17.2.2007 | 22:16
Gústi og Gvendur í Kompási
Kompásumfjöllunin um Byrgið var besti og áhrifaríkasti þátturinn í íslensku sjónvarpi á síðasta ári, ekki bara vegna þeirra uppljóstrana sem þar komu fram heldur líka vegna þess hve miklum jarðskjálfta í íslensku samfélagi umfjöllunin olli. Þetta mál afhjúpaði vond vinnubrögð og vanvirðingu við skjólstæðinga og almenning hjá Byrginu en ekki síður hjá öllum opinberum eftirlitsaðilum sem og þeim sem skrúfuðu frá peningakrönum. Það sér ekki ennþá fyrir endann á því hvaða áhrif eftirskjálftarnir munu hafa.
Myndirnar af Gústa og Gvendi sem dregnar hafa verið upp í nýlegum Kompásþáttum eru stórfenglegar - annars vegar af trúarleiðtoga sértrúarsafnaðar sem segir sig hafa mátt til að líkna og leiða djúpt sokkna fíkla til betri vegar en stundar kynlíf sem einkennist af pyntingarlosta með skjólstæðingum sínum og hins vegar af fanga í Vernd sem gengur líka á Guðs vegum að eigin sögn, dæmdur kynferðisafbrotamaður sem reynir að níðast á börnum akkúrat þegar samfélagið á að vera óhultast fyrir honum - á meðan hann situr inni.
Þessar tvær myndir af Gvendi og Gústa eru í huga mér orðnar táknmyndir um ástandið á Íslandi í ársbyrjun 2007 - um skinhelgina og hræsnina sem vafin er inn í guðsótta og önnur valdakerfi svo sem valdakerfi þess sem líknar og þess sem er skjólstæðingur/fíkill/vistmaður og brotalamirnar í öllum þeim kerfum sem samfélagið hefur til að passa þegnana. Báðir þessir menn hafa fallegar og seiðandi raddir sem hafa náð til fólks - á vakningarsamkomum og í útvarpi, þeir tala sannfærandi en það er flett ofan af þeim og þeir skrælaðir þannig að við sjáum hvað er bak við forhúðina á trúarleiðtoganum og trúaða KFUK stráknum.
það var gaman að sjá að moggabloggarinn og moggablaðamaðurinn Davíð Logi fékk verðlaun. Ég fletti upp í gagnasafni Morgunblaðsins greinum hans um Íslensku friðargæsluna því ég hef bæði áhuga og innsýn í hvað þar hefur gerst. Lengsta umfjöllunin sem ég fann var greinin Vopnaskak í Paradís 8. des (innskráning þarf) og svo fann ég nokkrar viðhorfsgreinar. Grein Davíðs Loga um Vopnaskakin í paradís er ágætis grein og fræðandi en þetta er ekki beitt ádeilugrein. Frekar svona varfærnisleg skrif mjög í samhljómi við það sem stjórnvöld eru að gera og breytingar í áherslum hjá stjórnvöldum og það er sjónarhorn valdhafans sem skín í gegnum þessa grein.
Davíð Logi fær tvær viðurkenningar fyrir umfjöllun um Guantanamo | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Facebook
Athugasemdir
Salvör.
Góður pistill, mjög svo sammála.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 17.2.2007 kl. 23:44
Aðalatriðið er í þessum öllum ógæfumálum er það að framtíðin verði bjartari, að ríkið taki á sig þá ábyrgð að reka meðferðarúrræði fyrir þetta ógæfufólk og sinni því á faglegan máta. Að eftirlit með þeim stöðum sem eru í gangi séu markviss og að þar séu fagaðilar að störfum.
Ester Sveinbjarnardóttir, 18.2.2007 kl. 01:12
Sæl Salvör,
Mig langaði til að halda því til haga að í grein minni, Vopnaskak í Paradís, var ég meðvitað að reyna mig í ákveðinni tegund blaðamennsku, svonefndri "frásagnarblaðamennsku" (narrative journalism), þar sem áhersla er lögð á að "segja sögu" og þá oftast af fólki. Þannig sérðu, að ég var að reyna að sýna fólkið á bakvið "stefnuna", fólkið á vettvangi. Seinni greinin um friðargæsluna (hin harða ásýnd víkur), sem birtist degi síðar, var meira hefðbundin og um þá stefnu sem stjórnvöld hafa iðkað. Þar kom fram sú gagnrýni, sem fram hefur komið á friðargæsluna. Held að þar vanti ekkert uppá. Svo gæti ég vísað í eldri skrif um málefnið.
M.b.k.
DAvið Logi
Davíð Logi Sigurðsson, 19.2.2007 kl. 09:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.