Yfir 13 % karla á höfuðborgarsvæðinu atvinnulausir

atvinnuleysi13mai09.jpgTölurnar yfir atvinnuleysi eru geigvænlegar og atvinnuleysi hjá sumum hópum er langt yfir 10 %. Þannig er sláandi hvað margir atvinnulausir karlar eru á höfuðborgarsvæðinu og hvað atvinnuleysi er ofboðslega mikið hjá bæði körlum og konum á Suðurnesjum.  Af 10.835 körlum á atvinnuleysisskrá þá eru 7.665 á höfuðborgarsvæðinu.  Atvinnuleysi meðal karla á höfuðborgarsvæðinu var 11.6 % af mannafla í apríl en þá voru 6.740 karlar atvinnulausir.  Þetta hlýtur að þýða að mannafli er um 58100 og miðað við að það hafi ekki breyst milli mánaða (sem getur reyndar verið ef margir eru að flytja úr landi) þá er atvinnuleysi meðal karla á Reykjavíkursvæðinu komið yfir 13 %.

Svona mikið atvinnuleysi bæði í Reykjavík og á Suðurnesjum er mikið samfélagsböl. Samfélögin eru mjög misvel í stakk búin til að taka á þessu máli.  Reykjanesbær er ein rjúkandi rúst, ég get ekki séð hvernig það sveitarfélag getur liðsinnt þegnum sínum þegar búið er að spreða öllum eignum sveitafélagsins í einhverju einkavæðingar- outsourcing æði. Sennilega standa Hafnarfjörður og Kópavogur líka afar illa, þar hefur verið mikið byggt og mikið tekið af erlendum lánum. Ástandið núna er þungur baggi fyrir Reykjavík en sem betur fer þá virðist mér einkavæðingaræðið ekki hafa gengið eins langt þar og núna miklu meiri ráðdeild þar í öllu starfi.

Samkvæmt tölum aprílmánaðar voru  2104 erlendir ríkisborgarar atvinnulausir, þar af voru 1562 á höfuðborgarsvæðinu. Í apríl voru 1540 erlendir karlar og 564 erlendar konur atvinnulausar. Atvinnuleysi er sem sagt afar, afar mikið meðal erlendra karla á höfuðborgarsvæðinu.

Það er gríðarlega áríðandi að strax verði tekið á þessu og það er ekkert vit í að koma ekki á stað atvinnubótavinnu í stað þess að hafa stóran hóp fólks iðjulausan. Það er hins vegar heldur ekkert vit í atvinnubótavinnu sem bæði skemmir fyrir möguleikum til afkomu hér á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni og sem kallar auk þess á meiri kostnað. Þar vara ég sérstaklega við að fólk hendi sér út í að byggja og byggja. Það er margt sem bendir til að Reykjavík og nágranni muni ekki vaxa neitt á næstu árum, það er ofgnótt af húsrými bæði fyrir fólk og fyrirtæki og það er ekkert sem bendir til að atvinnufyrirtæki sem hér munu blómstra þurfi mikið húsrými, meira en nú þarf. Þvert á móti er líklegt að húsnæðisþörf ýmis konar reksturs minnki vegna breyttra framleiðsluhátta.

Það að byggja og byggja sérstaklega á verðmætum lóðum sem eru miðsvæðis er sennilega til þess fallið að eyðileggja til lengdar atvinnumöguleika Reykvíkinga. Þannig er að borg þarf að vera hlýleg og byggileg til að fólk vilji búa þar og starfa. Það þurfa að vera mikið af grænum svæðum og einkenni og styrkur Reykjavíkur er tengsl við náttúruna. Það verður best gert með því að nota tækifærið núna í kreppuna að endurskipuleggja sum svæði og hætta við að byggja þar amk um sinn og breyta þeim í græn svæði. Það er mikilvægt að horfa ekki á vandamálið eins og vandamál augnabliksins, ekki eyðileggja möguleika og lífsgæði í borginni í dauðans ofboði við að útvega deyjandi byggingarmarkaði atvinnu. Það getur vel verið að við þurfum að búa okkur undir að það verði ekkert hús byggt nýtt í Reykjavík í nokkur ár. Þá það. Þá er eins gott að byrja endurskólun byggingarmarkaðarins strax. 

Það er mikilvægt fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu að horft verði til umhverfis borgarsamfélagsins. Umhverfi er meira en þjóðgarðar og umhverfi er meira en hálendi Íslands. Framtíð Reykjavíkur mun ráðast af því hve falleg og umhverfisvæn og græn borgin er, það mun draga að fólk sem vill búa í slíkum borgum og rekstur sem vill staðsetja sig í fallegri og vistvænni menningarborg. Þar skipta torg og náttúruleg svæði og almenningsgarðar og útivistarsvæði og heilnæm og mengunarlaus borg meira máli en t.d. glerhallir eins og tónlistarhúsið sem nú virðist aðalatvinnubótavinnan í Reykjavík. Mengun er meira en eiturúði frá verksmiðjustrompum, mengun er líka hávaði og ljótleiki verksmiðjuhverfa og samgönguvirkja sem brjóta sundur borgarhverfi  eins og ófær jökulfljót og mengun er líka hættuleg borg sem dregur að dópdílera og glæpalýð og svindlara og mengun er líka drasl sem fýkur um allt og grotnandi og skítug borg. 

Það er eitthvað ský fyrir augun á fólki á Íslandi í dag, fólki sem sér ekki að það er eitthvað verulega bilað í samfélagi sem borgar 17 þúsund manns atvinnuleysisbætur á meðan höfuðborgin blómstrar með plastdræsum í hverjum runna, á hverju vori.

7135013_7e0b0e364d

2331976940_7d0d00e37c

Stjórnvöld verða að taka á fjöldaatvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu á skynsaman hátt. Ekki með því að setja í gang atvinnubótaverkefni sem fela í sér framkvæmdir sem eyðileggja borgina, heldur með því að umskóla fólk, það er ekkert sem bendir til að sá byggingariðnaður sem hérna var muni eiga vaxtarmöguleika í framtíðinni. En það þarf fólk í ýmis konar framkvæmdir, í endurbætur og breytingar á húsum, í að breyta heildarásýnd gatna og hverfa, í framkvæmdir sem eru umhverfismannvirki og geta borginna umhverfisvænni. Það gætu t.d. verið framkvæmdir varðandi  léttlestir ekki síst á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.

Það er aðeins spurning um tíma hvenær slíkar lestir verða fýsilegar og það er mikilvægt að hanna leiðarkerfið þ.e. koma með hugmyndir um hvar þær ættu að liggja.  

Það er líka mikilvægt fyrir okkur að vita hvenær atvinnuleysistryggingasjóður tæmist miðað við þetta atvinnuleysi og hvað á þá að gera? 

atvinnuleysi-utlendingar-april09.jpg

 

 

 

 


mbl.is Atvinnuleysi mælist 9,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband