Um meðferð sláturdýra, lotningu fyrir tölfræði, Nasista og fatlað fólk

Ég les stundum  um uppgang Nasista í Þýskalandi og  reyni að skilja hvað gerðist og hvers vegna það gerðist.  Það er áhugavert í því sambandi að skoða hver setti fram upplýsingar og hvernig var þeim miðlað, hver safnaði saman upplýsingum og hvaða upplýsingum var safnað saman. Hvaða hlutverk höfðu fræðimenn og listamenn, hvaða fræðimönnum og fræðikenningum var hampað?

Við höldum oft  að tölfræðiupplýsingar séu ópólitískar, við höldum að  línurit og súlurit og ýmsar tölulegar upplýsingar sem birtast okkur séu meiri sannleikur en frásagnir sem ekki eru settar í búning talna. Við höldum líka að tilgangur þess að safna saman upplýsingum, að kortleggja stöðuna sé markmið í sjálfu sér.

Samt erum við minnt á það á hverjum jólum í jólaguðspjallinu að þannig er staðan ekki, sá sem safnar upplýsingum og gögnum  um samfélagið er sá sterki og voldugi og tilgangur þeirrar gagnasöfnunar er fyrst og fremst að tryggja áframhaldandi völd hins volduga og undirokun hinna valdalausu.  Í jólaguðspjallinu segir að  boð hafi komið  frá Ágústusi keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.  Svona keisaraleg skráning hafði aðeins þann tilgang að auka eða viðhalda valdi keisarans og kortleggja skattsvæði hans og var grundvöllur undir mögulegar skatttekjur.

Barnið sem fæddist í skrásetningarferðinni sem tímatal okkar miðast við beygði sig líka undir þetta vald þegar það óx að viti og sagði fullorðinn maður  "gjaldið keisaranum það sem keisarans er"  vitandi að  aðeins ein örlög biðu þess sem gekk í berhögg við keisarann og með svona slægvisku leið lengri tími þar til trúboðið var talið svo hættulegt  andóf að andófsmaðurinn var tekinn af lífi. Maðurinn sem boðaði að keisarinn ætti að fá sinn skerf var síðar tekinn af lífi með krossfestingu, með ægilegri pyntingu öðrum til viðvörunar.

En líflát þeirra sem óæskilegir eru taldir af valdhöfum fyrir samfélagið  hefur  ekki alltaf farið  fram með pyntingum. Stundum hefur það farið fram á laun og án þess að fórnarlömdin vissu örlög sín fyrr á dauðastundinni. Nasistar reyndu að finna upp sársaukalausar fjöldaaflífunaraðferðir með gasi og haga því þannig til að þeir sem voru teknir af lífi vissu ekki af því áður, héldu að þeir væru að fara í sturtu og vissu ekki fyrr en skrúfað var frá gasinu í gasklefunum.  Nasistar æfðu sig lengi, lengi áður en fjöldaútrýming á Gyðingum hófst.

nasistar-erbkranke1936_851718.jpg

Þeir æfðu sig á fötluðu fólki og byggðu upp hugmyndafræði þar sem genatískur hreinleiki var eitt meginþemað og þar sem réttur til lífs var skilgreindur sem eitthvað sem þegnarnir ynnu til og þess vegna hefði mikið fatlað fólk ekki rétt til lífs. Þessi hugmyndafræði var í anda fræðimanna eins og Karls Binding og Alfred Hoche sem gáfu árið 1920 út rit sem réttlætti útrýmingu þess lífs sem ekki þætti þess virði að því væri lifað.

Hér fyrir ofan er áróðursmynd frá áróðurskrifstofu þýska ríkisins árið 1936 sem segir að kostnaður við umönnun  880,000 einstaklinga með erfðatengda sjúkdóma sé 1200 milljón ríkismörk og  tvöfalt meira en það sem notað sé í stjórn ríkis- og sveitarstjórna.

Fyrir mörgum árum  kom bandarísk fræðikona í heimsókn í skólann sem ég vinn. Það koma margir fræðimenn í heimsókn en þessi var sérstök, hún sérhæfði sig í að rannsaka hvernig hægt væri að aflífa dýr á sem stresslausastan og sársaukaminnstan hátt, var að hanna einhvers konar brautir fyrir sláturdýr. Það var nú ekki það sem var sérkennilegast við hana heldur það að hún hafði sem ungt barn verið greind  einhverf en tekist með aðstoð foreldra og góðs umhverfis að ná þannig tökum á lífi sínu að hún hafði skrifað bækur og lokið doktorsnámi. Hún heitir Temple Grandin og ein bóka hennar  "Dyrnar opnast - Frá einangrun til doktorsnafnbótar" hefur verið þýdd á íslensku.

Ég hef spáð mikið í hvers vegna hún valdi að sérhæfa sig í þessu viðfangsefni. Ég las á sínum tíma viðtal við hana en skildi samt ekki alveg röksemdir hennar fyrir að  helga sig sérstaklega að hanna útbúnað fyrir  aflífun dýra. Ég  sé á myndbandinu að  hún telur samkennd milli sín og kúa vegna þess að líf hennar sem einhverfrar hafi snúist um ótta og þess vegna skilji hún kýr.  Ég held hins vegar að það geti verið  önnur ástæða, ástæða sem kemur ekki eins vel út fyrir hana að segja, ástæða sem er einhvers konar vöntun á samhygð með öðru lífi  - vöntun á samkennd með öllu sem dregur lífsanda.

Hugsanlega  er viðhorf Temple Grandin til sláturdýra af sama meiði og viðhorf Nasista voru til fatlaðs fólks.Hún skynjar ótta sláturdýranna og tilfinningar þeirra en hún finnur ekki til með þeim.

Hér eru tvö myndbönd um konuna sem hugsar eins og kú:

Heimild

Whats in the stimulus that scares me most


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú er svínaflensan komin til landsins!

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.5.2009 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband