17.4.2007 | 19:38
Annað líf í Netheimum
Það gekk ekki þrautalaust að setja upp Second Life á vinnutölvunni. Ég var búin að hlaða því inn heima í gærkvöldi og búa til kall sem sprangaði um í sýndarheimi og það gekk bara vel. Svo puntaði ég kallinn og klæddi hann í bleika skó og hvítar nærbuxur og grænt vesti og gerði hann massaðan og álfslegan. Ég tók eftir að þeir sem voru að reika um í Second Life á sama tíma og ég í gær voru líka mikið að klæða upp kallana eða kellingarnar sínar og máta þau við ýmis konar gervi í þessum gerviheimi. Stundum klæddu þeir verurnar úr fötunum og svo breytist karlmaður skyndilega í konu og kona í karl. Það tók dáldinn tíma að læra að hreyfa vélveruna (avatar) í þessum heimi og ég festist í gær inn í einhverjum hellisskúta.
Einn af þeim sem reikaði um gaf sig á tal við mig og það kom í ljós að við vorum bæði þarna í fyrsta skipti svo ég notaði bara tækifærið og gerði hann að vini mínum. Það er áríðandi í nýjum og framandi heimi að koma sér strax upp vinaneti og þeir sem eru í sömu sporum eru ágætir vinir - í fyrstu átti ég ekkert sameiginlegt með neinum nema vera bæði nýkomin inn í heiminn. Svo gerði ég smátilraunir með eitthvað sem heitir Teleport en það þýðir að maður getur galdrað sig á milli staða. Ég gerði þessa tilraun með nýja Second Life vini mínum, vinir geta boðið manni á einhvern stað, það er sniðugt ef hópur ætlar að hittast og halda samkomur í netheimum.
Klukkan fimm í dag ætlaði ég í leiðangur í Second Life með öðrum áhugamönnum um netleiki í skólastarfi en það gekk illa því að ég fékk Second Life ekki til að tengjast á vinnutölvunni. Ég hélt fyrst að það væri út af Windows Vista en svo fann ég upplýsingar á Netinu um eitthvað sem heitir "proxy tunneling" og mig grunaði að það væri vandamálið að tengingarnar í háskólum hérna séu þannig að ekki gangi að tengjast netleikjum/netumhverfi eins og Second Life og World of Warcraft. Ég fann upplýsingar um Second Life through a proxy
og þegar ég var búin að hlaða niður öllu því dóti sem þarna er sagt , skrá mig inn á freedom.net og stilla alls konar dót þá ræsti ég Second Life aftur og þá virkaði það fínt. Reyndar ekki með miklum hraða því þessi hjáleið byggir á bandvíddinni hjá vélunum sem maður tengist og maður fær ekki nema litla bandvídd.
Það er alltaf oftar og oftar sem lokaða tölvuumhverfið í skólunum er orðið til trafala.
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 19:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.