Kona sem kann varla að kveikja á tölvu

Það er sniðugt fyrir þá þjóðfélagshópa sem eru við völd og vilja halda völdunum áfram að fá hina valdalausu í lið með sér. Fá þá til að vinna sjálfa að því að viðhalda valdaleysi sínu. Í gegnum aldirnar hefur aðgengi að þekkingu og námi  og tækni verið forréttindi hinna ríku og valdamiklu og virkar sem öflugt samtryggingarkerfi til að  tryggja þeim áframhaldandi völd.

Í flestum samfélögum er einhvers konar verkaskipting við lýði. Sú verkaskipting fer gjarnan eftir kyni og sums staðar er hún svo fastnjörvuð að  óhugsandi er að konur vinni sum störf eða karlar önnur.

Það þarf að vera blindur til að sjá ekki að oftast eru störfin sem bjóða mesta möguleika til að stjórna og safna auð að mestu mönnuð karlmönnum.  Þegar tæknibreytingar verða sem auka framleiðni þá sjáum við líka breytingu á hverjir vinna verkin, í landbúnaði sjáum við konur yrkja jörðina með handverkfærum á ökrum þriðja heimsins en það eru karlar  sem stjórna vélunum í tæknivæddri framleiðslu nútíma vestræns landbúnaðar.  

MarilynMonroe-YANK1945Það er líka sú verkaskipting víða um heim að það eru eingöngu karlmenn sem fara með stríð á heldur öðrum þjóðum. Þannig var það í heimstyrjöldinni síðari. En þá varð líka þörf á konum til að vinna þau störf sem karlmenn höfðu unnið í atvinnulífinu og tækniframleiðslunni. Mikill áróður var þá  til að ná til kvenna og hvetja þær til dáða við slíka framleiðslustörf. Margir femínistar halda mikið upp á plakötin sem eru áróðursplaköt bandarískra hermálayfirvalda á stríðstímum, það er ekki oft í sögunni sem konur eru sýndar sterkar og öflugar og hvattar áfram.

Ein af þeim konum sem lagði sitt af mörkum var stúlkan  Norma Jeane Dougherty. Hún birtist fyrst opinberlega á mynd 2. ágúst 1945 (sjá myndina hér til hliðar) sem sýndi konur leggja sitt af mörkum til stríðsrekstursins í hergagnaframleiðslu.  Þessi stúlka breytti seinna nafninu sínu í  Marilyn Monroe  og varð táknmynd ekki um sterku konuna sem vinnur á vélunum heldur um ljóskuna  sem sækist eftir peningum og skartgripum og speglar sjálfsmynd sína í augum karlmanna, konuna  sem er kynlífsleikfang karlmanna.


MarilynMonroe-playboy1953Marilyn Monroe er eitt af íkonum menningar okkar og hún birtist okkur eins og menning okkar vill birta okkur konuna og hamra á hver staða hennar er og þroskakostir. Marilyn Monroe varð ekki verkfræðingur eða hugvitsmaður. Hún varð sýningardýr og leikfang. Hún lærði ekki að nota verkfæri. Hún varð verkfæri sjálf.

Marilyn Monroe var íkon í iðnaðarsamfélagi síðustu aldar. Ég hugsa að íkon þekkingarsamfélagins verði öðruvísi en ég held ekki að konur verði þar sýndar sterkar og öflugar og lögð áhersla á tækniafrek og hugvit kvenna.

Ennþá virðast margar konur telja að það sé vert að lýsa því yfir að þær séu ekkert að fylgjast með í heiminum og kunni ekki á einföldustu tæki og séu háðar karlmönnum um aðgengi að tækninni.

Þetta segir fræg leikkona í Morgunblaðinu í dag: 

Leikkonan Angelina Jolie hefur viðurkennt að vera gjörsamlega hjálparvana þegar kemur að tölvu- og tæknimálum og viðurkennir að hún þurfi oft að biðja sambýlismanninn, Brad Pitt um aðstoð þegar hún þarf að kveikja á tölvu.

Þetta kom fram í máli leikkonunnar á kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara á laugardag.

„Eins og Brad veit þá kann ég eiginlega ekki að kveikja á tölvu," sagði Jolie við gesti á hátíðinni.

Því miður er mörgu fólki farið eins og þessari leikkonu og þar er bæði aldur og kyn sterkar breytur. En fólk sem hefur það viðhorf að það sé allt í lagi að kunna ekki á nýja tækni og vera öðrum háðir um eins einfalda hluti og að ræsa tölvur er ekki á neinni sigurgöngu. 

 


mbl.is Kann varla að kveikja á tölvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir frábæran, prósakenndan pistil.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 5.2.2008 kl. 13:34

2 Smámynd: Þórarinn Þórarinsson

Tja, öllu má nú tuða yfir.

Ég er ekkert sérstaklega flinkur að baka, en ég held það hafi mikið meira með það að gera að ég hef ekki nokkurn einasta áhuga á því heldur en að það sé eitthvað sérstaklega tengt við kyn mitt.

Hefurðu nokkuð hugleitt að það sé hugsanlega ástæðan fyrir því að Angelina kann ekki á tölvu, að hún hafi bara ekki mikinn áhuga á slíku.

Þórarinn Þórarinsson, 5.2.2008 kl. 16:32

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Word4Blondes 

Jón Steinar Ragnarsson, 5.2.2008 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband