13.4.2008 | 17:06
Hallir nútímans eru óperuhús
Norðurlandaþjóðirnar sýna veldi sitt og dýrð með óperuhöllum sem staðsettar eru við sjó. Þetta eru íburðarmiklar byggingar, marmara og glerhallir þar sem einmitt íburðurinn er einkennið. Í íslenska húsinu verður glerhjúpur. Þessar hallir nútímans eru eins konar musteri eða gáttir inn í nútímann og framtíðina og alheiminn, ætlaðar á yfirborðinu til að óma söng. En hlutverk þessara halla er meira, þeim er ætlað að vera eins konar íkon eða kennileiti fyrir borgirnar, tákn um öflugt menningarlíf og ríkidæmi á öllum sviðum. Ég held að staðsetningin við sjó og áherslan á hvernig húsin líti út þegar komið er að landi sé táknræn fyrir alþjóðavæðinguna og þrá eftir að sýna umheiminum mátt sinn og megin.
Óska Norðmönnum til hamingju með hið nýja óperuhús sitt. Eins og allir listamenn vita þá er ferlið eins mikilvægt og afurðin og hér má sjá á 3 mínútu vídeói hvernig húsið spratt upp.
Hér eru fréttir og efni um hið nývígða óperuhús í Ósló og hið nýja operuhús Kaupmannahafnar:
Norway's king opens new opera house on the shores of Oslo Fjord
Copenhagen Opera House - Wikipedia, the free encyclopedia
New National Opera House (Oslo)
Mér virðast nútímalistasöfn vera líka svona musteri í borgum, næstum eins og húsin og arkítektúrinn á þeim og hughrifin sem gestir húsanna verða fyrir við að ganga um þau og horfa á þau skipti eins miklu máli og sýningarnar og iðjan sem í þeim er. Þessa tilfinningu fékk ég bæði í Kiasma í Helsinki og nýlistasafninu í Barcelona.
Á Íslandi er sama þróun. Nýja tónlistarhúsið í Reykjavík verður líka svona helgiskrín nútímans.
Heimsþekktir listamenn með íslensk tengsl voru fengnir til að hanna tónlistarhöllina í Reykjavík. Útlit hússins er að mestu leyti verk Ólafs Elíassonar en Vladimir Ashkenazy er sérlegur listrænn ráðgjafi. Hægt er að sjá teikningar af húsinu og umhverfi þess með því að smella hér og myndband af húsinu og meiri upplýsingar á www.tonlistarhusid.is/. og http://www.austurhofn.is
Austurhöfn er fyrirtæki sem er í eigu ríkisins (54%) og Reykjavíkurborgar (46%).
Skrifað undir samninga við Portus-hópinn um tónlistarhús
Ég held að veldisprotinn í Reykjavík sem fylgir óperuhúsinu sé nú samt ekki í höndum ríkisstjórnar eða borgarstjórnar, það er Portus sem á tónlistarhúsið, hinir eru bara leigendur þar:
Bygging og rekstur Tónlistar- og ráðstefnuhússins er svokölluð einkaframkvæmd samkvæmt samningi milli Eignarhaldsfélagsins Portus og Austurhafnar-TR. Austurhöfn- TR er fyrirtæki í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar. Íslenska ríkið á 54% í fyrirtækinu og Reykjavíkurborg 46%. Eigandi Tónlistar- og ráðstefnuhússins er Eignarhaldsfélagið Portus en ríki og borg greiða árlega ákveðið framlag samkvæmt samningi í 35 ár.
Hver á eignarhaldsfélagið Portus?
Ég fann upplýsingar um það á vefsíðu þeirra: Eignarhaldsfélagið Portus hf er félag um byggingu og rekstur Tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík. Félagið er að jöfnu í eigu Landsbankans og Nýsis hf.
Hver á eignarhaldsfélagið Portus eftir 35 ár?Verður það til þá?
Hver verður þá eigandi íslensku óperuhallarinnar?
Óperuhúsið vígt í Ósló | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Allt áhugaverðar spurningar, en re:
„Mér virðast nútímalistasöfn vera líka svona musteri í borgum, næstum eins og húsin og arkítektúrinn á þeim og hughrifin sem gestir húsanna verða fyrir við að ganga um þau og horfa á þau skipti eins miklu máli og sýningarnar og iðjan sem í þeim er.“
Hlutverk arkitektsins er einmitt þetta, að skapa rýminu anda útfrá ætluðu markmiði byggingarinnar. Annars væri arkitektinn tilgangslaus og byggingarlist ekki list. Svo ég segi nú bara: auðvitað skipta hughrifin jafn miklu máli.
Hitt er svo annað hvort listin falli að smekk fólks. Sjálfur fékk ég fagurfræðilegt raðheilablóðfall þegar ég sá teikningarnar af íslenska tónlistarhúsinu og finnst óperuhúsið í Kaupmannahöfn alger viðbjóður. Svo ekki sé minnst á gróðurhúsið Öskju eða rétt fokhelt Háskólatorgið. Ég er löngu hættur að skilja hvað arkitektum gengur til með þessu eipi.
Arngrímur Vídalín (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 17:32
Þetta eru skarplegar athugsemdir hjá þér Salvör og ég get alveg tekið undir það. Ég geri mér grein fyrir að þú ert ekki að gagnrýna byggingarnar sem slíkar en verð samt að bæta við að oft finnst mér listasöfn svo fallegar og glæsilegar byggingar að ég nýt þess að horfa á þær ekkert síður en listaverkin sem þær geyma.
Steingerður Steinarsdóttir, 13.4.2008 kl. 17:42
Ég er svo sannarlega ekki að gagnrýna þessar byggingar, þetta eru stórkostleg hús og þeim er líka ætlað að vera það. Ég er bara að reyna að skilja minn samtíma eins vel og ég get.. Ég held að óperuhallir séu ekki fyrst og fremst staðir til að flytja tónlist. Þær eru sigurtákn þeirrar tegundar menningar sem við erum í.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.4.2008 kl. 18:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.