Austurvöllur, tjaldstæði bænda

Það er gaman að rekja söguna og tíðarandann  í gegnum ákveðna staði. Ég skoðaði Austurvöll fyrri tíma. Núna glymur þar tónlist og stórar bjórauglýsingar blasa við eins og ég rakti í síðasta bloggi því núna er tími bjórbaróna og neysluhyggju á Íslandi.

Á vefsíðu Dómkirkjunnar rakst ég á þessa skemmtilegu frásögn:

 Austurvöllur var lengi helsta tjaldstæði bænda, er þeir komu verslunarferðir til Reykjavíkur. Hann var og notaður sem hirtingarpláss. Það var t.d. árið 1829, er Húnvetningur nokkur, Sveinn Sveinsson frá Breiðabólsstað í Vatnsdal, og félagar hans tveir, er uppvísir höfðu orðið að þjófnaði, voru að úrskurði Ulstrups bæjarfógeta hýddir opinberlega á Austurvelli. Hýðingu þeirra framkvæmdi böðull bæjarins, Guðmundur Hannesson, sem nefndur var "fjósarauður". Er þetta síðasta hýðing, sem sögur fara af í Reykjavík.(593) Benedikt Gröndal segir frá því í Dægradvöl, að þegar einn af brennivínsberserkjum bæjarins á 19. öldinni, Guðmundur í Traðarkoti lést, hafi annar slíkur berserkur staðið fyrir útförinni, en það var Hróbjartur Ólafsson formaður og sundkappi. Segir Gröndal svo frá: " . . . báru fjórir brennivíns-berserkir líkkistuna yfir Austurvöll augafullir, og duttu allir með hana kylliflatir. Þá var Austurvöllur eintóm flög og djúpar gryfjur, og stöku grastó á milli; þar voru heilar tjarnir á vorin og varla fært yfir." (594) Frydensberg bæjarfógeti mun hafa bannað það árið 1806, að menn bæru "ösku, móköggla eður önnur óhreinindi í kirkjugarðinn eða þann svo kallaða Austurvöll, ellegar á nokkurt kaupstaðarins pláss, heldur annaðhvort niður í fjöru eða á annan afskekktan stað".

Á þjóðhátíðinni 1874 færði borgarstjórn Kaupmannahafnar Íslendingum höggmynd þá, er Albert Thorvaldsen gerði af sjálfum sér. Var ákveðið að setja hana upp á Austurvelli, og þar var hún afhjúpuð á afmæli listamannsins 19. nóvember 1875. Vegna þessa þurfti að gera vellinum til góða. Hann var því sléttaður og tyrfður sumarið áður, lagðir um hann gangstígar og hann loks girtur. (595) Þaðan var þó stutt í sóðaskapinn, því Þjóðólfur segir frá því þetta sama ár, um leið og kvartað er yfir bágu ástandi kirkjuhússins, að það særi tilfinningu hvers þess manns, sem vill, að Guðs musteri sé haldið sem þokkalegustu "að sjá þann óþverra, sem menn eins og gjöra sér að skyldu að safna rjett fyrir framan kirkjudyrnar. Rjett fram undan dyrunum, skammt frá tjörninni, hefur einhver látið bera heilmikið af ösku; rjett hjá eru móhraukar, og svo kúamykja - þetta blasir á móti manni strax og maður kemur út úr kirkjunni, ekki að tala um rusl og óþverra, sem sjá má allstaðar í kringum hana. Þetta er ófyrirgefanlegt skeytingarleysi og bænum til minnkunar. Forstöðumaður kirkjunnar ætti þó að sjá um, að plátzinu í kringum hana væri haldið svo hreinlegu sem mögulegt væri."(596)

Austurvöllur var rammlega girtur allt fram á fjórða áratug aldarinnar og síðast með járngrindum miklum. Snemma skapaðist sá siður, að lúðrasveitir bæjarins nýttu völlinn til að leika fyrir bæjarbúa. Þetta var lengi gert, t.d. er fólk kom frá messu á páskadagsmorgun. En lúðrasveitamönnum varð ekki alltaf auðgengt inn á svæðið. Morgunblaðið birti í október 1921 skoplega frásögn af því, er hljóðfæraleikarar hornaflokkanna Hörpu og Gígju, sem komu að vellinum læstum, urðu að klifra yfir grindurnar og hætta þannig limum sínum og fatnaði. Síðan segir blaðið: "Hugsanlegt er . . . að nauðsyn geti verið á að loka þessum helgidómi (!) fyrir öllu lifandi, svo að ekki verði raskað friði þeim, sem þar á ef til vill að ríkja. En sé það á annað borð leyfilegt fyrir hljóðfæramennina að klifra þarna yfir grindurnar til að skemmta fólki, væri miklu viðkunnanlegra að láta hvorn flokkinn fyrir sig hafa lykil að vellinum, svo að þeir geti gengið þar inn eins og frjálsir menn."(597)

 Á leitarvefsíðu ljósmyndasafns Reykjavíkur má finna margar sögulegar ljósmyndir frá Austurvelli (slá inn leitarorðið Austurvöllur) sem sýna hvernig þar var umhorfs.

austurstraeti16-20-um1900-sigfus-eymundsson
Hér er mynd frá 1900 af hestum í miðbænum.

austurvollur-1920til1930-styttan-thorvaldsen
Hérna er mynd frá 1920-30 sem sýnir rimlagirðinguna sem var utan um völlinn.

Mig minnir að ég hafi einhvers staðar lesið að karakúlféð hafi verið geymt á Austurvelli fyrst eftir að það var flutt til landsins.  

Hvar skyldi styttan eftir Bertil Thorvaldsen vera núna, þessi sem stóð á Austurvelli?

Það virðist hafa verið á tímabili járngrindverk í kringum styttuna og síðan á öðru tímabili járngrindverk í kringum Austurvöll. 

austurvollur-1913ö15-bertil-thorvaldsen-stytta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Styttan af Thorvaldsen er í Hljómskálagarðinum.

Nanna Rögnvaldardóttir, 16.7.2007 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband