17.9.2009 | 10:11
Skrýtin tilkynning ríkisskattstjóra
Ef íslenskir borgarar tjá sig í ræðu og riti og reyna að skilja hvað gerðist á Íslandi geta þeir þá átt von á því að ríkisskattstjóri komi með opinberar yfirlýsingar sem varða þeirra einkahagi eða þess atvinnureksturs sem þeir stunda? Yfirlýsingar sem eru settar fram að því er virðist til að klekkja á viðkomandi og draga úr trúverðugleika.
Það er þessi setning sem ég get ekki séð að sé samboðin ábyrgu stjórnvaldi:
Þá hefur forráðamaður IT Ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. lýst nauðsyn á auknu gagnsæi með kortlagningu eigenda félaga og rekstrar þeirra. Í ljósi þess vekur það athygli að það félag hefur á hinn bóginn ekki virt skýr fyrirmæli laga um afhendingu ársreikninga undanfarin þrjú ár, segir í tilkynningu ríkisskattstjóra.
Ég er ekki lögfræðingur og ég veit ekki hvort það er opinber gögn eða ekki hvort eitthvað einkafyrirtæki hafi "virt skýr fyrirmæli laga um afhendinga ársreikninga undanfarin þrú ár" en það er vægast sagt ekki gott stjórnarfar í landi þar sem þegnar sem tjá sig og gagnrýna stjórnvöld eiga von á því að þeirra persónulegir hagir séu dregnir fram í opinberum yfirlýsingum frá stjórnvöldum.
Grunaður um upplýsingastuld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta var nákvæmnlega það sem ég hugsaði þegar ég sá þetta í gær.
Er ekki skattstjóri farinn í leikinn "granninn drekkur meir" til að dreifa athyglinni frá sér.
Vilberg Helgason, 17.9.2009 kl. 10:18
Svo augljós rógsherferð, að það er skammarlegt á að horfa.
Skorrdal (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 10:21
Það er furðulegt að það virðist vera í lagi að upplýsa það opinberlega að maðurinn hafi ekki skilað ársreikningum en ekki hverning eignatengsl eru á milli fyrirtækja. Virðist vera svar sem hefur verið skrifað af einhverjum PR-mönnum og átt að slá ryk í augu almennings.
TómasHa, 17.9.2009 kl. 10:39
Er ekki eitthvað vandamál með upplýsingaöryggi hjá skattmann ef fyrrverandi starfsmenn hafa undir höndum upplýsingar sem þeir eiga ekki að hafa?
Guðmundur Ásgeirsson, 17.9.2009 kl. 10:49
Tómas: Enginn PR maður sem eitthvað kann til verka myndi semja svona yfirlýsingu. Þessi seinasta klausa væri ekki annað en ómálefnalegt pikk ef hér væru tveir jafnstæðir aðilar að kýta. Svo er ekki. Hér er stjórnvald að setja ofan í við borgara, við aðila sem vann verk fyrir þá. Það er allt í lagi og raunar sennilega nauðsynlegt að stjórnvöld komi þannig fram til að firra sig miklum bótakröfum í meiðyrðamálum, ekki síst ef útrásarvíkingarnir fara að dæmi Jóns í Skífunni og höggva til manna á Íslandi gegnum bresk lög um meiðyrði og róg. En það er heimóttarlegt og ófagmannlegt að tengja þetta við margra ára upplýsingar úr gagnagrunni sem ríkisskattstjóri hefur eðli málsins samkvæmt meiri aðgang að en almenningur.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.9.2009 kl. 10:51
Þetta er aldeilis frámunaleg framkoma af Ríkisskattstjóra. Ekkert annað en ósmekkleg árás og ærumeiðingar á Jón Jósef.
Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvaða hvatir liggji að baki.
Hverja er verið að verja þarna? Creditinfo má selja hverjum sem er ítarlegar upplýsingar um mína persónu, en ég má ekki fá aðgang að opinberlega skráðum viðskiptatengslum ... sem þó geta hæglega varðað mig persónulega.
Ég hef aldrei verið týpan sem skrifar þingmönnum eða ráðherrum ... en þetta skal ekki líðast !!! Nú skulum við hafa hátt og láta illa.
Elfa Jóns (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 10:53
Já, mér þótti þetta undarlegt líka.
Það er líka svo grátlega augljóst að eignaflækjur eru að kæfa okkur hérna á Íslandi. Mér fannst gríðarlega áhugavert að skattstjóri bauðst ekki til þess að hjálpa til við að greiða úr málinu. Nei, þá var best að bara stoppa málið, tala um lagaheimildir en "góðan vilja" og klína smá drullu.
Þetta er hræddur maður sem talar.
Kristleifur Daðason (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 11:07
En ríkisskattstjóri mun samt komast upp með þetta eins og ekkert sé. Enginn mun stöðva hann og enginn blaka við honum sem hefur einhver völd.
Sigurður Þór Guðjónsson, 17.9.2009 kl. 11:19
Þörf ábending hjá þér Salvör og vel ígrunduð. Takk fyrir það.
Reggie (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 11:31
Það dugði Skattstjóra að hann hefði lokað fyrir aðgang vegna þess að beðið væri
leyfis persónuverndar. Er þó ekki einu sinni viss um að það hefði dugað sem ástæða enda geta allir keypt sér aðgang að fyrirtækjaskránni NEMA JÓN. Það er ekki í verkahring Ríkisskattstjóra að skipta sér af því hvort og hvernig menn kunna hugsanlega að brjóta lög um Persónuvernd. Er t.d. viss um að í mörgum tilfellum brýtur Lánstraust lög um persónuvernd. Þeir hafa hinsvegar starfsleyfi um tiltekið en
oft gera þeir meira. Get nefnt að þeir skrá oft upplýsingar sem bankar gefa þeim beint, upplýsingar sem hvergi eru aðgengilegar almenningi, aðeins starfsmönnum bankanna.
Einar Guðjónsson, 17.9.2009 kl. 12:30
Ríkisskattstjóri er greinilega einn af "þeim".
Einar Hansson (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 13:01
Þetta er ákaflega undarlegt því maður hefði haldið að tilkynningar frá opinberum aðilum eins og Ríkisskattstjóra væru lesnar yfir áður en þær eru sendar út. Mér finnst þetta álíka skrípaleikur og eltingaleikur fjármálaeftirlitsins við blaðamenn undanfarið. Þetta eru skilaboð til þjóðarinnar um að við eigum að passa okkur og skipta okkur ekki að þessum málum. Þau verði unninn á þann faglega hátt sem hentar þeim sem að stjórna og við eigum ekki að vera með nefið í þeim málum.
Í flestum ráðningarsamningum hvort sem þeir eru opinberir eða ekki er ákvæði um þagnarskyldu um það sem menn sjá og heyra í starfi sínu. Mér finnst ólíklegt að þetta ákvæði sé ekki í samningi Ríkisskattstjóra og væntanlega mætti flokka þetta undir brot á því ákvæði. Svo gæti þetta bara hafa verið slys eða eitthvað sem álpaðist út úr honum
Sigurgeir Sigmundsson (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 13:53
Þetta er ekkert smá klikkað. Yfirlýsingin er alveg fámuna heimskuleg. Mér finnst þetta eiginlega sambærilegt og að Jón Jónsson skrifi opinberlega um menntakerfi landsins. Menntamálaráðherra fari þá í fýlu og segi opinberlega að Jón Jóns eigi ekkert að vera að tjá sig um menntakerfið því hann hafi bara fengið 6,0 í samræmdu prófi í dönsku.
Þetta er bara verra því ríkisskattstjóri er að tjá sig um eitthvað er refsivert.
Maelstrom, 17.9.2009 kl. 14:42
Einhvern veginn er alræðisþefur í loftinu.
Væri nú samt betra ef þetta væri almennileg herforingjastjórn.
Einar Hansson (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 15:19
Það góða er að almenningur hefur enga trú á "valdinu" í dag, gefur skít í það. Tortryggning gagnvart þessu lið er algjör. "Valdið" er að missa völdin og tökin á fólkinu. Það er jákvætt.
Dísa (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 15:21
ok. upphafsyfirlýsing: Ég er efnislega sammála þér Salvör en ætla að taka aðeins sjónarhorn "lögfræðings andskotans" í tvær mínútur:
Fyrirtæki þurfa að sæta því að tiltekin gögn sem þau leggja fram teljist opinber. Algengasta opinbera gagnið, sem þarf að skila til yfirvalda er ársreikningur félagsins. Þar á eftir koma samþykktir og upplýsingar um stjórnarmenn, prókúruhafa og framkvæmdastjóra (hverjir þeir eru á hverjum tíma). Flest annað í rekstri fyrirtækja getur farið eins leynt og stjórnendur þeirra og eigendur kjósa hverju sinni.
Það eru þessi gögn sem ríkisskattstjóri hefur á sinni könnu og miðlarar og fyrirtæki geta keypt aðgang að. Með því að þessum gögnum er ekki skilað inn, komast fyrirtæki hjá því að uppfærðar upplýsingar um þau komist í almenna birtingu eins og lög gera ráð fyrir.
Það eru þessi gögn sem títtnefndur Jón var að nota til þess að byggja upp sitt kerfi.
Skýtur það þá ekki skökku við ef hann sjálfur vanrækir þá litlu upplýsingaskyldu sem þó hvíla á fyrirtækjum á Íslandi? Gæti hann með því verið að fela sína eigin slóð? Fela eignarhald eða önnur tengsl?
Ég leyfi mér að telja að eitthvað af þessu tagi hafi farið í gegnum huga starfsmanna ríkisskattstjóra sem sömdu þá yfirlýsingu sem um ræðir, þó ég hefði aldrei veitt slíkt neðanbeltishögg sjálf í vígalegri umræðu andstæðra sjónarmiða. Því við megum ekki gleyma því að títtnefndur Jón steig fram og gagnrýndi mjög ákvörðun RSK og gefið hefur verið í skyn að hún væri óeðlileg og ekki endilega byggð á málefnalegum ástæðum.
Elfur Logadóttir, 17.9.2009 kl. 15:33
Elfur: Það kemur bara ekki þessu máli við hvort einhvað einkafyrirtæki sem er að ég best veit ekkert tengt íslensku útrásinni hefur ekki skilað ársreikningum í þrjú ár.
Þó að stjórnandi/eigandi einkafyrirtækisins hafi ekki uppfyllt lagalegar skyldur sínar varðandi rekstur er mjög undarlegt að það komi fram í slíkri yfirlýsingu frá ríkisskattstjóra sérstaklega þegar haft er í huga að stjórnvöld eru mjög varkár og gætin í orðum þegar fjallað er um starfsemi og menn sem hafa stundað fjárglæfra sem mér virðist hafi komið heilli þjóð á kaldan klaka.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.9.2009 kl. 17:42
Það er ekki punkturinn sem ég var að færa rök fyrir Salvör.
Lykilatriðið í röksemdafærslu minni hér fyrir ofan er að með vanrækslu sinni á skilum er maðurinn að stuðla að því að gögnin sem hann sjálfur er að vinna úr, séu ófullkomin og sýni þar af leiðandi ekki rétta mynd af tengslunum. Auk þess get ég ekki séð að þú getir í raun fullyrt að hann tengist ekkert útrásinni á meðan upplýsingar um hans félag eru ekki meðal þeirra gagna sem opinberlega eru aðgengileg. Tengslanet þess félags er nefnilega ekki að fullu opinbert á meðan þær upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi.
Ég ítreka jafnframt að ég er þér sammála, síðasta málsgrein fréttatilkynningarinnar frá RSK átti ekkert erindi í fjölmiðla.
(minni aftur á yfirlýsingu mína í upphafi fyrri athugasemdarinnar, þetta var "lögfræðingur andskotans" með málflutning, þ.e. það má auðveldlega halda þessari röksemdafærslu á lofti, þó það sé ekki að öllu leyti mín persónulega skoðun. Einnig er ég að sjálfsögðu ekki að halda því fram að maðurinn tengist útrásinni í raun, en við megum ekki vera of djörf í því að draga ályktanir og þannig draga í dilka á ófullkomnum gögnum.)
Elfur Logadóttir, 17.9.2009 kl. 17:56
Elfur, ég er ekki löglærður, en mig grunar að Perry Mason hefði heimtað að þessi lögskýring þín yrði ekki færð til bókar og kviðdómur áminntur um að virða hana að vettugi.
Enda byggir umkvörtunin á réttmæti þess að stjórnvald birti slíkar upplýsingar um einstaka borgara sem svar viðávirðingum.
Sem er álitamálið, ekki hvað má lesa úr árásum ríkisstofnana á borgara.
bugur (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 21:29
Þessi ekkert smá málefnanlegur!
Skorrdal (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 00:04
Elfur, vangaveltur þinar um ástæður þess og áhrif að ekki hafi verið skilað ársskýrslum fyrir IT ráðgjöf eru á algerum villigötum. Ég sé svo sem hvert þú ert að fara með vangaveltunum og ég sé líka að þú ert ekki beint að halda því fram að svona sé í pottinn búið hjá þessu fyrirtæki, að það sé í bullandi útrás og vilji ekki að upp komist um eignarhald eða tengslanet e.þ.h.
Nú ætla ég ekki að fara að ljóstra hér neinu upp um IT ráðgjöf, enda veit ég ekki neitt í smáatriðum um rekstur þess og auk þess á ég ekki hagsmuna að gæta þar annarra en að Jón Jósef er gamall vinur minn. Mínar vangaveltur hér eru hins vegar almennar og að nokkru byggðar á minni eigin reynslu. Sannleikurinn er sá að fyrirtæki getur lent í þeirri aðstöðu að rekstur þess leggst alfarið niður, tímabundið eða til frambúðar. Þegar slíkt gerist er eigandi þess e.t.v. tregur til að afskrá það strax í von um að halda megi því í tekjuskapandi rekstri þó síðar verði, enda nokkuð verðmæti fólgið í því að eiga skráð einkahlutafélag og þurfa ekki að stofna nýtt ef aðstæður breytast. Við þær aðstæður er hins vegar e.t.v. ekki einu sinni til peningur í fyrirtækinu til þess að greiða endurskoðanda fyrir áritun ársreiknings, hvað þá aðra þætti endurskoðunar fyrir fyrirtækið. Eigandi þarf þá að leggja fé til slíks inn í fyrirtækið, en af ýmsum orsökum getur slíkt reynst þrautin þyngri þótt fullur vilji standi til þess. Ársreikningum á hins vegar skv. lögum að skila og því kemur ávallt að skuldadögum, sé það trassað. Þetta ástand getur því aldrei staðið lengi.
Það er ekki hlutverk embættismanns þess sem hér er rætt um að varpa fram fyrir alþjóð upplýsingum um vanhöld í ársreikningaskilum einstaks einkahlutafélags og tengja það inn í 'óþægilega' umræðu um óskylt mál.
VinurJossa (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 01:32
Undarleg tilhneiging Íslendinga og algeng- að tengja persónu þess sem talar- við ályktanir hans. Minn skilningur er einfaldlega sá að ríkisskattstjóri hafi gert sig sekan um að hlaupa skelfilega á sig með því að draga persónu viðkomandi manns inn í málið og stöðva mikilvæga gagnaöflun. Þetta jafngildir öllu helvítis klúðrinu í bankaleyndinni svonefndri. Ef þjóðin er dæmd til þess af stjórnvöldum að borga skaða af völdum einkarekinna banka þá á þjóðin rétt á að fá allar upplýsingar um uppruna skaðans.
Árni Gunnarsson, 18.9.2009 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.