18.5.2010 | 05:58
Gos, Twitter, náttúruhamfarir og byltingar
Myndband frá Eyjafjallajökli eftir Sean Stiegemeier
Þegar aðstæður breytast mjög hratt og þannig að hefðbundnir fjölmiðlar ná ekki á vettvang með fréttirnar þá koma eiginleikar hinna nýju félagsneta og ýmis konar netmiðlunar í ljós og fréttir ferðast áfram, ekki í gegnum útsendingar heldur meira eins og rafboð sem seitla eða streyma áfram eftir tauganeti heimsins, tauganeti sem núna er samsett að hluta úr sjálfvirkum skynjunarbúnaði og sjálfvirkum sendibúnaði upplýsinga, upplýsinga um jarðskjálfta sem birtast á vef Veðurstofunnar, upplýsinga úr vefmyndavélum eins og Míla o.fl. hafa sett upp og svo ýmis konar rýni fólks í þessar upplýsingar sem velur út hvaða upplýsingar eru sendar áfram um Netið og hvernig þær eru túlkaðar.
Það er sennilega í stríði og byltingum eða náttúruhamförum sem eiginleikar nýrra félagsmiðla á Netinu og annars konar netmiðlunar koma skýrast í ljós. Eiginleikar sem eru ekki bara tæknilegir heldur líka þannig að miðlunum er öðruvísi stýrt og sú ritskoðun sem þar á sér stað fylgir öðrum reglum en í hefðbundnum prent- og ljósvakamiðlum.
Oft er því haldið fram að hinir nýju miðlar séu óritstýrðir, þar sé fullkomið tjáningarfrelsi og þessir miðlar séu vettvangur hins smáða og hrjáða og vettvangur þar sem þaggaðir hópar geta látið að sér kveða, hrópað og látið hlusta á sig og haft áhrif. Það er að sumu leyti satt en það er tímabundið ástand.
Ef við gefum okkur að félagslegt landslag fjölmiðlunar sé þannig að það skiptist í þá sem hafa rödd þ.e. ráða yfir fjölmiðlun og stýra þeim sannleika sem fjöldanum er birt og hafa í þjónustu sinni flestallt fjölmiðlafólk og bókmenntaelítu sem er þeim háð með lífsviðurværi og svo hins vegar í valdalausan og þaggaðan múg sem er eingöngu viðtakendur þess sannleika sem fjölmiðlaeigendur vilja að sé haldið á lofti, sannleika sem er þannig að fjölmiðlaeigendur eru á stalli og fréttaflutningi hagrætt þannig að það þjóni viðskiptahagsmunum þeirra þá getum við líka gefið okkur að eitt af hlutverkum fjölmiðla sé að viðhalda eimitt þannig valdastrúktúr.
Ef við gefum okkur þannig ástand að allir hefðbundnir fjölmiðlar séu undir stjórn kúgara sem með hliðvörðum og sigturum sigta hvað kastljós fjölmiðla sér og miðlar þá tekur smátíma fyrir slíka fjölmiðlun að átta sig á að völdin eru að fjara undan slíku kerfi - einmitt af því að völdin eru að töluverði leyti fólgin í fjölmiðluninni sjálfri, í því að láta almenning trúa á það líkan sem dregið er upp í fjölmiðlum. Þetta er svipað og völdin í hefðbundnu peningakerfi eru fólgin í trausti almennings á því líkani af viðskiptum sem það kerfi byggir á og svo mikilli tiltrú að almenningur notar það kerfi og afneitar því ekki. Sama er um lög og reglur samfélagsins, það er líka líkan og völd laga- og dómskerfis byggast á því að fólk hafi tiltrú á því kerfi (ekki bara tiltrú á þeim veruleika um réttlæti sem lögin miðla heldur líka tiltrú á að það eigi að hlýða lögunum og það hafi slæmar afleiðingar að það sé ekki gert). Raunar eru völd í margs konar kerfum fólgin í svona tiltrú á að kerfið virki, gott dæmi um þetta eru trúarbrögð og alls konar sköpunarsögur og upprunasögur sem sagðar eru og endurteknar eins og leiðarstef til að halda hópum saman utan um eitthvað fyrirbæri.
Ef almenningur hins vegar snýr sér annað t.d. fær boð um hvað er fréttnæmt að gerast ekki frá Mogganum og ekki frá BBC heldur beint frá uppsprettu frétta t.d. sjálfvirkum jarðskjálftamæli eða vefmyndavél frá eldgosi eða frá símabloggara með vefmyndavél sem tekur upp götuóeirðir þá er þessi ritstýrða og túlkaða og miðlæga miðlun hefðbundins fjölmiðils orðin minna virði og ef verkfærin (wikifréttir, twitter, blogg, facebook og margt fleira) vinna með þannig miðlun sem er meira eins og ótal fréttastraumar sem samtvinnast og rekjast sundur og eru sumu leyti vélrænir og sumu leyti túlkaðir af fólki þá kemur að þeim punkti að þeir sem stýra og þeir sem búa til og miðla fréttum í hinum hefðbundnu miðlum átta sig á því að þeir eru eins og strandaðir hvalir.
Þannig er það í dag, þessi tegund af miðlun leikur grátt marga sem sótt hafa völd sín í að byggja í kringum sig hjúp þar sem þeirra eigin sannleikur er sá eini rétti, ríkisstjórnir hafa byggt tilveru sína á því, stórfyrirtæki athafna sig með hliðsjón af því og það fjármálakerfi sem umlykur allar vestrænar þjóðir er raunar svo mikið afsprengi prentaldar að helsta táknmynd þess er einmitt peningaprent og þetta skiptimiðakerfi fyrir flæði í samfélögum er alfarið byggt á trausti almennings, trausti á að einhver raunveruleg verðmæti séu bak við tölur ritaðar á alls konar blöð svo sem hlutabréf, skuldabréf, verðbréf og peninga.
Hin nýja blanda af félagsneta miðlun og sjálfvirkri miðlun og alls konar sjálfvirkni og vélvæðingu upplýsingaheimsins ógnar sífellt meira hefðbundinni miðlun og er Disruptive technology sem ýtir burtu eldri aðferðum. Það getur verið að um tíma hirði engir um að nota slíka miðla nema þeir sem komast ekki að í hefðbundnari miðlum. Þannig var bloggið um tíma og er hugsanlega ennþá miðill hinna áður þögguðu og kannski ein af fáum hugsanlegum leiðum til að hafa áhrif. Hins vegar er líklegt að sömu öfl og höfðu hagsmuni af að ákveðinn gerð af þeirra sannleika hljómaði átti sig á að sá hljómur deyr út ef þau halda sig eingöngu við hefðbundna fjölmiðlun. Þess vegna sjáum við alls konar tilraunir í gangi að hefðbundnir miðlar (og þá með óbeinum hætti þeir sem að þeim standa) teygja sig yfir í þessa hlið miðlunar. Sumt hefur gengið illa, sumt betur. Á tímabili var bloggsamfélagið í kringum mbl.is einn öflugasti samræðuvettvangur Íslands en það er áberandi hve sá vettvangur var brotinn niður væntanlega vegna þess að hann þjónaði ekki hagsmunum eigenda þess fjölmiðils. Það er líka áhugavert í dag að nokkrir af áhrifamestu og mest lesnu bloggurum Íslands í dag eru menn sem eiga rætur sínar í gömlum fjölmiðlum t.d. eins og Jónas á jonas.is og Egill á silfri Egils á eyjan.is.
En það var reyndar Twitter sem ég ætlaði að fjalla um í þessu bloggi og hvernig og hvaða áhrif sá vettvangur hefur núna. Ég hef skrifað áður blogg um Twitter, um hve mikilvægt baráttutæki Twitter getur verið í andspyrnuhreyfingum, sjá hérna Byltingartólið Twitter og morðið á Rodrigo Rosenberg
Twitter er mjög samanþjappaður fréttastraumur, allir geta orðið notendur og þetta er örbloggskerfi og hvert blogg má bara vera 144 stafir, svipað eins og statusuppfærslur í facebook. En twitter er meira en örblogg, það er samræða og samræðurnar fara fram í gegnum að notendur búa til hópa, gerast áskrifendur að fréttastraumum annara og það sem er mikilvægast, auðkenna fréttir sínar sérstaklega fyrir aðra með "tagging" t.d. ákveða að allar fréttir af eldgosunum á Íslandi eigi að merkja með taginu #icerupt og allar fréttir um öskuský eigi að merkja með taginu #ashcloud og allar fréttir um Icesave samningana eigi að merkja með #icesave.
Sem dæmi um hvernig Twitter vinnur þá póstaði ég í gær í örvæntingu minni um hvernig ástandið væri á Íslandi þegar orkulindir Íslendinga eru að komast úr lögsögu Íslendinga ofan í kommóðuskúffu í Svíþjóð í kommóðu sem er í eigu kanadísks fyrirtækis sem stýrt er af manni sem auðgaðist á spákaupmennsku og viðskiptum með silfurnámur í Suður Ameríku. Eitt að því sem ég póstaði var vísun í gamla grein um Magma og HS Orku. Svo sá ég í dag þegar ég sló inn leitarorðið Magma í search.twitter.com að einhver háskólamaður við háskóla í USA var að endurpósta (retweet) á twitter vísun í mína twitter sendingu frá því í gær. Þegar ég rakti þræðina áfram þá sá ég að hún hefur rekist á twitter straum frá rvkgrapevine en sá twitternotandi hefur rekist á mitt tvít og endurpóstað (retweet) hann. Sjá þessa skjámynd. Þannig geta sendingar á Twitter borist áfram, ekki bara til þeirra sem fylgjast með straumum (eru á áskriftarlista) heldur líka með leit.
Twitter er skráningakerfi, twitter er samræður, twitter er samtvinnun á örstuttum umræðum margra og þannig er twitter líka leitarvél, ein besta leitarvélin til að leita af því nýjasta, því sem er mest í umræðunni, því sem vísar í annað. Margir nota reglubundið twitter til að gefa upp slóðir, segja frá að þeir hafi sett eitthvað nýtt út á vefinn, vísa í slóðir þar sem upplýsingar er að fá. Í öskuskýjafarinu á flugvélum varð til merkingin #ashcloud þar sem allt sem varðaði öskuskýið var sett inn.
En margir nota twitter líka til að plögga vöru og þjónustu sem þeir eru að selja að afla málstað sínum liðsinnis. Ég og fleiri skráðum oft á twitter færslur þegar Icesave umræðan var í algleymingi. Núna reyna ýmsir aðilar í ferðamálum að plögga á twitter og fleiri netmiðlum að hér á Íslandi sé allt með kyrrum kjörum, að vísu gos en það sé voða meinlaust og sætt fyrir túrista. Ég tók eftir að í gosfréttunum þá voru öðru hverju illa dulbúnar auglýsingar frá hótelum merktar með #icerupt.
Hér er skjámynd af twitterstraum af taginu #icerupt
Þetta mun til lengri tíma eyðileggja þennan vettvang sem og aðra, raunar má segja að twitter komi núna í staðinn fyrir vefþjónustuna Technorati sem virkaði svipað. Auglýsingar verða hávaði á twitterstraumum og að því kemur að upplýsingarnar drukkna í hávaða. En það er mikilvægt að átta sig á að twitter og svipuð kerfi eru öflug verkfæri þegar náttúruhörmungar ríða yfir og kannski eina sambandið sem næst við fólk er í gegnum gervihnetti og síma sem eru þeim tengdir. Það er mikilvægt fyrir aðila sem samhæfa björgunarstarf að læra á slík verkfæri þ.e. twittersendingar í gegnum símtæki og að lesa og vinna með slíka miðla og nota þá til að samhæfa aðgerðir, það sparar tíma ef til þess kemur að það þarf að nota slík boðkerfi.
Mikið sprengigos í gangi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:35 | Facebook
Athugasemdir
Fróðleg lesning en ekki hægt að tengja hana beint við fréttina þarna á undan
Sigurður Haraldsson, 18.5.2010 kl. 09:56
Fyrir gefðu gleymdi að opna myndbandið sem var að sjálfsögðu aðal efnið hitt eftirmáli.
Sigurður Haraldsson, 18.5.2010 kl. 09:58
Tengingin við fréttina er ekkert sérstaklega mikil. Gamall vani sem ég þarf að venja m ig af að tengja blogg við fréttir. Þetta er blogghugleiðing um hvernig nýjum og gömlum miðlum lýstur saman sérstaklega í byltingarástandi eða við náttúruhamfarir.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 18.5.2010 kl. 11:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.