Hrafnar og veður

hrafnar

Eftir að ég flutti hingað í Grafarvog í hús við sjóinn þá fór ég að fylgjast betur með fuglum og veðrabrigðum og sjávarföllum.  Ég sé á sjónum hér út um gluggann öldurnar hamast á ströndinni og allur sjórinn hreyfist í bylgjum eftir því hvort það flæðir að eða fellur frá. Núna eru ekki margir fuglar, ég heyri í lóum á kvöldin og stundum í góðu veðri eru gæsahópar  á golfvellinum.

En í stormi  eins og nú er þá eiga hrafnarnir loftið. Ég hef oft tekið eftir að rétt fyrir mikið óveður þegar byrjað er að hvessa verulega þá fljúga hrafnahópar hér með ströndinni, fljúga upp í vindinn margir saman eins og þeir séu að mæla veðurofsann eða eins og þeir séu að leika sér í einhvers konar vindleikfimi. Stundum fljúga þeir framhjá stofuglugganum í stórum hópum eins og núna fyrr í dag, ég reyni stundum að mynda þá en þá er hópurinn floginn eitthvað burt eins og núna áðan, ég náði bara tveimur hröfnum á myndina.

Ég held að hrafnar séu ágætir veðurboðar  hér er pistill um hrafna í smáritinu Blikur á lofti Gamlir veðurboðar og veðurorð sem Sigríður Sigurðardóttir tók saman:


"Í þjóðsögum er talað um hrafn sem spáfugl, hræfugl og jafnvel illan fyrirboða. Hrafnar Óðins skildu mál manna og guða og fluttu honum tíðindi. Hrafnar voru taldir sendiboðar heiðinna guða. Goðsagnakennd frásögn er í Landnámu þar sem segir frá hröfnunum þremur sem Hrafna-Flóki blótaði til heilla áður en hann lagði upp í leit að nýju landi og hvernig þeir fundu Ísland. Flóki tók sér bólfestu í Flókadal í Skagafirði en ekkert er sagt um hvort hrafnar hans réðu því. Hrafnar náðu fljótt það stórum sessi í kristnu trúarumhverfi að fólk tók þá í sátt og sagt er frá fólki sem skildi hrafnamál.

Sá rammgöldrótti séra Hálfdán Narfason (d. 1568) í Felli í Sléttuhlíð var sagður hafa skilið hrafnamál og tók mark á hegðun þeirra. Og það voru fleiri en hann sem hlustuðu eftir krunki hrafnanna. Fólk réði hvað yrði út frá því hvernig hrafnarnir höguðu sér á flugi, úr hvaða átt þeir komu, hvort þeir sneru að manni nefi eða stéli og hvernig þeir höguðu sér í nánd við mannabústaði og búpeningshús.

Ef hrafn lét ófriðlega, gargaði og reifst, var talin von á ókyrru veðri. Flygi hann hátt og léti sig svífa var von á góðu. Ef hrafn settist á bak hrossa eða sauðfjár máttu menn búa sig undir vandræði, mikla kulda, jafnvel hafís og náttúruhamfarir. Ýmsar sögur greina frá gæsku hrafna sem launa þeim vel sem eru þeim góðir. Orðtakið „guð launar fyrir hrafninn“ bendir til að menn hafi talið það góðverk að gera vel við hann. Níu „nóttum fyrir sumar verpir hrafninn, þá kemur hrafnahretið öðru hvoru, þá étur hrafninn eggin þegar hæst er annars verður hrafnamergðin of mikil. Náttúran sér fyrir öllu ótrufluð“, sagði Hróbjartur Jónasson.

Á sauðburðartíma höfðu  bændur varann á sér gagnvart hrafninum því hann sótti í hráa og nýborin lömb. Jón Hallsson sagði Árna Bjarnasyni á Uppsölum að hann hefði tekið mark á flugi hrafna þegar hann fór í eftirleitir á Silfrastaðaafrétt á haustin. Ef þeir flugu á undan smalamönnum inn t.d. Krókárdal, þá voru miklar líkur á að kindur væru þar."

 

Hér er önnur frásögn um Hrafna

Eftirfarandi frásögn birtist í grein eftir Ísólf Pálsson, Lyndiseinkunn fuglanna í Eimreiðin 4. Hefti (01.10.1941)

Hrafn spáir fyrir um veiði

Það var viss veiðivon, er hrafn fylgdi hægfara og þögull með veiðinanni til sjávar. Fór krummi þá oft nærri, þótt maður væri með byssu í hönd, en ævinlega þó kominn í næga fjarlægð er skotið var á sel eða hnísu, og fékk svo oftast vel ætn bita, er að var gert veiðinni, enda þá fljótur til að nálgast og gera vart við sig. Aftur á móti var ávallt víst um fýluför, ef hrafn kom gargandi á móti. Þá brást aldrei, að annaðhvort varð ekki veiðar vart eða tækifærin misheppnuðust alveg.

Hrafn bjargað álftum

Eitt sinn fór ég um morgunn upp að Brattholtsvatni um hau st til að skjóta álftir. Hafði ég ágætan riffil, hlaðinn 6 skotum, sá lengi vel enga álft, en heyrði til þeirra vestur á Kopphólsvatni í Keldnakotsengjum. Kom ég því suðaustan að ninu. Þurrt var um, lágt í vatninu og það mjög bakkahátt. Var þvi auðvelt að komast að vatnsbakkanum og skjóta  á einar tvær álftir með því verkfæri, sem ég hafði.

En þegar nær dró bakkanum, kom hrafn gargandi mjög og fylgdi mér þúfu af þúfu. Þóttist ég vita, að hann væri að benda álftunum á aðsteðjandi hættu, enda vissu þær brátt, að eitthvað var á seyði og forðu sér undan, áður en ég komst í skotfæri. Var það eingöngu krumma að kenna, að ég missti af veiðinni, en einnig honum að þakka, að álftirnar héldu lífi.

Hrafn bjargar litlum kópi

 

Það var um hábjartan sumardag, að ég kom utan af sjó bliðu veðri og lenti vestan á Baugstaðarifi. Stórstreymt var og fjara og lítið um afla þann morguninn. Gekk ég þá inn á rifið — framundan „Markakletti". Sá ég þá, að dálítill kópi lá upp á naddi einum austur í lóninu, sem liggur innan við rifið - Það var nær 200 faðma færi til hans, og vissi hann ekkert af mér, því stórgrýtisurð bar lika á milli. Ég fór mér hægt, og taldi mér kópann vísan með rifflinum mínum. En þegar ég er nær því kominn á þann stað, er ég áleit vel hentan að skjóta  þá kemur allt í einu hrafn, flýgur yfir kópa og hamast svo með gargi og lappafálmi yfir honum, að kópinn varð hræddur og hrökk út í sjó.

Síðan fló krummi burtu aftur. Eflaust hefur hann vitað, að þar var hætta á ferð, sem ég var, og varaði við henni. í þetta sinn tók krummi upp háttu veiðibjöllunnar, en hún var okkar mesti meinvættur með þvi að fæla seli ofan af skerjum og söndum, er þeir voru í hættu staddir. Gerðu þær oft versta óleik með þessu. Að þessu sinni boðaði hrafn hættu, en ég veit einnig dæmi þess, að hrafnar boði sorg.

Hrafn boðar sorg

 

Það var veturinn 1883, á vertíð, að hrafn sat mjög leng1 dags austur á túngarði, mjög lúpulegur og lét annan vænginn lafa niður með garðinum, líkt eins og vængurinn væri brotinn. Gott veður var og sólskin. Fá orð hafði móðir min um þetta, ef ég man rétt, en oft leit hún austur á garð til krumma, og það einnig svo seint, að hún sá hann sitja kyrran fram í myrkur. Ég sá henni nokkuð brugðið, en spurði einskis enda ungur og ekki með alvarlegar hugsanir. En svo mikið var víst, að veðurblíðan fór af, og ofsaveður skall á. Í því veðri urðu úti tvær konur okkur nákomnar og einnig Ólafur frá Dísarstöðum með skipshöfn allri, þá frá Þorlákshöfn (22. marz 1883).

Ekki fannst mér móður minni koma á óvart hið hörmulega slys, er konurnar urðu úti, en fátt mun hún hafa tekið sér svo nærri sem það. Svo var það veturinn 1887 skömmu fyrir slysið 24. febrúar þann vetur, er faðir minn og bróðir fórust í lendingu í Þorlákshöfn, að tveir hrafnar sátu á líkum stað á sama garði hengdu niður annan vænginn og görguðu stundum saman mjög einkennilega og dapurlega og höguðu sér allólíkt því, sem hrafnar eru vanir að gera. Víst var, að þeir sátu fram l myrkur og görguðu öðru hvoru á hinn sama einkennilega hátt.

Ég man, að þetta hafði undarlega leiðinleg áhrif á mig, og móðir mín tók ekki síður eftir háttum þessara fugkiYfirleitt var það algengt, að menn tækju allmikið mark á háttum hrafna og þótti af því, hvernig þeir höguðu sér, mega ýmislegt ráða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband