7.5.2009 | 10:41
Lestölvur í les-skrifmenningu
Nýja tölvan frá Amazon vekur eftirtekt, ég hugsa að hún verði vinsæl ef hún verður nógu ódýr og nógu auðvelt að hlaða hana af upplýsingaefni. Það getur verið að einhvers konar svona græja verði eitthvað sem allir verða með í neðanjarðalestunum, alveg eins og núna eru margir með ipod og aðra mp3 spilara. Nýlega las ég aftur tölvupóst sem ég hafði sent til nemenda minna heima á Íslandi þegar ég skrapp á ráðstefnu til Kaliforníu á miðju kennslumisserinu fyrir meira en tuttugu árum. Ég var á www ráðstefnu í Santa Clara að mig minnir árið 1994 og ég var að segja nemendum mínum frá hvað allt væri skrýtið, hugsa sér að ég sá vefslóð þar (url) á skilti við þjóðveginn í Kísildalnum, mér fannst það stórfurðulegt, á þeim tíma vissu afar fáir á Íslandi hvað vefslóð var og ekkert sem bendi til að það yrði partur af menningu almennings eftir nokkur ár að slá inn vefslóðir.
Í bréfinu frá 1994 þá var ég að segja nemendum mínum frá fyrirlestri sem ég fór á um framtíðarþróun, þar talaði fyrirlesarinn um að dagblöð yrðu þannig að fólk væri bara með eins konar skjái sem það myndi hlaði niður blaðinu á hverjum degi og svo myndu fréttirnar vera þannig að maður kannski smellti á mynd í blaðinu og þá færi allt af stað, poppaði upp mynd og kvikmynd byrjaði að spila. Þetta þótti mér þá ótrúleg og fjarlæg framtíðarsýn en mér virðist nú flest hafa komið fram. Núna finnst okkur alveg sjálfsagt að fréttirnar hjá Morgunblaðinu á mbl.is séu sumar líka með vídeó sem byrjar að spila þegar við smellum á það og það er ýmis konar flash efni með fréttum sem poppar upp byrjar að hreyfast eða færir okkur annað. Svo er fólk byrjað að lesa Moggann í símanum sínum. Smán saman fækkar þeim sem lesa moggann á trjákvoðuformi, fólk les Moggann á Netinu með ýmis konar tækni.
Ef svona lesvélar heppnast vel þá kemur þetta í staðinn fyrir prentútgáfu og leysir mikil vandamál. Það kostar mikið að dreifa og vinna allan þennan pappír, það eru margir liðir sem sparast þó að stofnkostnaðurinn sé töluverður við svona vél og kannski einhvers konar búnað til að hlaða þær af efni.
En ég velti fyrir mér hvað mikið gagn er að lesvél í menningu sem er ekki lengur lesmenning, menningu sem er ekki lengur prentmenning, menningu sem er les og skrif menning (read-write culture)þar sem boðskiptin eru ekki bara í eina átt, þú vilt ekki vera lokaður inn í einni grein eða einni bók, þú vilt geta tengt efnið við annað efni, flett upp þvers og kruss t.d. smellt á orð í bók og þá poppar upp orðabók sem útskýrir það hugtak betur eða fréttir tengjast við allar aðrar fréttir sem hafa verið skrifaðar. Mér sýnist þetta nýja verkfæri vera verkfæri menningar sem er að hverfa, menningar hins óvirka fjölda sem les og les.
Það stuðar mig líka verulega að þessi nýja tækni virðist vera miðuð við námsefni fyrir skólanemendur, ekki síst háskólastúdenta alveg eins og dagblöð.. Ég er mikill baráttumaður fyrir opnu námsefni (OER), námsefni með opnu höfundarleyfi, námsefni sem líka getur verið efniviður í önnur verk. Ég get ekki séð að svona gamaldags lesvélatækni auki útbreiðslu á slíku efni eða stuðli að framþróun í heimi þar sem nám fer fram í samfélögum og með sífelldri endurblöndun.
Ég les svona skrif:
"Students will be able to save significant money on books for their education. Online schools can rent the Kindles to students and provide the online marketplace (in cooperation with Amazon) to sell the textbooks for a cut of the price. Plus, textbook companies will save on printing costs and everyone will save money on not having to ship heavy textbooks.
Theres serious money to be made here by everyone. It will be interesting to see which online schools will move first and how quickly the textbook industry will catch on."
Þegar ég les svona skrif þá verð ég bara leið og skil varla hvað fólk er að fara, hvers vegna er verið að fjárfesta í tækni sem augsýnilega þjónar menningu sem er á fallanda fæti. Þetta lestæki er eins og að fá ofboðslega fína og ódýra og þægilega prentara. Ég man að árið 1986 var ég að flytja erindi um "skrifborðsútgáfu" (desk top publishing), þá þótti það ofboðslega merkilegt að einstaklingar gátu búið til sín rit sjálfir og þurftu ekki á mörgum starfsstéttum í prentsmiðjum að halda t.d. fólki í umbroti eða setningu.
Ég reyndar notfærði mér á sínum tíma svoleiðis tækni, ég var sjálf með umsvifamikla bæklingaútgáfu á þessum árum, ég gaf t.d. út hefti um töflureikna sem seldist í meira en 10 þúsund eintökum. Núna er ég hins vegar orðin fremur andsnúin prentmenningu. Það er mjög sniðugt og gott að hafa öfluga prentara og prentvélar en við erum á tímum þar sem sífellt minni þörf er á að prenta út og frekar fáir vilja lesa prentað efni ef þeim býðst að fá það á stafrænu formi.
Hér er skýringarmynd yfir verðmyndun á námsefni í USA:
Þessi skýringarmynd sýnir að höfundur fær ekki nema 10% því sem nemandinn greiðir. Þetta er mjög áhugavert en mínir nemendur þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur, ég hef þá stefnu núna að notast bara við ókeypis efni, efni sem er á Netinu með CC leyfi eða í opnum aðgangi og forrit sem eru "open source" eða sem háskólar hafa sérstaklega gert saming um ódýran eða ókeypis aðgang fyrir nemendur.
Þegar ég var með mína eigin bókaútgáfu, ég gaf út amk þrjár bækur eftir mig og græddi á tá og fingri þá passaði ég vel að
1) hafa verðið svo lágt til nemenda að það borgaði sig ekki að ljósrita
2) að hafa prentupplagið sem stærst
3) að framleiða beint upp í pantanir þ.e. liggja aldrei með neinn lager
4) sjá sjálf um alla dreifingu og allt nema prentun og sölu í bókabúðum
5) Að búa til bækur sem uppfylltu þörf og mikil eftirspurn væri eftir.
Ég seldi alveg rosalega mikið af bæði bókum um töflureikninn Multiplan og gagnasafnskerfið dBase III, ég held að langflestir sem voru í framhaldsskólum og einhvers konar viðskiptanámi í háskólum á Íslandi á þessum árum hafi notað þessar bækur á þessum árum. Reyndar er ég nokkuð viss um að þær voru vinsælar vegna þess að margir komust yfir þessi forrit (þetta var fyrir Microsoft office væðinguna) á ...hmmm... hvernig á ég að orða það.... óformlegan hátt og án þess að hafa greitt mánaðarkaup fyrir sem þá var verð á þessum forritapökkum.
Reyndar get ég núna líka upplýst að ég sjálf átti aldrei lögleg afrit af þessum forritum þó ég skrifaði um þau kennslubækur með handbókum og reyndar átti aldrei handbækur til að styðjast við heldur, man eftir því hvað ég var þakklát honum Baldri í Versló sem lánaði mér Multiplan handbók sem fylgdi með forritinu. Ég græddi ágætlega á þessari einkaútgáfu minni en ég man eftir að ef ég hefði látið bókaforlag gefa bækurnar út miðað við þá samninga sem þá tíðkuðust þá hefði ég fengið miklu minna og bækurnar verið miklu dýrari fyrir nemendur. Mig minnir að ég hafi selt bækurnar á þreföldu prentkostnaðarverði en venjuleg útgáfa hafi þá selt bækur á tíföldu prentkostnaðarverði.
Núna er ég hins vegar orðin mjög fráhverf þessu hefðbundna markaðsmódeli sem samfélag okkar byggir á. Ég hef undanfarin ár gefið allt mitt efni og reynt að hafa það í opnum aðgangi á Netinu og nú síðustu ár með CC höfundarleyfi. Það efni sem ég bý til núna er ekki lengur hefðbundið námsefni, ekki texti eða eitthvað sem setja má á blað, ég bý miklu meira til ýmis konar margmiðlunarefni og síðast en ekki síst ýmis konar tengingarefni. Allt reyni ég að hafa aðgengilegt á vefnum.
Ég verð alltaf byltingarsinnaðri í sambandi við námsefni, ég hef bæði afneitað hefðbundnum höfundarrétti og ég hef líka afneitað skrifum sem merkt eru einum höfundi. Ég held að mest af því sem ég geri núna sé höfundarlaust og efni sem allir geta hrært í og breytt. Dæmi um slíkt efni eru ýmis konar samvinnuskrif m.a. í íslensku wikipedia.
Það eru margir hneykslaðir á því að ég skuli prédika ókeypis menningu og ókeypis og takmarkalaust aðgengi að þekkingu, ekki bara aðgengi til að geta lesið efni í einhvers konar textavélum eða á prenti eða skoðað á skjá heldur líka aðgengi til að nota efni í eigin verk. En málið er bara að þetta peningahagkerfi og eignaréttarhagkerfi sem við erum í núna er ekkert að virka, það er að mörgu leyti einn helsti fjötur í framþróun og dreifingu þekkingar.
Það er samt þannig að einhver hvati verður að vera til að búa til námsefni, einhver verður að borga námsefnishöfundum. Það er raunar ákveðið módel frá open source samfélögum sem vel er líklegt að nýtist við námsefni, það er ef til vill mikilvægara að byggja upp samfélög þar sem safnað er saman efni og ákveðið kerfi um hvernig efni er notað áfram. Líka samfélög þar sem ekki er svona gríðarlegt gap og hyldýpi milli höfundar og lesandi, milli sérfræðings og byrjanda, milli þess sem hefur verkfærin og má gera og milli þess sem bara má horfa.
Ný útgáfa af lestölvu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:55 | Facebook
Athugasemdir
Frábær færsla, Salvör, og skemmtileg söguleg samantekt á yfirtextasamfélagi síðustu 20 ára. Ég er ekki sammála þér um að endalok höfundarréttar séu á næsta leyti, né deili ég gleðinni yfir mulningsvél sögunnar sem ekkert fær stöðvað og það gamla sem verður að víkja fyrir framþróuninni, en því miður eru skoðanaskipti um þróun miðlunar alltof lítil í okkar málsamfélagi, sérstaklega á meðal þeirra sem hana lifibrauð af skriftum og útgáfu. Sjálfsútgáfumódelið sem þú stillir upp er síður en svo einhver undantekning í íslensku útgáfusamfélagi, í raun reglan. Um 150 aðilar gefa út bækur á hverju ári á Íslandi. Aðeins 20 þeirra gefa út fleiri en 4 titla og aðeins 12-15 fleiri en 20. Markaðsstarf þeirra býr hins vegar til virðisauka í langri keðju sem les-skirftar-samfélagið á enn langt í land með að brjóta niður. Ég sé ekki fyrir mér að eitt sögulíkan taki annað yfir, miklu fremur samvinnu, átök og samþættingu ólíkra viðskipta- og þekkingardreifingarmódela á næstu áratugum.
Kristján B. Jónasson, 8.5.2009 kl. 13:37
ég er nokkuð viss um það að það komi fljótlega lítil tölva sem býður upp á sömu og mun fleiri möguleika..... bíddu...
gusti (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 02:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.