Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Kistan.is - leikvangur fáránleikans

Vefsetrið kistan.is er núna leikvangur fáránleikans, nápleis  þar sem fræðafólk á sviði lista og bókmennta safnast saman og tjáir sig með því að hrækja á fólk og hæðast að því. Guðbjörg Kolbeins lýsir vel stemmingunni á Kistunni í blogginu Kistan krossfestir Hannes

Svona lítur forsíðan út á kistan.is út núna, vefritið er undirlagt í að hæða Hannes bróðir minn þar sem margir eru tilkallaðir til að hæða hann og smá og heimta opinbera aftöku hans.

kistan-hannes-april08

Það er átakanlegt að lesa þær mörgu greinar sem nú trjóna efst á kistan.is Menningarvefur sem leyfir sér svona umfjöllun og svona efnistök verður ekki annað en fúll og staðinn forarpyttur. Það er sennilega sambland af von um einhverja athygli frá íslensku samfélagi, von um lestur og umfjöllun og því að þeir sem reka kistan.is hafa ekkert annað að segja og hugsa um sem veldur þessum efnistökum. 

Menningarvefir eins og kistan.is og  samfélög   eins og Reykjavíkurakademían ættu að vera og hafa verið ferskvatnslindir og rennandi vatn  í íslensku samfélagi, vatn sem rennur yfir flæðiengi þar sem frjóangar nýrrar hugsunar ná að vaxa upp, vatn sem býr til farvegi  þar sem nýir menningarstraumar ryðja sér  braut  í leysingum.  En þessi samfélög eru feig ef þau taka eingöngu eftir og fjalla ekki um nema eina  þverskurðarmynd af heiminum, eina spegilfágaða yfirborðsmynd í spegli sem búinn er til úr stöðnu vatni.

Hinn sifraði Egill lýsir vel hreyfingarleysi og viðburðaleysi í hugsun  Reykjavíkurakademíunnar í hannesarumfjöllun í blogginu: Vitlaus dómur yfir Hannes en þar segir hann m.a:

Hins vegar fengu margir þetta á heilann, ekki síst fólk sem tengist Reykjavíkurakademíunni. Um daginn barst mér í hendur einhvers konar afmælisrit fyrir Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing fimmtugan. Ég fletti bókinni og sá að þarna var verið að fjalla um Hannes. Það flökraði að mér að þessi meinti ritstuldur væri líkt og hið eina sem hafði drifið á daga þeirra í Reykjavíkurakademíunni; eini háskinn sem þetta fólk hafði lent í.

Að líf þess hefði verið gjörsamlega viðburðasnautt ef Hannesar hefði ekki notið við.

Hópur fræðafólks – og sumir fjölmiðlar – eyddu ótrúlegu púðri í þetta mál. Aðalástæðan var auðvitað sú að Hannes var ekki talinn heppilegur maður til að skrifa um Halldór. Hann átti ekkert með það. Hann tróðst inn í vitlaust partí.

Margir sem nú eru kallaðir  til á vefsritinu kistan.is til að hrækja á Hannes eru fræðafólk sem fæst við að greina orðræðu og málpólitík. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en mér finnst að það hljóti að vera verðugt viðfangsefni að greina orðræðu þessara fræðimanna, hvaða sýn á samfélag og eignarétt og vald  blæs í gegnum skrif þeirra. 

Hér eru  nokkur ummæli á kistan.is sem stuðuðu mig sérstaklega.

Hallfríður Þórarinsdóttir, doktor í mannfræði og forstöðumaður MIRRU

Hallfríður Þórarinsdóttir hefur m.a. skrifað ágæta grein  um orðræðugreiningu

Hallfríður skrifar:

2. Á rektor að aðhafast í málinu?

Að sjálfsögðu. Háskóli Íslands missir allan trúverðugleik ef HHG fær að sitja áfram óáreittur í stöðu sinni. Það er ósanngjarnt gagnvart öllum heiðarlegum fræðimönnum stofnunarinnar.
Markmið HÍ að verða einn af hundrað bestu háskólum í heimi getur tæpast átt að innihalda slíkt siðleysi og lögbrot.

3.
Ef svo, með hvaða hætti?

Segja honum upp. Hvernig eiga aðrir kennarar við stofnunina að geta krafist þess af  nemendum sínum að þeir virði grunnreglur í akademískum vinnubrögðum ef prófessor við eina stærstu deild skólans gerir það ekki? Ef rektor segir ekki Hannesi upp er HÍ orðinn að einhverskonar leikhúsi fáránleikans.

Það er mjög áhugavert að greina þessi ummæli Hallfríðar og setja þau í samband við að hún hefur fjallað mikið um orðræðu og vald. Það er líka skrýtið hve mikla vanþekkingu á stjórnsýslulögum  ummæli hennar bera með sér og hve litla innsýn hún virðist hafa varðandi mannréttindi og vinnureglur í stjórnsýslu. Þess má geta að þegar ég kalla kistan.is leikvang fáránleikans í fyrirsögn þessa bloggs þá er það sótt til orða Hallfríðar sem líkir HÍ við leikhús fáránleikans. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á að mannréttindi og lög sem tryggja mannréttindi eru ekki bara fyrir okkur góða fólkið og þá sem hafa skoðanir í  samhljómi við okkur heldur líka fyrir hina, líka fyrir  Hannes.  

Gauti Kristmannsson, lektor í þýðingarfræðum við HÍ

Gauti svarar svohljóðandi á kistan.is:

2. Á rektor að aðhafast í málinu?

Já.

3.
Ef svo, með hvaða hætti?

Segja prófessornum upp starfi, hann hefur þverbrotið grundvallarreglur þær sem háskólamönnum ber að starfa eftir. Á þetta hefur HHG sjálfur bent á í grein á vefsíðu sinni að sé venjan að gera við háskóla erlendis.

4.
Hvað finnst þér um auglýsingu stuðningsmanna Hannesar sem birtist í blöðunum um helgina?

Hún er ódýr spuni. Í fyrsta lagi mun prófessorinn vera eignamaður, einnig hafa þeir dómar sem fallið hafa á hann og valda honum kostnaðarauka verið vegna afbrots og auðgunar annars vegar og opinberu og ósönnuðu illmælgi gagnvart öðrum einstaklingi hins vegar. Einu gildir hvort sá einstaklingur telst vera „auðmaður“ eða ekki.

Þessi ummæli Gauta stuða mig verulega. Mér virðist til hans leitað sem sérfræðings sem er í starfi við sömu stofnun og Hannes vinnur hjá. Samt bera orð hans með sér að hann er jafnlítið inn í stjórnsýslulögum eins og Hallfríður og með jafnbrenglaða sýn á mannréttindi þeirra sem hann forsmáir. En það sem ég er mest forviða á er að hann tjái sig um fjármál samstarfsmanns síns sem á í fjárhagsþrengingum og orðræða hans ber með sér að hann hlakkar yfir óförum annarra. Ég held líka að Gauti viti akkúrat ekkert um fjárhagsstöðu bróður míns. Síðast þegar ég vissi var kostnaður vegna þessarra tveggja málaferla kominn langt á þriðja tug milljóna og bæði þessi málaferli snúast að stórum hluta til um tjáningarfrelsi. Það er hins vegar ljóst að ennþá meiri kostnaður mun hlaðast upp.

En Gauti hefur líka sitt tjáningarfrelsi. Megi hann bulla sem mest þar sem hann vill um fjármál bróður míns svo fremi að hann virði lög um friðhelgi einstaklinga og megi hann kalla allt sem hann vill "ósannaða illmæli". Það er hins vegar spurning um hvort svona illyrmisleg umfjöllun um samstarfsmann í opinberri stofnun er sæmandi og samræmanleg við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Seinast þegar ég vissi var hún það ekki.

En það hefur gripið um sig einhvers konar hjarðhegðun og múgæsing hjá nokkrum hópi fræðimanna við HÍ sem úthrópa Hannes og fjalla  um hann og hans verk eins og bloggarar fjölluðu um meintan morðingja hundsins Lúkasar um árið. Ég held að þeir sem eru í þessum hópi fræðimanna átti sig ekki á alvarleika sinnar orðræðu af sömu ástæðu og bloggarar ærðust í Lúkasarmálinu. Fólk spanar og æsir hvert annað upp og missir sjónar á því að hvað það er sjálft að gera. Fólki verður ekki sjálfrátt, það heldur að það sé allt í lagi að úða ógeðslegri illmælgi og meiðandi orðræðu yfir aðra. Í þessu tilviki er þetta leikvangur fáránleikans því einmitt er farið gegn Hannesi á þeim forsendum að hann hafi dirfst að fara yfir einhver manngerð mörk í skrifum sínum og orðræðu og ekki farið eftir þeim manngerðu stígum sem ævisagnaskrif eiga að fylgja. Það er hjákátlegt og grátlegt í senn ef fræðimenn átta sig ekki á því að þeir eru reknir áfram af blindri heift og þeir eru að taka Lúkasinn á samferðamann sinn og fara sjálfir yfir öll mörk velsæmis í orðræðu sinni.

 Íris Ellenberger  

Íris er ein af þeim sem tjáir sig á kistunni. Orð hennar stuða mig nú ekki heldur koma mér til að brosa. Íris segir:

Dómurinn er nokkuð strangur en ég er þó sammála honum að mestu leyti enda er ég mjög hlynnt gæsalöppum.

 

Þetta er nú ekkert fyndin setning en málið er að ég var í gærkvöldi á afmælishátíð Femínistafélagsins/ 7 ára bloggafmæli mínu og þá var sýnd verðlaunamynd úr stuttmyndasamkeppni Femínistafélagsins en Íris vann einmitt þá keppni með mynd sinni "Brjótum upp formið" sem var ansi góð og byltingarkennd , svona hugmynd um að ef þú getur ekki unnið eftir mynstrinu þá sé bara að brjóta það upp.  Ég hugsa að ég eigi alltaf eftir að brosa yfir verkum Írisar í fræðunum og hugsa hvort  hún muni brjóta upp formið þar.... eða bara halda sig í tryggu og öruggu skjóli innan gæsalappanna.

Kistan.is er ekki ein í illmælginni. Það var illyrmisleg umræða hjá nafnleysingjunum á malefnin.com um fjársöfnunina fyrir Hannes. Margt sem þar er sagt er þrungið mannfyrirlitningu og sumir virðast njóta þess að hlakka yfir óförum annarra. Ég get nú samt ekki gert að því að ummæli málverjans Sölku fengu mig til að brosa. Hún sagði:

Væri nú ekki betra að "kenna Hannesi að veiða sinn eiginn fisk" í stað þess að "gefa honum fisk"??


7 ára bloggafmæli

Moggabloggið er tveggja ára í dag. Fyrsti apríl er bloggdagur Íslands því svo vill til að það er einmitt bloggafmæli mitt. Ég byrjaði að blogga á mínu einkabloggi  1. apríl 2001.

Ég held upp á bloggafmælið mitt á Thorvaldssen í Austurstræti í kvöld. Allir velkomnir í partíið. 

Fyrsta bloggið mitt var Álitsgjafar Íslands

 Það er svona:

Álitsgjafar Íslands

Í helgarblaði DV í gær var ein opna sem bar yfirskriftina: Álitsgjafar Íslands - fólkið sem segir okkur hvað er rétt og hvað er rangt og hvað okkur finnst. Þarna voru myndir og nöfn á 31 karlmanni og einni konu og svo smávegis texti um álitsgjafargetu hvers og eins. Mér finnst gaman að skoða myndir og ég skoðaði þessar vandlega, sá að ég kannaðist ekki við neinn nema þá sem voru með mér í skóla í gamla daga eða eru eitthvað skyldir mér. Hef reyndar áður séð þessa einu konu, hún heitir Sigrún og hennar framlag sem álitsgjafi er að sögn blaðsins það að armæðast yfir fjarveru kvenna í fjölmiðlum og ástæðum þess. Mér finnst næsta ótrúlegt að allt þetta fólk sem ég þekki lítið sem ekkert til og fylgist ekkert með hvað er að gera hafi áhrif á hvað mér finnst um hlutina.

Fjölmiðlar um fjölmiðla um fjölmiðla...

Reyndar virðist mér að í þessum hóp séu annars vegar þáttastjórnendur á hefðbundnum fjölmiðlum sem láta móðan mása um hvað þeim finnst um hitt og þetta og svo menn sem í krafti þess starfs sem þeir gegna eru alltaf spurðir þegar viss mál eru á dagskrá. Svo er það nú þannig að þegar fréttastofurnar þurfa eitthvað uppfyllingarefni milli ráðherraviðtalanna þá er oft haft viðtöl við þá sömu aftur og aftur. Svo er það líka bara góð sparnaðarleið hjá pressunni og ljósvakamiðlunum að hafa bara fréttir og viðtöl hvert um annað - forsíða DV kannski viðtal við fréttamann á RUV og svo fréttaskýringarþáttur á RUV sem er kannski endursögn á einhverju úr Mbl. Þannig geta fjölmiðlarnir fjallað mest um aðra fjölmiðla og þrengt sjónarhornið þannig að úr verður bara fjölmiðlun um fjölmiðlun um fjölmiðlun um fjölmiðlun .... fyrir fjölmiðlafólk.

Valdið sem orðræðan býr til

Það er svosem ekkert tiltökumál þó að það birtist einhver bullgrein í DV um hverjir séu álitsgjafar á Íslandi. Það er bara skemmtilegra að hafa svona skapandi skrif og blaðið leggur greinilega metnað sinn í að vera gott daglegt safn af nútímaþjóðsögum og uppspuna. Ég held að í blaðið skrifi núna helst engir nema þeir sem eru vel skólaðir í þjóðfræði og faraldsfræði kviksagna. Það er samt umhugsunarefni er að með því að segja að einhver sé álitsgjafi þá verður hann að álitsgjafa eða alla vega fær eins konar völd í krafti þess að einhver heldur að hann hafi áhrif og hamrar á því við aðra. Ef við lifðum ennþá í einangruðu samfélagi þar sem einu boðin sem berast um samfélagið væru þessi skekkta mynd sem hefðbundnir fjölmiðlar gefa af valdinu - þessi mynd sem er byggð að hluta til á óskhyggju þeirra sem ráða yfir rödd sem ómar lengra en annara um að þeirra sé mátturinn og dýrðin - þá myndum við ef til vill trúa og þannig ýta undir valdið sem orðræðan býr til. En tímarnir eru breyttir og enginn þarf nú að treysta á fjölmiðlarisa og opinberar fréttastofur sem einu rásina sem lýsir og skýrir framvindu atburða. Rödd hvers einstaklings getur hljómað og náð til þúsunda í gegnum ljósþræði Netsins en þær raddir sem þar kveða nú eru ekki samvalinn kór heldur sundurlausar og hrjúfar og stundum eins og gargandi hávaði.

Mun frásagnarstíll breytast?

Þeim fjölgar óðum sem tjá skoðanir sínar, viðhorf og flytja fréttir af tilveru sinni á Netinu. Í sumum tilvikum er það í gegnum netrit gróinna áhrifaafla - eins konar framlenging, umbreyting og útvíkkun á annarri áróðusstarfsemi en í sumum tilvikum er þetta nýtt form, tjáningarform sem Netið hefur gert mögulegt. Einstaklingar sem tjá sig og halda skrá yfir viðburði og áhrifavalda í lífi sínu. Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla - það þarf ekki annað en leggjast um stund í að skoða þessa vefannála eða vefleiðara (weblogs) hérlendis og erlendis til að sannfærast um að um að hér er gjörbreytt fréttamat og frásagnarstíll, hér ægir saman frásögnum af persónulegri reynslu og einkalífi og útleggingum á heimsviðburðum og afkomunni hér á skerinu. Skrifin eru stundum eins og hömlulaus spuni og fara yfir öll mörk og viðmið um hvað við teljum nú sæmandi er að fjalla um í opinberri orðræðu. En getur verið að svona tegund af tjáningu eða ritun sé nær almenningi - getur verið að þarna örli á ritstíl og menningu sem mun teygja sig yfir í margs konar miðlun í framtíðinni - getur verið að framsetning frétta og frásagna í hefðbundnum fjölmiðlum í dag sé eins og steinrunnið ritmál sem hefur fjarlægst það mál sem raunverulega er talað í landinu?

Undir hulinshjálmi

Hvað sem þessum pælingum líður þá hlýtur umræða þar sem margir og mismunandi þegnar þjóðfélagsins taka þátt í að vera lýðræðilegust og reyndar líka sennilega gjöfulust því þá heyrast sem flest sjónarmið. Umræða er ekki jafnt og atkvæðagreiðsla en opinber orðræða getur skapað vald eða ýtt undir valdaleysi. Við lifum á tímum fjölbreytileikans en ekki fjöldaframleiðslunnar en það er ekki að sjá að orðræða í hefðbundnum fjölmiðlum endurspegli þá þegna sem búa í þessu landi. Margir hópar og menningarkimar eru þar ósýnilegir. Það er meira segja hægt að varpa hulinshjálmi yfir helming þjóðarinnar- allar konur - eins og gert var í DV greininni um álitsgjafana. En ef orðræðan í hefðbundnum fjölmiðlum á Íslandi í dag er eingöngu til að styrkja völd hinna innvígðu þá er ástandið síst skárra hvað varðar netmiöla. Þar er ansi einsleitur hópur einstaklinga hvað varðar kyn, aldur og aðra þætti sem núna halda úti sínum eigin fréttamiðlum eða atburðaskrám á Netinu. Það eru möguleika
r fyrir alla að nota það tjáningarfrelsi sem stjórnarskráin tryggir en ennþá eru afar fáir sem nota þá.


Stokkrósir og hjartað í krossfiskum

stokkrosirÉg ætti kannski að spá meira í fallandi gengi krónunnar og góðærið og velmegunina sem hvarf sviplega á Íslandi. Ég ætti kannski að hafa meiri áhyggjur af ástandinu í Tíbet. Ég ætti kannski að kynna mér betur niðurníðslu og húsatóftir í miðbæ Reykjavíkur. En ég spái nú eiginlega ekkert í þetta núna, ég  horfi bara vonaraugum á öll merki um vaknandi vor á Íslandi og langar að sá fræum. 

Ein af þeim jurtum sem mig langar til að sá er stokkrós (latnesk heiti Alcea rosea).  Mér finnst stokkrósir minna svo á gamla tíma  og sveitamenningu.

stokkrosir-husveggurÉg hef séð víða í Kaupmannahöfn stokkrósir vaxa upp við húsgaflana eins og á þessari mynd. Ég hugsa að það myndi prýða mikið miðbæinn í Reykjavík ef fólk ræktaði stokkrósir við gangstéttirnar. 

Ég á nú ekki ennþá nein fræ af stokkrósum til að sá en ég ætla að athuga hvort ég get ekki pantað svoleiðis á Netinu. Það þarf að hafa þolinmæði við ræktun fjölærra jurta, stokkrósir blómstra ekki fyrr en á öðru ári.

Það eru líka til önnur og harðgerari blóm sem geta vaxið við gangstéttabrúnir í litlum jarðvegi. Síðasta sumar safnaði ég töluverðu af fræi af vatnsbera Það eru  afar falleg og harðgerð blóm sem þroska fræ á Íslandi og geta sáð sér úr görðum.  Vatnsberarnir eru blaðfagrir svo þeir eru fallegir líka áður en þeir blómstra.

Ef ég hef tíma í sumar þá ætla ég að skrifa greinar á wikipedia um  íslenskar jurtir eða jurtir  sem þroska fræ hérna og sem ég er að gera tilraun með að rækta. Ég hef þegar skrifað grein um holtasóley og  hafþyrni og svo byrjað á greinum t.d.   Tíbetreynir og um ýmsar jurtir og grös sem vaxa í úthaganum eins og túnsúru.  Ég rakst á ágætt rit eftir nemendur á Hvanneyri, það er 
fóðurjurtakverið  og það væri gaman að setja inn greinastúfa á wikipedia um allar jurtir sem þar er fjallað um. Kostur við að skrifa greinar í wikipedia er m.a. sá að þá er auðvelt að tengja í myndasafn og efni öðrum tungumálum um viðkomandi jurt. Hér er t.d. grein sem ég skrifaði um túnfífill og þar tengdi ég í  Commons myndabankann í  myndir af  túnfíflum. Það eru 2.6 milljónir mynda í þeim myndabanka, myndir sem allar eru með frjálsu höfundarleyfi sem þýðir að það má gjarna afrita þær.

Wikipedia er afar góð í samtímaatburðum en það  er líka afar gott gagnasafn í svona flokkunarkerfum lífríkisins. Það þarf samt að hafa í huga að það er engin miðstýrð ritstýring á wikipedia og greinar um jurtir eru margar skrifaðar af fólki eins og mér, fólki sem hefur ekki sérþekkingu í grasafræði. En sem betur fer þá eru margir sérfræðingar sem yfirfara greinarnar m.a. vegna þess að þeir finna þær við leit í leitarvélum og sjá augljósar villur. Það eru fleiri sem eru á vaktinni og villukemba wikipedia heldur en marga ritstýrða vefi t.d. vísindavefinn.

673px-Krossfiskur-thverskurdur.svgÉg held að það sé meinleg villa í greininni um krossfiska á vísindavefnum, í myndinni sem fylgir greininni. Ég skrifaði grein á íslensku wikipedia um krossfiska og teiknaði vektoramynd í Inkscape skýringarmynd þar sem ég studdist við vísindavefsgreinina og teiknaði náttúrulega hjartað í krossfisknum. Sú mynd var fjarlægð 50 mínútum seinna úr wikipediagreininni af einhverjum sem las wikipedia greinina. Sjá breytingasögu greinarinnar krossfiskar.

En ég er samt ekki alveg viss.

Hafa krossfiskar hjarta? 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband