4.5.2007 | 15:36
Rasphús Ríkisins
Það er verið að stækka og auka við fangelsi á mörgum stöðum á Íslandi. Það er kannski fylgifiskur góðærisins og liður í að grynnka á biðlistunum - biðlistum eftir að fá að afplána dóma fyrir afbrot.
Einhvers staðar verða vondir að vera. En það er afar óskynsamlegt að koma þeim fyrir við aðstæður þar sem þeir verða ennþá verri. Stór hluti (meirihlutinn?) þeirra sem nú gista fangelsi Islandi eru þar vegna fíkniefnabrota - í mjög mörgum tilvikum eru það fíklar sem hafa leiðst á þessa glapstigu vegna neyslu sinnar eða umkomulaust fólk sem er burðardýr og leiksoppar dópsala. Rannsókn sem var kynnt nýlega bendir til að margir fangar eigi við einhvers konar geðraskanir að stríða.
Hvernig sem á málið er litið þá er engin skynsemi í öðru en horfa á fangelsismál í samhengi við lífshlaup fanga eftir að refsivist lýkur en ekki einangraðan stað þar sem framtíðin skiptir ekki máli. Það er því miður margar, margar sögur af því hvernig fangelsin hafa verið sá staður sem steypti fólki út á glæpabrautina, þar myndaðist vina- og tengslanet aðila sem voru í sömu aðstæðum og sama lífsmynstri. Það var líka nýlega birt skýrsla um heimili unglinga í vandræðum og óreglu sem komið var fyrir í Háholti í Skagafirði. Unglingarnir létu vel af dvölinni en rannsóknin sýndi að 90% þeirra voru komnir aftur í óreglu fljótt eftir að þeir útskrifuðust af heimilinu. Það er sennilega flestum í fersku minni umræðan sem varð um unglingaheimilið á Breiðuvík og við höfum fengið að sjá hvernig dvöl þar lék drengina og merkti þá fyrir lífstíð og sumir þeirra pendla núna út og inn úr fangelsum.
Það er hægt að setja marga mælikvarða á gæði fangelsa.
Einn mælikvarði er hversu víggirt þau eru og hve erfitt er fyrir fangana að sleppa út og hve örugg við sem erum utan fangelsisins um að fangarnir gangi ekki lausir. Annar mælikvarði er hvernig föngunum líður á afplánunartímanum og hve vel mannréttindum er sinnt í fangelsinu og hvaða tækifæri fangarnir hafa til að taka sig á og bæta sig og halda sambandi við fjölskyldur sínar. Þriðji mælikvarðinn er hversu vel föngunum gengur að halda sig frá afbrotum eftir að fangelsisdvöl lýkur og hve nýtir þjóðfélagsþegnar þeir verða. Það er alveg nauðsynlegt að safnað sé gögnum um árangur og eða árangursleysi fangelsisdvalar og metið á einhvern hátt hvort þeir valkostir sem við höfum nú í fangamálum eru líklegir til að búa til forherta afbrotamenn úr smákrimmum.
Ég skrifaði pistil árið 2005 á málefnin.com í kjölfar umræðu sem þá var í Kastljósinu hjá Rúv um málefni fanga. Ég lími þennan pistil hér inn:
Kastljósið er búið að vera með ágæta umfjöllun um fangelsismál núna tvö kvöld í röð. Vonandi vekur þetta fólk til umhugsunar um þetta mikilvæga mál þ.e. hvað er að gerast í fangelsunum, hvernig er líf fanga og tengsl þeirra við fjölskyldur sínar og að hvaða leyti virka fangelsin sem betrunarhús. Ég vil hrósa Kastljósinu fyrir að hafa komið með bæði sjónarmið fanga og fangavarða og haft viðmælendur úr báðum hópum. Vonandi vekur þetta líka fólk til umhugsunar um hvernig fangelsin endurspegla þjóðfélagið og hvað þeim sem völdin hafa finnst vera glæpur og hverjum er refsað. Það er auðvelt að sjá flísina í auga náunga síns en koma ekki auga á bjálkann í sínu eigin auga. Þannig sjáum við að refsivist í öðrum löndum er einkennileg og virðast ákveðnum þjóðfélagshópum refsað meira en öðrum - þannig eru fangelsi í Bandaríkjunum full af ungum blökkumönnum - þannig er fólk af skrítinni trú eins og Falun Gong í fangelsum í Kína og þannig er fólk víða um heim í fangelsi vegna stjórnmálaskoðanna sinna. Hér á Íslandi er svo komið (það kom fram í Kastljósinu) að þriðjungurinn af þeim sem sitja í fangelsi eru þar vegna fíkniefnabrota og eru í mörgum tilvikum fíkniefnaneytendur og alkóhólistar sjálfir.
Það eru góðar upplýsingar um fangelsismál á Íslandi á vefsetrinu www.fangelsi.is og þar má m.a. lesa ársskýrslur fangelsismálastofnunar. Sú nýjasta á vefnum er frá 2003. Þar kemur fram að framlag til fangelsismála er yfir 600 millj. eftir að tekið hefur verið tillit til sértekna og það er að langmestu leyti (um 70%) launakostnaður. Fangar eru vistaðir í 42.222 daga í fangelsum, utan fangelsana voru vistunardagar 6.188 þar af um 3/4 á Vernd. Ef tekið er tillit til launakostnaðar við yfirstjórn og eingöngu litið á rekstrarkostnað við fangelsin sjálf og það skoðað og borið saman við fangelsisdaga þá sýnist mér að hver dagur sem fangi er í fangelsi á Íslandi hafi árið 2003 kostað íslenska skattborgara yfir 14 þúsund krónur eða yfir 420 þúsund á mánuði. Sennilega er þessi tala mun hærri núna tveimur árum seinna.
Út frá öllum skynsemis- og mannúðarsjónarmiðum er ástæða til að skoða vel valkosti í fangelsismálum. Borgar það sig virkilega fyrir íslensku þjóðina að loka fólk inni í langan tíma, borga fyrir það nálægt hálfri milljón á mánuði og láta það forherðast svo mikil að eftir vistina komi fólkið ennþá skaddaðra út?
Eru ekki einhverjir aðrir betri kostir í fangelsis- og betrunarmálun en að byggja fleiri og víggirtari og stærri fangelsi? Er ef til vill skynsamlegt að skoða þessi mál alveg upp á nýtt, af hverju er ekki hægt að nota sömu hugmyndafræði við fangelsi og við annað fólk sem einu sinni var staflað saman á stofnunum? Núna er t.d. mikið fatlað og þroskaheft fólk á litlum sambýlum - af hverju er ekki hægt að hafa örlitlar betrunarhúsaeiningar t.d. staðsettar út í sveit? Það er rándýrt að vista fólk á þessum fangelsum sem við höfum í dag og það er ómanneskjulegt umhverfi.
Ég bið fólk að kynna sér sögu brotamanna t.d. Vatnsberans. Hér er bloggpistill sem ég skrifaði um það mál árið 2002.QUOTE1.8.02 Salvor Gissurardottir
Íslensk sakamál - Vatnsberamálið
Ég horfði á þáttinn Íslensk sakamál í sjónvarpinu í gær, þessi þáttur var um Þórhall Ölver og Vatnsberamálið. Þetta er stórkostlega vel gerður þáttur, ég held ég bara muni ekki eftir að hafa séð svona áhrifaríkan og magnaðan íslenskan heimildaþátt áður. Vakti mig til umhugsunar um hvers konar örlagaþræðir tengja atburði saman og hvernig refsing og fangelsisdvöl geta brotið fólk niður og búið til skrímsli úr svikahröppum.
Þátturinn náði langt út fyrir að fjalla bara um sjálft sakamálið sem var morð Þórhalls á Agnari þann 14. júlí 2000. Þátturinn hófst á því að rekja hræðilega skotárás sem móðir Þórhalls og hann sjálfur lentu í þegar hann var unglingur og leitast var við að sýna hvaða áhrif sú reynsla hafði á hvernig Þórhallur brást síðar við á lífsleiðinni. Svo fjallaði þátturinn líka um íslensk atvinnulíf á ákveðnum tíma og hvernig erlendir og innlendir gullgrafarar og svikahrappar reyndu að búa til peninga úr engu og um afar litríkan og brösóttan feril Þórhalls í framkvæmdum, fjárglæfrum og fjársvikum. Þórhallur fékk árið 1995 einn þyngsta fangelsisdóm sem kveðinn hefur verið upp hérlendis fyrir auðgunarbrot en hann var dæmdur til 3 ára fangelsisvistar.
Þórhallur Ölver var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Útflutningsfyrirtækisins Vatnsberans hf., sem var stofnað til að undirbúa útflutning á vatni. Agnar vann í bókhaldinu hjá því fyrirtæki. Fjársvikin voru framin á árunum 1992-1994 á þann hátt að skilað var vikulega röngum virðisaukaskattskýrslum.
Þórhallur Ölver krækti víða í fé, m.a. fékk hann töluvert fé frá Ábyrgðarsjóði launa vegna orlofs sem Vatnsberinn hefði átt að greiða honum, hann mun hafa hafði rætt við starfsmann sjóðsins og þá m.a. lýst því yfir að Vatnsberinn væri líknarfélag sem menn störfuðu fyrir af hugsjón. Allt féð sem svikið var út virðist hafa farið í umsvif Vatnsberans nema að Þórhallur segir að Agnar hafi komið undan fé og lagt á reikning í útlöndum, það var rót að misklíð þeirra og vígi Agnars.
Þórhallur og Agnar voru vinir. Atli Helgason og Einar Örn voru líka vinir og ráku saman fataverslun í Reykjavík. Atli var skiptastjóri í dánarbúi Agnars og sagði að í því búi hafi ekki verið sá erlendi sjóður sem Þórhallur segir Agnar hafa skuldað sér. Atli var nokkrum mánuðum seinna ákærður fyrir manndráp og fjárdrátt, m.a. fjárdrátt úr búi Agnars. Atli banaði Einari Erni 8. nóvember 2000 með því að slá hann margoft í höfuðið með hamri á bifreiðastæði í Öskjuhlíð í Reykjavík. Hann faldi líkið í Grindavík og tók sjálfur þátt í leitinni að Einari Erni.
Rúmu ári seinna eða 18. febrúar 2002 var Þór Sigurðsson á ferð um nótt á Víðimel vopnaður sveðju, slaghamri og kjötexi. Hann var í vímu og að koma úr innbrotsferð á fyrrum vinnustað sinn Hjólbarðaviðgerð Vesturbæjar og banar Braga Óskarssyni sem er að koma úr vinnu. Ekki er vitað til þess að þeir hafi þekkst.
Sennilega afplána þessir þrír morðingar núna refsingar sínar á fangelsinu á Eyrarbakka, þeirra afbrot eru stór og morðin óhugnanleg. Spurning er hvernig manneskjur þeir verða þegar þeir hafa afplánað og hvort þeir fá einhver tækifæri til að bæta fyrir glæpi sína og byggja sjálfa sig upp meðan á afplánun stendur. Þeir voru í áfengis- og fíkniefnaneyslu þegar morðin voru framin.
Það var viðtal við aðstandendur Þórhalls í þættinum í gær og það kom fram hvernig fangelsisdvölin fyrir fjármálabrotin hafði brotið Þórhall niður og hve óttaslegin þau eru um hvað tekur við eftir þegar hann hefur afplánað.
Unnið að stækkun fangelsis á Kvíabryggju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.