11.10.2009 | 12:18
Forsætisráðherra sem þegir, ráðherrar sem tala niður atvinnulíf
Rétt fyrir Hrunið riðaði íslenska bankakerfið til falls en einmitt þá fóru forsætisráðherra og utanríkisráðherra um lönd og töluðu af sannfæringarkrafti um hve stöðugt íslenska bankakerfið væri - að því er virðist beinlínis til að róa erlenda fjárfesta sem áttu fé á Íslandi. Samt vissu þau manna best hvernig ástandið var en þau leyndu því bæði fyrir almenningi á Íslandi og erlendum fjárfestum og voru beinlínis að blöffa til að ekki yrði gert áhlaup á íslensku bankana. Í mörg misseri var forseti Íslands í slagtogi með útrásarvíkingum og fór með þeim í einkaþotum þeirra að hitta ráðamenn í fjarlægum löndum.
Það er því ekkert nýtt fyrir okkur að trúverðugleiki íslenskra ráðamanna sé enginn. Það var einmitt út af því sem við mættum laugardag eftir laugardag niður á Austurvelli allan síðasta vetur.
Það tókst að koma þeirri vanhæfu ríkisstjórn sem þá sat frá völdum. Ástandið er þannig að eina vitræna og heiðarlega leiðin í stjórnmálum á Íslandi í dag er þjóðstjórn. Það sem gerðist er að hér er núna samsteypustjórn Samfylkingar sem var einmitt í hrunstjórninni og Vinstri Grænna sem aldrei hafa verið í stjórn og kunna ekki að fara með völd.
Viðfangsefnin sem Ísland stendur frammi fyrir núna eru svo risavaxin og afleiðingarnar svo afdrifaríkar að það er mikilvægt að allir taki þátt í lausn þessa vanda og sem flest sjónarmið heyrist og sem flestar lausnir séu skoðaðar. En hvernig er ástandið? Það er afar lítil samstaða í þessari ríkisstjórn og raunar virðast ráðherrar spila sóló um hvað þeir séu að gera. Einnig virðast áherslur ráðherrana stórfurðulegar.
Það er verr að sá ráðherra sem mesta framsýni hefur og skilning á hvað er að gerast bæði hér á Íslandi og í alþjóðasamfélaginu Ögmundur Jónasson hvarf úr ríkisstjórninni og virðist manni hún núna hanga á bláþræði og ráðherrarnir fara fram með ákaflega einkennilegum hætti.
Svo ég taki þrjú dæmi, þau Jón Bjarnason, Jóhönnu og Svandísi.
Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra virðist ekki hafa áhuga á neinu öðru en hagsmunapoti fyrir þá sem búa utan þéttbýlis á Íslandi, hann hefur meira segja gengið svo langt að lýsa yfir að hann vilji að landsbyggðin borgi minni orkuskatta en þéttbýlið og núna hefur hann áhyggjur af stofnfjáreigendum í sparisjóðum í sínu kjördæmi. Hann gengur erinda sárafárra Íslendinga en það einkanlega atvinnurekendur útgerðarmenn og bændur og hefur ekki beitt sér í innköllun aflaheimilda sem þó var kosningamál Vinstri grænna.
Jóhanna forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar lagði fyrir okkur afarsamninga Icesave, í reynd þvíngun stórveldis í skjóli hryðjuverkalaga og hún talaði hvorki máli okkar við Nató né vill leita allra mögulegra annarra leiða. Það er furðulegt að Jóhanna skuli ekki vilja láta reyna með formlegum hætti á samstöðu Norðurlandaþjóða með Íslandi og hrópa hátt í alþjóðasamfélaginu m.a. hjá Nató um hvernig komið er fram við íslenska þjóð núna. Þó Jóhanna sé alltumvefjandi og enginn efist um að hún vill slá skjaldborg um heimilin í landinu þá er hún ósýnilegur málsvari Íslands í alþjóðasamfélaginu og lætur þar sviðið eftir fyrir þann sem ætti nú að vera í felum - Hrunforsetinn Ólafur Ragnar tjáir sig í ýmsum alheimsmiðlum alveg eins og hann stjórni Íslandi og njóti trausts.
Núna um helgina urðu skrýtnir stjórnarhættir Jóhönnu ljósir á tvennan hátt. Annars vegar var hvernig hún tók því að Framsóknarmenn tækju frumkvæði og færu til Noregs til að freista þess að fá stuðning Norðmanna við Ísland. Jóhann sendi tölvupóst til norska forsætisráðherrans og spurði hvort hann vildi lána Íslandi 2000 milljarða án nokkurra trygginga og fékk svar sem vísaði í fyrri skuldbindingar Norðmanna.
Þetta er mjög einkennilegt, það er að koma ný stjórn í Noregi og vitað er að hluti þeirrar stjórnar er mjög vilhallur Íslendingum. Það hefði því verið eðlilegt að opinber beiðni kæmi frá Íslandi. Það er líka einkennilegt að það leki út skýrsla frá forsætisráðuneytinu sem segi að að veruleg hætta sé á að lánshæfi Íslands verði þannig að ríkisskuldabréf verði skilgreint sem junk bonds með þeim afleiðingum að sjóðir mega ekki eiga þau EF ekki verður búið að samþykkja Icesave fyrir 23. október.
Þetta er alvarleg staða og það er því ákafleg undarlegt að forsætisráðherra skuli ekki beita sér meira á alþjóðavettvangi m.a. hjá Norðurlöndum og Nató og það er líka undarlegt að ekki skuli vera rætt að ef Ísland undirgengst samninga sem það klárlega ræður ekki við þá getur það ekki létt til annars en þjóðargjaldþrots og þess að hvort sem er skuldabréf ríkisins fari í ruslflokk. Það er í sjálfu sér betra að horfast í augu við aðstæður núna strax frekar en vera í "postponed crisis" og lifa með gjalddaga Icesave samninga eins og öx yfir höfði sér. Það er satt að segja enginn hvati til uppbyggingar á Íslandi ef við vitum að allt fer í rusl eftir 7 ár.
Síðasti ráðherran sem núna hegðar sér undarlega er Svandís umhverfisráðherra en málflutningur hennar þegar hún var að verja ákvörðun á sviði umhverfismála gagnvart orkufyrirtækjum var stórfurðulegur. Vissulega á umhverfisráðherra að gæta að umhverfismálum og nota til þess þau lög og heimildir sem hann hefur. Það er vel að umhverfismál séu tekin alvarlega. En sá rökstuðningur sem ráðherrann notaði í opinberri umræðu - að blanda saman sinni sýn á fjármál eins orkufyrirtækis og svo ferli varðandi umhverfismat - er stórfurðulegur og ég efa að hann standist stjórnsýslulög.
Ég held að æstir andstæðingar virkjana séu svo uppteknir af málstað sínum að þeir sjá ekki hve stórfurðulegt þetta er. En ef hér hefði verið t.d. verið fyrirtæki sem rekur fiskeldi sem hefði verið að basla við að koma upp fleiri fiskkörum eftir Hrunið og fá einhvern til að fjármagna uppbyggingu en þurft að fá leyfi eða stimplun frá umhverfisráðherra. Ráðherrann hefði ekki veitt stimpilinn vegna þess að það þurfti að athuga mengunarmálin betur og það tæki tíma en svo komið í fjölmiðla og gjammað um að umrætt fiskeldisfyrirtæki væri svo skuldsett og komið að fótum fram að það væri glórulaus vitleysa hjá því að fá meiri lán og setja upp ennþá eitt fiskikarið, það myndi rúlla allt á hausinn. Ég hugsa að það myndi alla vega ekki gera fjármögnun til uppbyggingar auðveldari hjá fiskeldisfyrirtækinu sem ég tek sem dæmi.
Forstjóri OR og stjórnarformaður hafa reyndar skrifað bréf og segja m.a.:
Við þessar aðstæður kýs ráðherra í ríkisstjórn Íslands að ráðast fram á sviðið og lýsa því yfir að Orkuveita Reykjavíkur sé ekki fær um að ráðast í þessar framkvæmdir. Það er ótækt að búa við það að fulltrúi ríkisstjórnarinnar leitist við að draga úr fjárhagslegum trúverðugleika þessa fyrirtækis í almannaeigu. Í ljósi skuldbindinga ríkisvaldsins gagnvart Helguvíkurverkefninu, verður að líta svo á að ráðherrann sé að þjóna sérskoðunum sínum á kostnað Orkuveitu Reykjavíkur, eigenda hennar og alls almennings í landinu.
Fyrir Hrunið höfðum við ráðherra sem töluðu upp gengi krónunnar og veldi bankanna þó engin innistæða væri fyrir því.
En í dag er ástandið þannig að við höfum ráðherra sem þegja í hel eða tala niður allt sem getur orðið okkur til bjargar. Við höfum forsætisráðherra sem þegir á meðan íslensk þjóð er hneppt í skuldaánauð og við höfum ráðherra sem tala eingöngu fyrir og við lítinn hluta Íslendinga og við höfum ráðherra sem einsetja sér að tala sem mest niður íslenskt atvinnulíf.
Segja ráðherra skaða OR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:42 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er allt stórundarlegt og auðvelt að byrja að efast um heillindi þeirra sem sem með völdin fara. Er þetta fólk bara svona gjörsamlega vanhæft til að gegna þeim störfum sem það gegnir eða ráða annarleg sjónarmið för hjá þeim flestum ????
Jón Magnússon (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 13:32
Mannvitsbrekkurnar Sigmundur Davíð, Ögmundur og Þór Saari að leiða þjóðina út úr vandanum!
Það þarf fjörugt ímyndunarafl til að láta sér detta það í hug.
Sverrir (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 14:04
Góð grein! Það er skemmtilegt hvernig lífið kemur manni á óvart, ég hef lengi haft mikla trú á Jóhönnu og sjaldan verið sammála Ögmundi, svo bregðast krosstré sem önnur.
Það er ömurlegt hvernig bæði Íslendingar og íslenski stjórnmálamenn skipa sér í flokka þar sem skoðanir og baráttumálefni mótast fyrst og fremst af tíma og afstöðu. Ef stjórn og stjórnarandstöðu yrði víxlað í dag, þá mætti með töluverðri vissu ganga út frá algerlega andstæðum málflutningi að hæfilegum aðlögunartíma liðnum. Október 09 Bjarni Ben myndi hljóma aftur eins og Nóvember 08 Bjarni og svo maður minnist ekki á Steingrím, eða þá alla hina. Vindhanapólitík!
Ef Jóhanna væri í stjórnarandstöðu og hefði lagt land undir fót til að skoða aðra lánamöguleika, hvernig myndu aðhlægjendur Sigmundar Davíðs bregðast við!
Beytum skynseminni sem okkur var gefin, gott mark er gott mark, óháð því hver skoraði.
Er skylda að fara í manngreinaálit þegar meta skal gjörðir annarra, skiptir kyn, kynþáttur, stjórnmálaskoðun og lífsviðhorf munu meiru en verkin sjálf! Það, að vel sé gert og að tilætlanir séu ærlegar, dugir mér ágætlega!
Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 12:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.