13.3.2008 | 20:17
Þungt högg
Ég renndi yfir dóminn á vef hæstaréttar Bróðir minn tapar málinu og ég er náttúrulega langt frá því að vera hlutlaus. Þetta þýðir væntanlega mikið fjárhagstjón og álitshnekki, bæði þarf að greiða sekt og hluta af málskostnaði Auðar Sveinsdóttur auk alls eigin málskostnaðar.
Hér eru gildandi höfundarréttarlög
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1972073.html
Skaðabætur dæmdir hæstiréttur eftir þessari málsgrein:
56. gr. Þegar saknæmt brot á lögum þessum hefur haft fétjón í för með sér, ber að bæta það eftir almennum reglum fébótaréttar.
Dæma skal höfundi og listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi.
Það er áhugavert hvernig Hæstiréttur reiknar út hverjar fébæturnar eigi að vera. Það er svona:
Í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti byggði aðaláfrýjandi á því að ef litið væri til allra tilvikanna hefði gagnáfrýjandi nýtt sér 320 síður eða byrjaðar síður úr ritverkum Halldórs. Var því ekki sérstaklega mótmælt. Séu hin fébótaskyldu tilvik metin með svipuðum hætti gætu þau samsvarað rúmlega 210 síðum eða byrjuðum síðum úr verkum skáldsins. Verða fébætur til handa aðaláfrýjanda metnar að álitum með hliðsjón af því og leiðbeinandi gjaldskrá Rithöfundasambands Íslands, sem vikið er að í V. kafla hér að framan. Teljast þær hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur.
Ég held að þetta mál verði í framtíðinni notað sem dæmi um þegar tvenns konar menning kallast á og hugsanlega tekið sem dæmi um dauðateygjur lesmenningar sem víkur fyrir skrif og lesmenningu (read-write culture)
Það er áhugavert að lesa röksemdir stefnanda:
Telur stefnandi að hafa beri í huga að Halldór Laxness hafi verið og sé enn einhver merkasti rithöfundur þjóðarinnar og að verk hans og sá höfundarréttur sem þeim fylgir sé í senn mikilvægur og verðmætur. Stefndi hafi, með ólögmætum og saknæmum hætti, eignað sér ritverk Halldórs í miklum mæli, sér til hagsbóta, sbr. t.d. 5. gr. höfundalaga.
Brot stefnda felist einkum í því að stefndi hafi hagnýtt sér höfundarréttarverndaðan texta úr bókum og öðrum ritverkum Halldórs Laxness, fellt hann inn í bók sína og gert textann þannig að sínum eigin, án þess að aðgreina hann sérstaklega eða geta heimildar með fullnægjandi hætti.
þetta mál úr íslenskum veruleika á margt sameiginlegt með því sem er að gerast á öllum sviðum stafrænnar menningar. Höfundarréttur sem nú er í lýði tekur ekki tillit til þess stafræna veruleika sem við lifum í. Ég hvet alla til að kynna sér verk Larry Lessig og það er ágætt að byrja á því að horfa á myndbandið How creativity is being strangled by the law
Ég held reyndar að Halldór Laxness, sá stóri hugsuður sem hann var hefði verið mikill talsmaður sömu hugmynda og Larry Lessig talar fyrir og hugsanlega gefið út sín verk út með cc-nc-sa höfundarleyfi ef hann hefði verið uppi á okkar tíma. Vonandi líður ekki á löngu þangað til íslenskir rithöfundar fara að birta verk sín með þannig höfundarleyfi. Vonandi líður ekki á löngu þangað til við getum hætt að skoða nota efni nema það sé með einhverjum opnum höfundarrétti. Vonandi munum við í framtíðinni geta unnið með verk höfunda sem leyfa alveg skrumskæld remix af sínum verkum.
Ranglátur dómur (Stefán Pálsson tjáir sig um dóminn)
Höfundarréttur tekinn alvarlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.3.2008 kl. 15:07 | Facebook
Athugasemdir
Stafrænnar menningar? Ég sé ekki hvernig stafræn menning kemur málinu neitt við, við erum að tala um bók, og bók. Báðar gefnar út á prenti. Mætti ég biðja þig að útskýra þetta betur?
Ég er mjög ósammála þér með staðhæfingu þína:
"Vonandi líður ekki á löngu þangað til við getum hætt að skoða nota efni nema það sé með einhverjum opnum höfundarrétti. Vonandi munum við í framtíðinni geta unnið með verk höfunda sem leyfa alveg skrumskæld remix af sínum verkum."
Hvernig þætti þér að hafa lagt mikla vinnu og alúð í eitthvað verk, jafnvel lagt sál þína í það, gefið það út og eitthvað seinna sérðu eitthvað skrumskælt remix af verkinu þínu jafnvel frá einhverjum sem þú þekkir ekki haus né sporð á? Eða jafnvel líkar illa við og hefur ekki smekk fyrir verkum hans? Og þú gætir ekkert gert í því? Nú er ég ekki að tala um þetta einstaka mál, ég er að biðja þig að setja þig í þessi spor almennt, og þú mátt ímynda þér að þú sért tónlistarmaður eða listmálari alveg eins og rithöfundur. Sköpun er afskaplega persónulegt fyrirbæri oftast nær. Ég held að það séu ákaflega fáir sem myndu samþykkja þessa fullyrðingu þína.
Evil monkey, 13.3.2008 kl. 21:26
Ég held að Hannes hafi ekki grætt neitt á þessari ævisögu. Því er þetta allt mjög furðulegur reikningur.
Snorri Bergz, 13.3.2008 kl. 23:43
Salvör er alveg einstakur bróðurbetrungur og meira hef ég ekki um það að segja.
Baldur Fjölnisson, 14.3.2008 kl. 00:37
Salvör er mikill kennslusnillingur og þegar einum vinnufélaga mínum datt í hug að nota Sketchup og vantaði að koma sér inn í það þá fann ég að sjálfsögðu nærtækustu linkana fyrir hann hjá Salvöru. Hvers vegna hún er ekki menntamálaráðherra hefur mér lengi verið hulið.
Baldur Fjölnisson, 14.3.2008 kl. 00:50
Hér er stórfurðulegur dómur á ferðinni og virðist nánast skraddarasniðinn að ,,sjónamiðum" sumra ofursnobbara.
Skil unga fólkið betur en áður, að það ber ekki snefil af virðingu fyrir Hæstarétti, frekar en Alþingi.
Miðbæjaríhaldið
hnugginn yfir, að nú tíðkist ekki lengur, að menn munnhöggvist um listir, ,heldur stefni hverjir öðrum fyrir meiðyrði, stuld á höfundarétti og þesskonar amlóðatilburðir eru á baugi.
Bjarni Kjartansson, 14.3.2008 kl. 10:53
Höfundalög eru ætluð til að auðvelda fólki að hafa fjárhagslegan ábata af verkum sínum, þau eru ekki sett vegna þess að "sköpun [sé] afskaplega persónulegt fyrirbæri" eða vegna þess að listamenn séu merkilegri eða viðkvæmari sálir en annað fólk.
Verk Halldórs Laxness eru hluti af íslenskri menningu og til að íslensk menning sé frjó og lifandi er einmitt mjög æskilegt að menn geti rímixað hana og leikið sér með hana á ýmsa lund. Þið athugið að það verður ekki löglegt fyrr en 2069 að gera það sem manni dettur í hug við verk HKL.
Haukur (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 11:30
Hvað finnst bloggurum um að erfingjar HKL greiddu nokkrar millur í sektir fyrir orðrétt rán og rupl skáldsins á verkum annarra höfunda í gegnum tíðina; þar sem forðast er eins og pestina að geta heimilda?? Það eru nægar sannanir fyrir hendi og ég bendi bara á bækur Hannesar Hólmsteins í þessu efni!
Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 13:39
Ég vil taka fram að mér hefur alltaf fundist bíræfið, ósvífið og tillitslaust af Hannesi að skrifa ævisögu nýlátins manns í óþökk og ósamkomulagi við ekkju hans og börn. Ég skil vel að fjölskyldan sé afar ósátt við ævisöguskrif einhvers sem þau treysta ekki til starfans.
Ég átti líka von á því að Hannes myndi velta sér upp úr einhverjum tvíræðum sögum og hneykslismálum sem myndu særa fjölskylduna en hugsanlega auka sölu bókanna. Það gerði hann ekki og bækurnar bera með sér takmarkalausa aðdáun hans á söguefninu Halldóri Laxness. Það er út af fyrir sig gott að helsti ljóður á þessum bókaflokk er að sagan er talin of mikil endursögn og of lík þeirri sögu sem Halldór Laxness hefur sjálfur skráð. Það er þá ekki farið mikið rangt með.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.3.2008 kl. 14:41
Evil Money: Sköpun er margs konar og það er allt í lagi að þín listræna sköpun sé persónulegt fyrirbæri og þú sért í tómarúmi. En mikið af þeim andans verkum sem upphefja sál okkar sækja yrkisefni í verk annarra og innlima verk annarra í sín eigin. Oft er þetta færsla milli skynsviða. Þannig eru tónverk og dansverk samin eftir sögum t.d. úr kviðum Hómers eða hetjusögnum. Hin stafræna menning gerir mun auðveldara fyrir alla að semja og endurblanda efni.
Annars bið ég þig að skoða ljóð Megasar og skoða hve oft hann gengur í smiðju til annarra höfunda og skrumskælir verk þeirra. Þannig er ljóðið
"gulir eru straumar þínir hland mitt í skálinni" afskræming á afar fallegu ljóði eftir Hannes Pétursson sem stendur mjög nærri Megasi í aldri. LjóðHannesar byrjar "Grænir eru dalir þínir". Megas stelur og stelur og stelur og skrumskælir. Fyrir það er hann verðlaunaður á dagi íslenskrar tungu. Megas er mikið skáld þó hann leiti fanga hjá öðrum og skrumskæli stundum verk þeirra.
Halldór Laxness stal líka. Hann svelgdi í sig ævisögu skáldsins á Þröm og bjó til úr henni sitt eigið rit. Hann meira segja stal nöfnum sögupersóna, Ásta Sóllilja heitir svo vegna þess að Halldór rakst á þetta nafn í dagbókum Magnúsar. Halldór stal úr skrifum íslenskrar konu til að birta svo til orðrétt í orðastað Rauðsmýrarmaddömunnar. Halldór var meiri plöggari en skáldið á Þröm.
Það hefur hefur alltaf verið hluti af sköpun að vinna með verk annarra og gera þau verk að sínum. Höfundrréttarlög sem ekki taka tillit til þess eru gífurlega hamlandi fyrir alla listræna sköpun og raunar alla orðræðu í samfélaginu.
Það er ef til vill ekkert eftir af menningu í samfélagi ef hún er orðin svo steinrunnin að við henni má ekki hrófla, ekki búa til ný verk úr eldri verkum og það eru stífar takmarkanir á því hvernig fólk má tjá sig og segja sögur.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.3.2008 kl. 15:04
Ég skil hvað þú ert að fara Salvör og samþykki alveg þinn punkt. Eftir sem áður þá er ákveðin lína sem má ekki fara yfir og þín orð skildi ég þannig að þú vildir alveg afmá þá línu, t.d. með orðunum: "...nema það sé með einhverjum opnum höfundarrétti..." "...geta unnið með verk höfunda sem leyfa alveg skrumskæld remix af sínum verkum..."
Þar get ég ekki tekið undir orð þín og tel ennþá að afskaplega fáir muni gera.
Evil monkey, 14.3.2008 kl. 22:15
"Hins vegar verður að fara að lögum varðandi efnistök. Hugsanlega hefur Halldór ekki gert það sjálfur, t.d. skrifaði hann gamla íslendingasögu upp á nýtt, sem kunnugt er."
Og hvað? Hefði höfundur Fóstbræðrasögu átt að fara í mál? Eða erfingjar hans? Nei, höfundaréttur varir í takmarkaðan tíma. Reyndar ærið langan. En eftir þann tíma eru verk í <a href='http://is.wikipedia.org/wiki/Wikipedia:Almenningur'>almenningi</a> og þá má hver sem er gera það sem hann lystir við þau. Og það er hið besta mál.
Haukur (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 23:08
Sæl Salvör.
Ég er sammála skoðun þinni á því að viðfangsefnið og skrifin í andstöðu við fjölskylduna séu bíræfið athæfi.
Hins vegar hefi ég ekki getað séð það enn að mál þetta ætti erindi inn fyrir dyr dómsstóla til að kveða á um
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 15.3.2008 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.