15.4.2007 | 19:04
Teljarablogg: Abu Mohammad og kona hans
Ég er haldin einhvers konar teljaraþráhyggju á háu stigi. Ég þarf alltaf að vera að telja og mæla allt sem fyrir ber eða sem ég les í blöðum. Ég má ekki sjá svani á flugi, gæsir í túni eða lóur í móa án þess að byrja að áætla hvað það séu margir fuglar.
Svo hef ég oft þörf fyrir að telja það sem alls ekki er ætlast til að maður telji - svona eins og til að leita að földum mynstrum í orðræðu og skynjunarheimi okkar. Þetta háir mér verulega, ég gat til dæmis ekki alveg lifað mig að fullu inn í raunir fjölskyldu Abu Mohammad sem stjörnublaðamaðurinn Davíð Logi segir okkur frá vegna þess að ég var alltaf að telja. Ég var að telja hversu oft Davíð Logi nefnir heimilisfaðirinn á nafn og hversu hann nafngreinir eiginkonuna. Í vídeóklippinu á mbl.is hef ég fundið það út að eiginmaðurinn Abo Mohammad er er nafngreindur 5 sinnum (að ég held á sömu mínútu) en eiginkonan er einu sinni nefnd og þá hefur hún ekkert nafn, til hennar er vísað með orðalaginu "kona hans".
Svo mikil er þráhyggja mín að ég stóðst ekki mátið og taldi líka hversu oft eiginmaðurinn og eiginkonan eru nefnd á nafn í Morgunblaðsgreininni á blaðsíðu 14. Mér telst til að eiginmaðurinn Abu Mohammad sé þar nafngreindur 18 sinnum en eginkonan Abd Al-Yima einu sinni í fyrirsögninni. Síðan er þrisvar sinnum í löngu greininni vísað til hennar sem "konan hans". Svo mikið er lagt upp úr að nafngreina manninn að við fáum að vita um tvö nöfn á honum við fáum að vita "Dhia a Hammoodi sem jafnan er kallaður Abo Mohammad".
Þetta er ekki saga af írakskri fjölskyldu. Þetta er hetjusaga af karlmanninum Abu Mohammad og saga sögð út frá sjónarhóli hans og lýsir væntingum hans og viðhorfum og hugsunum vel.
Þetta er ekkert verri saga fyrir það. Hinar sögurnar þarf bara að segja líka. Þær eru oftast ósagðar sögur.Mér líður miklu betur með þessa teljaraþráhyggju núna þegar ég er búin að sjá á moggablogginu að ég er ekki ein með þetta vandamál. Sérstaklega virðast aðrir femínistar líka vera í talningunum og svo eru einstaka aðrir farnir að telja.
Tvær milljónir Íraka hafa flúið land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.4.2007 kl. 08:30 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er rétt hjá þér, þegar ég horfði á þetta myndband, eftir að hafa lokið við gerð þess hugsaði ég með mér, að ég nefndi Abo Mohammad of oft á nafn, það truflar ryðmann í frásögninni pínulítið. Skýringin er að vísu sú, að textinn var upphaflega lengri; en við styttum hann þegar við klipptum saman mynd og hljóð. Þá hefur greinilega farið út millikafli milli nafngreiningar...
Varðandi þá ábendingu, að það þurfi að segja sögu kvennanna líka, vek ég athygli á að mikill meirihluti viðmælenda í greinum í Mogganum eru konur. Það vill bara svo til, að í þessum hluta var það Abo Mohammad sem var til svara.
Davíð Logi Sigurðsson, 15.4.2007 kl. 19:38
Þetta er rétt hjá þér, þegar ég horfði á þetta myndband, eftir að hafa lokið við gerð þess hugsaði ég með mér, að ég nefndi Abo Mohammad of oft á nafn, það truflar ryðmann í frásögninni pínulítið. Skýringin er að vísu sú, að textinn var upphaflega lengri; en við styttum hann þegar við klipptum saman mynd og hljóð. Þá hefur greinilega farið út millikafli milli nafngreiningar...
Varðandi þá ábendingu, að það þurfi að segja sögu kvennanna líka, vek ég athygli á að mikill meirihluti viðmælenda í greinum í Mogganum eru konur. Það vill bara svo til, að í þessum hluta var það Abo Mohammad sem var til svara.
Davíð Logi Sigurðsson, 15.4.2007 kl. 19:38
Já hún er smitandi þessi teljaraárátta. Ég var til dæmis rétt í þessu að skoða hlutfallið á framsóknarmyndunum þínum og niðurstaðan er sú að það sjást sirka 74 konur á myndunum á móti 101 karlmanni, sem þýðir væntanlega að karlmenn séu fleiri og betri framsóknarmenn en konur...........
Jón Bragi (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 17:32
Já, þetta kom mér verulega á óvart þegar ég byrjaði að starfa í Framsóknarflokknum. Þetta er karlaflokkur þrátt fyrir að konurnar séu mjög sýnilegar og í forustu. Ég gleymi ekki þegar ég kom á fyrsta félagsfundinn í Reykjavík norður, ég hélt ég væri eitthvað að ruglast, hefði farið á vitlausan fund. Það voru allt karlmenn á fundinum nema þrjár konur og var ein í kaffinu, ein var kærasta Guðjóns Ólafs og kom með honum en ein kom á eigin vegum. Ég hugleiddi hvað í ósköpunum ég væri að vilja þarna, mér fannst og finnst einnþá umhverfið í grasrótinni í Reykjavík norður mjög óhliðhollt mér og öllum konum. Ég hef nú ekki heldur fundið grasrótina þar. Samt veit ég að það eru margar sterkar konur í Framsóknarflokknum og ég er ein þeirra.
Ég varð ekkert hissa á að Framsóknarflokkurinn er ekki tilbúinn til að kjósa konu í forustusveit nema svona upp á punt sem ritara en hvorki sem formann né varaformann þegar ég sá hverjir voru á aðalfundi flokksins.
Ég held að ein ástæðan fyrir að Framsókn er karlaflokkur sé að þetta er flokkur sem hefur völd. Karlmenn hafa lag á að hrifsa til sín völdin og beita konunum fyrir sig til að draga vagninn ef með þarf (sb. Ingibjörgu Sólrúnu í áttunda sæti)
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.4.2007 kl. 19:19
Er það karlmönnunum að kenna að konur mæta ekki á fundi og nota atkvæðisrétt sinn til þess að koma körlum að? Og að öðru. Á að fjalla um veruleikan einsog hann er, eða eiga fjölmiðlar að láta líta svo út að það sé jafnrétti þ.e. jafnmörg viðtöl og fréttir af karlkyns stjórnmálamönnum og konum, jafn mörgum konu- og karlaforstjórum osfrv.? Ef þú hefðir verið meðvituð blaðakona hér í Svíþjóð þá hefðir þú að sjálfsögðu séð til að kynjahlutfallið væri hnífjant á myndunum! Það var gerð kynningarmynd um fyrirtækið þar sem ég vinn og þegar maður skoðar hana fær maður á tilfinninguna að konur séu þar jafn margar og karlar og í sömu störfum þó að veruleikin sé sá að 80% eru karlmenn og konurnar séu í hefðbundnum kvennastörfum þ.e. í launadeild, símasvörun osfrv. En hér í Svíþjóð eru menn orðnir svo skíthræddir við gagnrýni um kynja- og kynþáttamismunun að þeir þora ekki að gera auglýsingar og annað án þess að allt sé politiskt korrekt. Hvað finnst þér? Á að birta veruleikan einsog hann er eða einsog sumir vilja að hann líti út? Þegar ýmis gögn og fjölmiðlar verða skoðuð í framtíðinni fá menn þá ekki ranga hugmynd af þeim veruleika sem þá var og erum við þá ekki að gera okkur sek um sögufölsun?
Jón Bragi (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.