Færsluflokkur: Sjónvarp
14.1.2008 | 03:48
Leiðarkortið í Spaugstofu og flísin í auga Gylfa Ægissonar
Spaugstofan heldur áfram að gera grín að okkur og sýna okkur samtímann í spéspegli. Alveg dáist ég að þeim kumpánum sem sífellt koma á óvart með smellnu gríni. Það var bráðfyndið í gærkvöld innslagið um Kjöl þegar þeir tóku fyrir þessa áráttu mannanna að sjá alls staðar mynstur og tákn og dulrúnir. Sérstaklega var fyndið þegar rýnt var í málverkið á Alþingi af Kópavogsfundinum (þessum "Vér mótmælum allir" fundi) og það var fundið út að augnsamband karlanna á myndinni sýndi svo ekki verður um villst leiðarkerfi Strætó.
Það er nú bara hollt fyrir alla að leita að heimskortum og leiðarstefum í sínu lífi og það má leita að slíku korti á ólíklegustu stöðum svo sem í Huldubókasafninu í Hafnarfirði eða með því að ráða rúnirnar í rákum marmaraflísa á klósettinu heima hjá manni.
Það gerði Gylfi Ægisson í eftirminnilegum þætti á Stöð 2. Gylfi er frábær en ég var ekki viss um að flísadæmið væri grín frá hans hálfu. En mér stökk bros og er reyndar búin að brosa síðan að þessu atriði, það var bara svo últra kómiskt að horfa á það eftir Spaugstofuna. Gylfi er frábær og eins og listamanna er siður þá er ímyndunarafl (nú eða skynjun) hans og innsæi mikið og hann getur glætt eina flís svo miklu lífi að hún segir lífssögu hans. Ef þetta eru ekki töfrar þá veit ég ekki hvað töfrar eru. Það er skemmtileg gáfa að geta séð tákn um sína eigin tilveru rista á klósettvegginn heima hjá sér. Reyndar hugsa ég að allir geti þróað með sér svona skynjun, það er hægt að búa til kristalskúlur úr hverju sem er - en það hjálpar að nota hluti þar sem ljósið brotnar eða hluti þar sem eru margir ógreinilegir skuggar og strik, það er í hinu ógreinilega og hverfula sem svona leiðarkort verða til.
Annars er hér skemmtilegt Heimskort með frægu fólki. Það er gaman að spreyta sig á því hver er á myndinni. Ég er búin að finna Lenín, Margaret Tatcher, Clinton, Sirley Temple og Maó.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 03:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.11.2007 | 20:02
Bloggfréttatími Salvarar - Fyrsti þáttur - Kauptu ekkert dagurinn
Það var svo hrikalega óspennandi efni í fréttum í dag á Íslandi að ég ákvað bara að setja í loftið minn eigin fréttatíma. Ég bjó mér til rás á ustream.tv og sendi út þátt þar. Það var enginn áhorfandi að þessum fyrsta fréttatíma mínum þar en sem betur fer fyrir heiminn og íslenska moggabloggsamfélagið þá gat ég smellt á upptöku og tekið þetta upp. hérna er sem sagt hægt að horfa á þáttinn.
Það eru betri hljóðgæði í ustream.tv en í öðrum kerfum sem ég hef verið að prófa. Myndgæðin eru nú ekkert sérstök, ég á eftir að athuga hvort ég geti stillt þau betur. Þessi þáttur er um 8. mínútur.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.12.2006 | 21:09
Meðferð og skutl
Ég var að hlusta á Kastljós áðan. Þar var viðtal við Sigmund Ernir. Hann er traustur og trúverðugur fréttamaður og ég hef fulla trú á því að Kompás hafi unnið eins vel og hann lýsir umfjöllunina um meðferðina sem breytist í martröð. Ég horfði áðan á Kompásþáttinn á Netinu. Ég horfði líka áðan á viðtalið við Tom Stephens sem hefur nú verið handtekinn og er grunaður um morð á vændiskonum í Ipswich.
Það er eitthvað líkt með þessari fjölmiðlaumfjöllun hér heima á Íslandi og í Bretlandi um þessi tvo ólíku mál og það er eitthvað líkt með þessum málum. Málið í Bretlandi er auðvitað sýnu alvarlegra og ég er ekki að bera þessi mál saman til að sverta mannorð einhvers með að bera saman bandingjaleiki og morð heldur til að benda á hve kynferðisleg smánun og misþyrmingar á konum er vinsælt yrkisefni fjölmiðla og reyndar líka aðalþemað í mörgu af því skemmtiefni sem okkur er boðið upp á. Ef til vill eru þetta galdrabrennur og ofsóknir nútímans, í báðum tilvikum er um grunaða en ekki sakfellda að ræða og á einhvern hátt er þetta fréttaefni eins konar fréttaklám, fréttagildið og athyglin sem málin fá eru tengt því að hér er kynbundið ofbeldi, afbrigðilegt kynlíf sem byggir á valdi eins og valdaleysi annarra, niðurlæging og smánun á konum og sögur af varnarlausum konum króuðum af í vonlausri aðstöðu. Sögur af bráð og veiðimanni. Sögur af ófreskjum og því sem þær éta.
Í báðum málum eru konurnar illa haldnir eiturlyfjasjúklingar. Það er líka líkt að í báðum tilvikum hafa fréttamenn tekið viðtöl við hina grunuðu og þeir eru lýstir upp sem persónur í "profiling" eins og í sakamálasögum. Tom Stephens virðist hafa notið þess að skutla vændiskonunum sem voru myrtar milli staða og var að eigin sögn í einhvers konar trúnaðarsambandi við þær. Hann segir: ""They'd quite often want a lift to get their drugs and I would give them a lift and it was better for me like that and that's how it developed into a friendship with a number of the girls."
Reyndar sé ég að umræðan á BBC er að einhverju leyti um vændi og hvernig eigi að vernda vændiskonur. Það er áætlað að 80 þúsund manns vinni við vændi á Bretlandseyjum og þar af séu 4 af hverjum 5 konur. Það er hins vegar til marks um á hvaða stigi umræðan er að aðallausnin er talið að koma upp viðurkenndum vændishverfum. Það er nú hins vegar kannski þannig að vændiskonur eru í mestri hættu að vera drepnar af þeim sem skutla þeim milli staða.
Guðmundur lætur tímabundið af störfum fyrir Byrgið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2006 | 14:09
Byrgið, Konukot, Vogur, brauðfætur og kvalalosti
Félagar mínir í Femínistafélaginu stóðu á sínum tíma mörg að söfnun vegna Konukots sem er afdrep fyrir heimilislausar konur sem nánast alltaf eru líka í bullandi óreglu eða alvarlega veikar á geði. Þegar undirbúningur að því afdrepi stóð yfir þá spurði ég "Hvers vegna í ósköpunum þarf sérstakan samastað fyrir konur, er ekki sams konar ógæfa að vera maður og kona við þannig aðstæður?" Þau sögðu mér þá að þannig væri það ekki, konur í óreglu væru útsettar fyrir alls konar kynbundið ofbeldi á stöðum fyrir heimilislausa af karlmönnum sem þá staði sækja sem annað hvort nýttu sér ástand og úrræðaleysi kvenna til að svala kynfýsnum sínum eða sem hefðu hagmuni af því að konan héldist áfram á götunni í neyðarvændi sem framfleytti þeim.
í gærkvöldi var sýndur í sjónvarpi þáttur um stjórnanda trúfélags sem rekur meðferðarheimili fyrir mjög langt leidda fíkla og þar var eftir því sem ég best veit (ég hef ekki séð þáttinn, eingöngu umfjöllun í fréttum og á bloggi) haldið fram að viðkomandi hefði verið í kynferðissambandi við nokkrar konur sem á þeim tíma hefðu verið í meðferð á þessum stað. Þetta var tengt við umræðu um kvalalosta.
Ég veit lítið um þetta einstaka mál nema það sem ég sé á skrifum annarra og vona að fólk dæmi ekki aðra nema fyrir liggi sekt þeirra af þeim aðilum sem eiga að segja til um sekt eða sýknu. Það að vera ásakaður í fjölmiðli um eitthvað er ekki sama og að vera fundinn sekur fyrir dómstólum.
En það getur verið að það séu engin lagaákvæði og engar vinnureglur meðferðarstofnana sem taka á eða leggja bann við því að meðferðaraðili sem ekki tilheyrir þeim starfstéttum sem hafa siðareglur sé í kynferðissambandi við þann sem er í meðferð. Það eru siðareglur meðal lækna og sálfræðinga og fleiri fagstétta sem taka á svona málum og ég hef fylgst með að einn liður í menntun umönnunarstétta er að kenna þeim að vera vakandi fyrir ýmis konar mögulegri misneytingu þeirra sem njóta umönnunar og vita hvað á að gera ef grunur vaknar um slíkt. Það ætti að vera skilyrði til að fá fé frá opinberum aðilum að þar sé eftirlit og völd fengin fagfólki sem fylgir siðareglum og sem hefur sérstaka skólun í að taka á málum sem þessum og reyna að fyrirbyggja mögulega misnotkun starfsmanna á skjólstæðingum.
Það er hins vegar þannig að þeir sem sjálfir hafa verið djúpt sokknir og hafa frelsast á einhvern hátt ná stundum betur til þeirra sem eru á kafi í óreglu, skilja betur aðstæður fíkla því þeir hafa verið þar sjálfir og trúarsannfæring getur oft smitað út frá sér og kærleiksríkt trúfélagið veitt skjól þeim sem hefur verið útskúfað af öllum. Það skjól og það samfélag er ekki síður mikilvægt eftir að meðferð lýkur og ég reyndar held að það sé ein ástæðan fyrir því að slík meðferð er oft árangurríkari en að fara bara inn á Vog og eiga svo að standa á eigin fótum eftir að út er komið. Þeir eigin fætur eru því miður oftast brauðfætur.
Kona sem ég þekki sagði mér frá föður sínum sem var gífurlegur alkóhólisti og allir hans bræður að hún hefði einu sinni keyrt föður sinn á Vog í einni af ótal ferðum hans þangað og þau fóru yfir Hellisheiðina og henni tókst ekki að halda honum þurrum á leiðinni, hann sagðist ekki geta farið inn á Vog nema drekka í sig kjark og hún hafði ekkert val, hún varð að horfa upp á hann þamba bjór í bílnum á leiðinni yfir heiðina eða hann hefði hlaupið út í óbyggðirnar. Hún keyrði hann beint á Vog og við tók nokkurra vikna meðferð á Vogi þar sem allt gekk vel og vonir kviknuðu eins og þær gera alltaf hjá aðstandendum og honum sjálfum um að nú myndi hann hafa það. Þegar meðferðinni var lokið þá hringdi hann til dóttur sinnar og ætlaði að koma beint til hennar. Hann féll á leiðinni. Einhverra hluta vegna gat hún ekki náð í hann og og hann fékk ekki annað far svo hann tók leigubíl. Hún er sannfærð um að hann ætlaði að standa sig og þegar hann hringdi í hana og þegar hann lagði af stað út frá Vogi en eitthvað gerðist, bíltúrinn sem átti bara að vera beint frá Vogi og nokkkurra mínútu leið heim til hennar í leigubíl varð ennþá ein hrösunin. Hann lét leigubílinn koma við í Ríkinu og hann sást ekki í einhverja sólarhringa.
Það hafa margir sem allir hafa afskrifað náð að fóta sig aftur í lífinu með aðstoð af samblandi af trú og meðferð og það þarf að skoða líka hvað er gott gert og virkar í meðferðinni hjá Byrginu sem og öðrum trúfélögum sem taka við þeim fíklum sem verst eru settir.
En það er þörf þjóðfélagsumræða að beina kastljósinu að því hve útbreitt og algengt kynbundið ofbeldi er - líka á stöðum þar sem megintilgangurinn er að veita einhvers konar skjól og umönnun og betrunarvist. Það er svo sannarlega gróft kynbundið ofbeldi ef stjórnandi meðferðarstofnunar stundar kynlíf sem einkennist af kvalalosta með konum sem eru í meðferð á stofnun sem viðkomandi stýrir. Ég hef fylgst með bloggumræðunni um þetta mál og bloggpistill Ómars Valdimarssonar vakti mig til umhugsunar um hvernig sama orðræða er notuð til að réttlæta vændi og réttlæta kynbundið ofbeldi eins og hugsanlegt er að átt hafi sér stað. Ómar segir m.a.:
"Engum kemur við, hvað X gerir í svefnherberginu sínu, svo framarlega sem hann gerir það með lögráða einstaklingum, sem eru fúsir til verka."
Það kemur okkur bara víst við hvernig framkoma er í meðferðarúrræðum við fótum troðið fólk og langt leidda fíkla og það er óhugnanlegt og hryllilegt ef fólk í slíkri aðstöðu er notað sem kynlífsleikföng. Ennþá hryllilegri mynd er ef kynbundið ofbeldi inn á slíkum stofnunum einkennist af sams konar kvalalosta og samband viðskiptavinar og vændiskonu í neyðarvændi.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.12.2006 | 03:49
Trú, víma og umburðarlyndi
Ég fann eftirfarandi pistil sem ég skrifaði fyrir tveimur árum inn á malefnin.com en þar var þá mikil umræða um Byrgið. Í kjölfar Kompásþáttarins sem sýndur var í kvöld þá geri ég ráð fyrir að fari í gang mikil umræða í samfélaginu um meðferðarheimili sem trúfélög reka
Einn málverji beindi til mín þessari spurningu:
Kannski er betra að vera í trú en vímu. En er það lífsins ómöulega hægt að þurrka upp fólk án þess að dæla í það öfgatrú?
Finnst þér það bara allt í lagi ef mamma þín yrði hare krishna liði, vottur eða mormóni svo lengi sem það gerir hana þurra? Þætti þér ekki betra að hún yrði bara þurr og héldi síðan áfram sínu lífi?
Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima... finnst þér það hið besta mál?
Ég svaraði svona:
Mér hefði fundist allt í fína þó mamma mín hefði verði í hare krishna liðinu - hefði reyndar verið ótrúlega stolt af því - og ein mágkona mín er vottur og önnur sennilega ennþá innskráð ásamt sínum börnum í Klettinn. En því miður var mamma mín ekki í neinum sérstrúarsöfnuði nema Framsóknarflokknum og faðir minn trúði meira á sæluríki kommúnista en Guð.
Þú segir: "Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima..". Þessi orð þín bera vott um mikinn hroka og lítinn skilning á lífinu. Trúfélög sem trúa á eitthvað sem þú trúir ekki á og þar sem safnaðarmeðlimir kjósa að hegða lífi sínu öðru vísi en þú eru ekki öfgasamtök. Bara öðruvísi.
Og það er ekki til að afla fleiri meðlima sem trúarstofnanir reka meðferðarheimili. Það er frekar vegna þess að margt trúað fólk hefur samlíðan með öðru fólki og vill bjarga því frá glötun - ekki bara líkamanum heldur líka sálinni.
Ég held að fólk sem hefur ekki þörf fyrir trú og sem hefur ekki skilning á trúarþörf annarra sé eins farið og litlum börnum sem hafa ekki náð þroska - á vissu stigi (nokkurra mánaða) eru öll börn þannig að það sem er ekki fyrir framan augun á þeim er ekki til - jafnvel þó þau horfi á þegar maður tekur einhvern hlut og hylur hann - þá dettur þeim ekki í hug að leita að hlutinum þar sem hann er hulinn sjónum - hann er ekki til af því þau sjá hann ekki.
Ég held líka að fólk sem er ófært um að hafa samlíðan með öðru fólki eða skilning á að aðrir láti sig örlög samferðafólks varða hafi ekki náð þroska og dýpt sem manneskjur. Ef maður horfir á ógæfu annarra bara til að spegla sjálfan sig í henni og sér ekkert annað en að þar séu aumingjar sem hafi staðið sig illa, breytt rangt og eigi skilið að hafa ratað í raunir - þá er maður að horfa á aðstæður bara út frá sjálfum sér og eins og að hlakka yfir óförum annarra og dáðst að sjálfum sér fyrir að hafa ratað beina og breiða veginn.
Ég er ekki viss um að allir nái þeim þroska í lífinu að hafa samlíðan með öðrum eða skilning á því að það er eitthvað til æðra en þeirra eigin vitund. En ég held að umburðarlyndi og trú - alls konar trú - hjálpi fólki til þess þroska.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)