20.10.2009 | 17:43
Lýðheilsustöð, lýðræðið og jákvæðu fréttirnar
Það eru fáar góðar fréttir í dag ári eftir hrunræðu Geirs. Ég er búin undir að það haldi allt áfram að hrynja í langan tíma, þannig er um stór og flókin kerfi, bylgjuhreyfingin er lengi að ganga yfir. En það er gott að heyra af því að gengi íslensku krónunnar skuli hafa styrkst um 0,45% í dag. Þetta er samt feikfrétt vegna þess að það eru ennþá gríðarmiklar gjaldeyrishömlur og ekkert fyrirsjáanlegt að um þær geti losnað í bráð. Við erum nú í skjóli krónunnar en jafnframt í fjötrum hennar vegna verðtryggingar- og gengistryggingarbindinga í lánum. Svona feikfréttir eru uppfyllingarefni fjölmiðla núna milli hryllingfréttanna. Ég ætlaði að toppa þessa frétt Moggans með annarri jákvæðri frétt með að fletta upp genginu á deCode og upplýsa að það hefði hækkað um mörg prósent milli daga en þegja um að það hefði hrapað niður í næstum ekki neitt. En ég gat það ekki því einmitt í dag hefur gengi deCode lækkað um 3.71 % og er orðið 0,36. Þannig get ég ekki gert eins og Mogginn, flutt endalausar góðar fréttir af þegar deCode hækkar um eihver sent til eða frá. En kannski hækkar DeCode á morgun um það sama og það lækkaði um í dag og þá get ég bloggað um að þetta sé allt að koma hjá því fyrirtæki.
Það eru ekki margar jákvæðar fréttir á Íslandi í dag, núna þegar hættuleg svínainflúensa æðir um landið og ríkisstjórnin er að þvinga Alþingi til að skrifa undir nauðasamninga vegna Icesave og atvinnufyrirtæki og einstaklingar eru að kikna undan skuldaböggum. Lýðheilsustöð gengst einmitt þessa stundina fyrir ráðstefnunni "Getur umfjöllun fjölmiðla skaðað velferð fólks?" og þykir mér efni ráðstefnunnar ansi forvitnilegt en á vef Lýðheilsustofnunar segir:
Túlkun fjölmiðla á viðfangsefninu hverju sinni hefur áhrif á upplifun fólks á því efni sem fjallað er um. Í ófromlegum könnunum sem gerðar hafa verið á hlutfalli milli jákvæðra og neikvæðra frétta kemur í ljós að jákvætt framsettar fréttir eru í miklum minnihluta. Í allri umfjöllun er hægt að líta á málefnin frá ólíku sjónarhorni og setja umfjöllun fram með mismunandi hætti.
Afhverju er það t.d. meira fréttnæmt að ákveðið hlutfall Íslendinga vilji flytja af landi brott en ekki fréttnæmt allur sá fjöldi sem vill vera um kyrrt eða velur að flytja til Íslands á sama tíma?
Á málþinginu Fjölmiðlar og lýðheilsa verður m.a. leitað svara við eftirfarandi spurningum:
Afhverju nær neikvæð umfjöllun oftar upp á yfirborðið en sú jákvæða? Hvaða áhrif hefur neikvæð umfjöllun á líðan almennings? Hvert er hlutverk fjölmiðla á umbrotatímum?
Ég velti fyrir mér hvernig fréttaflutningur af svínaflensunni væri ef það væri lögð áhersla á að sá hið jákvæða í stöðunni og hilma yfir hversu alvarlegt ástandið væri. Hvernig væru jákvæðu og uppbyggilegu fréttirnar ef hræðilega alvarleg drepsótt gengi yfir landið? Myndu fyrirsagnirnar ef til vill verða þessar:
"Enginn dó í dag af flensunni, heilbrigðisyfirvöld ráða við ástandið og stýra þessu alveg"
"Getum sparað stórar upphæðir í bóluefni, þurfum ekki að kaupa bóluefni því flensan er gengin yfir"
Fyrir Hrunið var furðulegt ástand í fjölmiðlum. Forsætisráðherra laug að okkur á hverjum degi. Við sáum kreppuna læsast um okkur en forsætisráðherra kallaði þetta mótvind. En vill lýðheilsustöð virkilega að stjórnmálamenn og fjölmiðlar taki aftur höndum saman og ljúgi og ljúgi. Segi okkur að ástandið sé gott og allt að batna og undir stjórn úrræðagóðra manna?
Hér er byrjun á grein sem birtist í Financial Times um kreppufréttamennsku á Íslandi
Iceland urges media to spin news and lift nation's gloom
By Andrew Jack in London
Published: October 16 2009 03:00 | Last updated: October 16 2009 03:00
Iceland's media have been told to put a more positive spin on the news because of fears they could intensify the gloom that has descended on the nation since its banks collapsed last year and sent a thriving economy into a tailspin.
Amid fears that collective funk could lead to long-term health problems for the small and tight-knit population, the state Public Health Institute is trying to "re-educate" news organisations to be more "constructive" in their coverage.
"The media are too negative," says Gudjon Magnusson, professor of public health at Reykjavik University, who has worked with radio broadcasters to injectpositive stories into breakfast-time news programmes.
The officials say they recognise the importance of media freedom, and understand why journalists who did not foresee the crisis are now being critical, but they are anxious to implement lessons learnt by neighbouring countries - all of which have a reputation for a morose outlook - in previous economic shocks.
Fyrsta bloggið mitt fyrir átta árum 1. apríl 2001 var einmitt um fréttir. Best ég lími það inn hérna, það eru góðir partar í því sem eiga við í dag:
fréttum er þetta helst....
Stundum horfi ég á fréttir í sjónvarpinu, oftast þannig að ég sé slitrur úr fréttatíma því ég hef ekki þolinmæði til að sitja undir heilum fréttatíma, finnst svo pirrandi að geta ekki hraðspólað yfir það sem mér finnst ekki áhugavert og þessi samsetning á hvað er fréttnæmt á hverjum degi sem sett er í einn fréttapakka höfðar einhvern veginn ekki til mín.
Svo er ég eiginlega ekki sannfærð lengur um að aðaltilgangur frétta sé miðlun upplýsinga.. held það verði að skoða á hvers vegum fréttamiðill er og spá í hvað vakir fyrir þeim aðilum. Ég held að það hljóti alltaf að vera að hafa áhrif... þó ekki sé nema með trú á það að viðtakendur frétta séu einhverju bættari í lífi sínu og hegði sér eða hugsi öðruvísi vegna þess að þeir heyrðu fréttirnar.
Boðun fagnaðarerindis, hámörkun ágóða eða viðhald þjóðríkis
Fréttamiðlar sem reknir eru af trúfélögum eða einhvers konar hreyfingum hafa væntanlega þann tilgang að snúa sem flestum á sitt band, sýna fram á ágæti þeirra hugmynda og hornsteina sem hreyfingin hvílir á og sýna hvers konar glapstigu þeir feta sem ekki eru rétttrúaðir. Ekki síst miða slíkir miðlar að því að styrkja samkennd hópsins og sýna hversu miklu betra er að vera innan hans en utan og hegða sér eins og til er ætlast. Allt þetta miðar að því að viðhalda og efla það samfélag eða hreyfingu sem stendur að fréttamiðlinum.
Sumir fréttamiðlar eru reknir af hagsmunaaðilum í viðskiptalífi og er endanlegur tilgangur þá væntanlega að hámarka einhvers konar ágóða og selja vörur. Þó því sé haldið fram að þær fréttastofur séu frjálsar og óháðar þá finnst mér ólíklegt að hnjóðsyrði og níð um eigendur og þær vörur sem þeir selja séu vel liðnar. Ef fréttirnar eru líka eins konar agn til að ginna áhorfendur til að sitja undir auglýsingainnskotum sem skapa tekjurnar þá er líklegt að fréttaflutningi sé hagað þannig að mörk auglýsinga og upplýsinga máist út og allt gangi út á sem mest áhorf og kostun.
En hvað með ríkisfjölmiðla? Er það ekki rödd þjóðarinnar sem hljómar þar - sjálf þjóðarsálin sem þar er á sveimi og endurvarpar því sem hollt er fyrir okkur að vita um atburði líðandi stundar. Tja... ég er ekki alveg viss... Stundum finnst mér eins og fréttaskammtarnir sem dælt er í æðar okkar á hverjum degi séu helst fallnir til að styrkja einhverjar goðsagnir um heiminn og þá hættur og óvini sem þar sitja á fletum fyrir. Ég held ég hefði alls ekki tekið eftir þessu ef það væri ekki þetta vandamál með óvininn og hætturnar... þeir hverfa og þær hverfa... Heimsmyndin er svo kvikul í dag að það þarf oft að hugsa upp ný tortímandi öfl. En það er fyrir tilstuðlan illmenna sem þessi öfl eiga að leysast úr læðingi og það eru hinir árvökulu fjölmiðlar sem kenna okkur að bera kennsl á óvininn.
Hvað tortímir? Hver er óvinurinn?
Mér finnst eins og undirliggjandi hræðsla við þessi öfl hafi breyst í fjölmiðlum síðustu áratugi - áður var alið á hræðslu við kjarnorkusprengjur og atómstríð stórvelda en nú er eins og hræðsluáróður sé einstaklingsmiðaðri og smærri - nú er það hræðsla við eiturbyrlun, sóttkveikjur og efni sem hættuleg eru líkama eða sál. Það er eins og það sé ekki eins yfirvofandi og hættulegt að heimurinn með þeim lífsformum sem við þekkjum springi í einu vettfangi í tætlur í kjarnorkusprengingum - það er eins og það sé miklu líklegra og hættulegra að lífsformin leysist upp og breytingar geti gerst hægt og grafið um sig á ósýnilegan hátt. Og er það ekki þessi hræðsla við óvininn sem býr til landamæri í hugum okkar og segir okkur hvar heimalönd okkar enda og eitrandi, mengandi og hættulegur utangarðsheimur tekur við.
Landamæri hugans og landamæri heimsins
Stundum sé ég í fjölmiðlum að þessi landamæri hugans blandast saman við raunveruleg landamæri - hér fer ég að hugsa um ljósmyndir sem ég sá nýlega á forsíðum norskra dagblaða þar sem ábúðarmiklir tollverðir leituðu að kjöti frá landsvæðum á bannlista í farangri eldri kvenna sem voru að koma til landsins úr húsmæðraorlofi. Líka um þessar mottur sem ég hef heyrt að búið sé að setja upp í flughöfninni í Keflavík og mér skilst að þeir sem koma með vélum frá kjötinnflutningsbannsvæðum verði að ganga yfir þessar mottur.
Persaflóastríðið og paprikumafían
Núna í vikunni hlustaði ég á og las margar fréttir um hvernig flett hefur verið ofan af íslensku paprikumafíunni. Eftir því sem mér skilst þá hafa einhver illmenni bundist samtökum til að hindra að við - venjulegt fólk á Íslandi gætum fengið grænmeti á góðu verði og orðið hraust og heilbrigð. Þetta er náttúrulega ekki dæmigerð frétt um að verið sé að eitra fyrir okkur eins og allar sláturdýrasjúkdómafréttirnar en svona frekar um að það sé verið að hindra að við náum í móteitur eða einhvern valkost við allt þetta vafasama kjötát. Nú er ég alls ekki að efast um að til sé íslensk papríkumafía - nei mér dettur ekki í hug að efast um það - ekki frekar en um að Persaflóastríðið hafi raunverulega geysað - en ég er bara að spá í hvort þetta mál hefði komið til eða fengið jafnmikla umfjöllun á einhverjum öðrum tímum.
Nútímavíkingur smíðar óvini og girðir landið
Fjölmargir netmiðlar fjalla nú um málið og vil ég hér taka sem dæmi þann sem mest glamrar nú. Þannig er að allir franskir byltingarsinnar fyrr og síðar hafa endurholdgast í einum íslenskum nútímavíkingi, Agli að nafni sem nú kveður við raust og bræðir silfur sem skvettist yfir okkur af sjónvarpsskjám og tölvuskjám. Svo kveður Egill í síðasta pistli sínum :
"...Mennirnir sem vildu láta þjóðina éta ónýtar kartöflur komu úr sama hópi og nú hefur orðið uppvís að stórfelldum brotum gegn samkeppnislögum og samsæri gegn heilsufari Íslendinga. Þeir eru, svo að segja, enn að reyna að taka þjóðina í afturendann....Forstjórar grænmetisfyrirtækjanna munu hafa hist í Öskjuhlíðinni. Það er á flestra vitorði hvers konar mannleg samskipti fara þar fram að staðaldri. "
Úr silfri sínu smíðar Egill nú óvin, býr til samsæriskenningu og persónugerir óvin sem þröngvar okkur til hættulegs, eyðnismitandi holdlegs samræðis - óvin sem er utangarðs og stundar hættuleg kynmök við ókunnuga á leynifundum utan alfaraleiðar. Það er ekkert í þrumandi orðræðu þessa nútímavíkings sem færir okkur ný sannindi eða nýja vitneskju. Hann gerir ekki annað en ala á óttanum sem við höfðum fyrir, óttanum við eitruð matvæli og drepsóttir sem tæra upp líkama okkar. En hann gerir meira, hann dregur upp mynd af óvininum - íslenska grænmetisbóndanum og grænmetissalanum og hann snýr einnig úr silfri sínu víravirki sem er eins og gaddavírsgirðing til að halda áfram utangarðs öllum þeim sem þar eru fyrir - í þessu tilfelli öllum samkynhneigðum. Heimsmyndin er kvik, óvinirnir breytast en silfur Egils er kvikasilfur með þeim eitrunaáhrifum sem því fylgja.
Marhnútar og málfiskar
Verðmyndun er alls ekki frjáls á landbúnaðarvörum á Íslandi og verðsamráð er afar algeng þar sem fáir aðilar selja á markaði. Svo er ég líka að velta fyrir mér hvers vegna svona lítil umræða er um fiskverðið - fiskverð til neytenda á Íslandi hefur undanfarin fjögur ár hækkað miklu meira en verð á grænmeti. Fiskur sem er holl og góð matvara sem við getum bara mokað upp úr eigin námum - úr fiskimiðunum sem eru sameign okkar allra. Hér áður fyrr þegar vistarbandið raknaði settust tómthúsmenn að hvarvetna við strandlengju Íslands þar sem róa mátti á sjó. Einu sinni var Seltjarnarnesið eins og önnur nes á Íslandi lítið og lágt og þar lifðu fáir og hugsuðu eingöngu um að draga fisk úr sjó en nú býr þar velmegandi fólk sem dregur mat í innkaupakörfur í stórmörkuðum. Einu sinni var kveðið um Setirninga: " Draga þeir marhnút í drenginn sinn; Duus kaupir af þeim málfiskinn". Fiskur er munaðarvara.
Gengi krónunnar styrktist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.