11.3.2020 | 09:15
Covid-19 smit á Íslandi (81), NYC (36) og Westchester (108)
Það eru 81 greind smit af Covid-19 á Íslandi, öll nema tvö á höfuðborgarsvæðinu að ég held. Það eru 108 greind smit í sýslunni Westchester County í New York fylki. Þar er borgin New Rochelle. Það býr um ein milljón í Westchester County eða þrisvar sinnum fleiri en á Íslandi eða á höfuðborgarsvæðinu hérna.
Í New Rochester borg þar sem búa 77 þúsund manns er allt að verða brjálað, búið að loka öllum skólum og ræsa út þjóðvarðliðið og að ég held einangra hverfið og skilgreina það sem "containment area" í hálfan mánuð.
Aðeins er búið að greina 36 smit í New York City en talið er að í New Rochester séu helmingi fleiri smit.
Hörð viðbrögð í NY en lítil á Íslandi
Það er erfitt fyrir okkur hér á Íslandi að átta okkur á hvers vegna brugðist er svona kröftuglega við smitinu í New Rochester, það virðist ekki mikið meira en greint smit er á höfuðborgarsvæðinu hérna á Íslandi. Hér á Íslandi er ennþá talað um það að halda íþróttaviðburði seinast í mars og talað um það með mikilli gleði í fréttum að tveir íslenskir íþróttamenn komi nú frá norðurhéruðum Ítalíu (hvernig tókst þeim að smygla sér þar út, er ekki allt lokað þar?) og nái að koma hingað til að fara í sóttkví í 14 daga eins og allir frá Ítalíu þurfa svo þeir geti spilað með liðinu. Það er skrýtin þessi áhersla á íþróttaviðburði og tengsl Almannavarna við það.
Ég get ekki annað ályktað á þessum tölum um smit og fólksfjölda og í samanburði við önnur lönd annað en viðbrögð Almannavarna á Íslandi eru allt, allt of væg, miðað við fjölda smitaðra þá hafa alla vega önnur ríki gripið til miklu harðari aðgerða. Þar sem ég er í hópi þeirra sem eru yfir 60 ára og með undirliggjandi sjúkdóma og að mér virðist í hópi þar sem eru amk 3-4% dánarlíkur þá get ég ekki annað en hugleitt þetta og velt fyrir mér hvaða gögnum íslenskir viðbragðsaðilar fara eftir og hvers vegna aðgerðir eru mun mildari hér en víða erlendis. Ég tek samt fram að mér finnst mjög margt gott í hvernig er staðið að málum hérna, sérstaklega hvað varðar þá sem koma frá skíðasvæðunum. Sem nota bene frekar fátt tilheyrir hópi þeirra sem eru aldraðir og með marga undirliggjandi sjúkdóma.
Dánartíðni Covid-19 fyrir þá sem eru 60 ára og eldri er mjög mikil samkvæmt kínverskum tölum.
Smit gríðarlega mikið á Íslandi
Hér er ný tölfræði yfir greind Covid smit per 100.000 íbúa í Íslandi og öðrum löndum þar sem smit mælist hæst í dag 11. mars 2020.
Heimildir https://daton.is/covid19/ og
https://en.wikipedia.org/wiki/2019%E2%80%9320_coronavirus_outbreak
Ísland 22.24
Ítalía 16.85
Suður-Kórea 14.98
Íran 9.66
Noregur 7.58
Kína 5.84
Tíðni greindra covid-19 smita á Íslandi er óhemjuhá og skýringin getur ekki verið eingöngu að heilbrigðiskerfið sé svo duglegt að greina þó það sé vissulega auðveldara hérna að hafa yfirsýn yfir leiðir Íslendinga (og þar með smitleiðir sem berast með Íslendingum) milli landa gegnum flug. Ég hef heyrt veirufræðinga (Kári) segja að líklega sé smit á Íslandi mjög vangreint og það virðist reyndar lítið að marka tölur frá öðrum löndum t.d. Ítalíu, smitið er miklu meira sb. allt skíðafólkið sem hingað kemur smitað frá svæðum þar sem ekkert smit hafði greinst.
Að sama skapi og viðbrögð hér á Íslandi eru furðulega lítil (ekki einu sinni lokað skóla þó nemandi hafi greinst í gær) þá eru viðbrögðin í New York fylki furðulega hastarleg. Það er sennilega vegna þess að svona upphéruð eins og New Rochelle eru svefnhverfi frá Manhattan og það er skiljanlega gífurleg hræðsla við að veikin breiðist út í New York.
Hvað gerist ef smit breiðist út í NYC?
Ég get hins vegar ekki séð annað en það hljóti að gerast að pestin breiðist út um borgina, líf New York búa er svo samtvinnað og svo margir (allir) nota almenningssamgöngukerfi og það er á vissum tímum yfirfullt. Fólk borðar á veitingastöðum og það eru ótal margar smitleiðir þar sem fólksmergð er svona mikil. Svo eru margir fátækir og líka ólöglegir og óskráðir og hafa ekki heilbrigðistryggingu og munu ekki leita læknis eða aðstoðar.
Í New York borg eru mörg hverfi sem eru tengd ákveðnum hópum og samfélagi sem er skilgreinir sig kannski ekki sem Ameríku Trumps. Þannig er Harleem svæði þeirra sem koma frá Suður-Ameríku og í New York eru mörg Kínahverfi, hverfi þar sem kínverska er töluð og allar verslanir eru kínverskar. Það getur verið og það er mjög líklegt að ef mikill órói, ótti og spenna myndast vegna faraldurs að það beinist gagnvart einhverjum hópum og kannski borgarhverfum.
Þess má geta að New Rochelle einangrunin er þannig að bænahús Gyðinga er í miðju hringsins sem myndar einangrunarsvæðið í borginni, smitið kom upp og breiddist út þegar rabbíi og fjölskylda hans smitaðist.
Update
Það eru komnir 90 með smit á Íslandi. Það hafa yfir 800 verið skimaðir.
Það hafa ekki nema 5000 verið skimaðir í USA. Það er eiginlega út í hött.
81 smit staðfest á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.