30.3.2009 | 23:28
Sjálfstæðisflokkur situr hjá í næstu umferð
Hér fyrir ofan er einnar mínútu svipmynd sem ég tók í dag í kosningarskrifstofu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þar eru nú margir fundir á dag, þessi svipmynd er af fundum kvennahóps og frambjóðenda og kosningastjórnar. Kosningabaráttan er komin í fullan gang og opnunarhátíð kosningamiðstöðvar verður á laugardaginn kl. 14.
Það virðist ljóst af því hvernig allir stjórnmálaleiðtogar tala núna að Sjálfstæðisflokkurinn verður ekki með í næstu ríkisstjórn. Þetta ættu þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum að hafa í huga og hugleiða hvort það sé mjög skynsamlegt að kjósa þann flokk aftur. Það er nú reyndar frekar gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera utan stjórnar, þar er erfitt fyrir Sjáfstæðismenn núna að standa andspænis íslenskri þjóð núna og verja stefnu og útfærslu sem steypt hefur okkur í glötun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gott af því að skoða sín mál og taka sig á.
Það virðist útilokað að mynda ríkisstjórn á Íslandi að loknum kosningum án þátttöku Vinstri grænna og Samfylkingar. Steingrímur er enda kokhraustur og drambsamur og finnst ríkisstjórnin vera undin saman úr stálþráðum, sams konar þráðum og halda mannvirkjum. En þannig er það nú bara ekki þessi ríkisstjórn sem núna er lafir gerir það eingöngu fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins og hún er undin saman úr tveimur illa spunnum ullarþráðum og er eingöngu mynduð til að hér sé ekki algjör glundroði fram að kosningum.
Í Framsóknarflokknum búa menn sig núna undir kosningabaráttu sem háð er heiðarlega og af alvöru og festu stjórnmálaafls sem vill ekki taka þátt í að blekkja almenning, ekki taka þátt í að leyna því hve alvarlegt ástandið er. Framsóknarflokkurinn bendir á leiðir til að vinna sig út úr þessum aðstæðum öfugt við stjórnarflokkana sem því miður eru uppteknir af leiðum sem líklegar eru til að magna upp kreppuna og velta vandanum á undan sér.
Framsókn vill í vinstrisæng | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:33 | Facebook
Athugasemdir
Ákvarðanataka um myndun stjórnar fyrir kosningar er einstaklega ólýðræðisleg og ættu kjósendur Sjálfstæðisflokksins ekki að hætta við að kjósa flokkinn vegna slíks brasks. Hvort flokkurinn fer í stjórn eða ekki verður spennandi að fylgjast með en fari svo að Samfylkingin og VG myndi stjórn þá verða Sjálfstæðismenn mjög sterkir í stjórnarandstöðu.
Hilmar Gunnlaugsson, 31.3.2009 kl. 00:35
Það er ekkert ólýðræðislegt við að stjórnmálaflokkar gefi upp hvað þeir ætla að gera eftir kosningar. það er þvert á móti ákveðin virðing við kjósendur. Framsóknarflokkurinn er reyndar eini flokkurinn sem alltaf hefur getað starfað með öllum öðrum. Það er aðalsmerki þess flokks. Það kjósa hins vegar ekki allir að starfa með Framsókn, einu sinni var flokkur sem auglýsti hróðugur slagorðið "Gefum Framsókn frí". Við fengum á þessu kjörtímabili smjörþefinn af því hvernig málin ganga fyrir sig þegar Framsókn er ekki í stjórn. Það fór allt í upplausn í Reykjavíkurborg og það fór allt í upplausn og nánast byltingarástand í ríkisstjórn. Það er ekki viturlegt að gefa Framsókn frí, það hefur reynslan sýnt. Hins vegar ætti Sjálfstæðisflokkurinn að hvíla sig og sleikja sárin um stund.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 31.3.2009 kl. 01:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.