Starfatorg ríkisins og stjórnmálamennirnir

Það gneistar á milli Árna M. Mathiesen og dómnefndar sem fjallaði um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Þetta minnir mig á lektorsmálið forðum daga þegar bróðir minn sótti um lektorsstöðu í Háskóla Íslands og fékk starfið. Þá ætlaði allt af göflunum að ganga. Tvær stöðuveitingar Össurar iðnaðarráðherra  eru líka gagnrýndar þessa dagana. Þess má geta að Össur var að ég held eini stjórnmálamaðurinn á vinstri væng stjórnmála sem eitthvað andmælti aðför að bróður mínum þegar hann  fékk lektorsstöðuna forðum daga og sýndi Össur með því að hann var víðsýnni en margir aðrir á vinstri væng stjórnmálanna og gat vel unnað þess að pólitískir andstæðingar væru látnir njóta sannmælis. 

Í þá tíð tíðkaðist (tíðkast það kannski ennþá?) að auglýsingar væru bara að nafninu til, auglýsing var höfð þannig að hún passaði eins og skraddarasaumuð föt um þann umsækjanda sem þeir sem stóðu að auglýsingunni vildu sjá í starfinu.

En það er óþarflega harðort og rustalegt hjá hæstvirtum settum dómsmálaráðherra Árna M. Mathiesen að segja dómnefnd hafa skilað gölluðu áliti, lítt rökstuddu og hafi ekki gætt samræmis og hafi misskilið hlutverk sitt. Í greinargerð ráðherra segir:

Það er ráðherrann sem hefur skipunarvaldið og þar með ábyrgðina og hvorugu getur hann afsalað sér. Honum ber að fara eftir eigin sannfæringu í sérhverju máli en ekki sannfæringu annarra. Í þessu tilfelli telur ráðherrann að gallar hafi verið á umsögn dómnefndar sem hafi verið ógagnsæ, lítt rökstudd og innra ósamræmis gætt við mat á reynslu sem hin ýmsu störf gefa....... Greinilegt er að nefndin hefur misskilið hlutverk sitt og telur sig hafa vald sem hún hefur ekki því í 7. gr. reglnanna segir : „Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara“.

Ég tek mikinn mark á áliti dómnefndar (sjá Greinargerð dómnefndar ), ég held að í henni séu sérfræðingar sem njóta virðingar lögmannastéttar og hafa reynslu og innsýn í  störf dómara og hvaða hæfni þarf til slíkra starfa. Ég hef ekki séð neitt sem bendir til að Árni M. Mathiesen hafi sérstaka hæfni til að velja dómara, ekki annað en það að kjósendur á Suðurlandi veittu honum  brautargengi sem tryggði honum ráðherrastól.  En Árni er ráðherra og hann var settur dómsmálaráðherra og hann hefur sem slíkur vald til að skipa héraðsdómara úr þeim hópi umsækjenda sem taldir eru hæfir til að gegna starfinu. 

Sá umsækjandi sem Árni skipaði var dæmdur hæfur. Það er umhugsunarvert að í röksemdurm dómnefndar segir:  "Dómnefnd hefur haft þann háttinn á um árabil, sem athugasemdir hafa aldrei verið gerðar við, að skipa umsækjendum í lok rökstuðnings í fjóra flokka: Ekki hæfur, hæfur, vel hæfur og mjög vel hæfur."

Þetta er ágæt vinnuregla hjá dómnefnd en svona  flokkun á umsækjendum er ekki bindandi fyrir ráðherra, ég er ekki lögfróð en ég get samt ekki ráðið neitt um að svo sé. En það er ekki gott fyrir lýðræðisþróun í landinu ef menn eru valdir í dómaraembætti eftir pólitísku litrófi og ég get ekki séð að það sé starfsreynsla sem beri að meta hátt hjá tilvonandi dómara að hafa verið árum saman aðstoðarmaður ráðherra.  Það er nú vandfundin störf sem er eins nátengt pólitísku argaþrasi. Það er þvert á móti mikilvægt fyrir dómara og reyndar sem flesta embættismenn sem gegna störfum þar sem almenningur þarf að reiða sig á óhlutdrægni þeirra að vera sem lengst frá heiftúðugri stjórnmálabaráttu. 

Það er ágætt að það sé opinská umræða um svona stöðuveitingar og skýrt eftir hverju ráðherra fer og hann ber ábyrgð á þessari embættisveitingu. Það er afar mikilvægt að vönduð vinnubrögð séu við val á þeim sem eru héraðsdómarar og hæstaréttardómarar. Það er afar hættulegt fyrir lýðræði og réttlátt stjórnarfar í landinu ef eingöngu veljast í dómarastörf fulltrúar ákveðinna valdamikilla hópa og aðrir hópar t.d. konur eða nýbúar hafa ekki möguleika á því að komast í slík störf. 

Sú umræða sem nú fer fram um veitingu á ýmsum opinberum störfum er að sumu leyti dæmi um  virkt lýðræði og aðhald með því hvað ráðamenn aðhafast. Að sumu leyti er þessi umræða þó neikvæð, bæði er veist harkalega að æru þeirra sem þó hafa ekkert annað  til saka unnið en sækja um starf  og vera valin í það af pólitískum ráðherra og að sumu leyti þá grefur óvægin umræða undan trausti á stjórnvald. 

Það er mikilvægt að fólk beini gagnrýninni þar sem hún á heima  þ.e. að þeim pólitíska ráðamanni sem tók ákvörðun um ráðningu og það er líka mikilvægt að við virðum að þeir eru umboðsmenn kjósenda og þeirra er ákvörðunarvaldið. Þó mér sér reyndar fyrirmunað að skilja kjósendur á Suðurlandi og skil ekki hvers vegna þeir kusu yfir sig Árna M. Mathiesen og Árna Johnsen þegar miklu skynsamlegra hefði verið hjá þeim að kjósa Guðna Ágústsson og Bjarna Harðarson þá verður við að virða val Sunnlendinga í lýðræðislegum kosningum.

 


mbl.is Segir dómnefnd hafa misskilið hlutverk sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Er ekki bara best að ráðherra ráði þessu og ekkert kjaftæði.  Keep it simple.
Svo kjósa menn bara ráðherrann aftur eða ekki eftir því hvernig hann stendur sig.

Þorsteinn Sverrisson, 10.1.2008 kl. 21:23

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Veitingarvaldið er ráðherrans.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.1.2008 kl. 00:04

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæl Salvör.

Góður pistill.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 11.1.2008 kl. 02:09

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Mer synist thetta mal verda til thess ad thessi domnefnd mun gera meira af thvi ad dæma menn ohæfa, i stad thess ad syna theim tha sjalfsogdu sanngirni ad dæma tha hæfa, uppfylli their lagmarksskilyrdi, thott adrir geri mikid meira en thad.

Thad er midur.

Gestur Guðjónsson, 11.1.2008 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband