11.5.2010 | 09:00
Hvað er Reykjavíkurborg í ábyrgð fyrir miklu af skuldum Landsvirkjunar?
Við horfum á fjármálakerfi Evrópu á heljarþröm. Hættan er ekki gengisfall evru heldur að öllum verði ljóst að einhver ríki munu hvorki vilja né geta staðið við skuldbindingar sínar. Hættunni á hruni í Evrópu var afstýrt um hríð með innspýtingu Evrópska seðlabankans sem lánar Grikkjum þannig að hann kaupir upp ríkisskuldabréf Grikklands og gefur sjálfur út euro bonds. Því miður er líklegt að skuldavandi annarra Evrópuríkja komi fljótlega upp á yfirborðið. Það er skrýtið að lesa um stofnun neyðarsjóðs "sem ætlað er að koma í veg fyrir að skuldavandi Grikklands breiðist út til annarra evru-ríkja".
Skuldir eru ekki smitandi en mörg ríki og raunar flest eru í þannig stöðu að þau hafa síðustu ár fjármagnað sig með sölu á ríkisskuldabréfum sem þau geta ekki borgað upp heldur verða að endurnýja og endurnýja, þau þurfa að endurfjármagna sig reglulega. Þetta viðskiptamódel nútíma ríkisfjármála þekkjum vel þegar bankakerfið hérna féll með bauki og bramli. Fjárfestar vildu ekki lengur lána bönkunum og mátu það mjög áhættusamt. Meiri áhætta, meiri vextir og himinhátt skuldatryggingarálag. Það var í skamman tíma hægt að leyna vandanum og nota ýmis konar skrýtna gjörninga til að halda uppi verðmæti banka og koma í veg fyrir að matsfyrirtækin lækkuðu matið. Það er verið að rannsaka suma þessa gjörninga sem sakamál núna.
Tíminn leiðir í ljós hvort traust gufar upp á fjármálamörkuðum Evrópu eða hvort þetta síðasta útspil evrulanda bjargar kerfinu frá falli. Því miður er ekki líklegt að það verði annað en gálgafrestur en ríki og ríkjasambönd hafa þó það fram yfir banka að þau geta breytt umgjörð fjármálakerfisins og gera það væntanlega sér í hag ef þannig ástæður skapast (sb. neyðarlögin hérna). Það eru sennilega þannig aðstæður núna að evruríki geta ekki hugað að strúktúrbreytingum heldur verða að tjasla saman kerfinu sem fyrir er, en fyrir okkur sem á horfum þá er einkennilegt að stór ríkjasambönd skuli svona lappa upp á kerfið fyrst og fremst frá sjónarhóli fjárfesta og spákaupmanna en ekki aftengja kerfið strax.
Í tilviki Íslendinga þá er það afar óréttmætt og fjandsamlegt almenningi að á svipstundu skuli vera hægt að lækka launin okkar um tugi prósenta þegar gengi íslensku krónunnar fellur og á sama tíma verðtryggðar og gengistryggðar skuldir og ofan á þetta kemur að grunni undir margri alvöru atvinnustarfsemi var kippt í burtu og margir misstu vinnu og atvinnutæki. En á sama tíma hafi maður gengið undir manns stað í stjórnsýslunni að bjarga innlendum innistæðum í Sjóði 9 og þess háttar peningamarkaðssjóðum og að skuldsetja Íslendinga í margar kynslóðir fyrir skuldbindingum sem við vissum ekkert að við værum í ábyrgð fyrir vegna bankareksturs fjárglæframanna í útlöndum. Við greiddum þjóðaratkvæði um hvernig okkur leist á að taka yfir þær skuldir og gera að okkar skuldum og skuldum afkomenda okkar. En það sem gerðist á Íslandi er að gerast í mörgum öðrum ríkjum heimsins.
Það er hroðaleg tilhugsun fyrir íbúa í ríki að ríkið verði gjaldþrota eða þurfi að ganga til samninga við þá sem eiga skuldirna? En er það eitthvað hroðalegra en að íbúarnir verði einhvers konar skuldaþrælar í margar kynslóðir? Er eitthvað að því að horfast í augu við stöðuna, meta ástandið, meta hvað gerist ef við spilum ekki lengur með í fjármálapóker heimsins, spilum ekki með einfaldlega af því við eigum enga spilapeninga lengur og reynum að sannfæra aðrar þjóðir um að það sem er núna verið að gera og kallað björgunarpakkar víða um lönd er spilaborg, ekki skjaldborg.
Bráðlega göngum við til kosninga hér í Reykjavík. Fjárhagur Reykjavíkur er ágætur samkvæmt þeim ársreikningi sem nú eru lagður fram og öllu er stýrt hér af ráðdeild eftir að síðasti meirihluti (meirihluti nr. 4) tók við. Reyndar var ástandið líka ágætt í tíð meirihluta nr. 2. Það hefur ekki verið auðvelt verk en hér í Reykjavík hefur aldrei áður verið eins mikil samvinna milli meirihluta og minnihluta og eins mikil sátt um hvaða leið skuli fara. Þetta er kærkominn endir á þeim mikla skrípaleik og fjölmiðlasirkus sem einkenndi borgarmálin á því kjörtímabili sem er að líða. Þar má nefna REI málið og borgarstjóratíð Ólafs Magnússonar og allan þann skrípaleik í kringum þegar meirihlutar féllu og mynduðust. Þetta voru miklir niðurlægingartímar fyrir borgarstjórn og kjörna fulltrúa.
En kjörtímabilið í Reykjavík endar á giftusamlegan hátt. Núna er tími samvinnustjórnmála í borginni og vonandi verður sams konar sátt um stjórnun borgarinnar eftir kosningar hverjir sem þá koma til að sitja í borgarstjórn. Það er á ábyrgð borgarfulltrúa að sjá um að svo sé en það er á ábyrgð borgarbúa að breyta ekki kosningunum í skrípaleik þar sem sá sem segir mestu brandarana vinnur stærstu sigrana.
En núna þegar ég heyri borgarstjóra tala um góðan hag Reykjavíkurborgar, góðan hag sem vissulega endurspeglast í þeim ársreikningi sem lagður er fram í lok kjörtímabilsins þá get ég ekki gert að því að um mig læðist ótti og ég rifja upp nákvæmlega sams konar orðræðu og Geir Haarde viðhafði á sínum tíma, ég rifja upp áramótaræðu hans í byrjun ársins sem allt hrundi þegar hann sagði ríkissjóð skuldlausan og lýsti ástandinu sem góðu.
Svo kom í ljós að við vorum í ábyrgð fyrir hroðalega miklum skuldum sem til var stofnað í hroðalega einkennilegum gjörðum í hroðalega einkennilegu bankakerfi.
Hverjar eru ábyrgðir Reykvíkinga núna t.d. ef Landsvirkjun verður gjaldþrota eða getur ekki staðið við skuldbindingar sínar?
Gríðarlegar hækkanir á mörkuðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.