Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Partur af stærra stríði eða 8340 Land Cruiser jeppar

Ég er þakklát forseta Íslands fyrir að vísa Icesave 3 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur orðið til þess að miklu fleiri tjá sig og setja sig inn í málið en auðvitað líka til að margir tala um málið af tilfinningu og slegið er á strengi múgæsingar.  Ég hét sjálfri mér því að reyna hlusta á og skilja rök þeirra sem vilja segja JÁ þó ég hafi verið hatrammur andstæðingur seinasta Icesave samnings og farið með fjölskylduna í blysför til Bessastaða.  Það gengur hins vegar ekkert hjá mér að sannfærast af rökum þeirra sem nú vilja segja Já, ennþá finnst mér falskur tónn í rökum um  að við þurfum að ljúka samningum til að fá hér inn fjármagn (meiri lán), auka hagvöxt og skapa störf. Í þeirri orðræðu er undirliggjandi  ofurtrú á hagvöxt og  fjármálakerfi eins og við höfum hingað til búið við, líka bernsk  hollusta við ráðamenn og ríkjandi kerfi, svona plástrahugsun  og  trú á að  kerfið sem hrundi  sé í eðli sínu gott, þetta sé spurning um að byggja það upp að nýju með minni hnökrum  og besta leiðin til þess sé sú að ríkisstjórnir  fái  aðgang að sem mestum nýjum lánum með sem lægstum vöxtum.

Þegar fyrsti Icesave samningurinn var settur í þjóðaratkvæðagreiðslu 2010 þá var ráðamönnum tíðrætt um hvernig Ísland myndi einangrast í alþjóðasamfélaginu, "Skelfilegar afleiðingar" sagði forsætisráðherra, "Við verðum Kúba Norðursins" sagði þáverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon eins og sjá má í þessu vídeó frá 2010:

Reyndin varð hins vegar önnur. Afstaða Íslendinga að snarfella samninginn vakti gríðarmikla athygli á alþjóðavettvangi og margir heimsfjölmiðlar fjölluðu um málið og útskýrðu frá sjónarhóli Íslendinga. Almenningur víða annars staðar horfði með aðdáun á viðspyrnu Íslendinga, fámennrar þjóðar sem reis upp gegn ofboðslegri kúgun voldugra grannþjóða, kúgun í formi skuldafjötra sem velta átti yfir á almenning eftir hrun fjármálakerfis. Eftir langan tíma varð til nýr samningur, samningur sem er tvímælalaus miklu hagstæðari en fyrri samningur sem stjórnvöld vildu knýja í gegn.  Þessi nýi samningur fyrir Kúbu Norðursins er allrar skoðunar verður  og ef þetta væri samningur um að Íslendingar greiddu 30 milljarða og þar með myndi þessu milliríkjamáli ljúka þá finndist mér  alveg koma til greina að samþykkja hann, vissulega græddi íslenskt samfélag á bankabólunni í mörg ár og það er gott að halda frið við grannþjóðir  þó þær noti hryðjuverkalög. Blómlegt atvinnulíf þrífst þar sem viðskipti eru og traust ríkir og við höfum vissulega hagsmuni í að halda áfram viðskiptum við Evrópuþjóðir og styrkja vinabönd þjóða þar. Það falla á ríkissjóð miklar skuldbindingar vegna Seðlabankans og ástarbréfaviðskipta,  það eru miklu hærri upphæðir er Icesave.  

En Icesave 4 samningurinn er ekki svona. Hann er samningur um að íslenska ríkið og þar með íslenskur almenningur taki áhættu og taki á sig skuldbindingar á því hvernig tekst að selja eigur fallinna banka í Bretlandi, alls konar viðskiptakeðjur sem keyptar voru í glórulausu floppi íslenskra fjárglæframanna sem stunduðu viðskipti með að búa til eigin peninga í pappírdóti sem þeir flæktu fram og til baka. Það er engin hemja að almenningur á Íslandi taki á sig áhættu af slíkum viðskiptum,  leyfi afætum að nærast á sér og framlengi með því  dauðahryglur  kapítalístakerfis sem er í andaslitrunum, kerfis sem er að kafna í eigin spýju. Það væri  hins vegar hið besta mál að skoða aftur þennan samning eftir að búið er að gera upp bú föllnu bankanna og ljóst er hvernig málið fer.

Þeir Íslendingar sem segja NEI eru ekki að velta því sem þeir eiga að borga fyrir á alþýðu annarra landa. Þvert á móti þá á ég von á því að NEI frá Íslendingum verði tekið fegins hendi af alþýðu í flestum löndum og þá sérstaklega þeim sem hvað mest sverfur að núna, löndum eins og Grikklandi, Portúgal, Írlandi og Lettlandi og verði þeim hvati til dáða. Það  er einmitt það sem stjórnvöld allra ríkja í Evrópu eru hræddust við því þessar kosningar snúast einmitt að hluta til um það að færa völdin til fólksins - frá ríkisstjórnum, frá ríkisstjórnum sem eru svo samflæktar í málið að þær geta ekki leyst vandann, bara velt honum á undan sér, ríkisstjórnum sem reyna í örvæntingu núna að semja um endurfjármagnanir skulda í kerfi þar sem þeir sem skulda mest og þurfa mestan stuðning eru jafnframt þannig að þeir fá sem óhagkvæmust lán og sem hæsta vexti.

Alveg eins og Hrunið hjá okkur og önnur fjármálahrun annars staðar í heiminum koma á stað gríðarlegum tilfærslum á verðmætum þar sem hinir ríkari verða ríkari og hinir fátækari fátækari þá stefnir í það sama um ríki heims eins og einstaklinga - peningakerfið virkar þannig að peningaeignin sogast til þeirra þjóða sem eru ríkar fyrir og það er magnað upp af þeirri trú að það sem ríki sé í ábyrgð fyrir sé traust eign.  Ríkin reyna að viðhalda þeirri blekkingu og það sem er núna að gerast í Evrópu er að sameiginlegur pottur Evrópulanda lengir í lánum einstakra ríkja og tekur lán fyrir þau af því þau hafa sjálf ekki lánstraust lengur. Ríkin gefa út ríkisskuldabréf í gríð og erg (íslenska ríkið ætlar einmitt að hemja jöklabréfin þannig) alveg bontlaust bara ef einhver vill kaupa, ríkisskuldabréf sem eru svo endurfjármögnuð reglulega og skuldin bara stækkar og stækkar og verður skattur á komandi kynslóðir.

Það er þessi vítahringur sem verður að rjúfa.
Það verður að horfast í augu við að peningakerfi heims er ekki að virka eins og hvati á viðskipti og velmegun heldur að búa til afætukerfi, kerfi sem skattleggur almenning, ekki bara í núinu heldur líka veltir vandanum á undan sér inn í framtíðina. Pappírar sem ganga kaupum og sölum í formi hlutabréfa, peninga og alls konar verðbréfa eru margfalt meiri og úr takti við  raunveruleg verðmæti, gjaldmiðlar þjóða eru ekki tengdir í neitt lengur og sum ríki eins og USA prenta peninga í gríð og erg og eru ekki hótinu betri en bankamenn sem bjuggu til eigin peninga með að vingsa milli sín pappírum. Þetta bóluhagkerfi ríkjanna sem ennþá hefur ekki sprungið byggir á hagvexti, það virkar á meðan allt virðist vera að vaxa og virkar þannig svipað og bankabólan, bólan sem óx á meðan bankarnir uxu og virtust stækka en hjaðnaði og datt niður í ekki neitt þegar ekki var hægt að feika lengur að það var enginn vöxtur, það var ekki nein framleiðni á alvöru vörum og þjónustu að aukast, það voru bara pappírar sem poppuðu upp verðmæti skúffufyrirtækja. 

Ég les núna nýjustu grein Gylfa Magnússonar (Kúbu norðursins) og núna eru myndlíkingar hans ekki sóttar einangrað kommúnistaríki eftir hrun heldur í fornöld, í Homer og greinin hans heitir Æseifskviða. Gylfi er þarna eins og í fyrri Icesave málum að reyna að sannfæra fólk um að jánka Icesave. Grein hans er einkar skynsamleg, ég kaupi alveg röksemdir um að lúkning málsins núna snúist aðallega um vexti og hann sannfærir mig um að Icesave sé ekki stórt samanborið við vexti sem Íslenska ríkið þarf að bera. Bara hvert prósentustig í hærri vöxtum þar þýði 30 milljarða. Svo segir hann að við fáum ekkert fé inn í landið til fjárfestinga og svo heldur hann áfram að reikna hvernig minni hagvöxtur mun valda töpuðum þjóðartekjum. Út frá sjónarmiði þeirra sem trúa á það kerfi sem féll og vilja endurreisa sem fyrst sams konar kerfi þá hljóma rök Gylfa ekki illa. 

Ég hef hins vegar hér fyrir ofan gert grein fyrir að þetta er bóluhagkerfi sem getur sprungið í höndunum á okkur hvenær sem er,  peningaleg verðmæti  sem fjárfestar koma með hingað til lands til að komast yfir verðmæti hérna eru partur af öllum þeim bólupeningum sem eru á sveimi í heiminum, pappírum sem engin innistæða er fyrir en haldast í bólunni á meðan almenningur trúir blekkingunni um endalausan hagvöxt og baktryggingar ríkja.

Það eru hins vegar raunveruleg verðmæti hér á landi, náttúruauðlindir, orkuver og fiskimið sem ásókn er í af ýmsum aðilum. Ekki eingöngu af ágóðasjónarmiðum þó þau vegi þyngst heldur líka vegna langtíma öryggissjónarmiða ríkja sem vilja tryggja sér aðdrætti.

 Á Íslandi hefur orðið gríðarleg eignaupptaka hjá almenningi í kjölfar Hrunsins og það gerðist ekki síst vegna hinna verðtryggðu og gegnistryggðu lána og á meðan stjórnvöld vörðu hag þeirra sem áttu innistæður í bönkum þá verðféllu raunverulegar eignir fólks bílar og íbúðir gríðarlega en skuldir stóðu í stað. Möguleikar fólks á tekjuöflun og laun lækkuðu líka gríðarlega. En okkur til furðu þá blómstra  bankarnir og innlánseigendur  raka saman fé gegnum vexti þó að peningar séu ekki settir í neitt. Það er bara einhver jöklakeðja í gangi sem getur ekki gengið nema einhver tíma, bankarnir setja peninga inn hjá Seðlabanka og vaxtastigi er haldið uppi út af hagsmunum jöklabréfaeigenda. Mér virðist þetta vera einhvers konar flétta til að skrapa saman peninga fyrir ríkið til að halda sér lengur á floti.  Ef allt væri með felldu þá ættu vextir að hafa lækkað mikið. Vextir ættu að vera komnir nálægt núlli ef hér væri spurning um einhver raunveruleg verðmæti, ekki ennþá eina bóluna, ríkisbólu í stað bankabólu.

Þess vegna hrífa vaxtapælingar Gylfa mig ekki, það er verulega mikið bogið við hvernig fjármálabúskapur ríkja er um þessar mundir, ekki eingöngu Íslands. Ríki eru að búa sér til peninga úr öllu sem þau geta  og  velta á undan sér sístækkandi skuldaböggum, sum geta það lengur en önnur ef þau eru nógu stór eins og USA. Svona lítið ríki eins og Ísland getur það hins vegar nema í skamman tíma.  

Gylfi segir að árið 2008 voru 8.340 Toyota Land Cruiser jeppar á landinu, sem myndu líklega kosta um 80 milljarða króna nýir og mér finnst eins það sé að hans mati ein röksemd fyrir að almenningur á Íslandi eigi að jánka Icesave. Hann nefnir líka tónlistarhús sem dæmi um verðmæti sem nýtast okkur og góðærið skildi eftir. En við erum mörg sem viljum hvorki þessa Land Cruiser jeppa né Tónlistarhúsið Hörpuna, mörg sem myndum ekki sýta það þó jepparnir og tónlistarhúsið væri tekið eignarnámi og boðið Bretum upp í Icesave. Ég sting upp á því sem fyrsta boði í Icesave 4:-) Við getum siglt með glerhýsið í pörtum til Bretlands og sett það upp einhvers staðar við Thames ána:-)  Við sem viljum og höfum alltaf viljað öðruvísi lífsstíl en stóra jeppa og auðmannaráðstefnuhöll getum hvorki né viljum nýta þessa hluti til að byggja hér upp blómlegt atvinnulíf og samfélag. 

Þetta blogg átti að vera um viðtalið við Michael Hudson sem var í Morgunblaðinu í dag. Það er best að koma sér á þá slóð. Það er alltaf gaman þegar útlendingar virtir í hagfræði segja það sem manni finnst sjálfum en stundum les ég greinar um ástandið á Íslandi eftir erlenda hagfræðinga sem virðast ekki átta sig á sérstökum aðstæðum hérna m.a. ekki á hver gríðarlegur baggi verðtryggingin er nú á skuldurum, þungt farg sem gerði einkaskuldir margra ennþá óbærilegri og hvernig áhættan af því hvað gat farið miður í fjármálakerfi var engin hjá þeim sem áttu að taka áhættuna þ.e. fjárfestum sem áttu einhver tilbúin félög sem gátu bara tapað 400 þúsund kalli þ.e. lágmarkshlutafé þó lánin væru milljarðar á milljarða ofan - en áhættan var öll hjá almenningi, bæði áhættan af því að verðtryggð lán hækkuðu einn daginn upp úr öllu valdi og svo núna á áhættan af því þegar hópur fjárglæframanna sem sjálfur tók enga áhættu að veltast yfir á skuldpíndan almenning sem vissi ekki einu sinni af hvað Icesave væri og þaðan af síður að hann bæri einhverja ábyrgð eða áhættu þar. Og það er vafamál um þessa ábyrgð, vafamál sem aðeins verður eytt með dómsmáli og það er ein röksemdin sem margir hafa fyrir JÁ að málið gæti farið illa, við ættum ekki að taka áhættu á því.

Ég hef alltaf forðast áhættu, ég hef alltaf verið tilbúin til að gera það sem skynsamlegast er í fjármálum en í þessu máli, máli þar sem áhættu af bankakerfi og áhættu á hruni efnahagskerfis var velt yfir á almenning og fólk er hneppt í óbærilega skuldafjötra þá er ég alveg tilbúin til að taka áhættu og hafna samningnum vitandi það að líklega höfði bresk og hollensk stjórnvöld mál.  Ekki eingöngu fyrir mig, ekki eingöngu fyrir Íslendinga heldur líka fyrir almenning í öllum löndum, fólk sem er í sömu stöðu og Íslendingar.  Þjóðir heims verða að ná samkomulagi um niðurfellingu skulda, ekki bara hjá einstaklingum heldur líka hjá ríkjum. Þetta er ekki eingöngu réttindamál, þetta er einfaldlega besta og raunar eina leiðin sem er fær til að byrja að byggja upp að nýju. Það þarf líka að horfa á "fjárfestingu"  og hagvöxt með öðrum augum, með augum sjálfbærni og manneskjulegra samfélaga sem byggjast framleiðslu og virkni  á samhjálp og samvinnu en hafna samkeppni og blekkingarleik bóluhagkerfa.

Afstaða Íslendinga í Icesave ætti ekki að mótast af sektarkennd yfir að á einhverjum tíma voru hér 8349 Land Cruiser jeppar. Afstaðan ætti að mótast af því að þetta er  partur af stærra stríði og ég vil enda á að vitna í viðtalið við Hudson í Morgunblaðinu í dag. Hann segir:

Partur af stærra stríði

Hudson segir að enginn maður á bandarískum fjármálamörkuðum, sem hann hefur talað við, skilji af hverju íslensk stjórnvöld eru svo áfjáð í að borga háar fjárhæðir til Breta og Hollendinga sem þau skulda ekki. „Ég hreinlega fæ ekki séð að ríkisstjórnin hafi haft hagsmuni íslensks almennings í huga þegar sest var við samningaborðið með Bretum og Hollendingum. Engin ríkisstjórn á að skuldsetja almenning og komandi kynslóðir svo mikið að efnahagslegri framtíð þjóðarinnar sé stefnt í voða. Eina skýringin, sem mér dettur í hug, er að einhverjir háttsettir í stjórnkerfinu hafi óhreint mjöl í pokahorninu sem ef til vill kæmi upp á yfirborðið við ítarlega rannsókn á því hvert Icesave-peningarnir fóru. Það er einfaldlega ekki hægt að skýra svo þrautseiga baráttu gegn hagsmunum þjóðarinnar með vanhæfni einni saman.“

Hudson segir að illa hafi verið haldið á málum í deilunni við Breta og Hollendinga frá upphafi. „Hvers vegna var ekki skipuð nefnd sérfræðinga til að meta greiðslugetu Íslands og íslenska ríkisins? Það er gott og blessað að tala um skuldir ríkja sem hlutfall af landsframleiðslu, en landsframleiðsla greiðir ekki erlendar skuldir. Afgangur á viðskiptum við útlönd greiðir niður erlendar skuldir og áður en samið er um að taka yfir hundraða milljarða króna ábyrgðir og skuldir verður að meta hver greiðslugetan er og haga samningum um endurgreiðslu í takt við hana. Þetta var ekki gert og ég hreinlega get ekki skilið af hverju.“

Hvað varðar afleiðingar kosninganna fyrir orðspor Íslands erlendis segir Hudson að fleiri hafi skoðanir en stjórnmála- og embættismenn. „Líta má á það sem er að gerast í Evrópu sem einhvers konar stríð sem snýst um það hvort skiptir meira máli, almenningur eða bankakerfið. Eiga ríkisstjórnir að fórna framtíð borgaranna fyrir banka og bankamenn, sem hafa keyrt fyrirtæki sín í gjaldþrot með óheiðarlegum hætti? Mér sýnist ekki fara á milli mála að almenningur í Bretlandi, Írlandi, Grikklandi, Spáni og Portúgal er á þeirri skoðun að óheiðarlegir bankamenn eigi ekki að fá að keyra heilu samfélögin í þrot. Deilan um Icesave er partur af þessu stærra stríði og ef Íslendingar hafna samkomulaginu munu þeir öðlast marga vini í Evrópu og stappa stálinu í þá sem vilja draga úr völdum fjármálakerfisins. Ef Íslendingar beygja sig hins vegar fyrir ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga er allt eins líklegt að orðspor þeirra í Evrópu skaddist til mikilla muna. Athuga ber líka að mjög áhrifamikil dagblöð eins og hið breska Financial Times og hið bandaríska Wall Street Journal hafa tekið afstöðu með Íslendingum í þessu máli og telja ósanngjarnt að krefja þá um að greiða þessar háu kröfur Breta og Hollendinga. Íslendingar eru ekki vinalausir í þessari baráttu, en þeir gætu misst þá vini sem þeir hafa ef þeir samþykkja Icesave-samninginn.“


mbl.is Skuld sem ekki er hægt að borga verður aldrei borguð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konan sem villtist í grennd Heklu

"I walked off, and I was taken to Werl after that. That was my trial in Düsseldorf, Mühlenstraße, on the 5th of April 1949. Exactly two years after I watched the fire on the flanks of the burning Mt. Hekla in Iceland, exactly two years."

 Ég leitaði í tímarit.is að  ummerkjum eftir konuna sem kom til Íslands. Það stendur hvergi neitt um Íslandsferðina nema að hún hafi séð Heklu gjósa. Eins og hún hefði komið gagngert til þess og gosið væri eitt af afrekum hennar. En konan kom hingað 14. nóvember árið áður og Heklugosið hófst ekki fyrr 29. mars. Þá hafði Hekla ekki gosið í meira en eina öld. Hún fer að gosinu 4. apríl.  Hvað var hún að gera hingað til lands, ekki gat hún vitað að Hekla myndi gjósa? Kannski hélt hún að 5. apríl væri sérstakur Hekludagur? Því það var 5. apríl 1766 sem Hekla gaus og það var gos sem stóð í tvö ár og var næststærsta hraungos sem orðið hefur á Íslandi síðan landið byggðist, aðeins Skaftáreldagosið var stærra. Hraunin runnu til allra átta, það drundi í fjallinu og svona er gosinu lýst:

Það hófst með miklu vikurflugi og náðu vikursteinarnir, sem voru margir hverjir á stærð við björg, drjúgan spöl frá fjallinu. Vikurfallið var svo mikið að Ytri Rangá stíflaðist. Mikið af vikri barst til sjávar og var hann fiskibátum haustið eftir til mikillar tálmunar. Fiskur upfullur af vikri veiddist úr sæ allt fram á vor. Mest af öskunni barst yfir Norðurland allt vestan frá Hrútafirði og austur í Eyjafjörð. Svo mikil var hún að dimmt varð að dægurlagi og á Þingeyri sá fólk vart handa sinna skil. Búpeningur féll í hrönnum svo að við lá auðn í sumum sveitum.

En þetta er ekki gosið sem konan er komin til að skoða. Hún er er 181  ári seinna  á ferð og hún segir ferðasögu sína  14. apríl á kvennasíðu Vísis við hliðina á uppskrift af súkkulaðiköku og haframjölsmakrónum og fyrirsögnin er: "Sólarhring að villast í grennd Heklu. Frásögn frú Mukherji."

Frú Mukherji  segir frá því þegar hún fór frá Fellsmúla að Galtalæk og var ferjuð yfir Ytri Rangá og gekk þaðan upp að Næfurholti. Þaðan fór hún ein gangandi upp að hraunstraumnum. Það var bjart veður og Norðurljós blikuðu á himni. Um 11 að kvöldi  kom hún að hraunstraumnum sem rann úr suðvestanverðri Heklu og við henni blasti  stórkostlegasta sjón. Hún settist niður og skrifar bréf til mannsins sín til að lýsa fyrir honum þeim undrum sem hún er vitni að. Svo leggur hún á stað meðfram hraunstrauminum og ætlar að ganga upp fjallið á milli gíga. Hún var á gangi alla nóttina meðfram hrauninu. Í sjö klukkustundir hélt hún á 10 kílóa hraunsteini en varð að skilja hann við sig. Hún verður lokst að snúa við og eftir langa göngu kemur  á veg og svo kom hún að á og stórri hlíð og sér til bæjar. Hún hélt að hún væri komin aftur í Næfurholt en þá var það einmitt í öfuga átt. Henni telst til að hún hafi verið á gangi þarna í 22 klukkustundir. 

Í Vísir þann 14. apríl 1947 endar ferðasagan svona: " Þannig hljóðar frásögn Frú Mukherji, sem mun vera fyrsti Indverjinn, sem á Heklu gengur. Annars má geta þess, að frá Mukherji er sannkallaður heimsborgari. Faðir hennar var Grikki en móðir ens og önnur amma hennar ítölsk, sjálf er hún fædd í Frakklandi og nú indverskur borgari. Hún er mjög fróð kona, m.a. í tungumálum og tekur að sér kennslu í t.d. ensku, frönsku og ítölsku."

Og víst var konan heimsborgari. Hún var Savitri Devi. Hofgyðja Hitlers. Hindúatrúboði. Njósnari. Nasisti fram í rauðan dauðann. Prédikari arískrar heiðni. Hún var líka brautryðjandi í dýraverndunarmálum. Hún var fræðimaður, hafði skrifað margar bækur, lesið heimspeki og efnafræði, tekið tvær meistaragráður og svo lokið  doktorsprófi í heimspeki. Hún var sannfærð um að FornGrikkir hefðu verið Aríar og það skýrði áhrif þeirra á heimsmenninguna. Hún fór í pílagrímsferð til Palestínu 1929 og kom þaðan sannfærður Nazisti (þjóðernissósíalisti). Árið 1932 fór hún til indlands að leita uppi lifandi aríamenningu. Það var reyndar í tísku frá dögum upplýsingannar að hafna bíblíusögum um uppruna siðmenningar og leita hennar í Indlandi, milli Indus og Gangres fljótanna. Málvísindamenn bjuggu líka til nýja sögu, sögu af menningu  hvíts fólks af evrópskum uppruna sem kom frá fjallabyggðum í Asíu og lagt undir sig Evrópu og þýskir menntamenn smíðuðu kenningar um Aría, Hamíta, Mongóla og Gyðinga. Málvísindamaðurinn Parson sýndi að öll mál í Evrópu, Indlandi og Íran væru af sama stofni, stofni Indó-evrópskra mála. Áður hafði verið litið á hebresku sem upprunalega tungumálið.

Það gerðist hún hindúi og tók sér nafnið Savitri Devi sem þýðir gyðja sólargeisla. Hún vinnur við hindúatrúboðið í Kalkútta og verður síðla árs 1937 fyrirlesari á fyrirlestraferðum á vegum þess.  Hún varð fyrir miklum áhrifum af Savarkar sem var foringi þjóðernissinnaðra hindúa sem vildu frelsa Indland undan yfirráðum Breta. Savarkar tengdi þjóðernishreyfingu við  hugmyndafræði sem sótt var í arfðleifð hindúa. Hann var reyndar líka tengdur ýmis konar terrorisma og sprengjugerð og var ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um morðið á Gandhi 1938. Alla vega kom fram við réttarhöldin að hann sat á hljóðskrafi með morðingjanum daginn fyrir morðið. En rit Savarkar fjölluðu um gullna tíma í sögu Indverja, um Marattaveldið sem stóð 1674 to 1818, um tímann frá því að hinum indóarísku Maröttum  undir stjórn ræningjaforingjans  Sivaji tókst árið 1674 að brjótast undan yfirráðum múslima  sem sátu í Delhi þangað til þeir voru yfirbugaðir af Bretum 1818.  Bók Savitri "Warnings to the Hindus" kom út árið 1938. Bókin var þýdd á sex indversk tungumál. Í þessari bók segir Savitri að eina sem sameinar sé hindúismi, það sé ekki til nein sameiginleg indversk menning  Árið 1940 giftist hún samherja í lífsskoðunum.

21. febrúar 1949 er Savitri Devi handtekin í Cologne í Þýskalandi. Hún er að dreifa nasistaáróðri. Hún fer fyrir dóm 5. apríl 1949 er dæmd í þriggja ára fangelsi en látin laus eftir nokkra mánuði að kröfu indverskra stjórnvalda og vísað úr Þýskalandi 18. ágúst 1949. Við réttarhöldin er hún ekki beint hógvær, hún ber eyrnalokka með sólkrossinum og heilsar með nasistakveðju.

Í apríl 1953 kemst hún aftur inn í Þýskaland, hún hafði orðið sér úti um grískt vegabréf með nafni sínu fyrir giftingu. Hún fer pílagrímsferð um helga staði í þýskalandi og næstu ár er hún á ferð og flugiog dvelur oft með nasistum.  

Savitri Devi: The  Woman against Time

Savitri Devi Archive

 

Hitler's Priestess: Savitri Devi, the Hindu-Aryan Myth and Neo-Nazism, by Nicholas Goodrick-Clarke. New York, New York University Press, 1998. vii, 269 pp.

Þegar formaður íslenskra nasista og gjaldkeri í Landsbankanum Bernhard Haarde deyr árið 1962 þá skrifar hún undir minningarorð um hann. Hún þekkir líka vel Rockwell (fyrri mann Þóru konu Björgólfs eldri) og ritverkum hennar eru gerð góð skil í tímaritum bandarískra nasista.

Ég veit ekki ennþá hvað hún var að gera á Íslandi, kannski var hún að leita að leyndardómum arískrar menningar, kannski var hún að leita að heimkynnum Veda í heimskautabyggðum,  kannski  var hún á kafi í pýramídafræðum, hún skrifaði margar bækur um Akhenaten sem var faraó í Egyptalandi. Hún lauk einmitt við eina af þeim bókum þegar hún var á Íslandi. Akhenaten   ríkti í 17 ár og er talinn hafa látist árið um 1334 f.kr. Hann reyndi að koma á eingyðistrú í Egyptalandi. Eftir fjögur ár í valdastóli hóf hann að byggja nýja höfuðborg Egyptalands sem helguð var sólguðinum Aten.  Varðveist hefur óður til sólguðsins  Aten frá þessum tíma. Akhenaten var gleymdur þar til grafhýsi hans fannst. Kannski hafði hún lesið verk Ruthenfords sem líka fór til Íslands (sjá  Sólskífa og safngler í Egyptaland


Bloggað í tíu ár.

Nú hef ég bloggað í akkúrat 10 ár.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband