14.12.2006 | 18:11
Bloggtoppur árið 2007
Framtíðarrýnar spá því bloggtískan nái hámarki á næsta ári, sjá grein "Blogging set to peak next year" á BBC. Eftir það mun bloggurum fækka vegna þess að þá hafa allir sem á annað borð gætu hugsað sér að blogga þegar byrjað á því og sumir hætt eins og við vitum þá er þetta ritunarform ekki fyrir alla. Margir hafa ekkert að segja og dettur ekkert í hug til að skrifa um.
Blogg er ennþá í örum vexti, vefþjónustan Technorati sem vaktar blogg í heiminum upplýsir að í síðasta mánuði voru 100,000 ný blogg búin til á hverjum degi og 1.3 million bloggpistlar skrifaðir. Technorati fylgist með 57 milljón bloggum og gerir ráð fyrir að um 55% þeirra séu ennþá notuð eða uppfærð að minnsta kosti á þriggja mánaða fresti.
Ég skrifaði mitt fyrsta blogg á blogger.com í desember 2000 og hóf svo reglulegt blogg í apríl 2001. Ég kallaði það blogg Meinhorn því ég hafði þá hugsað mér að rífast og nöldra út í eitt um það sem pirraði mig í sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum. Ásamt því að prófa miðilinn á sjálfri mér og skrifa hjá mér sitthvað um blogg og upplýsingatækni. Ég byrjaði að nöldra um fréttir en þegar frá leið þá þá nennti ég því ekki lengur og fór að tjá mig um annars konar efni. Svo var bloggið á tímabili mikið aktívistablogg og einn liður í að mála bæinn bleikan.
Ég færði mig yfir Moggann og byrjaði þetta moggablogg af krafti fyrir mánuði síðan þegar ég fattaði að þetta er nú eiginlega eitt besta bloggkerfið sem Íslendingum býðst og hefur líka ýmsa fídusa sem minna mig á netsamfélög eins og Myspace.
Ég ætlaði mér aldrei að nota þetta blogg til annars er fjalla um tölvur og tækni, helst í samhengi sem passaði fyrir börn og unglinga og fólk sem vildi vita meira um ýmis netverkfæri sem hentug væri í námi og kennslu.
Svo datt ég alveg niður í nýjasta tómstundagaman mitt og það er að blogga um fréttir og nú reyni ég að velja mér á hverjum degi einhverja frétt á Mbl til að blogga um. Því miður er ekkert spennandi í fréttum þessa daganna á Íslandi, það er takmörk fyrir því hvað ég nenni að tjá mig mikið um símahleranamálið. Svo ég þurfti að leita út fyrir landsteinana til að blogga um einhverjar fréttir og BBC varð fyrir valinu og þetta er sem sagt dæmigert blogg um blogg.
Núna stendur yfir fréttabloggstímabilið í bloggferli mínum. Ég hef stundum breytt bakgrunninum og uppsetningu á bloggi eftir því hvernig stemmingin er hjá mér, stundum haft það í mildum jarðlitum og stundum femínistableikt eftir því hve mikið stríðstól blogginu er ætlað að vera. Sem minnir mig á að það er kominn tími til að breyta borðanum á þessu bloggi, það er ennþá páskaborði frá því í fyrra með ungum og eggjum og það eru að koma jól...
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkar: Bloggar, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 18:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.