8.6.2009 | 13:50
Frá Baldri Guðlaugssyni til Svavars Gests, frá innherjasvikum til lýðskrums og blekkinga
Það er gott að finna að ég er ekki sú eina sem blöskrar framganga ríkisstjórnarinnar í Icesave, blöskrar að í skjóli næturs og pukurs eigi að hengja á íslensku þjóðina drápsklyfjar og þetta sé kynnt fyrir okkur af ráðherrum og fjölmiðlum eins og einhver rosalegur díll, það hafi tekist að þoka vöxtunum niður um einhver prómill og svo sé þetta mjög sniðugt lán af því það þurfi ekkert að borga af því næstu sjö árin. Núna eru komin 13.689 í facebook mótmælendahópinn Við neitum að borga skuldir sem við berum ekki ábyrgð á.
Ég vona að einhverjir þeirra mæti á Austurvöll kl. 14:50 í dag, alla vega ætla ég að mæta.
Heilsíða í Morgunblaðinu í dag er tekin undir rugl úr Svavari Gestssyni sem stýrði Icesave samninganefndinni, viðtalið sýnir svo enn og aftur að hann hefur ekki hundsvit á því sem hann var settur til að semja um, enda var það ekki sérfræði hans né skilningur á innviðum fjármálaheimsins eða ástandinu í heimsmálum sem réði því að hann var fenginn til verksins. Hann er ekkert annað en gamall lýðskrumari úr Alþýðubandalaginu, maðurinn sem var ritstjóri Þjóðviljans þegar það málgagn lofaði í hástert sæluríki kommúnismans, lofsöng innanrotið kúgunarkerfi sem féll saman með bauki og bramli og féll ofan á almenning í gömlu Ráðstjórnarríkjunum. Þessi maður kann ekki annað en lýðskrum, blekkingar og kjaftagleði, kann ekki annað en fela lygina inn í skrúðorðum og selja almenningi eymd eins og það séu sérstök kostakjör.
Það var erfitt að lesa heilsíðuna í Morgunblaðinu í dag, erfitt að sitja undir því að svona einhliða áróður og blekking sé borin á borð fyrir íslenskan almenning, erfitt að horfast í augu við skrímslin í íslenskum veruleika, erfitt að horfast í augu við að ekkert hefur breyst með þessum kosningum, áfram er reynt að blekkja almenning, áfram er reynt að láta eins og ekkert hafi gerst þó að kerfi heillar þjóðar hafi hrunið og heimurinn hangi á sömu heljarþröm, áfram er látið eins og hinar kasínókapítalísku reglur eigi að gilda, þetta sé bara spurning um að leyna vandanum, fresta honum, sópa honum undir teppin, telja fólki trú um að lán sem ekki er á gjalddaga í dag sé lán sem næstum því er ekki til og ábyrgð sem er fyrst ábyrgð einhverra annarra en síðan að lokum ríkisábyrð sé næstum engin ríkisábyrgð. Halda þeir sem skrifa þessar fréttir að við séum fávitar sem skiljum ekki hvað felst í fjárhagsábyrgð og ríkisábyrgð?
Ekkert hefur breyst með stjórnarskiptunum nema að fyrri samninganefnd í Icesave var leidd af manni sem var algjörlega vanhæfur vegna gruns um athæfi sem í öllum siðuðum löndum er talið saknæmt, gruns um að hann notaði innherjaaðstöðu sína til að skara eld að eigin köku, fyrri Icesave samninganefnd var leidd af Baldri Guðlaugsson og voru vinnubrögð hans slík að það var með öllu óskiljanlegt að fyrri forsætisráðherra eða fjármálaráðherra skyldu ekki löngu vera búnir að setja hann í langt frí.
Vissulega er Svavar Gestsson ekki eins slæmur og Baldur Guðlaugsson en það er samt tákn um hvernig hlutirnir hafa breyst að núna sé reynt að selja íslensku þjóðina í ánauð ekki af fólki sem er undir grun um glæpsamlegt eiginhagsmunapot heldur af fólki sem hefur áratugareynslu í lýðskrumi og fagurgala, fólki sem ætlað er að láta fjötrana líta út eins og sæluríki.
Það er móðgun við íslenskan almenning að hegða sér eins og ríkisstjórnin gerir núna.
Þá og nú (grein um viðsnúning Steingríms Sigurðssonar)
Margir skrá sig gegn Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Facebook
Athugasemdir
Þessi sjö ára frestur er einmitt Svavars-trikk...árið 2012 endar heimurinn
samkvæmt tímatali Maya, svo við þurfum aldrei að borga krónu...eða pund eða evru!
sigurður örn brymjolfsson (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 14:05
Flottur pistill hjá þér og svo sannur.
Halla Rut , 8.6.2009 kl. 14:35
Æ, því miður er galdramaðurinn Sigmundur Davíð ekki forsætisráðherra. Ef hann væri í Stjórnarráðinu þá hefði hann bara veifað galdrastafnum og kröfurnar hefðu horfið -- púff -- í sama stað og 20% af húsnæðisskuldunum sem hann hefur lofað okkur að þurrka út með einu pennastriki (viss um að strikar út helming þegar hann kemst til þess). Já og Tjallinn hefði flúið með skottið á milli lappanna ef hann hefði mætt með klippurnar og allir orðið happí og glaðir. Framsókn er svo dæmalaust klár að ég skil ekki hvers vegna þeim hafa ekki verið fengnir stjórnartaumarnir til frambúðar. Fyrst hækkuðu þeir lánshlutföllin hjá Íbúðarlánasjóði, sem varð til þess að góðvinir framsóknar í nýja Kaupþingseinkabankanum ruku í samkeppni um að veita lýðnum enn betri lán, sem fólk er nú reyndar að sligast undan nú. Einhverjir kverúlantar umluðu úti í horni þá, sögðu óráðlegt að kynda undir bólu á húsnæðismarkaði, en það var auðvitað bara öfund -- svo danskabankaöfund út í framsóknarsnillingana -- framsókn með sína "púff-economics" leysir vandann eins og ekkert sé. Við skulum því öll skunda á Austurvöll með pottana og afhrópa landráðamennina og lýðskrumarana, og kalla þjóðholla galdramanninn sem aldrei skrumar fram á svalirnar -- framsókn mun redda okkur enn á ný!
GH, 8.6.2009 kl. 14:47
Það er slæmt, hvað samningamenn Íslands í dag, eru miklar liddur. Samkvæmt orðum ráðherra, fengu þeir í hendur frá samningamönnum, hinna þjóðanna, rökstudd álit um að afstaða Íslands væri röng - þ.e. sú afstaða, að við þyrftum ekki að borga þetta.
Nú, það er gamall siður, að í upphafi samninga, séu gjarnan sett fram mjög andstæð sjónarmið - þ.e. sá sem sækir, heldur sínu fram, leggur fram rökstuðning fyrir sínu máli. Á sama tíma, koma hinir fram með rökstuðning fyrir sínum skoðunum, þar með talin álit fræðimanna í eigin þjonustu. Fram til þessa, hefur það ekki verið siður, að líta svo á, að þessi álit væru einhversk konar heilagur sannleikur,,,fremur sem útspil í samningum.
Það skrítna, virðist hafa gerst, að Samfylkingin virðist hafa brugðist við þessum rökstuddu álitum, sem lögð voru fram af þeim sem sátu hinum megin við borðið, sem heilögum sannleik...séð sæng sína uppbreidda, og síðan gefist upp.
Þetta er dálítið ólík meðferð saminga, en hefur tíðkast af Íslendingum, fram að þessu. Íslendingar, sem voru þekktir fyrir, að vera harðir í samingum,,,taka engu sem sjálfsögðum hlut, draga nánast allt í efa, og gefa ekkert eftir fyrr en að þrautreyndu.
Nei, Samfylkingin, virðist hafa gefist upp, þegar í fyrstu lotu. Álit andstæðinganna, virðast ekki hafa leitt til gagnsvara, þ.s. þau voru dregin í efa, máli Íslendinga haldið til streytu.
Manni óar við því, að þetta fólk virkilega ætlar sér líka, að semja við ESB um aðild. Miðað við þessa útreið er vart að búast við mikilli samningahörku frá þeim, gagnvart ESB þar líka.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.6.2009 kl. 18:43
Svavar Gestsson hefur sína kosti og galla efalaust.
Verri er Framsóknarflokkurinn sem fylgdi húsnæðisbólunni úr hlaði bæði í ríkisstjórn og bankakerfi. Hann fylgdi útrásinni líka úr hlaði og batt þjóðinni þær drápsklyfjar sem af hlutust. Hann leiddi Íslendinga inn í árásarstríðið í Írak. Þá er fátt eitt talið af illverkum Framsóknarflokksins.
Framsóknarmenn ættu ekki að setjast í dómarasæti yfir fólki sem er að moka flórinn eftir þá.
Sverrir (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 20:14
Þetta er nú frekar ódýrt svar, hjá þér Sverrir.
Þú lætur eins og ekkert hafi breyst, og sama fólkið sytji hjá Framsókn, og áður.
Ættum við þá, að láta eins og Vinstri-Grænir, sé nákvæmlega sami flokkurinn og Alþýðu-Bandalagið,,,enda allnokkur fjöldi stofnaðila VG gamlir meðlimir úr AB.
Það væri, sambærilega sanngjarn málflutningur.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 8.6.2009 kl. 20:40
Skiptir flokkur um kennitölu þegar hann skiptir um formann? Þetta er svona Nýja framsókn, eins og Nýja Kaupþing.
GH, 8.6.2009 kl. 21:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.