Færsluflokkur: Ferðalög

Meira um San Antoníó

Hér er ég með fjórum konum sem ég kynntist á ráðstefnunni í San Antonió. Þær eru allar í doktorsnámi í upplýsingatækni og menntun, tvær í  Austin í Texas, ein í Illinois og ein í Florida. Tvær eru frá Suður Kóreu, ein frá Taiwan og ein frá Líbanon.  Í hádegishléinu gengum við meðfram ánni í miðbæ San Antonio, þar eru fallegir göngustígar, þetta er kallað Riverwalk. Seinni partinn fór ég með Hanidi  frá Líbanon í skoðunarferð, við keyrðum um borgina og skoðuðum gömlu hverfin  og fórum í Alamo sem er einn af sögustöðum Bandaríkjanna. Um kvöldið gengum við svo um uppljómaða göngustígana við ána og borðuðum á einum veitingastaðnum þar.

   

salvor-texas 189

 

 salvor-texas 197

salvor-texas 031

 

Hér er ég í Alamo við vöxtulega kaktusa. Fólk borðar svona kaktusa.

 

salvor-texas 019

San Antonio í Texas

Ég er núna á ráðstefnunni SITE 2007 í borginni San Antonio í Texas. Það er nú ekki neitt sérstaklega hlýtt hérna, reyndar alveg ískalt hérna í ráðstefnusölunum. Einmitt núna sit ég á fyrirlestri um "Digital storytelling".  Ég kom hingað í fyrradag, keyrði hingað frá Austin og lenti nú ekki í neinum sérstökum vandræðum á leiðinni nema þegar löggan stoppaði mig þegar ég var komin inn í miðborgina. Ég er ekki alveg viss um fyrir hvað, það var löggubíll við hliðina á mér á næstu akgrein og ég reyndi að halda mig eins fjarri honum og hægt var og hef sennilega yfirdrifið það eitthvað því lögreglan setti upp blikkljós og byrjaði að elta mig. Ég náttúrulega keyrði strax út í kant og löggan skipaði mér að vera í bílnum og það kom líka annar löggubíll á vettvang, þeir tóku ökuskírteinið mitt og voru óratíma að tékka og bardúsa en virtust svo komast að þeirri niðurstöðu að ég væri ekki ógn við almannaheill í borginni og kvöddu mig alúðlega. Það er alls ekki neitt þægilegt að vera ein á ferð í bíl í myrkri í niðurníddu verksmiðjuhverfi í ókunnri stórborg hundelt af löggum.

 

 


Týndi síma og bíl í Texas

Á vorjafndægri flaug ég til Boston, ég kom þangað seint um kvöld og gisti þar eina nótt í Winthrop á hóteli rétt hjá flugvellinum. Eldsnemma í morgun flaug ég til Austin í Texas, það var reyndar dáldil seinkun á fluginu vegna þess að þegar vélin ætlaði að hefja sig til lofts þá fór rafmagnið af vélinni. Fólki fannst þetta ekkert allt of traustvekjandi en vélin lenti heilu og höldnu í Austin. Ég tók bílaleigubíl á flugvellinum og fór að nördast í nokkrum tölvubúðum.  Fékk létt panikkast þegar ég uppgötvaði að ég hafði týnt símanum mínum, það er alls ekki þægilegt í útlöndum. Ennþá meira stress þegar ég uppgötvaði að ég hafði týnt bílnum í einhverju af þeim þúsundum stæða sem voru í verslunakeðjuþyrpingunni. Ég gat ómögulega munað hvernig bíl ég var á eða hvar ég hefði lagt honum, mundi ekkert nema að hann var eitthvað bláleitur tveggja dyra, eina kennileitið var að ég mundi að ég hafði sett bókina Paradís í framsætið. Paradís er sakamálasaga eftir Lísu Marklund. Ég var dágóða stund að skima inn í bíla í leit að Paradís.  Þá mundi ég eftir að ég var með einhverja pappíra frá bílaleigunni og þegar ég skoðaði þá betur þá sá ég að númerið á bílnum var þar skráð. Þá fann ég strax bílinn aftur. Svo hafði ég týnt símanum einmitt í farþegasætinu við hliðina á Paradís svo gleði mín var tvöföld, ég fann síma og ég fann bíl. Svo tókst mér að staðsetja hvar ég væri í heiminum með því að kaupa risastórt götukort af Austin í Barnes og Nobles bókabúð og biðja afgreiðslumanninn að segja mér hvar ég væri stödd á kortinu. Það kom á hann og hann gerði mikið veður út af þessu, kallaði til samstarfsmann til að standa vaktina á kassanum af því hann þyrfti að sýna mér hvar ég væri. 

Eftir að ég fann út hvað ég var og var komin með nákvæmt kort þá var auðvelt að rata, ég brunaði þjóðleiðina gegnum bæinn og villtist reyndar nokkrum sinnum eins og maður gerir jafnan á amerískum vegakrossunum en ég komst svo á leiðarenda. Ég sá nú lítið af Austin í dag annað en verslunarmiðstöðvar, flugvöllinn, Interstate vegina og mótelahótelin. Það var nú líka rigning á köflum og kannski ekki svo gott að vera í miðbænum. 


London ..... Strætisvagn No. 26 á Hackney Road

Ég held áfram  að skrá minningar mínar um erlendar stórborgir og alveg eins og New York minnir mig á lagið "I don´t like Mondays" þá minnir London mig á neðanjarðarkerfið (tube) og samgöngukerfið og verkföll. Í fyrsta skipti sem ég kom til London var að skella á verkfall. Ég vissi ekki af því. Ég beið klukkustundum saman með bakpokann minn niðri í neðanjarðarstöð og var samt heppin, ég náði síðustu lest rétt um miðnætti. Ég vissi einu sinni ekki af því að þessi neðanjarðarstöð var talin hættuleg, þetta var fyrir tíma hryðjuverka, áður en lestarstöðvar voru tæmdar af öllu ógæfufólki, þetta var á tíma þar sem helstu hætturnar voru rán og líkamsárásir  glæpona og götufólks.

Iðulega þegar ég kem til London er allt í steik í samgöngukerfinu.  Stundum út af einhverju smávegis eins og seinast þegar að akkúrat línan sem ég ætla að fara er lokuð  en stundum er það út af einhverju alvarlegu eins og  hryðjuverkaárás á neðanjarðarlestir eins og næstseinast.

London minnir mig á strætisvagn  No. 26  á  Hackney Road  í  Bethnal Green  en það var sprenging í þeim vagni 21. júli 2005 einmitt á sama tíma og ég kom til London og var á leiðinni í þetta hverfi. London minnir mig á löggur og hermenn. London minnir mig á Brick Lane og karrýstaði  þar sem engir viðskiptamenn koma og moskuna í Finbury Park.

En ég fann ekki á Youtube neitt lag sem passaði við minningar mínar um London.  

Valdi þess vegna lag  með Ralph McTell um götur London.

Have you seen the old man in the closed-down market
Kicking up the papers with his worn out shoes?
In his eyes you see no pride, hand held loosely by his side
Yesterday’s papers telling yesterday’s news

Have you seen the old girl who walks the streets of London
Dirt in her hair and her clothes in rags?
She’s no time for talking, she keeps right on walking
Carrying her home in two carrier bags

So how can you tell me you’re lonely
And say for you that the sun don’t shine?
Let me take you by the hand
And lead you through the streets of London
I’ll show you something
To make you change your mind


In the all night café at a quarter past eleven
Same old man is sitting there on his own
Looking at the world over the rim of his teacup
Each tea lasts an hour, then he wanders home alone

Have you seen the old man outside the seaman’s mission
Memory fading with the metal ribbons that he wears?
In our winter city the rain cries a little pity
For one more forgotten hero and a world that doesn’t care
 

 


Fann ég á fjalli fallega steina

Það er brosleg sagan af konunni sem skilaði íslenskum hraunmolum aftur  því hún óttast reiði guðanna. Ég tíndi eini sinni marga steina í árvatni í  Landmannalaugum og bar með mér til byggða. Bláir litatónar steinanna hrifu mig þar sem þeir glitruðu í vatninu en svo varð ég fyrir vonbrigðum þegar heim var komið. Steinarnir voru bara fallegir í vatninu, þeir breyttu um lit, urðu móskulegir og óhrjálegir þegar þeir urðu þurrir. Ég setti steinanna  í krukku og gleymdi þeim. Svo var það eina sumarnótt fyrir fimm árum, ég var að búa mig undir að fara  snemma morguns af stað í ferðalag að ég fann þessa steina aftur og langaði til að sjá aftur bláa litinn sem heillaði mig svo ég setti steinana á botninn í skál, fyllti skálina af vatni og setti nokkur flotkerti ofan á. Setti svo skálina á eldhúsborðið. Þetta var mjög fallegt, eins og helgitákn. Atburðarásina eftir það skráði ég á bloggið mitt í  eftirfarandi bloggfærslu Blautur morgunn 3.08.01:

Eldsnemma í morgun byrjaði vatn að leka í eldhúsinu hjá mér. Fossa reyndar frekar en leka. Ég var inn í stofu og heyrði skrýtin hvæshljóð úr eldhúsinu, fór fram til að athuga og þá var hrikalega mikill kraftur á vatni og það fossaði um allt. Það hefur pípulagningamaður verið að vinna í húsinu en ég hafði ekki númerið hjá honum og var ein heima og vissi ekki hvar kaldavatnsinntakið í húsið var. Datt ekkert í hug nema hringja í 112 og þeir sendu björgunarsveit á staðinn. Held að það hafi verið nokkrir lögregluþjónar og svo fólk með öfluga vatnssugu inn í eldhúsinu hjá mér í morgun. það var nokkurra sentimetra pollur í eldhúsinu og byrjað að leka í önnur herbergi. Lexía: Kynna mér eftirleiðis alltaf hvar vatnsinntakið er í húsum sem ég bý í og hvernig á að skrúfa fyrir vatnið ef eitthvað gerist. En ég er þakklát fyrir aðstoð frá neyðarlínunni, þetta er virkileg björgunarsveit.

Þetta blogg er nú reyndar gott dæmi um sögu í sögu og hvernig lesa verður blogg á milli línanna. Bloggið  fyrir fimm árum endar á mjög skynsamlegri lexíu um hve mikilvægt sé að kynna sér hvar vatnsinntakið er í húsum. Það var samt reyndar aldrei aðalatriðið sem ég lærði af þessari lífsreynslu. Ég lærði að alveg eins og brennt barn forðast eldinn þá forðast sá sem hefur vaðið vatnselginn í eigin eldhúsi allar særingar með vatn, kerti og steina sem kalla á vatn.

Gaman að svo skrýtnum og fyndnum sögum um túrista og hindurvitni. Það er alltaf hægt að brosa að þessu Smile


mbl.is Óttaðist reiði guðanna og skilaði hraunmolunum aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband