Eyjaskeggjar og fastalandið

Ég sé að bloggið hennar Eygló hefur ratað  sem frétt á innlendar fréttir á mbl.is. Það er gott mál núna á þessum myrka mánudagi. Það er þó alla vega ekki neitt verra að gerast í íslensku þjóðlífi að en Framsóknarmenn séu að senda hver öðrum tóninn milli lands og eyja.

Gleymdi reyndar að það er eitthvað smálegt að gerast í öðrum stjórnmálaflokkum líka, fylkingar að draga sig saman með eða móti Margréti Sverrisdóttur og flestallir bloggarar líka uppteknir í að tala niður Ingibjörgu Sólrúnu,  launfyndnasta bloggið þar var þegar Hrafn Jökulsson bloggar um útlit Ingibjargar, alltaf skulum við konur þurfa að lifa með þessu eilífa útlitstali, skjáþokki og útlit er nú það sem blífur í pólitík bæði karla og kvenna alla vega þangað til bloggið slær í gegn og bloggfimi fer að fleyta fólki til valda. Verst að Ingibjörg bloggar ekki, það er nú hennar aðalókostur. Össur er hins vegar skemmtilegur bloggari.  En það er sem sagt mikið í tísku núna að tala niður konur, það er góðs viti og liður í baráttunni um heimsyfiráðin að vera í umræðunni. Betra er illt umtal en ekkert Tounge. Þetta ekkert köllum við þöggun á femínistamáli.

Ég get ekki gert að því að ég ber saman Vestmanneyingana Árna Johnsen og Eygló Harðardóttur. Er það eitthvað misminni í mér en ég hef aldrei, aldrei heyrt það fundið  Árna til foráttu að hann væri úr Vestmanneyjum og hann ætti ekkert erindi á þing  því að aðrir útkjálkar á Suðurlandi hefðu meiri rétt til að setja sína menn á þingi. Samt er Árni í eilífðarplottum fyrir Vestmanneyinga og reyndar alla í kjördæminu og sjálfan sig mest og veltir upp víðáttuvitlausum hugmyndum eins og þessum með jarðgöng til Vestmanneyja.  Það hefur verið annað sem fólk hefur fundið að Árna, fyrir sakamálið var það ákaflega lítil afköst á þingi og að því virtist lítill áhugi á þingstörfum, hann mætti ekki einu sinni til að greiða atkvæði hvað þá til að taka þátt í umræðum, það meira segja kom einu sinni fyrir að annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði fyrir Árna þegar hann var fjarstaddur, sagði að Árni hefði hvort sem er kosið svona.  Svo þarf náttúrulega ekki að rekja dómsmálið  sem Árni var sakfelldur í og hvernig Árni lítur sjálfur á gerðir sínar sem tæknileg mistök.

En það virðist vera mörgum Framsóknarmönnum ótamt að  Eygló Vestmanneyingur sem tók þátt í prófkjörinu hjá Framsóknarflokknum setjist í það sæti sem eðlilegt er og ástæðan er að hún býr í Vestmanneyjum. Af hverju er þetta ekki vandamál hjá öðrum Framsóknarmönnum? Af hverju er það ekki vandamál að Jón Sigurðsson Kópavogsbúi er í framboði í Reykjavík Norður? Munu Reykvíkingar kjósa utanbæjarfólk sem gæti farið að plotta í einhverjum Kópavogsplottum Grin

Ég ber takmarkað traust til Árna eyjaskeggja þó hann sé bæði hugmyndaríkur  og skemmtilegur maður  en ég treysti Eygló eyjarskeggja alveg til að vaka yfir hagsmunum bæði síns víðfeðma kjördæmis og líka hagsmunum okkar allra  Íslendinganna á fastalandinu. 

 


mbl.is Segir menn í öðrum kjördæmum ekki eiga að skipta sér af uppstillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband