10.4.2009 | 13:08
Sjálfstæðisflokkurinn er að klofna
Við fylgjumst öll þjóðin með píslargöngu Sjálfstæðisflokksins núna á föstudaginn langa en ég vona að það sé ekki þórðargleði í nokkrum manni. Við erum öll að tapa ef það stjórnmálaafl sem stærst er á Íslandi og sem stýrt hefur og ráðið öllu á Íslandi er svona innanétið af spillingu að það er ekkert eftir nema nokkrar feysknar spýtur. Ég hugsa að ef nóg svigrúm hefði verið til og þessar uppljóstranir hefðu komið fram fyrir tveimur mánuðum eða svo þá hefðu ný framboð Sjálfstæðismanna komið fram í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi. Það verður hins vegar að skila framboðslistum strax eftir páska og það er of lítill tími fyrir heiðarlega Sjálfstæðismenn sem vilja breytingar að stilla saman krafta sína og koma saman framboði í öllum kjördæmum.
Núna eru efstu menn á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þeir Illugi Gunnarsson og Guðlaugur Þór. Báðir eru þessir menn með fortíð sem veldur því að við erum full tortryggni gagnvart þeim. Illugi var í enkavæðingarnefnd og hefur skrifað marga pistla með áköfum áróðri fyrir sölu og framsali íslenskrar orkuvinnslu, hann hefur unnið leynt og ljóst að því að selja Landsvirkjun. Guðlaugur þór var stjórnarformaður Orkuveitu okkar Reykvíkinga og hann virðist hafa unnið á sama hátt og viljað einkavæða sem mest. Illugi tengist svo illilega þessu Sjóði 9 spillingarmáli og það er borið á Guðlaug Þór að hann hafi safnað fé frá fyrirtækjum sem höfðu mikla hagsmuni að gæta í þessum málum.
Ég vil nú reyndar vara við að sök sé kastað á Guðlaug Þór einan út af þessu máli. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið samantekin ráð margra valdamikilla manna í Sjálfstæðisflokknum að ná inn sem mestu áður en lögin sem kváðu um að framlög yrði að upplýsa tækju gildi.
Það má bera saman þessa tvo fulltrúa sem leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík saman við þau Sigmund Davíð og Vigdísi Hauksdóttur sem leiða lista okkar Framsóknarmanna.
Við Framsóknarmenn héldum Skírdagsreið við Elliðavatn í Heiðmörk á Skírdag, það er nálægt þeim heilaga stað Þingnesi og fyrir mér var þetta eins konar pílagrímsför á slóð forfeðranna, við skulum muna að hér á Íslandi er löng lýðræðishefð og við Framsóknarmenn viljum stjórnlagaþing. Það væri nú við hæfi að hafa táknræna athöfn á hinu forna Þingnesi fyrir okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu um leið og við fögnum nýrri stjórnarskrá. Víst er Þingvellir okkar helgasti staður en Þingnes er líka afar merkilegur sögustaður og ef til vill var þar fyrsta þing á Íslandi.
Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett "at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú nes, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu".
Enginn veit hvar Kjalarnessþing var háð en það er talið að það hafi um tíma verið í Þingnesi. Kjalarnesþing var eins konar undanfari Alþingis það var ekki löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og fræðimenn telja líklegt að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að Kjalarnesþingi.
Það var auðvitað tekið lagið í Skírdagsreiðinni og eitt lagið sem var sungið var "Útileigumenn í Ódáðahraun, eru kannski að smala fé á laun". Þegar ég kom heim og les fréttirnar þá held ég barasta að þessir útileigumenn séu þeir menn í Sjálfstæðisflokknum sem smöluðu á laun fé (60 milljónir) inn í Valhöll. En hér er myndband frá Skírdagsreið okkar Framsóknarmanna.
Við Framsóknarmenn tökum vel á móti öllum þeim mörgu Sjálfstæðismönnum sem óánægðir eru með Sjálfstæðisflokkinn núna og hvetjum ykkur til að koma í kosningamiðstöðina okkar í Borgartúni 28 og kynna ykkur hvað Framsóknarflokkurinn stendur fyrir núna. já og lært hvernig á að breyta flokki:-) Þar hefur verið unnið mikið uppbyggingarstarf í Framsóknarflokknum og því er ekki nærri lokið. Við þurfum að breyta öllum flokkum í heiðarlegar og lýðræðislegar hreyfingar og virkja grasrótina. Hér er yfirlýsing frá Framsóknarflokknum varðandi styrki sem betur fer þá virðist okkar flokkur ekki hafa tekið við svona styrkjum eins og Sjálfstæðisflokkurinn.
Skeytasendingar á vefsíðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Facebook
Athugasemdir
Já; Sjálfstæðisflokkurinn verður að láta sér nægja að "hengja eintóma ræningja" - á föstudaginn langa. Það er enginn frelsari á vettvangi þeirra - saklaus og hreinn . . . .
. . . . . og "pólitísk upprisa" því líklega ekki í spilunum.
Ég syrgi það ekki að það flettist ofan af spillingu þeirra . . . en um leið er ég sorgmæddur yfir því hversu slæm og óskammfeiling pólitíkin og sérhagsmunagæslan er . . . . . og þó erum við ekki að tala um "ættar. - fjölskyldu, - vinatengslin . . . " sem gegnsýrt hafa spillingarkerfið . . . og svo boðin og bitlingana . . . Þetta verðum við að takast á við til að traust almennings á stjórnmálum endurheimtist . . .
Benedikt Sigurðarson, 10.4.2009 kl. 13:25
Ég vil benda á að Framsóknarflokkurinn hefur ekki gert upp sína fortíð á sambærilegan hátt og Sjálfstæðisflokkurinn með birtingu Endurreisnarskýrslunnar.
Á meðan svo er ekki, eru framsóknarmenn með lík í lestinni.
Hvaða stefnu hefur Framsóknarflokkurinn? Ætlar hann að halda áfram einkavæðingunni eða verður samvinnustefnan í fyrirrúmi? Það eina sem hefur verið mikið hampað framan í kjósendur er einhver óskiljanleg 20% afskriftir af skuldum án tillits til efnahags eða stærðar húsnæðis og íburðar.
Verður okkur samvinnumönnum greidd inneign okkar sem stóð eftir þegar Samvinnutryggingum var slitið? Eða hvað varð af því fé?
Það er ekki rétt að hér sé löng lýðræðishefð. Alþingi byggði á goðorðum. Enn þá þurfa bændur að sæta því að þurfa að eiga kálfa eða kvóta til að fá að greiða atkvæði um búvörusamninga. Ég hef rekið mál hjá Umboðsmanni Alþingis þar um.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 10.4.2009 kl. 14:46
Takk fyrir að benda á það Þorsteinn að lýðræðið var ekki fyrir alla. Konur fengu ekki kosningarétt og kosningaréttur var bundinn við eign lengi framan af. Það var auðvitað einhvers konar höfðingjaveldi á fyrstu öldum Íslandssbyggðar. En það var mikil framför að hafa einhver konar samkomu þar sem lög voru sett og þar sem gert var út um mál og dæmt í þeim.
Endurreisn Framsóknarflokksins er svo sannarlega ekki lokið. Þú spyrð á hvaða leið flokkurinn sé. Ég held að svarið sé fólgið í hvaða fólk kemur til liðs við flokkinn. Ég vil sjá endurreisn samvinnustefnu. Ég held að þannig sé um flesta Framsóknarmenn.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.4.2009 kl. 14:53
Benedikt, tek undir það að mikilvægt er að efla traust almennings á stjórnmálum. það bíður hnekki við svona mál. Við erum því öll að tapa, það er mikilvægt að stjórnmál séu vettvangur heiðarlegra vinnubragða og þar fylkist að hugsjónafólk.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.4.2009 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.