Er Google að gera okkur vitlaus?

250px-Is_google_making_us_stupid.svgErum við öll komin með googleheilahakk og getum ekkert lesið og hugsað lengur? Ágætur prófsteinn á hvort ástand okkar sé svo slæm er hvort við getum  þvælst í gegnum greinina Is Google Making Us Stupid? eftir Nicholas Carr. Það er ansi mikill texti í þeirri grein og teygir sig á fjórar blaðsíður. 

Hugsanlega höfum við hinir netvæddu og sítengdu og sígúglandi Vesturlandabúar ekki neina eirð lengur til að lesa samfelldan texta. 

Hér er hraðsuða úr greininni og framhjátenging fyrir þá sem nenna ekki að lesa. Höfundinn grunar að hann stýri ekki hvernig þekkingarþráðir tvinnast saman í heila símun og hvernig hann býr til þekkingarnet, því sé stýrt of Google leit og því hvernig hann stiklar áfram á þeim steinum sem leitin í Netheimum birtir honum.

Notkun á verkfærinu Google er að breyta hvernig við hugsum. Hann vísar í breska rannsókn á þekkingarleit á Netinu sem sýndi að notendur valhoppuðu bara um Netið, skimuðu innihald á einum vef og fóru svo og komu ekki aftur og lásu ekki nema eina eða tvær blaðsíður af grein eða bók sem fyrir augu þeirra bar. 

Svona lestur eða skimun þar sem notendur hoppa, spranga og stikla um í Netheimum er öðruvísi lestur, það er mikil áhersla lögð á hraða og afköst en ef til vill minna á djúpa hugsun.

Höfundur segir frá því þegar Friedrich Nietzche keypti sér ritvél. Það jók afköst hans en það breytti því líka hvernig hann hugsaði og skrifaði. Ritstíll hans breyttist í að vera eins og símskeyti og í stað hugsanna komu "puns" eða hnyttniyrði.

Höfundur ræðir um hvernig verkfæri eins og klukkur breyttu vinnulagi, hvernig fólk fór að hlýða klukkunni og láta stjórnast af tímamælingu í klukku en ekki líkamlegum þörfum um hvenær ætti að borða, sofa og fara á fætur. Höfundur segir líka að við notumst við táknmyndir úr þessum vitundarheimi sem stýrir okkur - við lítum núna á heila okkar eins og tölvur á meðan kynslóðin klukkunnar lýsti heilastarfinu eins og gangverki í klukku. (Innskot: Halldór Laxness er ágætt dæmi um svona klukkkynslóð, hann er voða upptekinn af klukkum, fyrsta greinin sem hann skrifar er um klukku, hann byrjar Brekkukotsannál með klukku og hann skrifaf Íslandsklukkuna um klukku. Það er heimsýn klukkunnar sem býr í ritverkum hans).

Höfundur segir að þetta hvernig við notum tölvu sem táknmynd fyrir heilastarfsemi okkar sé miklu dýpra en táknmyndin, þetta ráði hvernig við hugsum. Internetið sé að svelgja alla hugsanafærni okkar. Það verður kort okkar og klukka, dagblað okkar og ritvél, reiknivél og og sími,  útvarp og sjónvarp.

Þegar Netið svelgir svona í sig aðra miðla þá endurskapast sá miðill í Netheimum á þann hátt sem efni er nú framreitt þar - með tenglum, blikkandi auglýsingu og tengdur öðrum miðlum sem einnig hafa verið svelgdir af Netinu. Efnið á Netinu er framreitt á öðruvísi hátt, í litlum bitum. Og fáir hugleiða að það er Netið sem er að forrita okkur, ekki öfugt.

Höfundur talar um hvernig tíma- og afkastamælingar Frederick Winslow Taylor smellpössuðu við framleiðslu í iðnaðarsamfélögum en Taylor skrifaði bókina The Principles of Scientific Management

kerfi hans er ennþá kjarninn í hugmyndum um iðnframleiðslu. Höfundur segir að taylorisminn sé endurborinn í Google hugsun, þeirri hugsun að öllu sé hægt að lýsa í kerfi, að það sé hægt að finna einhverja bestu leið til að finna upplýsingar og Google fyrirtækið hefur það á stefnu sinni að skipuleggja upplýsingalindir heimsins og gera þær aðgengilegar. Þetta er sýn á upplýsingar eins og vöru og minnir á hugmyndir frá iðnbyltingunni. 

Höfundur vitnar í Sókrates, hvernig hann hræðist að fólk fari að einblína á hið ritaða orð í stað þekkingar sem geymd var í huga þeirra þá hætti fólk að reyna á vitsmuni sína og minni þess hrakar.  Höfundur segir að Sókrates hafi haft rétt fyrir sér með þetta en hann hafi ekki séð fyrir að til langs tíma þá hafði lestur og skrift þau áhrif að hugmyndir dreifðust og nýjar hugmyndir kviknuðu og elfdu þekkingu.

Gutenberg prentsmiðjan á 16. öld breytti líka heimsmyndinni og það voru þá líka uppi menn sem óttuðust að þessi nýja prenttækni myndi valda hugleti og veiklun í vitsmunastarfsemi.  

Höfundur virðist telja að djúplestur sé eitthvað sem komi með því að lesa prentað samfellt mál og slíkur djúplestur sé forsenda djúprar hugsunnar.  

Hann varar við því að við förum að stóla á tölvur eingöngu til að skilja heiminn, þá fletjist greind okkar út og verði að gervigreind. 


mbl.is Þráðlausu netsambandi komið á í Túrkmenistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nútíminn gerir það að verkum að við þurfum ekki lengur að vita hluti.  Það nægir að vita hvar sé hægt að fletta upp á einhverju.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 17:21

2 identicon

Baldur McQueen (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband