Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni

 Ríkisstjórn Íslands er eins og Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni í þessu Magma skúffufyrirtækis í Svíþjóð máli. Hún er eins og bandingi í skuldum sem er farin að kóa svo mikið með þeim sem fjötruðu hana að hún sér ekki lengur hvað er fyrir utan byrgið sem hún er króuð inn í og orðræða hennar er orðræða ræningjanna. 

Með vitund og  vilja  horfa stjórnvöld núna  á þegar almenningur á Íslandi er rændur, ekki bara einu sinni, ekki bara í Hruninu mikla sem svipti aleigu margra burtu og lífsviðurværi og kramdi okkur undir bankaskuldum útrásarvíkinga, skuldum sem við vissum ekki einu sinni að væru til hvað þá s að við þyrftum að bera ábyrgð á gripdeildum þeirra.

Við erum nefnilega rænd aftur og aftur og það er settur  upp fyrir okkur  einhvers konar fjármálafarsi þar sem persónur og leikendur þyrla í kringum sig pappírum sem þeir búa til sjálfir og sá vinnur mestu spilapeningahrúgu fyrir næsta leik sem getur látið strókinn í kringum sig birtast sem stærstan og hefur mestu ítök þannig að hann geti beint sem flestum minni strókum  inn í sinn eigin strók.Stöku sinnum slokknar á blæstrinum að neðan og þá detta allir spilapeningarnir niður  og hjaðna niður í næstum ekki neitt og verða bara að örsmáum pappírssnifsum  en þegar það gerist þá verður sá sigurvegari sem strax sópar að sér snifsunum og reynir að blása þau upp og líma saman.

Leiksviðið fyrir þetta absurdleikhús er lög og reglur sem Alþingi hefur sett til í sinni fjármálabræðslu, þeirri bræðslu sem stjórnvöld stýra,  bræðslu sem miðar að því  að búa til sem flesta strompa sem blásið geta upp pappírum og ketillinn sem knýr  blásturinn kemur að utan, kemur úr yfirhituðu fjármálakerfi heimsins og úr fjármálaumhverfi efnahagsbandalags þar sem lög og reglur eru útfærðar til að tryggja hagsmuni peningahöndlara, þar sem lög og reglur miða að því að þeir geti hvenær sem þeim þóknast skipt pappírsbúnkum í raunveruleg verðmæti,  veitt í háf  verðbréfabunka úr stróknum sínum og sagt það verðmæti, sagt að með því ætli þeir að greiða fyrir fiskikvóta og orkulindir, með því ætli þeir að leggja niður sjávarþorp á Ísland, með því ætli þeir að sölsa undir sig orkuver og lendur íslensku þjóðarinnar. 

 En þetta skrípa- og hryllingsleikhús er ekki bara leiksýning sem við förum í eitt kvöld til að skemmta okkur, ljósin eru aldrei slökkt í þessu leikhúsi fáránleikans og fjármálafarsinn heldur áfram. Bara með stærri og stærri leikurum, það sem hét grísk skuldabréf í gríska stróknum í gær heitir euro bonds á morgun og kannski veraldarbönd  á næsta misseri.  Skrípaleikurinn heldur áfram á meðan stjórnvöld trúa að hann sé ekki leikrit  eða eru svo óttaslegin um eigin stöðu að þau þora ekki að horfast í augu við það og á meðan almenningur allra landa hefur ekki áttað sig á að þetta  er blekking. 

Heimur okkar er vissulega byggður upp af mörgum blekkingum en sumar eru svo hagnýtar og nytsamlegar til að stýra ferðum okkar í hinum raunverulega heimi að við lítum á svoleiðis blekkingar sem  líkön og leiðarhnoð í öllum glundroðanum. En þannig er ekki um fjármálakerfi heimsins í dag. það er stórlaskað og passar engan veginn við raunverulega heiminn, heim framleiðslu og iðju, heim samskipta og tækni, heim siðmenningar og samhjálpar.

Í þeim farsa sem nú birtist okkur í sölu á íslenskum orkufyrirtækjum til kommóðuskúffunnar Magma energy í Svíþjóð er blóðugur slagur í gangi um yfirráð yfir íslenskum orkuauðlindum. Og við erum rænd um hábjartan dag af ræningjum sem eru miklu grimmari og verri en ræningjarnir úr Kardímoníubænum, þessir ræningjar eru engir Jasper, Kasper og Jónatan og það þýðir engin Soffíufrænkuvettlingatök til að taka á málum núna. Ríkisstjórn sem vissulega er í haldi ræningjanna eins og Soffía frænka var á sínum tíma getur ekki ráðið við málið með einhverju umli um að ætla að ræða um að breyta smávegis upphæðum í ránsfengnum, bara það að taka þátt í slíkum umræðum er sýnir vanmátt og firringu þannig stjórnar, sýnir að  ríkisstjórnin  er núna eins og  Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni. Ríkisstjórnir allra vestrænna ríkja eru reyndar svo flæktar í eigin veðbönd að þær geta sig hvergi hrært  til að koma þegnum sínum til aðstoðar, þær gefa bara frá sér hjáróma hvæs þegar veðköllin dynja á þeim.

Þessi Magma sjónleikur sem núna spinnst fram er dæmi um hvernig við erum rænd því sem umheimurinn og fjármálaheimurinn telur verðmæti í. Fyrst voru orkuverin og veiturnar almenningsfélög sem voru stolt  borgarbúa og bæjarbúa, samfélagsleg verðmæti og auðlegð til framtíðar. Við horfðum stolt á hvernig veiturnar uxu og döfnuðu og hér í Reykjavík hef ég verið ánægð að sjá hvernig Orkuveitan í Reykjavík  hefur keypt upp aðrar veitur og búið til stóran og hagkvæman rekstur og þjónað stórum hluta af þeim sem búa í nágrenni höfuðborgarinnar, okkur öllum og framtíðinni til hagsbóta. Orkuver eru dýr fyrirtæki sem borga sig upp á löngum tíma og það er ekki á færi nema stórra aðila að standa í svoleiðis framkvæmdum. Arðurinn kemur hins vegar á löngum tíma og mest þegar búið er að afskrifa alla stofnfjárfestingu. 

Það var tvennt stórhættulegt sem gerðist.

Annars vegar var það að reglugerðar og lögrammakerfi sem hingað var flutt að utan og fullnustað á Alþingi vegna Esb, lög og reglur sem ætlað var  að tryggja samkeppni og jöfnuð á markaði  voru notuð markvisst til að brjóta niður sameignir almennings á Íslandi og steypa Íslendingum ofan í svarthol kasínókapítalisma. Stjórnvöldum hefði verið í lófa lagið að umsnúa þeim lögum og setja eigin lög, það er aðferð sem EBE þjóðir hafa farið t.d. Frakkar en það var ekki gert hérna, sennilega vegna þess að stjórnvöld voru viljalaust gjörspillt verkfæri í höndum fjárglæframanna og raunar voru margir háttsettir menn í stjórnmálum hér á Íslandi svo mikið á bólakafi í undarlegum tengslum að þeir láta  Mafíuna í samanburði blikna og  líka út eins og róluvöll fyrir börn. Íslensk stjórnmál og íslensk fjölmiðlun var sparkvöllur siðblindingja þar sem sparkað var í og traðkað á almenningi á meðan spekúlantar eins og Björgólfsfeðgar og Bónusfeðgar áttu liðin og sátu í stúkusætum.

Hins vegar gerðist það að settir voru verðmiðar á hluti sem eðli málsins samkvæmt ættu ekki að vera til sölu og raunar stórhættulegt að hafa til sölu og almenningsfyrirtæki í opinberri eigu voru gerð að einhverju HF dæmi og smán saman rutt úr velli öllum girðingum og hömlum sem voru á að slík fyrirtæki gengu kaupum og sölum eins og dótið sem þú kaupir í Hagkaup eða Bónus. Svo var farið að selja úr þessu, byrjað að selja til stærri aðila (Reykjavíkurborg að selja til Landsvirkjunar), pólitískir aðilar að fegra reikningana rétt fyrir kosningar (eins og Árni Sigfússon gerir núna í Reykjanesbæ). Svo fór á stað eitthvað gulllgrafaragróðaorkuspil, búin til  froðufyrirtæki fólks sem var innvígt og innmúrað í   stjórnmál og bankamál og sett upp einhver sýndarviðskipti með hluta í orkuverum og stjórnmálamenn (var það ekki Ingibjörg Sólrún? eða var það Björn Ingi Hrafnsson) þóttust gleypa við þessu og létu eins og þessi viðskipti væru spurning um raunveruleg verðmæti og sögðu eitthvað á þessa leið: "Þetta sýnir hversu mikils virði þessi hlutur okkar er, mikið er gott að hafa þetta á markaði, þá er loks komin einhver verðmiði á þessa eign okkar, eign sem við eigum hérna í sveitarfélaginu en sem við erum ekkert að ávaxta".

Stjórnmálamenn sem svoleiðis mæla eru í besta falli flón sem ná að blekkja sjálfan sig en í versta falli skúrkar sem vilja blekkja almenning vegna þess að þeir eru í þjónustu annarra en almennings. Það er ekki hægt að setja verðmiða á almenningseigur og það þjónar engum tilgangi að setja verðmiða á eitthvað nema þú ætlir að selja það.  Og sumt má ekki selja, sumt er óskynsamlegt að selja sama hvaða verð er í boði og sumt er siðlaust að selja. Það gildir um ýmis konar almenningseigur, um eigur sem hafa verið byggðar upp af mörgum kynslóðum á undan okkur og sem eiga að gagnast mörgum á eftir okkar kynslóð.  Stjórnmálamenn sem skynja ekki að mælikvarðinn peningar er alls ekki hentugur mælikvarði um ýmis konar samfélagsleg verðmæti eru ekki að skilja hvernig á að búa til blómlegt samfélag í dag. Þeir eru stökk í fyrirhrunstíma, stökk í þeim hugsunarhætti frjálshyggju og græðgishugsunar sem speglast í að líta á arðræningja sem góða hirðirinn, hugsunarhátt sem ég útskýrði á sínum tíma í blogginu  Fé án hirðis, góði hirðirinn og þeir sem hirða allt af okkur

Það eru sem sagt bæði lög og reglur og stjórnmálastraumar sem bárust utan úr álfu og fengu meðbyr hér á landi  hjá stjórnvöldum og þingheimi sem og að hér var lítið samfélag þar sem fyrir var á velli hnignandi en þó voldugt ættarveldi sem yfirdekkti með gervigrasi frjálshyggjunnar þann sparkvöll sem liðsmenn feðgapara landsins notuðu til að trampa í svaðið undir sér íslenskan almenning. það verður framtíðarhagfræðinga að sjá stóru línurnar, sjá samsæriskenningar og plott úr fjármálamynstri nútímans á Íslandi en það blasir samt við öllum sem það vill sjá að hroðalegir atburðir eru núna að gerast og stjórnvöld eru lömuð. Lömuð í gíslingu lánardrottna og það eru einhverjir undarlegir fjarlægir lánadrottnar sem núna stjórna Íslandi og hvernig ríkisstjórn Íslands aktar. Það er máttlítil og rám rödd ríkisstjórnar sem segist ekkert geta gert í Magma málinu, ætli bara að tékka á hvort ekki sé hægt að hnika til með árin í samningunum. Samt var þessi ríkisstjórn mynduð með umboð frá fólki sem ruddi burtu hinni vanhæfu ríkisstjórn með búsáhaldabyltingu og hún hefur umboð sitt frá fólki, okkur sem köllum á breytingar, ekki nákvæmlega sömu vinnubrögðin og sömu svikamyllurnar. Núna er búið til kerfi þar sem skúffufyrirtæki gullgrafara er sett niður í Svíþjóð til að fara á svig við Evrópureglur, það grefur sig inn í íslenskar orkuauðlindir og landsvæði en með því fara yfirráðin úr íslenskri lögsögu og  eitthvað út í aflandseyjabuskann. En það koma sáralitlir peningar með þessu fyrirtæki, það fær meiripartinn að láni hjá íslenskum opinberum aðilum og svo ætlar fyrirtækið Magma (já, takk fyrir Netið, við lesum líka erlendar fréttatilkynningar frá Magma og vitum allt um hvað Magma samsteypan þ.e. þessi sem á skúffuna í Svíþjóð er að tapa miklu og hvernig hún ætlar en hefur ekki þegar að fjármagna sig) þe. kommóðan sem heldur utan um skúffuna í Svíþjóð að fjármagna sig eins og gullgrafarar gera, með því að selja hugmyndina og laða til sín fjárfesta og nota "bridge financing" þangað til orkugulgæsirnar byrja að verpa nóg.

Hvaða fáranlega sjónarspil er þetta? Hver hefur bundið ríkisstjórnina svo mikið niður að hún láti þetta viðgangast? Er það einhver vissa um að það komi ekkert nýtt álver nema orkuverið sé einkavætt svo í fyllingu tímans sömu aðilar og eiga álverið geti keypt orkuverin og réttindin? Er það boð sem hafa komið eftir óformlegri leiðum en við sjáum í fréttum um að engin fyrirgreiðsla fyrir skuldþjáða þjóð verði ef ekki verði hér búinn til einkavæðingarumhverfi fyrir orkuveitur og orkuverk svo hér sé hægt að virkja hverja sprænu og hvern hver og  búa svo til rafstreng sem tappar orkunni af landinu og sendir til orkuhungraðrar Evrópu, rafstreng sem  blóðmjólkar Ísland og Íslendinga og sýgur úr þeim orkuna.  

Arionbanki býður til morgunverðarfundar á morgun 20. maí um efnið "Er lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu vænlegur kostur?". Halda menn að svarið sem komið verði fram með verði "Nei, alls ekki, það er best að bíða og doka við, Ísland situr á miklum auðlindum en hér er viðkvæm náttúra og virkjanir og orkusölu þarf að skoða út frá mörgum hliðum, ekki bara peningalegri hagkvæmni fjárfesta"? 

Svo þegar ríkisstjórnin kemur núna lúpulega fram og segist ekki geta gert neitt, það sé ekki hægt að rifta sölunni þá má rifja upp að það voru einmitt fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem gerðu þessa sölu. Atorka er að selja. ATorka var tekin yfir af kröfuhöfum og hlutabréfin núlluð út. Ég var einn af þeim hluthöfum sem fengu sent heim bréf um að hlutabréfin væru orðin eitt stórt núll. En kröfuhafar sem urðu stærstu hluthafar Atorku eftir nauðasamninginn eru

NBI hf.            44,20%
Íslandsbanki hf. 15,25%
Arion Banki hf. 5,00%
Glitnir Banki hf. 4,86%
Drómi hf. 4,55%

Það vill svo til að þessi stærsti kröfuhafi er NBI hf sem er Landsbankinn og það eftir því sem ég best veit banki sem er ennþá í eigu ríkisins og stýrt af fulltrúum skipuðum af ríkisvaldinu. Það verður ekki betur séð en ríkisstjórnin sé núna í samkrulli með öðrum að selja skúffufyrirtæki í Svíþjóð yfirráð yfir íslenskum auðlindum en segi svo í fölskum og hjáróma tón að því miður geti þau ekki gert neitt að þessu...og það sé málið að díla um einhverja breytingu á árum í samningunum. 

Hvað er að gerast? Ekki verður með neinu móti séð að hér sé um gæfulegan samning að ræða. Þvert á móti, þetta er allt mjög skrýtið og furðulegt og mjög mikið sem ekki er á yfirborðinu. Er hér verið að reyna að hliðra til fyrir banka sem standa á brauðfótum?Eru hér aðrir og stærri hagsmunir, hagsmunir sem varða orkumál á Norðurslóðum og valdajafnvægi í þeim heimshluta og ítök til framtíðar? 


mbl.is Magma fær 14,7 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Þrusugóður pistill, Salvör! Hætt er við að engin búsáhaldabylting verði gerði gegn þeim landráðum sem alþýðustjórnin lætur fremja, sitjandi með hendur í skauti. Hræðilegast af öllu er blekkingaleikurinn með "öflugan erlendan fjárfesti", sem í reynd fær stórkostlegar upphæðir að láni til að geta svælt undir orkuverin á Suðurnesjum.

ps. það er öfugmæli að tala um stjórnvöld í sambandi við samsteypustjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, því þar er hvorki í boði stjórn né völd. Fjármálafurstarnir setja kúrsinn á tiltekinn punkt, og enginn mannlegur máttur fær stöðvað þá.

Flosi Kristjánsson, 19.5.2010 kl. 15:20

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Salvör,

frábær færsla, ætti að skylda þingmenn til að lesa hana 100 sinnum á dag.

Gunnar Skúli Ármannsson, 19.5.2010 kl. 20:37

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Fantafín frábær framzaga, & frá framzóknarmanni...

Steingrímur Helgason, 19.5.2010 kl. 23:40

4 identicon

Kæra Salvör; Þú setur ný viðmið á bloggskrif með þessum pistli. Takk fyrir mig.

Heiða B Heiðars (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 00:04

5 Smámynd: Þórarinn Baldursson

Þetta er einhver mesta snildar ræða sem ég hef séð lengi,hafðu mínar bestu þakkir.

Þórarinn Baldursson, 21.5.2010 kl. 00:28

6 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Það er ekkert sem afsakar ríkisstjórnina, eða réttara sagt þann hluta ríkisstjórnarinnar sem vill ekki afhenda einkaaðilum orkulindirnar á silfurfati. HINN HLUTI RÍKISTJÓRNARINNAR er auðvitað hæstánægður.

Ríkisstjórnin svaf ekki. Hún var ekki of sein. Hún var klofin í málinu og þess vegna stöðvaði hún ekki samninginn. Katrín Júlíusdóttir og Árni Páll Árnason hafa örugglega stutt kaup Magma Energy á HS Orku og sennilega Gylfi Magnússon líka. Í þeirra huga er þetta "nútímavæðing" og "alþjóðavæðing" og færir landið nær paradís. Magnús Orri Schram hefur án efa barist fyrir þessum lyktum og Skúli Helgason lagt blessun sína yfir þau.

Það er ekki ríkisstjórnin sem kóar heldur hluti hennar. Hinir eru á fylleríi. Andstæðingar sölunnar kóa með hinum og vonast til þess að þeir verði ekki alveg svona heimtufrekir næst. Þeir bíði með að selja Landsvirkjun þar til þeir komast í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Og þeir láti að minnsta kosti allra allra fallegustu náttúruperlurnar í friði og til þrautavara gangi ekki mjög hart gegn þeim.

Vandamálið í hnotskurn er það að handbendi og samstarfsmenn ræningjanna eru vel skipulagðir og vel tengdir í stjórnkerfinu, í ríkisstjórn og í sveitarstjórnum út um allt land. Iðnaðarráðuneytið er troðfullt af þeim, svo og orkufyrirtækin. Ég er handviss um að meirihluti Alþingis, stór hluti Samfylkingar, allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og flestir þingmenn Framsóknarflokksins myndu greiða atkvæði með kaupum Magma Energy á HS Orku. Því miður. 

Guðmundur Guðmundsson, 21.5.2010 kl. 05:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband