Dvergakast og femínisk fyndni

"Þeir sem skrifa illmælgi um andstæðinga sína gera lítið úr sjálfum sér, þetta verður ekki til að sannfæra neinn um að orðræða þeirra sé yfirveguð og hófstillt, þvert á móti þá virkar svona orðræða eins og frumstæð tilraun til særinga og kukls - eins og fólk haldi að með því að gera lítið úr andstæðingnum, smætta hann og berja hann saman í dverg þá muni hann hverfa eða minnka niður í ekki neitt.

Það er mjög auðvelt að kljást við svona orðræðu og auðvelt að henda þetta á lofti og henda aftur í þann sem segir - alveg eins og búmerang hjá frumbyggjum Ástralíu. Það er hallærislegt að stunda dvergakast hvort sem það er í verkum eða orðum."

frettabladid-sida78-7jan07 Þessi skrif hér fyrir ofan er ekki pistill frá mér um Múrverjagrín um Margréti Frímanns en það er sjálfsagt að endurnýta svona meitlaða speki í hvert sinn sem einhver reynir dvergakast.

Ég skrifaði þetta árið 2005 sem innlegg í umræðu um skrif sem þá höfðu birst á  vefriti ungra jafnaðarmanna politik.is um Ísrael-Palístínumálið og þar var í byrjun þessi setning: "Í gær hitti líkamlegi dvergurinn Ariel Sharon andlega dverginn George W. Bush í arfaskógi þess síðarnefnda í Texas." Umræðan var á  bloggi eoe.is ,sjá hérna mögnuð skrif á pólitik.is 

Núna er mikil beiskja hjá Vinstri Grænum  út af ævisögu Margrétar Frímannsdóttur en hún mun ekki bera Steingrími J. Sigfússyni formanni Vinstri Grænna vel söguna.  Vonandi mun Steingrímur bráðlega svara gagnrýni Margrétar á málefnalegan hátt.  Kappsfullir Vinstri Grænir sem halda úti vefritinu Múrinn reyndu þá baráttuaðferð sem ég hef kallað dvergakast til að gera lítið úr orðræðu  Margrétar. Það hefur kastast heldur betur aftur  til baka til þeirra og loga nú blogg af hneykslan yfir athæfi þeirra. Þessi brandari þeirra er svohljóðandi: "Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig."

Kvenfyrirlitning og brandarar

Í framhaldi af þeim áhuga sem kviknað hefur í bloggheimi og fjölmiðlum um femíniska kímni þá vil ég skjóta hér inn  hugleiðingu og frásögn sem ég skrifaði árið 2005  á málefnavefinn og femínstavefinn um brandara og kvenfyrirlitningu:

"Ég vil tengja umræðuna almennt við hvernig brandarar á samkomum endurspegla oft þá kvenfyrirlitningu sem ríkir í samfélaginu. Brandarar eru góð leið til að dylja fordóma og þeir eru svona stutt og hnitmiðuð frásögn sem oft er notuð til að þjappa saman hópum og styrkja þá í einhverri sameiginlegri sýn á hvernig þeir sem eru utan hópsins eru og hvernig rétt sé að meðhöndla þá.

Ég held að húmor sé eitt af þeim tækjum sem notuð eru til að halda fólki utangarðs og lítillækka fólk. Þannig eru rasistabrandarar og þannig eru margir brandarar um konur. Ég var á þorrablóti um seinustu helgi upp í Hvalfirði og í rútunni á heimleiðinni þá gripu nokkrir karlar hljóðnemann til að syngja og segja brandara. Einn sagði nokkra mjög grófa og klámfengna brandara sem fengu mig til að kippast við. Svo sagði hann dáldið brjóstumkennanlega í hljóðnemann eftir að kona í rútunni hafði bent honum á að hann hefði farið yfir strikið: "Ég kann bara ekki öðruvísi brandara". Þetta var opinberun. Það sem þessum manni fannst fyndið og það sem hann gat haft eftir sem brandara var bara einhverjir hrákapakkar af kvenfyrirlitningu.

En einu sinni fyrir nokkrum árum var ég á árshátíð. Heiðursgesturinn sem er þekktur stjórnmálamaður flutti ræðu og sagði nokkra brandara. Þeir voru þess eðlis að við konurnar litum hver á aðra stjarfar og hugsuðum allar "Hvernig dirfist hann??? ", ég man þessa brandara ekki alla en t.d. var einn um nunnur sem þótti voða gaman að láta nauðga sér.

En svo hitti ég konu sem hafði verið á árshátíð annars fyrirtækis nokkru áður. Og þar var þessi sami ræðumaður með þessa sömu brandara og kannski svipaða ræðu. Og hún hafði nákvæmlega sömu sögu að segja. Hún var bálreið og hugsaði "Hvernig dirfist hann?" á meðan ræðumaðurinn lét móðan mása og ruddi út úr sér einhverjum sögum um kynferðisofbeldi og klám og kvenfyrirlitningu og kallaði það brandara.

En af hverju þegjum við yfir þessu og sitjum undir svona bröndurum?
Af hverju stöndum við ekki upp með látum?


Þess má geta að heiðursgesturinn sem um ræðir var Árni Matthíasson sem þá var sjávarútvegsráðherra en er nú  fjármálaráðherra og árshátíðin var árshátíð stjórnarráðsins. Þorrablótið sem ég tala um í þessum pistli var þorrablót Framsóknarfélagana í Reykjavík.

Nú hafa margir tjáð sig í mikilli hneykslan um smekklausan brandara Múrverja.  Ég hef fylgst með þeirri umræðu og ég fagna því að svo margir áhrifamiklir og ritfærir menn hafi áhuga á femíniskri fyndni og hvernig konur eru niðurlægðar í nafni gríns og jafnvel grínast með kynferðislegt ofbeldi.  Það er hógvær bón mín til þeirra sem hafa skrifað um femíniska fyndni undanfarið að þeir kynni sér  brandarann sem Árni Matthíasson sagði (skámynd af DV grein um þessa brandara er hérna)sem heiðursgestur á árshátíð og hugleiði hvaða heimssýn og viðhorf til nauðgana og kynferðislegs ofbeldis og kvenna kemur fram í slíkum bröndurum. Ég vil taka fram að ég er ekki að gera lítið úr Árna, hann mun örugglega ekki segja svona brandara í framtíðinni á opinberum samkomum  og ég geri fastlega ráð fyrir að Múrverjar hafi lært lexíu á þessu þó þeir hamist við að halda kúlinu.  

En hér er dæmi um orðræðu hina meðvituðu femínisku fyndnisbloggara. 

Berja hausnum við Múrinn Pétur Gunnarsson segir:

"Þetta  þótti mörgum fréttnæmt enda furðulegt að varaformaður flokks sem kennir sig við femínisma grínist með reynslu eins og þá sem Thelma Ásdísardóttir lýsti í bók sinni í tilraun sinni til að gera lítið úr þeim lýsingum á andlegu ofbeldi og kvenfyrirlitningu sem Margrét Frímannsdóttir lýsti að hún hefði búið við af hálfu Steingríms J. og fleiri kalla í þingflokki Alþýðubandalagsins."


BjörnIngi bloggar og bloggar um femíniska fyndni:

Molnar nú mjög undan Múrnum

Ummæli Katrínar og Múrverja standa enn

Ósmekklegheit ársins?

 Björn Ingi segir:

"En fjölmiðlar þegja annars. Halda menn virkilega að stjórnmálamenn á borð við Halldór Ásgrímsson, Davíð Odsson eða Björn Bjarnason hefðu getað látið hafa slíkt eftir sér án þess að fjölmiðlar hefðu gert úr því stórfréttir? Og kannski hefði verið efnt um umræðna í þinginu utan dagskrár?

En þegar um er að ræða varaformann VG, sem setur á prent ótrúlega smekklaus ummæli um merka stjórnmálakonu í landinu og tengir hennar málefni við þrautir landskunnar baráttukonu með þeim hætti að mann setur hljóðan, þá heyrist ekki neitt.

Í þessu tilfelli er þögnin svo sannarlega ærandi."

 

Össur hefur þetta að segja: 

 "Femíniski" flokkurinn og múr heiftarinnar


Björn Bjarnason dregur saman umræðuna og er sammála öllum nema Vinstri Grænum í þessum pistli:

Femínisk fyndni

Skrifglaðir yngri sjálfstæðismenn eins og Stefán Fr og Tómas tjá sig af krafti um femíniska fyndni. Þeim verður tíðrætt um það sem þeir kalla tæknilega iðrun og líkja yfirsjón Múrverja við yfirklór Árna Johnsen.

Tómas skrifar:
Tæknileg iðrun Múrsmanna

Stefán skrifar: 

Svandís ver ekki skrifin á Múrnum

Það sést sífellt betur að þessi skrif eru að verða mikið fótakefli og vandræðabarn fyrir VG. Hvernig getur femínisti sem á að taka alvarlega í stjórnmálaumræðu gert grín að lífsreynslusögu Thelmu, sem varð fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi í æsku sinni, og ekki beðið viðkomandi afsökunar á misheppnuðum brandaranum? Það er ekki furða að Svandís leggi ekki í að verja skrifin, enda eru þau óverjandi. 

Gremja vinstri grænna í garð Möggu Frímanns

Þessi femíniski húmor þeirra á Múrnum meikar engan sens og flestir sitja eftir hristandi hausinn yfir þeim á Múrnum sem berja hausnum við sjálfan múrinn. Afsökunarbeiðni þeirra á Múrnum er í undarlegri taginu að mínu mati, sem og fleiri, þar er sagt að hér hafi verið "djókað" með Jón Baldvin og ummæli hans um heimilisofbeldið sem Margrét þurfti að þola innan Alþýðubandalagsins frá flokkseigendafélaginu. Ekki botnar maður í því.

Finnst þeim á Múrnum virkilega fyndið að bera pólitísk söguskrif Margrétar saman við skelfilega lífsreynslu Thelmu Ásdísardóttur? Þessi afsökunarbeiðni virkar frekar hol og innantóm eins og galtóm tunna. Það liggur við að maður líti á þetta sem jafn innantóma iðrun og Árni Johnsen sýndi um daginn sjálfstæðismönnum sem veittu honum annan séns. Er þetta kannski tæknileg iðrun á Múrnum?

 

Stefán Friðrík ber skrif Múrverja saman við orðræðu Árna í 2. sæti í Suðurkjördæmi um tæknileg mistök og talar um tæknilega iðrun. Virðist á þessu sem Stefán leggi þetta að jöfðu. Hvað ætli Stefán Fr. þyki um brandara eins og Árni í 1. sæti sagði um árið?

Það er áhugavert að sjá þá  hneykslun StebbaFr  málverja og Tómasar  á óhæfu Múrverja og hugleiða hversu hneykslaðir þeir hljóta þá að vera yfir þeim bröndurum sem  forustumenn  Sjálfstæðisflokksins segja á tyllidögum sem heiðursgestir á árshátíðum.  Ég bíð spennt eftir skrifum þeirra um það.

Þetta var ósmekklegur brandari á Múrnum en árásirnar á Múrverja og alla Vinstri græna eru harðari en efni standa til og það eru ómaklegar árásir á Katrínu Jakobsdóttur út af þessu. Múrinn er ekki opinbert málgagn Vinstri Grænna, ekki frekar en Deiglan er málgagn Sjálfstæðisflokksins. Múrinn er reyndar þrælfínt vefrit og þar hafa birst góðar greinar og beittar greinar um ýmis samfélagsmál. Ef til vill er árásir á Katrínu Jakobs partur af  einhvers konar ómeðvitaðri  tilhneigingu til að tala niður konur. Ég var rétt áðan að skoða bloggin til að þræða umræðuna um þetta og skoðaði bloggið hjá Stefáni Fr. sem ég hef alltaf tekið sem dæmi um málverja og bloggara sem skrifar um stjórnmál á kurteislegan hátt, laus við rætni. Ég hef nú einmitt hælt Stefáni Friðrik fyrir þetta. Nú þegar ég var að blaða í gegnum bloggin hans þá sýnist mér hann leggja sig í glíma við að tala niður konur. Dæmi umyrirsagnir á bloggum hjá honum eru svona:

  • Blæs ekki byrlega fyrir Valgerði Sverrisdóttur
  • Er að molna undan Ingibjörgu Sólrúnu? 
Það er reyndar mjög fínt að umræðan núna snúist svona mikið um konur í stjórnmálum og hversu mikið er reynt að kæfa rödd kvenna og gera lítið úr og hæðast að orðræðu þeirra. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

nei, þetta er ekki fyrst núna komið fram í dagsljósið. Það var til umfjöllunar í grein í DV árið 2005. Hér er slóðin á skjámynd af greininni: http://farm1.static.flickr.com/5/7215898_41426dc3b5_o.jpg 

Já, ég er að fara að fram á að Tómas og StefánFr tjái sig um svona brandara. Mér finnst áhugavert bæði hvort þeir muni tala af jafnmikilli hneyksun og um múrbrandarann og svo hvort það hafi hugsanlega einhver áhrif á viðhorf þeirra að það var forustumaður í þeirra stjórnmálaflokki sem sagði þennan brandara.

Annars er rauði þráðurinn í þessum bloggpistli mínum um dvergakast þessi: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.1.2007 kl. 13:08

2 Smámynd: halkatla

takk fyrir þennan pistil salvör, ég gæti ekki verið meira sammála þér um neitt sem í honum stendur. þegar ég sá setninguna ógulegu á múrnum þá hugsaði ég að þetta væri eina setningin þarna í annálnum sem væri ekki fyndin, og hneykslaðist smá, en það er ekkert á við hneykslun mína á því hvernig sumir hafa tjáð sig um þessa grín setningu, fólk notar orð einsog "óverjandi" og ég get ekki annað sagt en að þeir sem notfæri sér svona eina litla setningu til þess að maka fólk einsog Katríni Jaokbs óhróðri, það missir alla virðingu hjá mér. Ósöp einfalt, þeir virðast njóta þess um of að geta talað illa um hana útaf þessari einu litlu setningu og gera auk þess lítið úr öllu því sem vinstri grænir hafa sagt og gert varðandi málefni kynferðislegs ofbeldis og fleira. Það er bara tæknilegt einelti.

halkatla, 8.1.2007 kl. 13:19

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

já, áramótaannállinn á Múrnum var mjög fyndinn að öðru leyti enda skrifa á Múrinn margir skemmtilegustu pennar landsins og húmor þeirra er beittur og smáger og stundum ekki fyrir aðra að fatta nema sem hafa gráðu í bókmenntum og hafa lesið marga doðranta og greinar. Þeir fatta bara ekki að aðrir eru ekki eins vel lesnir t.d. virðist hafa þurft að lesa nokkrar bækur og ritdóma um bækur til að botna haus eða sporð í þessum brandara og þeim vísunum sem í honum eru.

 Tæknilegt einelti er gott orð til að lýsa þessu

En Steingrímur J. verður nú að svara þessu og koma með sína útgáfu af hvað gerðist í viðureign hans og Margrétar Frímanns, mér finnst Vinstri Grænir sem femíniskur flokkur (og ég efast alls ekki um það, þar eru margir bestu og kröftugustu femínista landsins) getur bara ekki setið þegjandi undir svona ásökunum. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.1.2007 kl. 13:48

4 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Ég er nokkuð viss um að umræðan um áramótapistilinn á Múrnum hefði þróast á annan veg ef Katrín hefði einfaldlega beðið Margréti og Telmu afsökunar á þessu í staðinn fyrir að reyna að útskýra brandarann og nánast klína honum á Jón Baldvin. Kannski er það líka vegna þess að VG gefur sig út fyrir að leggja mikla áherslu á að standa vörð um feminísk gildi, að "brandarar" sem þessir vekja enn meiri athygli en ella. Annars finnst mér eins og Salvör sé að gefa það í skyn í þessum pistli að þeir sem fjalla um stjórnmál eigi að fara mýkri hönum um stjórnmálakonur en stjórnmálakarla. Vonandi er það bara einhver misskilningur hjá mér en úr því að tekið er dæmi um þessar tvær setningar úr blogginu hans Stefáns Friðriks þá er ég nokkuð viss um að hægt væri að finna svipaðar setningar bæði á hans síðu og annars staðar þar sem talað er um stjórnmálakarla með svipuðum hætti.

Björg K. Sigurðardóttir, 8.1.2007 kl. 14:21

5 Smámynd: TómasHa

Gátu þeir ekki bara beðið Telmu og Magréti afsökunar?  Menn fara út af sporinu og biðjast þá afsökunar.   

Þetta hefði verið sambærilegt við Árna ef hann hefði farið að reyna að útskýra brandarann, hann hefði ekkert verið að níðast í nunnunum, heldur Berluskoni því hann sagði skildan brandara fyrst og því væri grínið á hans kostnað.

TómasHa, 9.1.2007 kl. 14:20

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Svar til Bjargar Kristjönu:

Ég held að það hefði ekki verið neitt minni heift út í Múrverja þó þeir hefðu beðist afsökunar eða tekið öðru vísi á þessu. Það byggi ég á reynslu minni sem femíniskur aktivisti á Internetinu í mörg ár. Það er nokkuð sama hvað femínistar hafa gert, það hafa alltaf verið árásir á okkur og árásahríðin er hörðust þegar við erum að ná árangri. Það efast enginn sem fylgst hefur með Múrverjum um að þar eru femínistar og Vinstri Grænir hafa meðbyr í stjórnmálum núna og öðrum gremst það. Þess vegna er svona tækifæri notað fegins hendi. Múrverjar sögðu ófyndinn og frekar ósmekklegan brandara og gættu ekki að sér að allir eru ekki eins vel lesnir og skólaðir í vísunum þvers og kruss eins og þau og svo voru þau blinduð af pólitískri gremju og þörf fyrir að koma höggi á andstæðinginn  á þvi að einhver skyldi voga sér að efast um að forusta þeirra væri eins femínisk og þau sjálf halda og vilja telja okkur trú um  En svo þau njóti sannmælis þá hafa nú margir öflugir femínistar sópast til þeirra undanfarin misseri. Mættu fleiri femínistar heiðra aðra flokka með nærveru sinni t.d. eru sárafáir sem virða Sjálfstæðisflokkinn viðlits eða telja að honum sé viðbjargandi. Ég hins vegar trúi á það góða í manneskjunni og flokksál Sjálfstæðisflokksins og hald alveg að öflugir femínistar gætu leitt hann á betri veg.

Varðandi hvort ég vilji að konur fái einhverja sérmeðhöndlun þá vil ég það ekki. Ég er bara að benda á að konur eru ómeðvitað talaðar niður og það sem verra er þær eru ómeðvitað (og reyndar meðvitað líka) þaggaðar. Það þarft miklu sterkari og harðari konur til að brjótast til valda og halda völdum en karlmenn.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.1.2007 kl. 15:46

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Tómas, nú hefur komið fram að amk tveir núverandi ráðherrar í Sjálfstæðisflokknum hafa orðið uppvísir að því að segja í ræðum á opinberum samkomum brandara sem eru fullir af kvenfyrirlitningu.  Þetta eru menn á launaskrá íslenska ríkisins og þetta eru menn sem hafa starfandi aðstoðarmenn sem m.a.  sjá um að skrifa og afla efnis í svona tækifærisræður ráðherra.  Ráðherrar eru fengnir til að ávarpa samkomur vegna þess opinbera embættis sem þeir gegna. Ert þú að leggja þetta að jöfnu við áramótagrín í vefritinu Murinn.is og finnst þér jafnalvarlegt að galgopalegir gáfumenn sem halda úti  vefriti þar sem þeir hafa það fyrir sið að skammast út í alla sem hafa einhver völd í íslensku samfélagi og eru ekki vinstri grænir femínistar skuli gera grín að andstæðingi sínum í pólitik og því að valdhafar á Íslandi dæli yfir fólk kvenfyrirlitningu á hátíðarstundum og kalli það brandara?

Þessi tilraun til brandara hjá múrnum var ekkert fyndin því það var svo mikil heift í þessu. Það hefði samt alveg mátt grínast með meint píslarvætti Margrétar Frímanns og það er ekki verið að vega neitt að Thelmu með að taka hennar lífsreynslu sem það versta sem  til er.  En það er bara of sárt og ósmekklegt til að hafa í flimtingum. Þess vegna var þessi brandaratilraun bara mjög misheppnuð.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.1.2007 kl. 15:58

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sem dæmi um mína reynslu af ofsóknum sem við femínistar urðum fyrir á sínum tíma á vefnum þá vil ég benda á þennan umræðuþráð

við vorum ásökuð um að hafa engan sens fyrir húmor því mörgum femínistum blöskraði hvernig talað var um konur á vef sem var á rantur.com  það er áhugavert að sjá hvernig menn sem ásaka aðra um húmorsleysi nota svona orðræðu eins og kemur fram á þessum þræði um mig "það þarf að hálfrisnauðga þessari portkonu....." . Framhaldið er mun grófara en byrjunin á þessari setningu. Svona orðræða sýnir hver  sá veruleiki er sem femínistar sem reynt hafa að sporna gegn klámvæðingu og kvenfyrirlitningu á vefnum undanfarin misseri hafa orðið að búa við.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.1.2007 kl. 16:03

9 Smámynd: katrín atladóttir

sem dæmi um mína reynslu af ofsóknum frá feminístum þá vil ég benda á þetta afrit af síðu sem var inná feministinn.is á sínum tíma:

http://katrin.is/femmo/breytt.htm 

katrín atladóttir, 10.1.2007 kl. 10:32

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir að rifja þetta upp Katrín Þetta er alveg jafnfyndið og það var fyrir nokkrum árum. Ef ég man rétt þá tengdir þú voða hróðug á blogginu þínu í einhverja síðu sem ég hafði sett á femínistavefinn fyrir stjórn félagsins og það kom mjög skýrt fram efst á síðunni að hún ætti ekki að vera opinber. Þetta var frekar neyðarlegt fyrir mig en ég ákvað að láta krók á móti bragði og tók niður síðuna og setti þessa upp í staðinn þannig að allir sem smelltu á tengilinn hjá þér fengu þessa síðu. Skil samt ekki að þú hafir ekki haft húmor fyrir þessu og kallir þetta ofsóknir. Ég puntaði síðuna með mynd af bleikum rithöfundi sem ég met mikils (þetta er mynd af Bartböru Cartland hinum skrifglaða rithöfundi ástarsagna) og sem var alltaf í bleiku og svo held ég hafi þú hafir haldið að egosurving væri eitthvað skammarorð. Samkvæmt skilgreiningu er það: "Scanning the World Wide Web, databases, print media or research papers looking for the mention of your name.". Þetta er auðvitað háðsglósa á þig fyrir mjög sjálfhverft drottningarblogg í sönnum Barböru Cartland anda  en mér fannst bara þá og finnst ennþá alveg ástæða til að skopast af því 

Takk aftur fyrir að rifja upp þennan brandara. Ég skemmti mér ennþá vel yfir þessu. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.1.2007 kl. 10:53

11 Smámynd: katrín atladóttir

þú náttúrlega birtir ekki allan textann úr blogginu mínu sem tengdist þessu á þinni síðu (týbískt fyrir femini.. nei þig að birta ekki nema hálfa sögu).. á þessari "leyni" síðu þinni varstu búin að týna saman (m.a.) texta frá mér sem þér fannst andfeminískur sem var það ekki 

 http://www.katrin.is/?t=athugasemdir&nid=2957

skil annars ekki af hverju þú ert að pota í fjögurra ára gamalt efni á minni síðu, geturu ekki bara látið mig í friði takk?

katrín atladóttir, 10.1.2007 kl. 11:09

12 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

spurning bara um hver er að láta hvern í friði...

ég er ekki að biðja þig að tjá þig hérna í athugasemdum á mínu bloggi og ég hvorki fylgist með né tjái mig um það sem þú skrifar á þínu bloggi einfaldlega vegna þess að mér finnst það  ekkert áhugavert. Þessi umræða tengist þér ekki neitt nema að því leyti að ég vitnaði í komment á þínu bloggi sem einhver Horas skrifaði inn sem dæmi um yfirgengilegan rustaskap og ofsóknir. Ég hins vegar get alls ekki birt hér allan textann úr því kommenti sem byrjar svona   ""það þarf að hálfrisnauðga þessari portkonu.....". Framhaldið er ekki birtingarhæft, það er mjög gróf hótun um ofbeldi og eins gegnsósa af kvenfyrirlitningu og hugsast getur.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.1.2007 kl. 11:30

13 Smámynd: katrín atladóttir

ég var ekki að tala um kommentið hans horasar heldur ástæðuna fyrir því að þú voða hróðug bjóst til þessa háðsglósusíðu á mig á feministanum.is

þú ert búin að skíta yfir  mig í sjónvarpi, útvarpi og á netinu.. það er kannski barnalegt af mér að fara í vörn þegar þú núna vísar í eitthvað á minni síðu, 4 árum eftir að það er birt en reynslan kennir mér bara að ég fari agalega í taugarnar á þér (ég er auðvitað vond fyrirmynd fyrir upprennandi feminista, kvenkyns tölvunarfræðingur úr HÍ, hugbúnaðarverkfræðingur og í landsliðinu í einni af fáum íþróttum þar sem eini þekkti leikmaðurinn er kona og leikir karla og kvenna eru jafnmikilvægir í landsleik) 

ég hef þroskast mikið á síðustu 4 árum en mér virðist þú vera alveg eins og þegar ég var að reyna að díla við þig þá..

pick your battles og hafðu það gott

katrín atladóttir, 10.1.2007 kl. 11:54

14 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

þessi orðræða þín sýnir best hve mikið þú hefur þroskast

En það er gott að þú sért stolt af menntun þinni og íþróttaafrekum og ég vona að þú munir í framtíðinni stuðla að því að aðrar konur fái líka sömu möguleika og þú þ.e. geti gengið í skóla og hafi aðstöðu til að taka þátt og keppa í íþróttum. Því miður er víða í heiminum þannig að stúlkubörn fá ekki skólagöngu og fá ekki að taka þátt í opinberu lífi og frelsi þeirra er stórskert. Meira segja í ríkum löndum eins og Saudi Arabíu þar sem nú sækir heim íslensk sendinefnd kvenna þá fá konur ekki að keyra bíl og hafa lítil réttindi. Í mörgum löndum er meybörnum slátrað strax í móðurkviði bara vegna kynferðis.  Það ber því að fagna því að á Íslandi geti konur menntað sig og unnið afrek á ýmsum sviðum og haft mikil sjálfstraust.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.1.2007 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband