Ástandið í Bolungarvík

Ég hef fylgst með Vestfjörðum alveg frá því systir mín flutti þangað þá nýútskrifuð úr Kennaraháskólanum. Hún réði sig sem skólastjóra í Holt í Önundarfirði, þar var þá lítill sveitaskóli fyrir bændasamfélagið í firðinum. Svo kynntist hún Jóa sem bjó hinu megin við Breiðadalsheiðina á bóndabæ inn í Syðri Dal í Bolungarvík. Þetta var áður en göngin komu og tilhugalíf þeirra var svaðilfarir yfir heiðina á snjósleðum þegar ekki var fært.  Sem var nú ansi oft... held ég alltaf nema á sérstökum mokstursdögum og þá voru snjómoksturstæki alltaf á ferðinni því annars lokaðist vegurinn strax aftur. Ég man hvað mér fannst ógnvekjandi að fara  Breiðadalsheiði í fyrsta sinn - lærði að marga metra há  ísbrúnin sem var höggvin þarna út  var kölluð stálið. Það er hvergi eins og í vestfirskri náttúru og vetrarveðrum sem manni verður ljóst smæð mannsins og hve leikurinn er ójafn - leikur mannsins við náttúruna.

Ég hafði aldrei komið til Vestfjarða fyrr en ég heimsótti systur mína í Holt og ég man eftir að mér fannst í fyrstu allt varðandi Vestfirði fyrst og fremst hrikalegt og lífsbaráttan þar hrikalega hörð. Brjálaður veðurofsi, byggðin strjál og víða að fara í eyði, samgöngur  erfiðar og fólkið að flytjast burt. Ég man í fyrsta skipti þegar ég kom til Flateyrar,  við ókum eftir strandgötunni og þetta var rétt eftir ofsaveður af sjó og sums staðar höfðu rúður sem vísuðu að sjónum brotnað og sums staðar var nelgdar spýtur fyrir gluggana til að mæta hamförunum. Þetta var líka rétt eftir brunann í frystihúsinu og hluti af þorpinu var brunarúst. Það var samt einhver villta vestursbragur þarna og falleg húsalínan með gömlum tréhúsum.  Síðan þá hef ég oft komið til Vestfjarða og hrífst alltaf meira og meira af náttúru og mannlífi þar, þetta er byggðalag sem er engu öðru líkt á Íslandi, þetta er heimskautaland okkar og hvergi eru fjöllin tignarlegri og brattari. 

Frá því ég kom fyrst til Vestfjarða fyrir um fimmtán árum þá hefur margt breyst. Bjarta hliðin er að samgöngumál hafa batnað og munu batna með  vegabótum og göngum í Bolungarvík. Vestfirðingar hafa líka eins og aðrir landsmenn  fengið betra samband og aðgengi að þjónustu gegnum Internetið. Dökku hliðarnar eru margar. Þyngstu raunirnar eru sjóflóðin, snjóflóðið á Flateyri og Súðavík. En Vestfirðir er sjómannasamfélag og sums staðar eru búsetuskilyrðin orðin þannig að það annað hvort fiskast ekki eða aflaheimildir eru ekki lengur í byggðalaginu. Það eru margir mælikvarðar sem hægt er að nota um hvernig ástandið er - ein er sú að fylgjast með hvort fólk flytur á svæðið, hvernig aldursamsetning er, hvert er atvinnuleysið,  hvað mörg hús standa tóm og hvort fólk flytur í burtu. 

Það er sama hvaða mælikvarða maður notar - ef maður skoðar ástandið á Bolungarvík þá er ljóst að það byggðalag er í kreppu.  Ég held ekki að það muni breytast þó það komi betri akvegur. Ég held heldur ekki að það muni breytast við meiri möguleika á menntun og háskólasetur. Ég held að fólk noti alveg eins betri samgöngur til að keyra í burtu frá stöðum þar sem allt er að hverfa og ég held að fólk noti alveg eins meiri menntun til að drífa sig í burtu.  Til langs tíma verður ekki spornað við þeirri þróun að dagar fiskimannasamfélagsins eru horfnir eða að hverfa í plássum eins og Bolungarvík. Það er eins gott að horfast strax í augu við það.  Og velta fyrir sér hvað kemur í staðinn.


mbl.is Ríkisstjórn samþykkir að skipa nefnd vegna ástands atvinnumála á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Sammála síðasta ræðumanni.

Björn Heiðdal, 14.3.2007 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband