14.4.2009 | 00:16
Siðbót í stjórnmálum og spunameistaratrix
Það var fyrir löngu ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn yrði ekki sigurvegari næstu kosninga. Stefna hans hefur beðið skipsbrot og stjórnendur hans njóta ekki trausts og sú ríkisstjórn sem hrökklaðist nýlega frá völdum var vanhæf. Það getur verið að hún hafi unnið vel bak við tjöldin að leysa úr bráðum vanda en við almenningur urðum ekki vör við það. Þvert á móti fannst okkur ríkisstjórnin ráðvillt og reikul og við höfðum á tilfinningunni að verið væri að hilma yfir með einhverjum af þeim gjörningsmönnum sem steyptu okkur ofan í fjármálalegt hyldýpi og að ríkisstjórn undir forustu manna sem voru nátengdir fjármálalífinu og þeim fjárglæframönnum sem þyrluðu á milli sín bólupeningum væri sjálfkrafa vanhæf. Það kom líka á daginn að við höfum verið blekkt. Fyrrum forsætisráðherra var fullkunnugt um alvarleika ástandsins á meðan hann reyndi að sannfæra bæði almenning á Íslandi og umheiminn um annað. Fyrrum forsætisráðherra var líka vel kunnugt um afar háa styrki Landsbankans og Fl group til Sjálfstæðisflokksins, styrki sem ekki samrýmast stefnu flokksins og það verður að líta svo á að styrkjunum hafi verið veitt viðtaka með velþóknun hans. Þetta var hins vegar svo stór upphæð 60 milljónir að það væri í meira lagi undarlegt ef aðrir ráðherrar flokksins t.d. varaformaður hafi ekki vitað að þessum styrkjum.
Það virðist ljóst að Guðlaugur Þór alþingismaður átti sinn þátt í að afla þessara styrkja m.a. með frumkvæði sínu. Það hefur komið fram bæði í yfirlýsingum hans og þeirra sem stigið hafa fram og sagst hafa aflað styrkjanna. Það getur hins vegar ekki verið sök hans að tekið var við þessum styrkjum einfaldlega vegna þess að hann var ekki í forustusveit flokksins á þessum tíma, aðeins kappsamur þingmaður sem hugði á frekari frama innan flokksins.
Það var dómgreindarleysi og það var siðlaust af forustu Sjálfstæðisflokksins að leyfa á sínum tíma að svo háir styrkir frá einum aðila kæmu inn í flokksjóðinn á laumulegan hátt og gera þetta rétt fyrir gildistöku laga sem einmitt bönnuðu slíkan ofurstyrki. Það er líka siðlaust ef margir hafa vitað af þessum styrkjum innan Sjálfstæðisflokksins og það er mjög undarlegt ef hugsanlega fráfarandi formaður flokksins hefur verið spurður um þetta á meðan hann var forsætisráðherra og hann þá neitað að flokkurinn hafi tekið við þessum styrkjum.
Það er nú ansi mikið af langsóttum samsæriskenningum á sveimi þessa daganna. En það virðist sérstaklega valið hvenær umræða um þessa styrki er kveikt í fjölmiðlum. Margir hafa vitað lengi um þessa styrki en tímasetning vekur tortryggni. Það kemur Sjálfstæðisflokknum afar illa að þessi umræða skuli koma upp núna rétt fyrir kosningar. En sérstaklega kemur það illa Guðlaugi Þór og er það út fyrir allan þjófabálk hvernig árásir eru á hann einn núna. Þannig heyrði ég ekki betur en að núna í kvöldfréttum Sjónvarpsins að efsti maður vinstri grænna í Reykjavík og pólitískur andstæðingur Guðlaugs Þórs sem er efsti maður á lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík sakaði Guðlaug Þór um mútur. Það er vegið mjög að Guðlaugi þór þessa daganna bæði af pólitískum andstæðingum en okkur dylst ekki að það er líka vegið að honum af samherjum, af einhverjum fylkingum innan Sjálfstæðisflokksins. Nú er það svo að það er fráleitt að ógæfa Sjálfstæðisflokksins þessa daganna og pólitísk spilling almennt sé persónugerð í Guðlaugi Þór og hann hefur ekki mikið svigrúm í þessari baráttu og það er erfitt fyrir hann að bera hönd fyrir höfuð sér.
Það sem er að gerast núna í fjölmiðlum vekur grunsemdir um að því miður hafi lítið breyst í siðgæði stjórnmála og fjölmiðlaumræðu á Íslandi. Það sé vísvitandi verið að spila með fólk, klekkja á Guðlaugi Þór og draga athyglina frá þeim vandamálum sem Ísland stendur frammi fyrir núna. Miðað við þau vandamál þá virka þessir tveir styrkir frá gjaldþrota fyrirtækjum agnarsmáir.
En umræðan á vefmiðlum, blöðum og í sjónvarpsfréttum varðandi Guðlaug Þór og styrkjamál Sjálfstæðisflokksins er í æsifréttastíl en ekki æsingalaus krufning á því sem gerðist, þetta er ekki rannsóknarblaðamennska, þetta er frekar dæmi um "framing" og billeg spunameistaratrix til að knésetja stjórnmálamann og tímasetningin virðist vandlega valin.
Ef stjórnmál verða háð á Íslandi á þessum nótum í framtíðinni þá er engin von til þess að heiðarlegt fólk sem vill leggja málefnalegri og lýðræðislegri umræðu lið gefi kost á sér á listum. Það er satt að segja engin von um að eitt eða neitt lagist á Íslandi ef stjórnmálaumræða á að vera á þessum nótum.
Óskar úttektar á störfum sínum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Flott grein hjá þér eins og reyndar allt sem þú skrifar. Það væri nú gaman ef að hann bróðir þinn blessaður myndi fara skrifa eitthvað læsilegt líka.
Stefán (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.