4.9.2009 | 09:47
1000 % hagnaður og samkeppnislög sem hindra samkeppni
Orkuveita Reykjavíkur má ekki eiga meira en 10 % í HS orku vegna orkulaga. Þess vegna reynir OR núna að selja hlut sinn og einn kaupandi hefur gert tilboð sem stjórnin hefur tekið. Það er hins vegar borgarráð og borgarstjórn sem hafa seinasta orðið. Út frá sjónarhóli OR og miðað við það að umhverfi orkulaga verið óbreytt þá brást stjórn OR hárrétt við þessi máli og gerði þar sem stjórninni bar og var falið að gera.
Í þessu máli þarf hins vegar að horfa lengra, horfa á hagsmuni Íslendinga til langs tíma og horfa til þess ástands sem hérna skapaðist og reyna líka að ana ekki beint aftur ofan í sama forað.
Það má líka benda á að hagsmunir íslenska orkukgeirans og Reykjavíkurborgar eru nátendir meira segja svo tengdir að Reykjavíkurborg stendur ennþá í ábyrgðum fyrir Landsvirkjun þá að búið sé að selja hluta borgarinnar.
Það sem ég hef lesið um þetta fyrirtæki Magma Energy og stjórnarformann þess Ross J. Beaty vekur verulega tortryggni mína og því meira sem ég les þeim mun meira staðfestist ég í þeim grun að hér sé rekstur einmitt af þeim toga sem ég vil hvorki hafa á Íslandi né annars staðar í heiminum og hér sé verið að fara úr öskunni í eldinn.
Forsaga Ross J. Beaty er í silfurnámuvinnslu. Menn ættu að kynna sér samfélagsleg áhrif þeirrar vinnslu og ekki síst mannréttindi þeirra sem starfa í námunum. Arðurinn að þeirri námavinnslu rennur ekki til nærsamfélagsins, arðurinn er fluttur út og dreift til þeirra sem standa að fjölþjóðlegum auðhringjum eins og Ross J. Beaty býr til. Þetta fyrirtæki Magma energy er bara pappírsfyrirtæki til að skúffa ágóða til og frá. En gefum Ross J. Beaty orðið. Hann segir sjálfur:
For your shareholders, don't look for 10% returns, look for 1000% returns. Face it, the mining game is a highly risky business, and you should try ...to earn your investors massive returns in exchange for them taking the risk of investing in this sector." Sjá hér http://www.gold-speculator.com/people-interest/5156-ross-beaty.htm
Sem viðskiptafræðingur og hagfræðingur þá veit ég að það þarf að vara við öllum sem lofa eða stefna á 1000% ávöxtun. Það er ekkert sem bendir til að hér sé ábyrgt fyrirtæki á ferð og þetta fyrirtæki hefur enga reynslu í jarðvarma. Eina reynslan sem Ross J. Beaty virðist geta státað af er að búa til fyrirtæki sem draga mikinn arð til hluthafa sem eru ekki í sama landi og þær auðlindir sem hann hefur fjárfest í.
Þetta er nýlendustefna og leið til að Ísland verði áhrifalaus og bláfátækt sker þar sem svona fyrirtæki soga burt allan ágóða af auðlindum og fleyta honum til hluthafa sinna erlendis.
Það er á ábyrgð allra Íslendinga að flana ekki að neinu í svona málum. Hér er verið að stíga stærra skref en að selja hlut út úr orkufyrirtæki á Íslandi, hér er verið að stíga það skref að hleypa erlendum pappírsfyrirtækjum með nákvæmlega sömu vinnubrögð og fyrirtæki útrásarvíkinganna að íslenskum orkuauðlindum.
Það má reyndar líka velta fyrir sér hve stóran hluta samkeppnislög spila í þessu máli. Karl skrifar ágæta athugasemd á bloggið hennar Láru Hönnu, hér er hluti hennar:
Það getur ekki verið tilgangur samkeppnislaga að stuðla að stórskaða þeirra fyrirtækja sem fá á sig úrskurð um ógildingu fjármálagjörninga. Þannig þyrfti e.t.v. ekki annað en að opna á það í lögunum að veita megi frest til að fullnusta úrskurð, bjóði markaðsaðstæður ekki upp á ásættanlega lausn mála með beinni sölu á markaði. Á meðan sá frestur gildir má hugsa sér að fylgst sé nánar með starfsemi viðkomandi fyrirtækis af samkeppnisyfirvöldum en alla jafna. Auðvitað er alveg (eða hefði alveg verið) hægt að leysa þetta mál. Eðlilegast hefði sennilega verið að kaupin af Hafnarfjarðarbæ hefðu gengið til baka.
En miklu alvarlegra mál er að þetta snýst í raun ekki um samkeppni, heldur er hér í mínum huga mikill og alvarlegur skortur á samkeppni í uppsiglingu. Þegar Magma ákveður að hækka skuli gjaldskrá HS Orku um 30-70, nú eða 130%, þá stöndum við neytendurnir berskjaldaðir og eigum ekki lengur tryggan aðgang að varmanum í jörðinni og rafmagninu í leiðslunum (sbr. regnvatnið í Bólivíu og rafmagnið í Soweto í Suður-Afríku). Nú er það ekki svo að við getum t.d. þá ákveðið sem neytendur að skipta þá bara við annað fyrirtæki
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alveg sammála, thad verdur ad hugsa um hagsmuni thjodarinnar. Held ad allir hljoti ad sja thad
Kristín Hildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 10:06
Magma er eins og þú bendir á skúffufyrirtæki, og eins og Ross Beaty segir sjálfur þá mun það ekki vera arðbært næstu árin.
Þess vegna er frekar líklegt að 7 milljarða skuldabréfið sem OR fær sé verðlaust.
OR mun ekki geta selt bréfið nema með mjög miklum afföllum, þetta er svokallað ruslbréf. Ef þeir ætla að selja bréfið núna mega þeir þakka fyrir að fá 10% fyrir það.
Þegar kemur að gjalddaganum eftir 7 ár, verður Magma búin að selja HS orku, líklega til Rio Tinto og enginn greiðandi verður að bréfinu.
Auk þess mun Rio Tinto vera bæði framleiðandi og kaupandi af orkunni og geta í krafti þess skammtað sér lágt orkuverð og okrað á okkur.
Svei ykkur Sveitarstjórnarmenn.
Sigurjón Jónsson, 4.9.2009 kl. 10:49
Miðað við þann boðskap sem í blogginu felst, hvernig geturðu þá sagt að ákvörðun OR um að ganga til samninga við Magma sé hárrétt? - "Út frá sjónarhóli OR og miðað við það að umhverfi orkulaga verið óbreytt þá brást stjórn OR hárrétt við þessi máli og gerði þar sem stjórninni bar og var falið að gera." - Ég minni á að frestur til að selja var framlengdur til 31.des 2009. Þú talar líka um ábyrgð Reykjavíkur vegna skulda Landsvirkjunar, hvað um skuldir OR? Er það forsvaranlegt hvernig stjórnmálamenn hafa stjórnað þessu fyrirtæki? Ég hnaut sérstaklega um orð Guðlaugs í viðtali á útvarpi Sögu, þegar hann margoft sagði, "Ég gerði þennan samning...", "Ég fæ borgað.." "ég get þetta ég get hitt" Mér fannst þetta undarlega að orði komist hjá Guðlaugi XVI
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.9.2009 kl. 12:54
Ef ég skil samninginn rétt, þá er skuldabréfið gefið út af OR, og undirritað af fulltrúa Magma Energy.
Skoðaðu ákvæði samningsins, um vanhöld. En, eins og ég skil þau, þá geta vanhöld á greiðslum leitt til þess, að salan teljist aldrei hafa farið fram.
-----------------------
Ég átta mig því ekki á, með hvaða hætti, það geti orðið að verðlausum pappír.
Þetta er skuldabréf í eigu OR, gefið út af OR, og ef vanhöld verða, þá eru ákvæði um vanhöld í samningnum.
----------------------
Þ.s. ég hef fyrst og fremst áhyggjur af, er heimildin í lögunum, um að veita megi einkarétt, til allt að 65 ára.
Þ.e. óþarflega langur tími.
Best að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, berjist fyrir að því að þeim lögum verði breytt.
Það má alveg gera afurvirkt. Það myndi leiða til einhverra skaðabóta til Magma Energy, en ætti samt að vera ódýrara en ef ríkið gengur inn í samninginn.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 4.9.2009 kl. 18:42
Um Ross Beaty:
"http://people.forbes.com/profile/ross-j-beaty/61693
Einar Björn Bjarnason, 4.9.2009 kl. 19:00
Ætlar Framsóknarflokkurinn að stuðla að því að orkulindirnar á Reykjanesi komist í hendurnar á erlendum fjárglæframönnum? Það má ekki gerast! Þetta eru auðlindirnar sem eiga að draga okkur upp úr feninu sem við erum nú í.
Þú verður að beita þér af alefli gegn þessum samningi. Hann er svívirða. Hann verður aldrei fyrirgefinn.
Guðmundur Guðmundsson, 7.9.2009 kl. 22:35
Ég held að það sé dálítið gleymt í umræðunni, að það fyrirtæki sem verið er að selja, er rúið af fjármnum. Með öðrum orðum, er það í reynd í eigu kröfuhafa - sem flestir séu erlendir bankar.
Valið sé því ekki um erlenda eigendur eða ekki, fremur um, hverjir þeir eigendur séu.
Hér sé einfaldlega ekki fyrir hendi fjármagn, þessa stundina, til að taka félagið yfir og dæla í það því fjármagni, sem til þarf.
Reikna má með, að eigandi Magma, sé búinn að fá samþykki kröfuhafa við yfirtökunni, og sennilega einnig, um niðurfellingu skulda að einhverjum hluta, gegn því að leggja inn það fjármagn, er hann hefur lofað.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.9.2009 kl. 12:17
Mér finnst málflutningur Einars Björns Bjarnasonar stórfurðulegur og langt seilst til þess að afsaka arfaslæman samning svo ekki sé minnst á það hættulega fordæmi sem hann gefur. Það er helst að Einari finnist samningstíminn óþarflega langur, en kemur strax með þau mótrök að það geri í raun lítið til. Ríkisstjórnin geti breytt lögum og stytt tímann. Að vísu hefði afturvirk breyting á lögum í för með sér skaðabætur en skítt með þær. Það sé alla veganna ódýrara að borga skaðabætur en að ríkið gangi inn í samninginn. Meiri er ekki metnaðurinn fyrir land og þjóð.
Einar slæ á áhyggjur manna af samstarfsaðilanum og því að hann skuli nota skúffufyrirtæki til þess að komast bakdyramegin í orkulindirnar. Þetta sé allt gulltryggt, sanngjarnt og eðlilegt. Hann flettir Ross J Beaty upp hjá Forbes og finnur út að hann hafi mikla þekkingu á námugreftri. Það var og.
Og Einar blæs á fréttir um arðrán í þriðja heiminum. Stórfyrirtækin séu að skapa atvinnu og launin séu bara eins og gerist og gengur í fátækum löndum. Og námufyrirtækin leggi út í gífurlegan kostnað. Sem betur fer virðist Ross hafa náð að nurla saman fyrir kostnaði því að í pistlinum hjá Forbes kemur fram að hann hafi á skömmum tíma auðgast gífurlega. Kannski 1000% ávöxtunin hafi skilað sér? Ef mark er á Einari takandi þurfum við sennilega ekki að hafa áhyggjur. Starfsemi Ross hér á landi mun einkennast af sanngirni. Hann mun dæla peningum inn í orkugeirann og út úr honum aftur, okkur öllum til hagsbóta. Veislan er þegar byrjuð. Ross fékk lán hjá Reykvíkingum fyrir 70% af hlutnum sem hann keypti af Orkuveitunni. Veðið er í skúffunni í Svíþjóð.
Guðmundur Guðmundsson, 8.9.2009 kl. 20:45
Guðmundur - svona ofstæki er engum til gagns.
Að sjálfsögðu reiknar maður með, að fyrirtækið fari að lögum.
Þú virðist vera að gera ísl. seljendum upp bjánaskap, ég legg einfaldlega til að þú lesir samninginn sjálfur. En, ef skuld er ekki greidd á gjalddaga, veitir samningurinn seljanda ýmis gagnúrræði. En, ég hef síðan lesið aðeins meira til um hann Ross vin okkar, og langt frá því sem er gefið í skyn, virðist hann njóta trausts í viðskiptaheiminum, þ.e. hinum alþjóðlega, sem er einfaldlega vegna þess, að í gegnum tíðina virðast fyrirtæki hans hafa gengið vel, skilað hluthöfum arði, og borgað sínar skuldbindingar. Með þá reynslu í huga, og einnig hve fjárhagslega stöndugur aðili hann er, þá held ég að óttinn sé fullkomlega ástæðulaus.
Þ.e. mjög víða uppi á netinu mjög ofstækisfullur málflutningur, gegn fyrirtækjum sem starfa í 3. heiminum. Sá, málflutningur er yfirleitt mjög fávís, en einnig "self serving." En, t.d. andstaða aðila á vegum verkalýðsfélaga á vesturlöndum, er ekkert annað, en þjónkun við eigin hagsmuni, en vestrænn ófaglærður verkalýður er einfaldlega í þráðbeinni samkeppni við verkalýð í 3. heiminum.
Skiljanlega, svíður verkalýð það að missa af atvinnutækifærum, vegna þess að fyrirtæki leita þangað sem vinnuafl er ódýrara. Það er því, ein af mögulegum leiðum, verkalýðs á vesturlöndum, til að verja sína hagsmuni með því að beita fyrirtæki, öllum þeim þrýstingi er þau geta, til að auka sinn rekstrarkostnað í 3. heiminum.
Áhugavert er hve fólk á vinstrivængnum, er gersamlega blint gagnvart þessum eiginhagsmuna tengda vinkli, á þessari umræðu.
Sannarlega er til staðar, fólk sem er raunverulega annt um hag þessa fólks, en vert er í ljósi ofantalins, að taka málflutningi frá fulltrúum verkalýðshreyfinga á vesturlöndum, og aðilum þeim tengdum, með fyrirvara, einmitt vegna líkinda á eigin hagsmunapoti.
Það kæmi að sjálfsögðu ímsum vel, að fyrirtækin væru neidd til að hætta starfsemi sinni, í 3. heiminum, sem síðan legðist í enn verri fátækt en fyrr.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 9.9.2009 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.