7.2.2007 | 08:43
Tal um ólöglegt niðurhal
Ég fór á ráðstefnuna Er veraldarvefurinn völundarhús? í gær og varð ekki mjög ánægð. Þetta var ráðstefna um siðferði á Netinu sem SAFT, vakningarverkefni Heimilis og skóla um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum boðaði til.
Ráðstefnan virtist fyrst og fremst vera til að kynna sjónarmið höfundarrétthafa og sumir fyrirlesararnir töluðu á skjön við þann veruleika sem ég sé í netheimum núna. Heimili og skóli er á miklum villigötum ef það félag gerist sérstakur krossfari fyrir höfundarrétthafasamtök. Mestu ógnanirnar og stærstu siðferðismálin sem mæta börnum og unglingum í dag á Netinu eru ekki að passa sig á því að virða ekki höfundarrétt.
Erindi Eiríks Tómassonar lagaprófessors fjallaði um "Ólögmæt not höfundarréttar á Netinu - Hvað er til ráða? en Eiríkur er lögmaður Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF. Eiríkur sagði að nútíma hagkerfi byggðust á því að eignarétturinn væri virtur Hann sagði að ef eignaréttur af hugverkum væri skertur myndi umsvifalaust draga úr hagvexti. Þarna er ég ósammála Eiríki. Ég held að ýmsir manngerðir þröskuldar þ.a.m. höfundarréttarlög sem eru ekki í takt við Internetþróun séu mikill dragbítur á framþróun. Sérstaklega virka slíkir þröskuldar í að halda þeim fátæku og umkomulausustu utangátta og án möguleika á að bæta stöðu sína og auka þekkingu sína og færni. Þetta er svona eins og fyrir tíma almenningsbókasafna þar sem bækur voru aðeins í eigu auðmanna og engir aðrir höfðu aðgang að bókakosti. Það ætti öllum fræðimönnum að vera ljóst hvað sem frjálsast flæði þekkingar um heiminn hefur á þekkingu sem háskólasamfélög miðla. Það markaðskerfi sem við búum við núna er ekki að virka við þau vinnubrögð sem eru að ryðja sér til rúms. Það hefur líka sýnt sig að það eru að vaxa upp á Netinu ýmis konar samfélög og þekkingar- og efnisbrunnar sem byggja á annars konar höfundarrétti en hinum hefðbundna og þó hefðbundin hagfræði kenni "The Tragedy of the Commons" þá er engin tragedía í gangi varðandi almenninga á Netinu eins og "open source" og wikipeda samfélög. Það virðist virka bara nokkuð vel að hafa svona samvinnuhreyfingu á Netinu.
Brynjólfur Bjarnason forstjóri Símans fjallaði um ábyrgð samskiptafyrirtæki og hann tók Youtube og Myspace sem dæmi um jákvæðar hliðar netsins. Hann sagði að sennilega væri rétt undir 90% heimila á Íslandi tengd við Internetið sem væri það hæsta í heiminum.
John Kennedy flutti erindið "Fighting music Piracy" sem ég vissi nú fyrir að mér myndi ekki getast að. Þetta erindi var virkilega stuðandi og næstum ógnandi, fyrirlesarinn notaði orðalag eins og "if necessary we will take actions" og "... when they see we are serious they are likely to think twice" eða sem sagt boðskapurinn var að ef þið gegnið ekki með góðu þá förum við í hart. Svona orðræða passar ábyggilega einhvers staðar í hagsmunagæslu höfundarrétthafa en hún passar ekki á ráðstefnu Heimilis og skóla um siðferði á Netinu.
Anna Kirah líkti fjölskyldum í dag við innflytjendafjölskyldur, það er góð samlíking. Börnin eru "digital natives" en foreldrarnir eru oft ekki með á nótunum með hvað er að gerast.
Saft verkefnið og auglýsingaiðnaður á Íslandi standa núna að auglýsingaherferð um siðferði á Netinu. Það eru góðar auglýsingar og vekjandi því margir foreldrar eru andvaralaus um hvað er að gerast á Internetinu og hvers konar efni börn þeirra eru að nota.
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Vefurinn | Breytt s.d. kl. 18:03 | Facebook
Athugasemdir
Í ljósi fyrirsagnarinnar sem þú valdir á þessa færslu þína, Salvör, bendi ég þér á grein eftir Eirík Tómasson sem birtist í Morgunblaðinu 1. október 2004 og er með fyrirsögnina: "Vafasamt er að niðurhal til einkanota sé ólöglegt athæfi".
Í greininni rekir Eiríkur rök fyrir því að vafasamt sé "að það sé ólöglegt að hala niður efni sem hefur verið sett á Netið með ólögmætum hætti, svo lengi sem það sé eingöngu gert til einkanota og ekki dreift til annarra".
samkvæmt þessu er fyrirsögnin ekki rétt, en vel má vera að menn hafi talað um "ólöglegt" niðurhal á fundinum, þú varst þar en ég ekki og veist því eflaust betur. Veit þó að John Kenndy vissi að niðurhal á tónlist og kvikmyndum væri löglegt hér á landi, enda sagði ég honum það fyrir fundinn.
Árni Matthíasson , 7.2.2007 kl. 10:37
Ég forðaðist þennan fund. Grunaði að hann yrði eins og þú lýsir honum. Var ekki tilbúinn til þess að sitja undir umfjöllun um haftastefnu og sovíesk stýritæki í þeim anda að þetta væru hlutir sem vert væri að innleiða í heim internetsins.
Forvarnir og fræðsla, það er málið.
J#
Jónas Björgvin Antonsson, 7.2.2007 kl. 11:50
Árni, þetta fjallaði meira minna allt um ólöglega dreifingu efnis á Netinu og hvað það væri mikilvægt að virða eignaréttinn og hvað þeir sem dreifðu efni voru miklir óþokkar. Eiríkur var kynntur sem lagaprófessor en hann er líka starfsmaður Stefs og hann minnist ekkert á að það er ekkert ólöglegt í augnablikinu að hlaða niður efni á Íslandi og það er nú bara ástæða til að hvetja alla til að gera það og læra á p2p tækni og notfæra sér það. Eiríkur minntist hins vegar sérstaklega á þá sem voru teknir í Deilismálinu og sagði að á næstu mánuðum verði teknar ákvarðanir hvort kært verður í því máli. Öll umfjöllun erinda Eiríks og J. Kennedy var bara út frá sjónarhóli höfundarrétthafa og áróður fyrir málstað þeirra. Það er örugglega eitthvað sem passar við stundum en það passaði alls ekki inn í ráðstefnu á vegum foreldrasamtaka sem eru að fjalla um börn og unglinga og Internetið. Þetta var mjög einhliða miðlun.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.2.2007 kl. 17:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.