28.10.2009 | 18:04
Lífeyrissjóður verslunarmanna vill kaupa Landsvirkjun, er hún til sölu?
Ragnar Önundarson hjá Lífeyrirsjóði Verslunarmanna stingur upp á að lífeyrissjóðir kaupi Landsvirkjun. Röksemdin er að hér sé arðvænleg fjárfesting og svo að mér skilst að það þurfi að bjarga Landsvirkjun á einhvern hátt úr klóm erlendra kröfuhafa sem gætu gengið að Landsvirkjun vegna Icesave skuldbindinga. Ég skil nú reyndar ekki alveg þessa röksemd, felur hún í sér að Ragnar telji Ríkissjóð afar líklegan til að fara í greiðsluþrot og að kröfuhafar hirði eignir þrotabússins og það sé því best að koma eignunum undan sem fyrst? Vissulega stunda fyrirtæki í einkaeign alls konar undanskot eigna og kennitöluflakk þegar þau ráða ekki við skuldbindingar sínar en ég held ekki að það sama gildi um ríkissjóði.
Það má gjarnan selja sumar eigur ríkissjóðs en það gildir ekki sama um Landsvirkjun. Það gildir ekki heldur það sama um íslensk fiskimið. Það má ekki selja íslenska fossa og það má ekki selja íslensk fjöll. Landsvirkjun er fyrirtækið sem fékk umráðarétt og nýtingarétt yfir stórum hluta af íslenska hálendinu og greiddi ekkert fyrir það. Einfaldlega vegna þess að þetta er fyrirtæki í þjóðareign, fyrirtæki sem nýtir auðlindir Íslands og er í eigu og undir yfirráðum íslensku þjóðarinnar.
Það er allt í lagi að einkafyrirtæki virki bæjarlæki á Íslandi en það er verulega mikið að því að einkafyrirtæki í eigu fjárfestingasjóða ráðskist með fjöregg íslensku þjóðarinnar og komist yfir þau í ástandi sjokkkapítalisma eins og núna ríkir á Íslandi. Það versta sem getur gerst í þeirri stöðu sem við erum í núna er að hér rísi upp nýlenda og hjálenda, ekki stýrt frá Breska heimsveldinu eða öðrum nýlenduveldum sem nú hafa hnigið í valinn heldur stýrt af heimsveldi kasínókapitalista sem staðsetja sig á aflandseyjum og tappa verðmætum af samfélögum eins og afætur. En það er ekkert betra þá að fjárfestirinn heiti lífeyrissjóður Verslunarmanna í dag, það er opnun og bein hrösunarbraut í viðvarandi ástand spilaborgarskrípahagkerfis.
Við lifum á tímum stórra talna. Svo stórra að við skiljum þær ekki. Við skiljum heldur ekki að einn daginn var allt í lukkunnar velstandi, staða ríkisstjóðs sterk og engar skuldir eins og forsætisráðherrann þáverandi sagði í nýársávarpi árið 2008. Svo á svipstundu þá snerist allt á hvolf og við allt í einu sögð farin að skulda óhemju mikla peninga. Við vitum ekkert í hvað þessir peningar sem einkavæddir íslenskir bankar fengu frá fólki erlendis fóru, ekki annað en það að við höfum aldrei séð þessa peninga og könnumst ekkert við að þeir hafi borist til Íslands eða verið notaðir hér. Okkur skilst að þetta sé einhvers konar risavaxið ponzi scheme eða pýramídaviðskipti sem byggja á blöffi og að þessu hafi staðið þrjátíu karlar og þrjár konur. Fólk sem flest er að ég best veit ekki einu sinni búsett hérna á Íslandi lengur.
Það var í vikunni í fréttum að Lífeyrissjóður Verslunarmanna vildi kaupa Landsvirkjun. Það er ekkert að því að íslenskir lífeyrissjóðir fjárfesti í arðvænlegum fyrirtækjum á Íslandi og láni fé til framkvæmda sem afar líklegt er að séu mjög ábatasamar þegar til langs tíma er litið.
En síðan hvenær var ríkisfyrirtækið Landvirkjun til sölu?
Eða er Lífeyrirsjóður Verslunarmanna í sömu sporum og þeir hrægammar sem núna voma yfir íslensku atvinnulífi?
Það er verulega mikið að því að Lífeyrissjóður Verslunarmanna eða einhver annar fjárfestingarsjóður hvort sem hann er erlendur eða innlendur sölsi undir sig orkuauðlindir íslensku þjóðarinnar. Lífeyrissjóður Verslunarmanna er raunar svo undarlega rekinn að ekki einu sinni stjórnarmenn VR fá upplýsingar
Það er raunar áhugavert að rifja upp og fá yfirlit yfir fjárfestingu lífeyrissjóða í álverum á Íslandi,sjá þessa grein frá júní 2001.
Lífeyrissjóður Verslunarmanna má mín vegna byggja hátæknieinkaspítala sem er í eigu lífeyrissjóðsins eða kaupa Orkuhúsið af læknunum sem reka þar einkaskurðstofur með gengistryggðum lánum. Það færir ekki auðlindir Íslendinga til einkafjárfestingasjóðs og það býr til atvinnu fyrir heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi og ef það er ekki grundvöllur fyrir slíka þjónustu meðal landsmanna þá má alveg mín vegna fara út í lækningatúrisma og samninga við heilbrigðisyfirvöld á hinum Norðurlöndunum. Það er í raun heillandi að hingað komi fólk til að fá meina sinna bót.
Það bendir allt til þess að við þurfum að standa vörð um íslenskar orkuauðlindir næstu ár til að hindra að veruleg mistök verði gerð, örlagarík mistök eins og gerð voru við kvótakerfið og einkavæðingu bankanna, mistök sem eru ekki mistök frá sjónarhóli þeirra sem fengu gjafakvótann, mistök sem eru ekki mistök fjá sjónarhóli þeirra sem fengu peningagerðarvélar samfélagsins gefins heldur mistök sem eru mistök og raunar voðaverk gagnvart íslenskum almenningi.
Það má vel gagnrýna orkufyrirtæki í opinberri eigu. Og það er vissulega margt að því hvernig orkumál hafa verið rekin á Íslandi undanfarin ár. Ketill á orkublogginu gerir grein fyrir því m.a. í þessu bloggi Orkustefnan
Það hagkerfi sem við höfum búið við og sem hrundi kollsteypist yfir okkur einkennist af því að gróðinn var einkavæddur og fluttur í slumpum út úr skattaradar Ríkissjóðs Íslands en tapið er og verður þjóðnýtt og leggst yfir almenning á Íslandi eins og mara. Það er ekki einu sinni svo að okkur sé boðið upp á að semja um skuldir gjaldþrota ríkissjóðs heldur höfum við stjórnvöld sem semja upp á gálgafrest þannig að við getum á hverjum degi horf fram nýjan dag og reiknað út hvað vaxtaklukka Icesave hefur tifað mikið um nóttina og aukið við þá möru sem þegar hvíldi á okkur.
Ef einhver minnist á einhvers konar þjóðnýtingu og þjóðareign á öðru en tapi þá liggur við að ýtt sé á neyðarhnappa til að kalla strax á hryðjuverkalöggu. Ef einhver mótmælir því að yfirráðin yfir orkulindum Íslendinga séu seld til erlendra gullgrafara eins og gerðist í HS Orku dæminu þá stendur ekki á svörum að vitna í að svona verði þetta að vera samkvæmt íslenskum lögum og íslensku lögin verði að vera svona af því þau séu bara sniðin eftir evrópulögum og Íslendingar verði að taka þau upp. Þessi röksemd er borin á borð fyrir okkur á sama tíma og bresk stjórnvöld beita hryðjuverkalögum á Íslendinga til að tryggja hagsmuni þeirra fjármagnseigenda sem áttu fé í bönkum þar í landi.
Ber okkur að bugta okkur undir hryðjuverkalögum Breta en sitja aðgerðarlaus hjá á meðan íslenskur almenningur er rændur auðlindum sínum og yfirráðum yfir íslensku landi?
Okkur er gert að trúa því að þessi evrópíslensku lög séu til að auka samkeppni í orkugeiranum en hverjum manni sem sjá vill það ljóst að þar verður alltaf fákeppni og veruleg hætta á einokun og hringamyndun í orkugeiranum og raunar er sterkasta tryggingin fyrir að svo verði ekki þ.e. að einokun verði með tímanum þannig að orkunotandinn (álver) eigi líka orkuverin (auðvitað í gegnum spagettinet aflandsskúffufyrirtækja til að leyna eignarhaldinu) að þau séu í opinberri eigu, þau séu í eigu aðila sem starfa á svæðinu og búa þar og nýta auðlindina á skynsamlegan hátt og dreifa arðseminni af iðjunni út um samfélagið.
Arður af auðlind dreifist ekki út um samfélagið ef íslensk orkufyrirtæki komast úr opinberri eigu. Þannig var það ekki með fiskveiðikvótann. Þorskastríðin virðast hafa verið háð til að tryggja hagsmuni útgerðarmanna, það var ekki verið að tryggja réttindi og yfirráð almennings á Íslandi yfir fiskveiðiauðlindinni þrátt fyrir skrúðmælgi í íslenskum lögum.
Það er líka skrúðmælgi í lögum núna og fólkið sem notar svona rök: "það er ekkert verið að selja auðlindina, ekkert verið að selja landið, bara einkaleyfi til orkuframkvæmda á ákveðnu svæði" er að blekkja bæði sjálfa sig og aðra Íslendinga. Það er verið að selja landið og yfirráð yfir landinu og svíkja íslenska alþýðu með svona samningum.
Það er núna verið að reyna að svíkja fólk og blekkja á sama hátt og gert var með einkavæðingu bankanna og á sama hátt og gert var með útgerðarmannakvótakerfinu. Það er verið að færa verðmæti og ákvörðunarvald yfir fyrirtækjum sem langskynsamlegast er að sé í samfélagseigu til aðila sem keppast við að ná í peningalegan 1000% gróða (já þú last rétt, eitt þúsund prósent gróða
Rétturinn til að veiða fisk á Íslandsmiðum var gefinn útgerðarmönnum, þeir seldu hann fram og til baka og vissulega hafði það hagræði fyrir fiskiðnaðinn í för með sér en það lagði nokkur sjávarþorf í rúst. Og í heimi þar sem peningar og fjármagn renna hömlulaust eins og Skeiðarárhlaup á milli landa þá getur vel verið núna að megnið af kvótanum hafi í hlaupinu mikla fyrir ári síðan borist langt út fyrir íslenska landhelgi og sé núna eign einhverra gullgrafara og vogunarsjóða. Það er raunar ekkert annað í stöðunni eins og er fyrir íslenskan almenning og það er að taka þennan kvóta til baka eða skattleggja hann eins og leigutekjur af auðlindinni en gera það ekki allt í einu heldur smán saman og í sem mestri sátt við þá sem stunda útgerð og fiskveiðar og fiskvinnslu hér á landi.
Það er hætta á að á næstu árum og kannski jafnvel fyrr en okkur grunar og okkur að óvörum verði sama voðaverkið unnið varðandi íslenskar orkuauðlindir og var gert í fyrsta lagi með kvótakerfinu og í öðru lagi með einkavæðingu bankanna.
Það má kannski rifja upp núna að Helgi Hjörvar sem einmitt í dag var kosinn formaður Norðurlandaráðs skrifaði greinar í blöð rétt fyrir Hrunið þar sem hann vildi selja virkjanir og búa til eitthvað sem hann kallaði "Sjóð handa komandi kynslóðum".
Sjá hérna grein og blogg mitt um hugmyndir Helga Hjörvars
Sóknarfæri að selja virkjanir - mbl.is
Að losa peninga - Raufarhafnarstemming hjá Helga Hjörvar - salvor ...
Jakóbína ásakar Helga Hjörvar um mútur og hefur skrifað bréf til Norðurlandaráðs. Henni finnst 900 þúsund framlag í kosningasjóð frá Baugi Group til Helga vera á sama plani og bleyjurnar og tobleronið hjá Monu Salin. Sjá bloggin Vita Norðurlöndin um múturnar?
Þó ég viti vel að það má kaupa fullt af bleyjum fyrir 900 þúsund þá held ég ekki að framlag í kosningasjóð sé mútur. En Helgi Hjörvar gekk erinda annarra en íslensks almennings þegar hann skrifaði þessar greinar.
Ég skrifaði eftirfarandi athugasemd við blogg Jakóbínu:
Ég las aftur yfir það sem ég bloggaði um þessar hugmyndir Helga, hugmyndir sem hann setti fram einmitt þegar allt stefndi í hrun. Helgi sagði þá að sala á Kárahnjúkavirkjun yrði "hvati fyrir frekari framrás í orkuiðnaði og útrás með tilkomu nýrra fjárfesta"
Vá hvað ég er fegin að það var ekki þjösnast við að selja Kárahnjúkavirkjun til þessara fjárfesta rétt fyrir Hrunið eins og Helgi Hjörvar vildi. Þeir hefðu borgað á sama hátt og þeir borguðu allt sem þeir keyptu - með kúluláni í eigin banka. Mikið væri það skelfileg staða ef við hefðum flýtt okkur að fara að ráðum Helga. Þetta kallaði Helgi á þessum tíma "Sjóður handa komandi kynslóðum". Við höfum nefnilega í augnablikinu alveg nóg af sjóðum handa komandi kynslóðum. Icesave er þannig sjóður. Hann er bara mínus sjóður handa komandi kynslóðum. Miklir eru galdrar þeirra Debets og Kredits.
Ragnar Önundarson í Silfri Egils
Leggur til að lífeyrissjóðirnir kaupi Landsvirkjun - Frétt - AMX
Laust fé Landsvirkjunar 40 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.10.2009 kl. 13:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.