9.3.2009 | 22:05
Össur fyrir tveimur árum
Össur iðnaðarráðherra er þungaviktarmaður í Samfylkingunni og hann hefur verið ráðherra og valdamikill stjórnmálamaður lengi, hann hefur verið í betri aðstöðu en ég og þú til að fá upplýsingar og láta aðra vinna úr upplýsingum. En hversu næmt auga hefur Össur fyrir hvað er að gerast í heiminum og á Íslandi?
Össur dásamar olíuna sem þó ekki hefur ennþá fundist, olíuna sem mun gera okkur öll rík, hann dásamaði líka útrásina í orkumálum, útrásina sem okkur hinum fannst aldrei annað en dulbúin innrás og sjónarspil þeirra sem vildu stela af þessari þjóð yfirráðarétt yfir okkar auðlindum.
Á bloggi Össurar núna verður ekki annað heyrt en að allt sé hér á dáyndis góðri ferð, hér sé kraftur gegn kreppu. Össur bloggar "4000 ársverk og ekki lokið" og segir stoltur frá því að það hafi galdrast fram 4000 störf sem hann reyndar getur teygt með skapandi hugsun í 5000.
Af hverju halda stjórnmálamenn áfram að blekkja fólk og sópa rykinu undir teppið rétt fyrir kosningar? Ef það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda núna þá eru það blekkingar. Ástandið er ömurlegt en það er engin ástæða til að leyna því fyrir almenningi á Íslandi hversu alvarlegt það er. Af hverju er ekki greining á því hvað mikið af þessum störfum sem eru búin til eru störf sem engu munu skila nema viðbótarkostnaði og vera austur í viðbótarhít sem mun soga til sín ennþá meira fé, er ekki meðal þessara starfa nokkur hundruð manns sem munu vinna við að koma upp áfram minnisvarða gróðærisins, klakahöllinni sem kölluð er tónlistar- og ráðstefnuhús. Hvaða virðisauki verður af þeim störfum? Hvenær verður fé Atvinnuleysistryggingasjóðs uppurið? Þarf ekki að borga það til baka? Hvenær verður ekki hægt að greiða ríkisstarfsmönnum laun lengur? Hvernig eigum við að geta borgað niður lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef við tökum lán til að verða því í óarðbæra framkvæmd, framkvæmd sem kallar yfir sig ennþá meiri kostnað.
Þegar rýnt er í plagg ríkisstjórnarinnar um öll þessu meintu ársverk þá má sjá að það er kreppuminnisvarðinn sem ætlað er að skapa flestu störfin. Þetta er svolítið nöturlegt, eigum við á stund neyðarinnar að dæla peningum í sjóinn, lánum sem við þurfum að borga aftur til að byggja glanshús sem ætlað var að vera einhvers konar musteri ríkra heimsborgara. Það er ekkert sem bendir til þess að húsið eða sú starfsemi sem er fyrirhuguð í húsinu þjóni Íslendingum, þetta er einhvers konar risatúristagildra fyrir túrisma gærdagsins, einhvers konar tákn um veröld sem var.
Svo eru snjóflóðavarnargarðar upp á rúmlega milljarð teldir með í starfasköpuninni. Ekki hjálpa þeir fólki hér á höfuðborgarsvæðinu, byggðastefna kostar vissulega mikið en staðan er bara þannig núna að hin nýja byggðastefna hlýtur að vera að halda Íslandi í byggð og það er að bresta á mikill fólksflótti frá Reykjavík og það fólk flyst ekki á staðina þar sem snjóflóðavarnargarðar eru núna byggðir, það fólk flyst burt frá Íslandi.
En aftur að því sem varð tilefni til þessarar hugleiðingar minnar. Það voru skrif Össurar fyrir tveimur árum þar sem hann er að tjá sig um umræðu í Silfri Egils. Það er miður að Ríkisútvarpið skuli ekki vera með alla Silfurþættina, það væri gott fyrir almenning á Íslandi að ekki sé gert ráð fyrir að við höfum gullfiskaminni og að við viljum fara til baka.
En það er áhugavert að lesa það sem Össur skrifaði á blogginu sínu fyrir akkúrat tveimur árum, hann skrifar bloggið Hnerri Davíðs - kvef Sjálfstæðisflokksins
og segir þar m.a. um Straum-Burðarás
"Það virðist því sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins dansi auðsveipir eftir pípu Davíðs, jafnvel þó það þýði að þrengt verði að fjármálastofnunum, og sumar þeirra kunni að hrekjast úr landi. Þetta er skondið í ljósi þess, að Sjálfstæðismenn hafa verið að skamma Ögmund Jónasson fyrir að vilja reka bankana úr landi - en nú eru þeir sjálfir farnir að láta verkin tala á þessu sviði."
Núna tveimur árum seinna þá virðist okkur að betur hefði verið að meira hefði verið þrengt að fjármálastofnunum og betur hefði verið að bankarnir hefðu farið úr landi.
Í dag tók Fjármálaeftirlitið yfir Straum-Burðarás.
Össur er nú ágætis maður en mér finnst þegar horft er í baksýnisspegla að hann hafi ekki fremur en aðrir stjórnmálamenn við völd skynjað vel hvað var að gerast í íslensku atvinnulífi og viðskiptum undanfarin ár. Hann hefði samt átt að gera það. Þetta var hans vakt. Alveg eins og Geir Haarde var hann í miklu betri aðstöðu en við hin til að vita hvað var að gerast, fá upplýsingar um hvað var að gerast og spá fyrir um hvað myndi svo gerast. En kannski var hann of upptekinn að skrifa hárbeitta pistla um Framsóknarflokkinn til að sigra orðræðuna eins og henrythor tjáir í þessu skemmtilega skrípó.
Það væri gott ef stjórnmálamenn litu á það sem skyldu sína að upplýsa okkur og gera okkur betur kleift að fá að horfast í augu við stöðuna. Við þurfum hvort sem er að gera það fyrr eða síðar.
Ríkið tekur Straum yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Salvör!
Takk fyrir hlekkinn :-)
Kv.
Henrý Þór.
Henrý Þór (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 14:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.