11.2.2011 | 21:41
Sólskífa og safngler í Egyptalandi
Í 18 daga höfum við fylgst með upprisu alþýðu í Egyptalandi gegn stjórnvöldum og í dag berast fréttir af því að loksins hafi einræðisherrann Mubarak hrökklast frá völdum. Ég fylgist með fréttum á Egyptalandi, núna er Democracynow.org og margir aðrir fjölmiðlar með beina útsendingu. Þúsundir twitterskeyta þjóta um Internetið, í hvert skipti sem ég smelli á refresh þá eru tugir þúsunda nýrra skeyta. Allt hverfist um Tahrirtorgið, þar er táknræn miðja atburðanna í Egyptalandi. Ég held að það hafi alltaf verið ljóst að hverju stefndi en það er því miður frekar óljóst hvað nú tekur við. Margar kollsteypur stjórnvalda skilja eftir sig tómarúm þar sem stríðandi fylkingar sem voru bandamenn í að steypa stjórn berjast hver við aðra um völd. Svo hafa vandamál Egyptalands ekki horfið með Mubarak, það verður ekki til atvinna fyrir alla atvinnulausa á morgun og matur og lífsnauðsynjar lækka ekki í verði. En vonandi verður búið til umhverfi þar sem fólk getur sjálft unnið að því að byggja upp sína framtíð. En það gerist ekki þar sem er stríðsástand og því miður getur verið að ný veikburða stjórn standi ekki undir þeim háu væntingum sem Egyptar hafa núna til betri tíma.
Í dag 11. febrúar eru þáttaskil í sögu Egyptalands og sennilega markar dagurinn líka þáttaskil fyrir Austurlönd nær og allan hinn samtengda heim þar sem geislar frá Egyptalandi berast á örskotsstund á milli heimsálfa og ljósgeislar brotna inn á Internetið, baráttan var ekki háð eingöngu á torgum og með götuvirkjum heldur var líka í vefrýmum og liði var safnað og fylkingum stefnt saman með félagsnetum eins og Facebook og Twitter. Þetta var líka fyrsta baráttan þar sem stjórnvöld lokuðu Internetinu fyrir tugmilljónum og skipuðu samskiptafyrirtækjum að senda út boð og breyta þjónustu sinni. Það er áhugavert að bera saman egypsku byltinguna og frönsku byltinguna. Í báðum tilvikum var byltingin uppgjör við fortíð og liður í umbreytingu nýrra tíma þar sem völdin eru öðruvísi og á annarra herðum og framleiðsluhættir og dreifing verðmæta líka umbylt.
Í dag er hátíðadagur í Egyptalandi, landi sem byggir á fornri menningu og rekur sögu sína meira en 5000 ár aftur í tímann. Frá fornri tíð eru þar mikil mannvirki, pýramídarnir Það er hægt að skoða pýramídana og forna egypska menningu á ýmsan hátt en einn slíkur sjónarhóll er þeirra sem blanda saman dulhyggju og útreikningum, sjónarhóll pýramídafræðinga en ritverk þeirra sýna að ef maður vill komast að einhverri niðurstöðu þá er bara að leita nógu lengi, það er alltaf hægt að finna einhverja útreikninga og tákn og gögn í heiminum sem benda í þá átt sem maður vill og styðja mál manns.
Stærstu og þekktustu minnismerki fornar menningar í Egyptalandi eru pýramídarnir en þar eru líka minni mannvirki eins obeliskur sem voru súlur sem oft voru staðsettar við inngang mustera í Egyptalandi, kannski voru þær sólúr sem bæði sýndu eyktamörk dagsins og árstíðina. Kannski voru pýramídarnir líka risastórar sólskífur auk þess að vera grafhýsi faraóa.
Einn af pýramídafræðingunum sem blandaði saman spádómum og orðum úr biblíunni við útreikninga sína var Adam Rutherford. Hann hafði dálæti á Íslandi og tengdi það þessu grúski. Það er vel við hæfi að rifja upp kenningar hans í dag 11. febrúar, kenningar um sólskífur og geisla sem ná alla leið til Íslands frá Egyptalandi. Adam Ruthenford (1894 - 1974) var höfundur bókar sem kom úr árið 1937 og ber titilinn "Hin mikla arfleifð Íslands" en heitir á frummálinu Iceland's Great Inheritance)
Adam Rutherford kom til Íslands árið 1939 og með honum kom Willian P. Fraser sem mun hafa haft umsjón með bréfaskriftum hans varðandi Ísland. Rutherford mun hafa flutt tvö erindi hérna eitti í Iðnaðarmannahúsinu 25. maí og hitt í Fríkirkjunni á annan í hvítasunnu. Hann flutti Íslendingum líka boðskap sinn í útvarpi 2. júní 1939. Adam var pýramídafræðingur og hann hélt því fram að Íslendingar sem og Norðmenn væru komnir af Dakíum og þeir aftur komnir af Benjamínítum og Gotum sem bjuggu við Dóná en færðu sig norður á bóginn. Rutherford kallar íslenska ríkið frá 1918 Benjamín-Ísland og taldi að Ísland væri ætlað hlutverk sem ljósberi friðarríkis.
Rutherford reyndi að sannfæra samtímamenn sína með vísindarökum, með útreikningum og hann sagði:
"Vér lifum á vísindaöld, sem viðurkennir það eitt satt að vera, er staðist getur gagnrýni vísindanna...að oss skyldi veitast vísindaleg opinberun, þar á meðal vísindaleg birting á sannindum biblíunnar"
Þessa opinberun taldi Rutherford varðveitta í pýramídanum mikla í Egyptalandi. Hann taldi pýramídann ekki grafhýsi og taldi myndletur og inngang og handritið Akbar-Esseman skýra það. Pýramídinn hafi verið hirsla fyrir speki og kunnáttu í ýmsum listum og vísindum og sjálf byggingin spádómur og forspá sem sýni hvað muni gerast. Þannig telur Rutherford að pýramídinn hafi sýnt ýmis atriði í ævi Jesú og sé sá merkissteinn í Egyptalandi sem Biblían (Jesaja 19:19-20) fjallar um.
Rutherford taldi að pýramídinn mikli spái fyrir um marga óorðna hluti og táknmyndir þar sýni ævi Krists á jörðu. Þetta styður hann með það alls konar hornafræðiútreikningum m.a. um Messíasarhorn. Árið 1925 fannst vegvísir í pýramídanum og var Rutherford einn þeirra sem grófu hann upp. Rutherford túlkar hann þannig að ef línur vegvísisins eru framlengdar á yfirborði jarðars sem stefnulínur þá færast þær smán saman í sundur þangað til komið er í rúmlega 4827 km fjarlægð frá pýramídanum en þá hefur bilið milli þeirra náð hámarki sínu og úr því fer að draga saman með þeim þangað til þær að lokum mætast aftur á norðurskautinu.
Staðurinn þar sem bilið er breiðast, er samkvæmt kenningunni brennidepillinn sem vegvísinum er beint að. Með útreikningum má sjá hvernig línur þessar liggja og ef ferill þeirra er markaður á gott landabréf, liggur eyjan Ísland nákvæmlega í þessum brennidepli.
"Vegvísinum er því, líkt og í stóru landmælingaljósi, beint á Ísland" segir Rutherford og kallar vísirinn Íslandsvísirinn en ræmuna sem lendir á milli kallar hann Íslandsrákina. Hún liggur um Ísland um Langanes í austri og Reykjavík í vestri.
Lesa má um kenningar Rutherfords í þessari grein Benjamín í Norðurhöfum (Morgunblaðið 31. maí 1984 123. tölublað bls. 48). Sigrún Gunnarsdóttir reikimeistari birtir (að ég held) þýðingu á riti Rutherford frá 1939 á bloggi sínu, sjá hérna Hin mikla arfleifð Íslands og þar kemur fram kenning um að pýramídinn hafi verið eins konar ljósskífur sem sýndu árstíðirnar og bara tvisvar á ári, í dag 11. febrúar og svo 1. nóvember hafi sólargeislar lent þannig að frá inngangi pýramídans hafi þetta litið út sem stór skínandi vegvísir, hér er textinn:
"Með því að pýramídinn var upphaflega þakinn utan með sléttu og fægðu steinlagi, verkaði yfirborðið á hinum þríhyrndu hliðum pýramídans, öllum fjórum, hvert fyrir sig sem stór endurspeglari sólargeislanna, sannarlega gífurlegar skuggsjár, því að yfirborð þeirra hvers um sig var að flatarmáli hér um bil 22253 m2. Hreyfingar þessara stórkostlegu endurgeislana voru algerlega reglubundnar og gerðu því pýramídann að skínandi sólskífu, er sýndi árstíðirnar. Af þessu var pýramídinn kallaður á fornegypzku Khuti, sem þýðir Ljósin.20) Einn dag að vorinu (11. febrúar) ár hvert og einn dag að haustinu (1. nóvember) lenti endurkast hádegissólargeislanna frá austur- og vesturhliðum pýramídans alveg lóðrétt á norðurbrúnir þeirra, og frá inngangi pýramídans leit þetta út sem stór, skínandi vegvísari. Furðefnið er það, að einungis þá tvo daga ársins, er hádegisendugeislanirnar sýndu þetta vegvísarafyrirbrigði, lá lóðrétta Ijósrákin, er myndaðist út frá endurgeislunum á vesturhliðinni, nákvmlega langs eftir ferli Reykjavíkurgeislans, eins og hann er ákveðinn með landmælingum. Þannig urðu uptökin á ferli Reykjavíkurgeislans uppljómuð og sáust um mikinn hluta Norður-(Neðra-) Egyptalands."
Hér er meira um Rutherford:
Boðskapur Pýramídans mikla . Eftir Adam Rutherford
Rutherford hefði notið sér vel á þeim nýaldartímum sem við lifum á núna og það er gaman að velta fyrir sér hvort hann hefði sett pýramídageislann upp í googlemaps. En það voru margir af samtíðarmönnum hans sem hrifust af hinum dularfullu pýramídum og töldu þá hafa merkingu. Meðal þeirra voru Vottar Jehóva en pýramídafræðin var um tíma hluti af boðskap æðstupresta þar.
Steinarnir í pýramídunum eru núna máðir og hrjúfir og endurkasta engu ljósi í dag sem ljóstra upp um geislarákir sem beint er í eina átt. En ljósið sem berst frá Egyptalandi í dag getur samt orðið safngler sem nær að kveikja bál annars staðar í heiminum.
Milljón Egypta mótmælir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Facebook
Athugasemdir
Flott hjá þér!
Aðalsteinn Agnarsson, 11.2.2011 kl. 22:11
Virkilega gaman að lesa þetta, takk.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.2.2011 kl. 08:05
- meiriháttar! ~ o ~
Vilborg Eggertsdóttir, 12.2.2011 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.