15.5.2009 | 12:30
Byltingartólið Twitter og morðið á Rodrigo Rosenberg
Rodrigo Rosenberg var myrtur í Guitemala City fyrir fimm dögum. Ástandið er þannig þar í landi að margir eru myrtir, Rosenberg var lögfræðingur og vann að máli fyrir Khalil Musa og dóttur hans Majorie Musa. Þau voru bæði myrt í mars síðastliðnum. Ég hefði ekki vitað af þessum morðum nema út af því að í gær þá las ég á twitter straumi að twitter notandi í Quatemala hefði verið handtekinn fyrir að pósta twít þar sem hann ráðlagði fólki að taka fé út úr tilteknum banka í Guatemala og varaði við spillingu í landinu. Þegar ég skoðaði þetta betur þá kom í ljós að þetta mál var meira en óánægður twitter notandi að rægja banka, þetta var andóf margra en frá morðinu á Rosenberg þá hafa twittarar í Guatemala og víðar í Suður-Ameríku skrifað um málið og merkt skrif sín með #escandalogt. Þau voru þannig að halda uppi andófi og vekja athygli á morðinu á Rosenberg.
Rosenberg tók upp ávarp áður en hann var myrtur og í ávarpinu segir hann: "Ef þú ert að hlusta á þessa upptöku þá hef ég verið myrtur", hann ásakar í því myndbandi forseta Guatemala, forsetafrúna og menn þeim handgengna um að hafa staðið fyrir morðunum. Hér er upptaka með Rosenberg á Youtube:
FBI mun nú rannsaka morðið á Rosenberg.
Í gær leitaði ég í twitterstraumum (leitaði í http://search.twitter.com) að því sem merkt var #escandalogt og fann strax að einhverjir voru að senda beint út á ustream.tv, það voru beinar útsendingar af uppþotum sem mér virtust með alvarlegri undirtón en hin íslenska búsáhaldabylting. Útsendingin var frá sjónarhóli þess sem stóð að uppþotum og mótmælafundum. Útsendingin var rofin öðru hverju en þetta var mjög magnað og mikil læti og æsingur og mér sýndist útsendingin öðru hverju rofin vegna afskipta lögreglu eða annarra. Ég hugsa að þetta hafi verið útsending í gegnum símakerfi, einhver hafi verið með síma og myndað beint það sem fram fór. Í ustream.tv þá getur maður fylgst með hvað margir eru að fylgjast með útsendingu og tengt ustream við twitter. það voru yfir 1000 manns að fylgjast með útsendingunni. Útsendingin var á þessari slóð RemotosLibertopolis og ég geri ráð fyrir að ef meiri læti verða þá verði líka sent út á þessu þ.e. ef stjórnvöld blokkera ekki sendingar, það er nú líklegt að þau geri það.
Þetta mál er mjög áhugavert út frá því hvernig ýmis netverkfæri eru notuð sem byltingartól og verkfæri andspyrnu við stjórnvöld. þannig var það twitter sem notað var til að samhæfa aðgerðir og twitter var notað sem andófstæki, youtube notað til að senda skilaboð út fyrir gröf og dauða um spillta stjórnarhætti (myndbandið með Rosenberg) og svo var ustream.tv þ.e. bein sjónvarpsrás (allir geta búið til svoleiðis rás fyrir sig) notuð til að senda beint út frá götuóeirðum. Síðan voru blogg notuð, ég las t.d. á einu bloggi ungrar konu í Guatemala þar sem hún hafði tekið upp símtöl við móður sína, móðirin var inn í mótmælaaðgerðunum miðjum og svo voru hljóðskrárnar aðgengilegar á blogginu.
Svo hefur náttúrulega verið stofnuð Facebook grúbba til stuðnings við twitternotandann sem núna er í stofufangelsi og gert að greiða $6500 sekt.
Ég held að hér eftir verði engin árangursrík bylting framkvæmd í neinu landi nema með samhæfingu í gegnum svona tæknimiðla. Ég er þá ekki að tala um byltingu með blóðsúthellingum heldur byltingu sem er andóf og meira andóf og boðskipti gegnum ýmis konar tæknimiðla. Það skildi aldrei fara svo á næstu misserum að við vísum til byltinga með því að spyrja "Hvaða hash tag var á þeirri byltingu?"
hmmm... hvaða hash tag eigum við að hafa á andófi á Íslandi? Sennilega er #HFF allt of algengt, það verður að vera nógu sérstakt til að það ruglist ekki við aðra strauma, kannski #kreppuslagur eða slíkt sér betra:-)
Hér eru greinar og blogg um þetta mál:
Guatemala: "El Efecto Streisand," boing.boing
Á bloggráðstefnu sem ég fór á fyrir mörgum árum þá hitti ég Ethan Zucherman og hef fylgst með skrifum hans síðan þá. Hann fylgist nú töluvert með twitter sem andófstæki og má lesa hér greiningu hans á hvað gerðist í Moldavíu en þar var hash tagið #pman notað á twitter en spurningin er um hve mikil áhrif twitter hafði.
Studying Twitter and the Moldovan protests (Ethan Zucherman)
Hér er önnur grein um Twitter og Moldavíu:
Moldova's Twitter Revolution | Net Effect
Hér er grein á wikinews um handtöku twitter notandans:
14 May 2009: Guatemala arrests Twitter user for inciting financial panic
Fleiri greinar
Ég hins vegar finn ekkert á stóru fréttaveitum heimsins um þetta mál . Það virðist eingöngu vera mikið mál meðal bloggara og twitternotenda sem átta sig á því hvað það er merkilegt og hvað verkfærin sem sumir líta ennþá á sem leikföng og afþreyingartæki geta verið gagnleg í byltingu og andófi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:33 | Facebook
Athugasemdir
Jónas tók eftir þessari grein þinni. Flott. Bæði greinin og það sem hann skrifar.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 13:28
Salvör á hrós skilið fyrir að taka upp þetta málefni og skrítið að ekki skuli vera meira um athugasemdir við skrif og myndir hjá henni á bloggsíðu hennar. Frábært !
Bjarni (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.