11.4.2009 | 09:31
Sjarmi yfir þessari hústöku
Það er bara flott hjá hústökufólkinu að taka yfir húsið á Vatnsstíg ef það er satt sem kemur fram í fréttinni að húsið hafi staðið autt lengi og fólkið hafi byrjað að hamast við að þrífa húsið og ætli nú að nota það undir einhverja rótttæka starfsemi. Ég sá auglýsingu á facebook frá þessum hópi sem vakti athygli mína, það var auglýsing um að setja upp fríbúð.
Þessi hugmynd um fríbúð og að taka yfir húsnæði með samfélagsleg markmið í huga, með eitthvað annað í huga en sölsa undir sig eigur annarra er alveg í takt við mína hugmyndafræði og það hvernig við tökumst á við þær gríðarlega erfiðu aðstæður sem núna skella á okkur. Við munum dagana fram að kosningum lifa í blekkingu, stjórnvöld hreinlega þora ekki að horfast í augu við fólkið í landinu og segja því hversu alvarlegt ástandið er og láta eins og það sé "business as usual".
Við verðum að átta okkur á því að það er kerfishrun, ekki bara á Íslandi heldur í öllum heiminum og það lagast ekkert í gegnum þetta sama kerfi sem hrundi, það er alveg í tætlum og það eru ekki mikil líkindi á því að altumfaðmandi stjórnvöld sem birtast okkur í gervi Jóhönnu Samfylkingarformanns geti ráðið við málið, sérstaklega ef þau sömu stjórnvöld neita að horfast í augu við vandamálið og virðast ekki skilja að við óhefðbundið vandamál ganga ekki hefðbundnar lausnir.
Jóhanna gat ekki einu sinni barið í borðið og dröslast á þennan afmælisfund Nató, ein þjóðarleiðtoga í Evrópu sat hún heima og glundraði þar með niður óhemjugóðu tækifæri til að tala máli Íslands og lýsa óánægju sinni með að bandalagsþjóðin Bretar hefðu ekki verið nein bandalagsþjóð okkar heldur skellt hryðjuverkalögum á heila þjóð út af einhverju fjármálastússi netbanka sem er okkur almenningi á Íslandi alls óviðkomandi.
Við svona aðstæður eins og núna eru komnar upp þá passa engan veginn þær leikreglur sem hingað til hafa gilt og virkað vel. Okkur er innprentuð virðing fyrir eignarétti og okkur er innprentað að skuldaviðurkenning sé kvöð sem við verðum að borga. Núna eru hins vegar þannig aðstæður að verða á Íslandi og í Reykjavík að hætta er á að stór hluti húsnæðis, sérstaklega atvinnuhúsnæðis sé ekki í notkun, rekstri hafi verið hætt af því að fyrirtækin urðu gjaldþrota og svo koma einhverjir og segjast eiga gífurlegar kröfur á okkur fólkið í landinu sem við verðum að borga, ríkissjóður sé með einhvers konar fjárglæfrum og fjárglæringum ábyrgur fyrir því sem útrásarvíkingar og bankaeigendur gerðu. Það er engin leið fyrir okkur að borga þessar skuldir og við eigum að horfast í augu við það strax og neita að borga. Við verðum sem þjóð að semja um það sem við getum borgað.
Á sama hátt verðum við að skilja að það verður að afskrifa hluta af skuldum fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi, annars verður algjört hrun hérna og stór hluti fólks getur ekki staðið í skilum og hefur enga leið aðra en lýsa sig gjaldþrota.
Stór hætta er á því að Reykjavík fari að líta út eins og eitt alsherjar slömm ef hér verður fullt af húsum í eigu einhverra fjármálastofnana og skiptastjóra og annarra sem ekki vita hvað þeir eiga að gera við þessi hús. Það er algjört hrun á leigumarkaði núna og það er öllum til hagsbóta að sem mest af húsnæði í Reykjavík sé nýtt af skapandi fólki sem getur sáð fræum hugmynda og virkja fólk til sameiginlegs átaks. Eiginlega eru núna að skapast góðar aðstæður fyrir ýmis konar listræna sköpun í Reykjavík og Reykjavík er svona víbrant borg, hér gerast hlutir, hér er borg á heitum reit.
En svona yfirtaka þarf að vera formgerð með einhverjum hætti til að tryggja rétt þeirra sem eiga eignina og til að tryggja rétt þeirra sem taka yfir eign. Bendi hér á góðan pistill hjá Tinnu Hústökulög! Taka 3 um svona lagasetningu.
Þær aðstæður sem við sjáum núna í Reykjavík hafa verið oft í öðrum borgum og svona hústaka var bara eðlileg leið til að komast yfir húsnæði í Amsterdam þegar ég var þar, ég heimsótti fleiri en eina fjölskyldu sem hafði fengið sitt húsnæði með yfirtöku. Það var kallað kraken ef ég man rétt. Það hafa verið sett sums staðar hústökulög. Við ættum að huga að svoleiðis hérna.
Mér finnst upplagt að líta á svona hústökufélög sem eins konar samvinnufélög. Það sem heillar mig mest í þessu er að þetta er kerfi sem hafnar peningum. Það er nefnilega meinið við þetta hagkerfi sem við trúum í blindni á núna. Við höldum að engin efnahagsleg samskipti, flæði og verðmætasköpun geti átt sér stað nema það sé mælt í peningum. Ég heillast líka mikið af svona fríbúðum. Það ættu að vera kaupfélög nútímans, svona búðir þar sem þú tekur út eftir þörfum og leggur inn svona ef þú ert í stuði og átt eitthvað sem þú heldur að annar geti notað.
Ég tek sjálf þátt í ýmsum svona samvinnuhreyfingum á Netinu. Þannig skrifa ég oft greinar á íslensku wikipedia og ég er heilluð af svona Almenningum (á ensku Commons), svona gagnasöfnum og verkfærabönkum sem eru alveg galopin og eru starfendafélög, stýrt af þeim sem taka þátt. Margir halda að svona félög séu óreiða og glundroði en málið er það að sífellt fleira af framleiðslu og sköpun í samfélagi nútímans með þessum hætti og það er að brotna upp þessi skýra markalína sem var milli framleiðanda og neytanda.
Hér er grein sem lýsir þessum commons hugsunarhætti Rizhome:Grassroots Conspiracy
Við erum sjálf í auknum mæli að búa til og skapa það sem við notum, oft með því að endurblanda því sem aðrir hafa gert á undan okkur. Við erum á tíma endurblöndunar (remix) og margar leikreglur eins og ýmis konar réttarreglur t.d. höfundarréttur eru alveg á skjön við það sem við þurfum við listsköpun og framleiðslu í svoleiðis kerfi. í þeim hreyfingum sem ég tek þátt í hafa sprottið upp lausnir m.a. annars konar réttarreglur varðandi eignarrétt á hugverkum, svo sem creative commons. Þó áhugi minn hafi hingað til fyrst og fremst beinst að hinum stafrænu rýmum og stafrænum verkum þá held ég að sama gildi um margt annað. Eignarétturinn eins og við höfum skilgreint hann er ekki að passa við samfélagsgerðina sem við erum með í dag.
Hústökufólk á Vatnsstíg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:29 | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er flott framlag hjá þeim, það eina sem ég hef pínulitlar áhyggjur af er að þessu húsi var lokað og rafmagn og hiti tekið af þvi þar sem þarna var allt orðið morandi í kakkalökkum, vonandi vakna þeir ekki til lífsins aftur með nýjum gestum.
Steinar Immanúel Sörensson, 11.4.2009 kl. 10:17
Þessi aðgerð hjá hústökufólkinu rímar fullkomlega við stjórnmálaskoðanir mínar, anarkískan mútúalisma. Annað sambærilegt dæmi um samhjálparstefnu eru t.d. björgunarsveitirnar.
Síðan hef ég oft talað um nauðsyn þess að láta reyna á þessa aðferð í sambandi við sumarannir við Háskólann þar sem ég stunda nám. Ef ríkið fæst ekki til þess að leggja til sumarannir, hvers vegna ekki að gera samning við LÍN og nemendurnir sjálfir koma sér upp námskeiðum þar sem þeir ráða kennara sem ráðleggur til við námsefni og annars konar mat? Það væri fullkomlega sambærilegt kerfi á við leiklistarfélögin í framhaldsskólum, þar sem nemendurnir ráða "kennara" (leikstjóra) og vinna hörðum höndum að verkefninu, í því tilviki leiksýningu. Orð Andra Snæs koma upp í hugann, ef svipað kerfi væri við eðlisfræðikennslu í framhalds- og háskólum landsins væru Íslendingar búnir að senda mann til Mars.
Kristján Hrannar Pálsson, 11.4.2009 kl. 10:45
það er afar óskynsamlegt hjá eigendum þessa húsnæðis að taka af rafmagn og hita. Þetta ýtir kannski vil þeim að aðhafast eitthvað. Best væri að þeir semdu við hústökufólkið um afnot gegn því að sinna lágmarksviðhaldi og borga veitukostnað. þá græða allir.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 11.4.2009 kl. 10:45
Hitinn var tekinn af til þess að drepa kakkalakkana sem þarna voru og eru kannski enn, það vill svo til að mágur minn vann hjá þessu fyrirtæki og þess vegna hef ég þessa vitneskju, ég er fyllilega meðmæltur svona aðgerðum en eins og ég sagði þá vona ég að kakkalakkarnir vakni ekki til lífsins þarna aftur. Því það var orðin plága þarna, komu víst með portúgölskum smiðum sem þarna bjuggu meðan þeir unnu hjá eiganda hússins.
Steinar Immanúel Sörensson, 11.4.2009 kl. 10:51
Kakkalakkar eru einmitt mjög viðkæmir fyrir hitasveiflum. Þeir kvefast og deyja við minnsta frávik frá kjörhita. Frændi konunnar minnar hélt lengi einn eftir að hundurinn hans lenti undir bíl og drapst. Það var einn sumardag að kakkalakkinn hans opnaði ísskápinn til að sækja sér svalandi drykk, að hann þoldi ekki kuldagjóstinn út úr skápnum og féll í öngvit. Frændinn tók hann í hönd sér og ætlaði með hann rakleitt til dýralæknis. En um leið og sólin kyssti kakkalakkann á leiðinni út í bíl, tók hann djúpt andvarp og var þar með allur. Þetta bakaði auðvitað mikla sorg...en ég er nú kannski kominn út fyrir umræðuefnið?
fimmta valdið (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 11:15
Það er reyndar líka brýnt sem einn partur af því að átta sig á hvað gerðist að fara ofan í hver er skráður fyrir hvaða eign í miðbæ Reykjavíkur og hvort þarna sé að eiga sér stað eitthvað undanskot eigna t.d. Novator kaupir Fríkirkjuveg 11 en selur svo til Novator11 sem núna á húsið og þá er allt í lagi þó Novator fari í þrot, Novator11 er í eigu Björgólfsfeðga og þeir eiga Fríkirkjuveg 11.
Varðandi þetta umrædda hús þá sá ég á einhverju bloggi nöfnin Þorsteinn Steingrímsson og Engilbert þegar rætt var um eignarhald en talið var að þeir væru í vinnu hjá einhverjum öðrum sem hefðu raunverulegt eignarhald. Hverjir eru það?Salvör Kristjana Gissurardóttir, 11.4.2009 kl. 11:55
Þessi logik sem hér kemur fram er dálítið í ætt við viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur í vetur við dómnum vegna stjórnsýslubrots gegn nefndarformanni. Jóhanna taldi í lagi að brjóta stjórnsýslulög af því að brotþoli var framsóknarmaður.
Ragnhildur Kolka, 11.4.2009 kl. 12:29
Gott hjá unga fólkinu þó ekki væri nema til að hrella smáborgarana.
Finnur Bárðarson, 11.4.2009 kl. 12:42
Hústakan er gasalega sæt, svo lengi sem hún er ekki í mínu hverfi! Er það ekki aðalatriðið?
Flosi Kristjánsson, 11.4.2009 kl. 13:51
Þetta tiltekna hús var og er að ég held ennþá í eigu ÁF húsa ehf
Steinar Immanúel Sörensson, 11.4.2009 kl. 17:05
Stjórnvöld ættu strax að bregðast við og fjarlægja þessa öfgamenn út úr húsinu.
Hilmar Gunnlaugsson, 11.4.2009 kl. 23:01
Þvílík langloka.
Emil Örn Kristjánsson, 11.4.2009 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.