Illa farið með fé í Byrginu, illa farið með örorkubætur óreglufólks

Það virðist hafa verið mikil fjármálaóreiða hjá Byrginu og samkrull á fjármálum forstöðumanns og fjármálum meðferðarheimilis. Mér virðist hins vegar á því sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ekki sé ástæða til að ætla að þarna sé einhver vísvitandi að féfletta skjólstæðinga og opinbera aðila , frekar virðist þetta dæmi um rassvasabókhald manns sem skilur ekki á milli persónulegs lífs síns og þess reksturs sem hann hefur með höndum og fylgir ekki góðum verkreglum við bókhald og reikningshald.

Það er nú þannig að  sá drifkraftur sem forstöðumaður Byrgisins hafði og starfsemin byggðist á var hvorki  tilkominn vegna  reikningshaldskunnáttu né fagþekkingar heilbrigðisstétta á meðhöndlun á áfengis- og eiturlyfjafíkn. Það er erfitt að skilja hvers vegna starfsemi sem rekin var svona skrýtilega fékk mikið fé frá  opinberum aðilum fyrir einhvers konar umönnun og meðferð á mjög veiku fólki. 

Sennilega hefur ástand þess fólks sem Byrgið sinnti bara verið svo alvarlegt að það hefur verið allt gert til að taka fólkið af götunni og koma því á staði eins og Byrgið. Það sem mér finnst reyndar verst er að það skuli hafa verið eina úrræðið sem var í boði fyrir mjög langt leidda fíkla að verða ofurseldir einhvers konar ofsatrú og þá á ég nú ekki bara við Byrgið. Það er nú ekki þannig að ég viti ekki að trúarinnlifun hjálpar sumum við svona aðstæður heldur frekar það að mér finnst fólk í þessum erfiðu aðstæðum ekki hafa haft neitt val. Var einhver annar staður sem bauð sams konar þjónustu og sinnti sama hópi og Byrgið? 

Það hins vegar verður að gera eitthvað í málefnum skjólstæðinga Byrgisins og það er ekki víst að það sé neitt gott að loka þeim stað eða láta starfsemina þar fjara út.  

í fréttablaðinu í dag var þessi klausa sem vakti mig til umhugsunar:

"Jóhann Vísir Gunnarsson og Sævar Ciesielski, sem eru fastagestir Gistiskýlisins segja mikla þörf á úrbótum. Þeir vilja að yfirvöld bregðist við af alvöru og setji fram lausnir sem miði að því að gera heimilislaust fólk að þátttakendum í samfélaginu."

Ég er alveg sammála þessu. Það er skammarlegt hvernig yfirvöld standa sig í þessum málaflokki. Það er líka afar einkennilegt hvernig yfirvöld og allt samfélagið kóar með fíklum og ógæfufólki og viðheldur eymd þessa hóps með ýmsum hætti.  Ég hugsa að stór hluti óreglufólks sé á opinberum bótum sem það notar ekki sér til framfærslu heldur til að viðhalda fíkn sinni. 


mbl.is Innlegg úr söfnun fóru jafnóðum inn á persónulegan bankareikning forstöðumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband