27.12.2006 | 13:44
Upp á hól stend ég og kanna
Litla stafræna myndavélin mín býður upp á það að ég get tekið lítil vídeó með tali. Ég tók nokkrar æsispennandi senur í jólaboðinu og setti saman í þessa stuttmynd sem ég frumsýni nú hér á Netinu. Þetta er seiðmögnuð samfélagssaga, heimildarmynd um jólahald fjölskyldu á Íslandi. Myndir er um 100 sekúndur að lengd.
Söguþráður:
Fyrst er röð stillimynda af afkvæmi mínu með jólapakka, svo færist sögusviðið í hangikjötsveislu í eldhúsi mínu. Allt er þetta umvafið snjókornum sem falla til jarðar og jólatónlist dunar. Hríðinni slotar svo þegar líður á matarveisluna og við skyggnumst inn í stofu þar sem fullorðnir ræða nýjar og gamlar túlkanir á kvæðinu "Upp á stól stendur mín kanna". Unglingsstúlka er spurð af því hvað hún fékk í jólagjöf. Börnin spila. Hríðarveðrið skellur aftur á í lok myndarinnar.
Ég íhuga nú að gera heimildarmynd um gerð þessarar heimildarmyndar. Margar tæknibrellur eru í myndinni. Það sniðugasta er að láta snjóa í eldhúsinu hjá mér, það kalla ég fram með sérstökum effect "snowflakes" sem er inn í MovierMaker hjá mér. Ég reyni að nota bara ókeypis og opinn hugbúnað við alla vídeóvinnslu. Moviemaker er eitt einfaldasta forritið til að klippa til eigin vídeó og það hentar mjög vel fyrir börn og unglinga. Tónlistin sem heyrist í útvarpinu í bakgrunni er að ég held Gunni og Felix og Ellý Vilhjálms.
Leiðbeiningar fyrir þá sem vilja setja lítil vídeóklipp á Netið:
* Hér eru leiðbeiningar (10. mín vídeó) sem ég tók saman um Moviemaker
* Reyndu að nota bara tónlist sem þú hefur leyfi til að nota og endurblanda. Þú getur fundið þannig tónlist á Creative Commons Christmas Songs
Ég vistaði myndina hjá mér í Moviemaker í High Quality Broadband og var hún 37 mb. Síðan þegar ég flutti hana yfir í Moggabloggið þá varð hún 5 mb. Moggabloggið virkar sennilega eins og Youtube þ.e. breytir vídeóklippi í svokallað flash video.
Vonandi get ég öðru hverju komið með hérna á blogginu ábendingar hérna til þeirra sem vilja gera eigin vídeó. Þetta er skemmtilegt tómstundagaman og skapandi iðja.
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.