segja.
Annars finnst mér svo sem allt í lagi að fótboltaáhugamenn fái að flippa út yfir sínu áhugamáli á tveggja ára fresti í ruslveitu ríkisins. Fyrir 10-15 árum hékk ég meira að segja sjálfur yfir þessu hjakki. En þetta hefur orðið sífellt meira peningadrifið og leiðinlegt og falskt og spillt og maður nennir því ekki að eyða tíma í það.
Baldur Fjölnisson, 13.6.2008 kl. 00:13
Ég veit ekki hvað þú ert að kvarta yfir fólbolta á rúv.
Rúv hefur haft það að stefnu að valta yfir sjómenn í mörg herrans ár.
við höfum þurft að nota langbylgjuna sem okkar eina útvarps miðil og samanstendur hann af rás 1 og 2 í einum graut, það er eins og það sé stefnan hjá þeim sem stjórna Rúv að sulla vesta efninu sem er á rás 1 yfir okkur sjómenn, þannig að ég kippi mér ekki neitt við það þó þeir níðist á ykkur í mánuð eða svo.
Hvað er betra en að byrja vaktina á morgnana með þessu fína sinfónýju gargi
Sveinn Anton Jensson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 00:27
Gleðilegt sumar!
Það er nú búið að vera svo svakalega gott veður undanfarna daga (og leiki) að enginn, gamall né ungur getur kvartað yfir sjónvarpsdagskránni.
Þú ert nú það gömul að þú hlýtur nú bara að fá smá nostalgíu við að slökkva á sjónvarpinu yfir há sumarið!
Skelltu þér í göngutúr og andaðu að þér fersku sumarloftinu, en passaðu þig á því að pirrast ekki ef einhver er á hjólabretti, er í snú snú eða jafnvel sparkar í bolta fyrir framan þig.
Lifðu og leyfðu öðrum að lifa!
plís
pís
gungun
gunnar gunnarsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 00:35
Baldur:Það er nú kannski of sterkt til orða tekið að áhorfendur á boltaleik sé samdauna stríðs- og ránamóralnum. Það eru alla vega ekki mín orð
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.6.2008 kl. 00:44
Gunnar Gunnarsson: Það er vissulega búið að vera þannig veður að það er ferlegt að eyða því í að horfa á RÚV. Enda horfi ég nánast aldrei á RÚV nema bara hraðspóla yfir þetta á vefnum.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.6.2008 kl. 00:46
Ég er mikill áhugamaður um Evrópukeppnina, en tek samt undir orð Salvarar að vissu marki. Það er rangt hjá henni að fámennur hópur hafi áhuga á þessari keppni, en ég á erfitt með að finna réttlætingu á því að RÚV sé að ausa milljónum á milljónum ofan í útsendingarréttinn á Evrópumótinu í knattspyrnu.
Tuðrusparkið er ein allra vinsælasta íþrótt í heimi, sem gerir það að verkum að sjónvarpsútsendingar frá keppni þeirra bestu eru mjög dýrar. RÚV hefur þurft að yfirbjóða Stöð 2 Sport til að fá útsendingarréttinn.
Meðan fjárhagsstaða ríkismiðilsins er ekki betri en svo að forráðamenn hennar þurfa að fara á hnén fyrir framan bankastjóra sem hefur verið dæmdur fyrir fjársvik til að hafa efni á því að gera innlent dagskrárefni er ekki verjandi að borga morðfjár úr sameiginlegum sjóðum landsmanna fyrir útsendingarréttinn að EM.
Þróunin hefur orðið sú að stórmót í knattspyrnu eru nær undantekingalaust sýnd á einkastöðvum. Ekki einu sinni hið breska BBC sýnir beint frá leikjum keppninnar.
Þetta mál er enn ein staðfestingin á því að ríkissjónvarp er tímaskekkja og það á að leggja það niður, en hafa eina rás tiltæka til að senda almannavarnartilkynningar.
Theódór Norðkvist, 13.6.2008 kl. 01:42
Mér þætti hið besta mál að hafa sér rás sem myndi þjóna þessum viðburðum sem ekki falla inn í hefðbundna sjónvarpsdagskrá. Á mínu heimili er til að mynda ansi erfitt að útskýra fyrir yngsta meðliminum af hverju barnaefnið er ekki á sínum stað. Og í sambandi við það efni sem er talið "hæfa" kvenþjóðinni að horfa á, þá eru það jafnleiðar alhæfingar sem eru þar í gangi eins og þegar fólk gefur sér að allir karlmenn séu með andarteppu yfir fótboltanum. Takk fyrir pistilinn.
Þórdís Guðmundsdóttir, 13.6.2008 kl. 02:08
RUV er skyldugt til að sýna frá þessu. Það er ein af skyldum þess að vera í EUROVISION sem eru samtök ríkisrekinna sjónvarpsstöðva. Það sem RUV fær fyrir að vera meðlimur er ódýr / ókeypis aðgangur að fréttaefni frá öðrum stöðvum og eflaust eitthvað fleira. DR í Danmörku hefur vegna vandræða með byggingu nýrra höfuðstöfra dregið saman í sýningu á ýmsu íþróttaefni og lent í einhverjum vandræðum vegna þess þar sem þetta brýtur eitthvað í bága við skilmála EUROVISION.
Ég hef reyndar ekki mikla þekkingu á þessu en þetta er eitt af því sem ég hef lesið um hér í dönsku miðlunum.
Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 06:43
Dæmalaus þvæla er þetta endalaust, í hvert skipti sem rúv sýnir frá stórmóti í knattspyrnu upphefst sami grátkórinn hjá þeim sem ekki eru hrifnir af íþróttinni. Ávallt er talað um lítinn hóp áhugamanna og að ríkisútvarpið sé að fara villur vega við að þjónkast við þennan litla hóp. Þröngsýni þessara kverúlanta er með ólíkindum, hér er um að ræða vinsælastu íþrótt heims og jafnfram vinsælasta sjónvarpsefni heims - um hvorugt þessa er deilt.
Svo virðist sem Salvör og skoðanabræður/systur hennar telji að rúv megi hreinlega ekki sýna vinsælt efni, eingöngu 20 ára gamlar sápuóperur og norræna sakamálaþætti en alls ekki vinsælt sjónvarpsefni - það er eitur í beinum grátkórsins.
Ég bara get ekki fengið mig til að vorkenna þér fyrir að þurfa að stilla á fréttir klukkan 18 í stað klukkan 19 Salvör mín - það er nú ekki flókið. Þegar mótinu líkur verður þetta aftur að gamla góða rúv, sem hannað er að þínum þörfum - en ég þarf samt að borga fyrir. Þú og þínir viljið oft gleyma að við knattspyrnuáhugamenn greiðum jafnmikið fyrir rúv og þið - og fáum mun minna fyrir okkar snúð. Mæli með því að þú endurskoðir afstöðu þína - þú virðist sjá heiminn frá afskaplega þröngu sjónarhorni.
Stefán Páll (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 08:49
Hvaða væl er þetta í fólki þótt að dagskráin á einni sjónvarpsstöð breytist í einn mánuð. Eruð þið virkilega svona föst í venjum og hefðum að þið getið ekki lifað án þess að horfa á sama sjónvarpsþáttinn á nákvæmlega sama tíma og alla hina dagana? Ef lífið er svona ömurlegt að það sé ekki hægt að gera neitt annað en að horfa á sjónvarpið þá hlýtur dagskrárbreyting hreinlega að vera himnasending fyrir ykkur sófakartöflurnar.
Dragið fram spil og leggið kapal.
Lesið góða bók (eða slæma, sama er mér).
Hlustið á tónlist.
Farið út að ganga.
Syngið.
Föndrið.
Farið í kirkju.
Notið höfuðið í stað þess að væla!
Guðjón Torfi Sigurðsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 09:38
Það sem ég átti við er að öryggishlutverki RÚV verður að sinna. Í 13. gr. útvarpslaga kemur fram að útvarpsstöðvar eru skyldugar til að senda út almannavarnartilkynningar. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að leggja RÚV niður!
Theódór Norðkvist, 13.6.2008 kl. 12:52
það minnsta sem fótboltabullur þessa lands gætu gert er að leyfa okkur hinum (90%unum?) að væla með því að blogga um dæmið, það er algjör óþarfi að svara "væli" með væli. Sjónvarp er sumum hjartans mál, enda um listform að ræða og hægt að gera góða hluti þar en það hefur rúv að vísu aldrei reynt.
Fótbolti er bara áhugamál en þegar fótboltaáhugamenn heyra gagnrýni um þessa íþrótt þá bregðast þeir oft við einsog einhver hafi verið að ráðast að þeim persónulega, það er merki um veikleika og minnir mig á költ þarsem einstaklingurinn túlkar hverja árás á hópinn sem árás á sig.
Ég hætti að horfa á rúv fyrir 5-7 árum og hef ekki átt sjónvarp í allan þennan tíma, það er einskis góðs að vænta á rúv. Ég get sætt mig við fótboltadelluna þó að hún sé ómenningarleg og óþörf af því að þetta er hitamál fyrir svo marga. Ég vil að þeir séu hamingjusamir og þessvegna myndi ég bara láta þessi sífelldu mót og keppnir yfir mig ganga, en það er samt hægt að ganga of langt og kannski er það að gerast hér og nú einsog Salvör vill meina, en ég veit það ekki, hef ekki kynnt mér málið nógu vel og mun ekki gera það.
Hafið það gott í sumar öllsömul
halkatla, 13.6.2008 kl. 13:20
Óttalegt væl er þetta..
Þar sem þessi sjónvarpsviðburður og þetta er stórviðburður, er á 4 ára fresti get ég ómögulega skilið þetta væl í fólki sem vill fá fréttirnar á "sínum tíma".. talandi um sjálfselsku.
HM í knattspyrnu hefur ekki verið sýnd á Rúv þónokkuð svo ekki er hægt að tala um á 2 ára fresti "trufli" Rúv þetta fréttaáhorf ykkar. Fréttir eru útvarpaðar á klukkustundafresti og viti menn.. þetta eru sömu fréttir og eru alla jafna sjónvörpuð.
Fótbolti og aðrar íþróttir sameina og eru frábær leið til að fá gamla vinahópinn saman að horfa á og "keppast". Svo það að fréttatíminn rofni aðeins hjá ykkur, því 10 fréttir eru enn á sínum stað, á 4urra ára fresti vegna EM í knattspyrnu og þið vælið alveg endalaust útaf því er rosaleg sjálfselska.
Árni Guðmundss... tillit til annarra? Botnaðu fyrir mig.. sjá flísa í auga annarra en [...] --- Ég endurtek.. 4urra ára fresti.
Anna Karen. Það að segja að íþróttakeppni sé ómenningarleg segir nóg um þig.. þarf ekki að svara því.
Salvör er alveg "lost case" ;) - vona bara að þessar rúmlega 3 vikur eyðileggi ekki fyrir henni árið.
kv.
Indriði Kristjánsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 13:50
yo!
"Fótbolti er bara áhugamál"
þetta er bara alrangt - Fótbolti getur og er oft mun meira en "Fótbolti er bara áhugamál" . Talaðu við ítali/spánverja .. spurðu hvort fótbolti sé bara "hobby" !!!!
Ég t.d. get sagt að flott sókn getur verið algjör list!
Þetta er bara helv. snobb í einhverri 101 sófa-artí-kaffihúsa-hjólreiða-rauðsokku elítu (líklega sama fólkið og vildi bjóða krökkum upp á petting-zoo með 200kg ísbirni)
Benedikt Sveinsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 15:15
Bendikt, það má segja að fótbolti sé hobbí, lífstíll og trúarbrögð... nokkrir englendingar sem ég hef þekkt hafa kallað hann sína trú og það er alls ekki óalgengt viðhorf. Ég held að fólk ætti bara að viðurkenna hversu miklar öfgar þetta eru. Þeir sem fíla ekki fótbolta munu samt aldrei skilja dæmið og það þurfa fótboltaáhugamenn að sætta sig við. Mjög einfalt mál.
Indriði Kristjánsson þú vælir aldeilis hátt, tekur litla spauginu mínu mjög persónulega og sýnir með því að þú ert akkúrat dæmi um persónuna sem ég lýsti, költhugarfarið er mjög sterkt hjá þér
ég vissi að ég myndi kveikja í einhverjum brjálæðingum með þessu smáræði sem ég skrifaði væluskjóðurnar bregðast manni aldrei!
halkatla, 13.6.2008 kl. 16:04
Ég geri fastlega ráð fyrir því að EM kvenna verði gert jafnhátt undir höfði - svona eins og venja er!
katrín anna (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 18:09
Dánlódið hjá mér gengur mikið betur eftir að Evrópumótið byrjaði, þannig að það er hið besta mál. Menn geta víst ekki samtímis hangið á netinu og glápt á sjónvarpið. Annars geri ég alveg ráð fyrir að reyna að horfa á eitthvað þegar riðlakeppnin er búin.
Baldur Fjölnisson, 13.6.2008 kl. 18:31
Heil og sæl; Salvör og aðrir skrifarar !
Þakka þér; afbragðs góðan pistil, Salvör. Hví; í ósköpunum, láta þessir bolta skrattar, hverjir yfir þessu liggja, ekki setja upp, íþróttarás, okkur hinum til þæginda, og án allra leiðinda ? Viðurkenni fúslega; að ég er alger frétta- sem og veðurfregna fíkill, og hefi verið, allt frá 8 ára aldri, (1966), þótt svo ég spilaði fótbolta, með strákunum, að 15 ára aldrinum. Síðar; tók skákin við, hjá mér, að nokkru.
Mál til komið, að farga núverandi dagskrár stefnu RÚV, og setja þjóðleg gildi skör ofar, á þrepum þeirrar stofnunar.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 20:42
Með fullri vinsemd kæra Salvör. Í þessum magnaða pistli þínum skýtur þú óralangt yfir markið. Í honum kristallast yfirþyrmandi fáfræði og kynjakúgun. Mundu, mín kæra, að ekki er bleikt bleikt nema blátt sé. Sýnum öllum, bæði konum og körlum, virðingu og sanngirni.
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 21:06
Það eina sem pirrar mig í þessu er að fréttatímarnir breytast, að öðru leyti er ég blessunarlega laus við kassann því loftnetið er hvort eð er búið að vera stríða mér. Ég get frekar aðhafst eitthvað uppbyggilegra en að liggja yfir sjónvarpinu og þakka því mínum sæla fyrir að eitthvað svo óspennandi sem fótboltaleikir tröllríða dagskránni. En hvað varðar gamla fólkið, er ég nú á því að ríkismiðillinn hefði þurft að taka meira tillit til þess trygga hóps áhorfenda. Gott hjá þér að koma því á framfæri.
Anna Karlsdóttir, 15.6.2008 kl. 13:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.