18.12.2006 | 14:09
Byrgið, Konukot, Vogur, brauðfætur og kvalalosti
Félagar mínir í Femínistafélaginu stóðu á sínum tíma mörg að söfnun vegna Konukots sem er afdrep fyrir heimilislausar konur sem nánast alltaf eru líka í bullandi óreglu eða alvarlega veikar á geði. Þegar undirbúningur að því afdrepi stóð yfir þá spurði ég "Hvers vegna í ósköpunum þarf sérstakan samastað fyrir konur, er ekki sams konar ógæfa að vera maður og kona við þannig aðstæður?" Þau sögðu mér þá að þannig væri það ekki, konur í óreglu væru útsettar fyrir alls konar kynbundið ofbeldi á stöðum fyrir heimilislausa af karlmönnum sem þá staði sækja sem annað hvort nýttu sér ástand og úrræðaleysi kvenna til að svala kynfýsnum sínum eða sem hefðu hagmuni af því að konan héldist áfram á götunni í neyðarvændi sem framfleytti þeim.
í gærkvöldi var sýndur í sjónvarpi þáttur um stjórnanda trúfélags sem rekur meðferðarheimili fyrir mjög langt leidda fíkla og þar var eftir því sem ég best veit (ég hef ekki séð þáttinn, eingöngu umfjöllun í fréttum og á bloggi) haldið fram að viðkomandi hefði verið í kynferðissambandi við nokkrar konur sem á þeim tíma hefðu verið í meðferð á þessum stað. Þetta var tengt við umræðu um kvalalosta.
Ég veit lítið um þetta einstaka mál nema það sem ég sé á skrifum annarra og vona að fólk dæmi ekki aðra nema fyrir liggi sekt þeirra af þeim aðilum sem eiga að segja til um sekt eða sýknu. Það að vera ásakaður í fjölmiðli um eitthvað er ekki sama og að vera fundinn sekur fyrir dómstólum.
En það getur verið að það séu engin lagaákvæði og engar vinnureglur meðferðarstofnana sem taka á eða leggja bann við því að meðferðaraðili sem ekki tilheyrir þeim starfstéttum sem hafa siðareglur sé í kynferðissambandi við þann sem er í meðferð. Það eru siðareglur meðal lækna og sálfræðinga og fleiri fagstétta sem taka á svona málum og ég hef fylgst með að einn liður í menntun umönnunarstétta er að kenna þeim að vera vakandi fyrir ýmis konar mögulegri misneytingu þeirra sem njóta umönnunar og vita hvað á að gera ef grunur vaknar um slíkt. Það ætti að vera skilyrði til að fá fé frá opinberum aðilum að þar sé eftirlit og völd fengin fagfólki sem fylgir siðareglum og sem hefur sérstaka skólun í að taka á málum sem þessum og reyna að fyrirbyggja mögulega misnotkun starfsmanna á skjólstæðingum.
Það er hins vegar þannig að þeir sem sjálfir hafa verið djúpt sokknir og hafa frelsast á einhvern hátt ná stundum betur til þeirra sem eru á kafi í óreglu, skilja betur aðstæður fíkla því þeir hafa verið þar sjálfir og trúarsannfæring getur oft smitað út frá sér og kærleiksríkt trúfélagið veitt skjól þeim sem hefur verið útskúfað af öllum. Það skjól og það samfélag er ekki síður mikilvægt eftir að meðferð lýkur og ég reyndar held að það sé ein ástæðan fyrir því að slík meðferð er oft árangurríkari en að fara bara inn á Vog og eiga svo að standa á eigin fótum eftir að út er komið. Þeir eigin fætur eru því miður oftast brauðfætur.
Kona sem ég þekki sagði mér frá föður sínum sem var gífurlegur alkóhólisti og allir hans bræður að hún hefði einu sinni keyrt föður sinn á Vog í einni af ótal ferðum hans þangað og þau fóru yfir Hellisheiðina og henni tókst ekki að halda honum þurrum á leiðinni, hann sagðist ekki geta farið inn á Vog nema drekka í sig kjark og hún hafði ekkert val, hún varð að horfa upp á hann þamba bjór í bílnum á leiðinni yfir heiðina eða hann hefði hlaupið út í óbyggðirnar. Hún keyrði hann beint á Vog og við tók nokkurra vikna meðferð á Vogi þar sem allt gekk vel og vonir kviknuðu eins og þær gera alltaf hjá aðstandendum og honum sjálfum um að nú myndi hann hafa það. Þegar meðferðinni var lokið þá hringdi hann til dóttur sinnar og ætlaði að koma beint til hennar. Hann féll á leiðinni. Einhverra hluta vegna gat hún ekki náð í hann og og hann fékk ekki annað far svo hann tók leigubíl. Hún er sannfærð um að hann ætlaði að standa sig og þegar hann hringdi í hana og þegar hann lagði af stað út frá Vogi en eitthvað gerðist, bíltúrinn sem átti bara að vera beint frá Vogi og nokkkurra mínútu leið heim til hennar í leigubíl varð ennþá ein hrösunin. Hann lét leigubílinn koma við í Ríkinu og hann sást ekki í einhverja sólarhringa.
Það hafa margir sem allir hafa afskrifað náð að fóta sig aftur í lífinu með aðstoð af samblandi af trú og meðferð og það þarf að skoða líka hvað er gott gert og virkar í meðferðinni hjá Byrginu sem og öðrum trúfélögum sem taka við þeim fíklum sem verst eru settir.
En það er þörf þjóðfélagsumræða að beina kastljósinu að því hve útbreitt og algengt kynbundið ofbeldi er - líka á stöðum þar sem megintilgangurinn er að veita einhvers konar skjól og umönnun og betrunarvist. Það er svo sannarlega gróft kynbundið ofbeldi ef stjórnandi meðferðarstofnunar stundar kynlíf sem einkennist af kvalalosta með konum sem eru í meðferð á stofnun sem viðkomandi stýrir. Ég hef fylgst með bloggumræðunni um þetta mál og bloggpistill Ómars Valdimarssonar vakti mig til umhugsunar um hvernig sama orðræða er notuð til að réttlæta vændi og réttlæta kynbundið ofbeldi eins og hugsanlegt er að átt hafi sér stað. Ómar segir m.a.:
"Engum kemur við, hvað X gerir í svefnherberginu sínu, svo framarlega sem hann gerir það með lögráða einstaklingum, sem eru fúsir til verka."
Það kemur okkur bara víst við hvernig framkoma er í meðferðarúrræðum við fótum troðið fólk og langt leidda fíkla og það er óhugnanlegt og hryllilegt ef fólk í slíkri aðstöðu er notað sem kynlífsleikföng. Ennþá hryllilegri mynd er ef kynbundið ofbeldi inn á slíkum stofnunum einkennist af sams konar kvalalosta og samband viðskiptavinar og vændiskonu í neyðarvændi.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:50 | Facebook
Athugasemdir
sekur maður er sekur þótt hann hafi ekki fengið dóm, sektin kemur ekki með dómnum (og saklausir menn fara oft í fangelsi líka) heldur þegar verknaðurinn er framinn. fórnarlömb hans og þeir sem þekkja málin eru auðvitað búnir að dæma löngu áður en eitthvað fer fyrir dóm.
ég er búin að sjá þáttinn en ég er ekkert á því stigi að segja til um hvort þetta sé satt eða ekki. Konurnar sem lentu hugsanlega í misnotkun þessa manns geta ekki kært hann samkvæmt íslenskum lögum, að ég tel, allavega væri asnalegt ef það væri hægt því að þær eru þó fullorðnar þótt þær séu um tvítugt. Þegar fólk byrjar að tala um hlutina sem þeim hefur verið gert eða sem þeir vita um að ættu ekki að gerast, þá er möguleiki fyrir þá að bjarga öðrum, bara með því að tala. Það stoppar stundum "saklausa menn" sem eru sífellt að fremja glæpi eða óafsakanlega hegðun í því að halda henni áfram og er því réttlætanlegt. Það sem mér fannst sorglegast við þennan þátt var tilhugsunin um fjölskyldu mannsins. Þetta var kannski einum of svakalegt svona alltíeinu og uppúr þurru, en ég veit það samt ekki.
halkatla, 18.12.2006 kl. 16:30
þetta var sko virkilega sláandi á allan hátt þessi þáttur, en því miður held ég að það sé ekki í boði fyrir þessar konur að kæra og maður veit nú um svo margt miklu verra, þótt þetta sé ógeðslegt. Ég held að kompás hafi tönnlast á þessu atriði til þess að sýna hvað stjórnandi byrgisins er veruleikafirrtur og siðspilltur og hann er það ef eitthvað smábrot af þessum ásökunum á við rök að styðjast.
halkatla, 18.12.2006 kl. 16:37
Aldrei þessu vant erum við sammála. Það hlaut að koma að því.
TómasHa, 18.12.2006 kl. 18:29
Konurnar ættu alveg að geta kært, t.d. samkvæmt 197. grein almennra hegningarlaga:
"Ef umsjónarmaður eða starfsmaður í fangelsi, geðsjúkrahúsi, vistheimili, uppeldisstofnun eða annarri slíkri stofnun hefur samræði eða önnur kynferðismök við vistmann á stofnuninni varðar það fangelsi allt að 4 árum."
Svo var mér líka bent á fleiri lagagreinar, þ.e. 198 og 199 grein:
"Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að hann er honum háður fjárhagslega, í atvinnu sinni eða sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi skal sæta fangelsi allt að 3 árum eða, sé maðurinn yngri en 18 ára, allt að 6 árum. …1)]2)
[Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 2 árum.]1)
1)L. 40/2003, 1. gr. 2)L. 40/1992, 6. gr.
199. gr. Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann sem heldur ranglega að mökin eigi sér stað í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hann er í þeirri villu að hann eigi mök við einhvern annan skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Sömu refsingu varðar það ef samræði eða önnur kynferðismök eiga sér stað vegna þeirrar blekkingar að um læknisfræðilega eða aðra vísindalega meðferð sé að ræða."
Sjá hér: http://farfuglinn.blogspot.com/2006/12/sorgleg-umra.html
Svala Jónsdóttir, 18.12.2006 kl. 19:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.