Hundaflautustjórnmál

48490970081_9bf39495ce_z

Trump forseti Bandaríkjanna  kemur sífellt á óvart. Síðast með mynd af sér og frúnni skælbrosandi með munaðarlaust barn í El Peso. Í myndmáli þeirrar ljósmyndar skín sjálfhverfni og samúðarskortur forsetans út úr hverjum skugga.

En þolgæði bandarísku þjóðarinnar kemur ennþá meira á óvart. Hvernig er hægt að þola svo lengi á valdastóli persónu sem gerir nánast allt andstætt við það sem er siðleg vinnubrögð og virðing fyrir fólki og umhverfi. Persónu sem eys sjálfa sig lofi við hvert tækifæri og býr til eigin sannleika sem er alveg á skjön við gögn. Orðræða hans veldur hroll og viðbjóð hjá mörgum en hann hirðir ekki um það því hann er ekki að tala til fjöldans. Hans orðræða er eins og hundaflauta sem á ekki að ná til alls almennings heldur eingöngu þeirra sem hann veit að styðja hann fyrir og eru líklegir til að styðja hann í næstu kosningum. 

Orðræða Trumps er oft sjálfshól. En hún er líka oft áróður þar  sem  hamrað  er á að ákveðinn minnihlutahópur sé orsök glæpa og samfélagsupplausnar og fólk sem tilheyrir þeim hópi er líkt við einhvers konar óværu sem verði að uppræta og útrýma. Donald Trump notar oft orðið "infestation" þegar hann talar um fólk sem er dökkt á hörund og innflytjendur.

Margir benda á þetta og vara við hættu sem stafar af slíkri orðræðu:

“Donald Trump has tweeted more than 43,000 times. He’s insulted thousands of people, many different types of people. But when he tweets about infestation, it’s about black and brown people.”

 “When Trump speaks of immigrants ‘infesting’ America, he speaks in the language of genocide, not governance. By likening people to insects or vermin, even if he considers them criminals, he provides himself license to be an exterminator. We know that story.”

Það er áhugavert að bera orðræðu Trumps og þá miðla sem hún fer fram í saman við orðræðu á uppgangstíma nasista í Þýskalandi og orðræðu á tímum þjóðarmorðsins í Rúanda. Ekki af því að stjórn Trumps sé orðin slík ógnarstjórn núna heldur til að vara við hvað getur gerst ef slík orðræða valdhafa glymur yfir langan tíma. Í  Þýskalandi og Rúanda var útvarp ahrifamikill miðill. Nú er útvarp ekki áhrifamesti miðillinn, núna eru samfélagsmiðlar og sjónvarpsupptökur áhrifameiri. Sérstaklega virðast margir fylgjast með orðræðu forsetans á Twitter.

Fyrir tíu árum skrifaði ég bloggið Byltingartólið Twitter og morðið á Rodrigo Rosenberg og setti fram svona kenningu um byltingar framtíðar:

Ég held að hér eftir verði engin árangursrík  bylting framkvæmd í neinu landi nema með samhæfingu í gegnum svona tæknimiðla. Ég er þá ekki að tala um byltingu með blóðsúthellingum heldur byltingu sem er andóf og meira andóf og boðskipti gegnum ýmis konar tæknimiðla. Það skildi aldrei fara svo á næstu misserum að við vísum til byltinga með því að spyrja "Hvaða hash tag var á þeirri byltingu?"

Þegar ég lít yfir vettvanginn núna áratug seinna og reyni að meta hvaða byltingar hafa farið fram með aðstoð Twitters og tæknimiðla þá eru það ekki byltingar þar sem valdhöfum er steypt í ríkjum langt í burtu. Það eru byltingar eins og #metoo byltingin sem breytti orðræðunni í heiminum og þar er twitter byltingin í Bandaríkjunum undir merkjum Donald Trumps sem breytti bandarískri stjórnsýslu í eitthvað sem ég get ekki lýst og veit ekki hvar endar.

Nokkrir tenglar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband